Manchester United vann þræl mikilvægan 1-0 sigur á David Moyes og félögum í West Ham á Old Trafford, í kvöld. Gestirnir létu okkar menn sannarlega hafa fyrir hlutunum en sigurinn var sanngjarn og í raun býsna svekkjandi að hafa ekki skorað meira.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United
West Ham United
Fyrri hálfleikur
Það var ljóst frá upphafi leiks að David Moyes ætlaði sér ekki að sækja á mörgum mönnum. United beið það spennandi verkefni að brjóta á bak aftur þéttan og hávaxinn múr West Ham. Enn eitt þolinmæðisverkefnið og ekki hafa okkar menn riðið feitum hesti þar undanfarið.
Leikurinn var tíðindalítill í upphafi og í raun eina “hálffærið” sem leit dagsins ljós var þegar Luke Shaw gerði vel í að komast framhjá Vladimir Coufal og kom boltanum fyrir á Mason Greenwood en hann hitti boltann illa og Lukasz Fabianski handsamaði hann.
Greenwood var svo aftur á ferðinni um 20 mínútum síðar þegar að hann fékk boltann úti á hægri kantinum. Hann sendi frábæra fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem að Marcus Rashford var algjörlega einn á auðum sjó og þurfti í raun bara að ná alvöru snertingu með kollinum á boltann. Sú varð ekki raunin og Rashford einhvernveginn sneiddi boltann langt framhjá markinu. Eiginlega ófyrirgefanlegt að koma boltanum ekki í það minnsta á rammann. Stuttu síðar meiddist Harry Maguire eftir viðskipti við Michael Antonio en fyrirliðinn hristi það af sér og hélt leik áfram.
Það var síðan á 37. mínútu sem að Mason Greenwood fékk boltann rétt fyrir utan teig West Ham. Hann lét vaða og boltinn stefndi í fjærhornið en Lukasz Fabianski gerði frábærlega í að verja boltann í stöngina og aftur fyrir endamörk. Greenwood gerði allt rétt, en því miður fyrir sóknarmanninn unga þá gerði Fabianski það líka. Tveimur mínútum seinna átti Bruno Fernandes háan og lausan bolta á fjær sem að Rashford skallaði að marki en náði ekki nægum krafti í skallann – líklega var Rashford rangstæður í þokkabót.
Þá flautaði Martin Atkinson til hálfleiks og markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja. Hæg uppbygging, lítið um hugmyndir og lítið að gerast. Hljómar kunnuglega.
Seinni hálfleikur
Það komst meira tempó á leik liðsins í byrjun seinni hálfleiks og liðið hélt West Ham ekki einungis inni á sínum vallarhelmingi, heldur bókstaflega upp við eigin vítateig. Lítið var þó um opnanir og skipulögð vörn gestanna stóð vaktina með miklum ágætum. Rice, Noble og Soucek sáu svo um að halda Bruno í skefjum og loka öllum sendingum í gegnum blokkirnar. Á 53. mínútu átti Greenwood góðan sprett upp hægri vænginn og náði fastri fyrirgjöf fyrir markið og Rashford beið á fjær eftir því að renna boltanum í autt markið en Vladimir Coufal bjargaði á síðustu stundu í horn.
Uppúr horninu skoraði Manchester United svo eina mark leiksins. Þá átti Bruno Fernandes flotta spyrnu á nærstöngina, þar reis Scott McTominay hæstur, en Skotinn náði ekki öflugri snertingu og boltinn endaði hjá Craig Dawson en miðvörðurinn seigi skallaði boltann í eigið net. Við tökum því!
West Ham liðið varð nú að freista þess að jafna og færa liðið framar. Það skildi eftir svæði fyrir aftan vörnina og þremur mínútum eftir sjálfsmark Dawson var Marcus Rashford nálægt því að gera út um leikinn. Hann fékk þá stungusendingu frá Bruno á vinstri kantinn og óð á Dawson. Það var þó nokkuð fyrirsjáanlegt hvað vakti fyrir Rashford en hann klippti um það bil 20 sinnum inn á hægri fótinn inni í vítateig West Ham og Dawson beið bara átekta áður en hann blokkaði skot Rashford. Á 60. mínútu varði Fabianski svo glæsilega frá Bruno en Portúgalinn átti þá gott skot rétt fyrir utan teig, eftir undirbúning Greenwood og Aaron Wan-Bissaka, en markmaðurinn var snöggur niður og varði boltann til hliðar.
Þá hafði David Moyes séð nóg og gerði tvöfalda sóknarsinnaða skiptingu, þar sem að Mark Noble og Ben Johnson fengu að víkja fyrir Said Benrahma og Manuel Lanzini. Eftir þetta náði West Ham aðeins að koma sér inn í leikinn og halda aðeins í boltann. Skömmu eftir skiptingu Moyes fengu gestirnir sitt fyrsta færi í leiknum. Þá fékk Jarrod Bowen fínt skotfæri á vítateigsjaðrinum en Harry Maguire henti sér fyrir skotið og blokkaði það meistaralega.
Meira jafnræði var með liðunum næstu mínútur en á 75. mínútu hefði United átt að gera út um leikinn. Þá fékk Daniel James boltann á miðjunni og United í ákjósanlegri stöðu til að sækja hratt. Liðið sótti á vörn West Ham, fjórir sóknarmenn gegn tveimur varnarmönnum en sending James á Bruno Fernandes var afleit og sóknin rann út í sandinn. Á þessu augnabliki málaði undirritaður skrattann á vegginn og bjó sig undir það versta. Sú hugsun yfirgaf mig ekki, þremur mínútum síðar, þegar að Mason Greenwood skaut í annað sinn í stöngina. Fabianski var algjörlega sigraður á línunni en ramminn bjargaði Pólverjanum.
Tíu mínútum fyrir leikslok átti varamaðurinn Benrahma flotta rispu á vinstri kantinum. Hann kom boltanum inn í teig á bekkjarbróður sinn, Lanzini, sem kom honum snyrtilega á Tomas Soucek. Tékkinn lagði boltann fyrir sig og negldi að marki en Luke Shaw og Maguire blokkuðu skotið – þeir félagar ætluðu ekki að hleypa inn marki í kvöld. Síðustu mínúturnar voru tíðindalitlar og United náði að halda boltanum ágætlega til að drepa tímann. Engir óþarfa sénsar voru teknir og þegar að Wan-Bissaka fékk boltann í bakið og aftur fyrir endamörk, þá hélt maður að liðið myndi þurfa að verjast fyrir lífi sínu einu sinni til viðbótar fyrir lokaflautið en Martin Atkinson blés í flautuna og leiknum lokið. 1-0 sigur staðreynd og liðið aftur komið upp í 2. sætið.
Hugleiðingar eftir leik
Fyrir leik hugsaði ég að þrjú stig væru það eina sem skipti máli, sama með hvaða hætti þau væru fengin. Þessi sigur var ekki fallegur, en hann var sanngjarn. Liðið hefði getað skorað fleiri mörk gegn liði sem kom á Old Trafford til þess eins að verja stigið og mögulega grísast til að lauma inn marki úr föstu leikatriði. Gott og vel, það hefur virkað ágætlega fyrir nokkra andstæðinga United hingað til, en Guði sé lof að sú var ekki raunin nú.
Miðvörðurinn Harry Maguire átti magnaðan leik í hjarta varnarinnar. Hann stýrði línunni vel, steig vel inn þegar á þurfti og spilaði eins og sannur fyrirliði. Var ósérhlífinn og hvetjandi. Það var ánægjulegt að sjá liðið halda út, sýna yfirvegun á boltanum og verjast vel. Liðið hefur fengið á sig svekkjandi jöfnunarmörk undanfarið og því var gott fyrir sjálfstraust markmanns og varnarmanna að ná að halda hreinu. Mason Greenwood hefur átt erfitt uppdráttar og byrjaði brösuglega í dag en hann vann sig vel inn í leikinn. Greenwood skapaði fyrir aðra og var gríðarlega óheppinn að skora ekki í leiknum. Vonandi er einungis tímaspursmál áður en að ungstirnið finnur markaskóna að nýju.
Það gekk kannski ekki allt upp sem að Bruno Fernandes var að gera en hann skilar alltaf 100% vinnuframlagi. Enginn mun fagna komu Paul Pogba eins ákaft og Portúgalinn magnaði en hann er alltof einangraður þegar að tveir varnarsinnaðir miðjumenn spila fyrir aftan hann. Fred gerir sitt besta til þess að þræða boltann í rétt svæði en Brassinn hefur einfaldlega ekki gæðin sem að Pogba hefur.
Nú taka við tveir stórleikir hjá liðinu. Seinni leikurinn í Evrópudeildinni gegn AC Milan á San Siro (1-1 samanlagt) og 8-liða úrslit í FA bikarnum gegn Leicester City, okkar helstu keppinautum um 2. sætið í deildinni. Það væri óskandi að sjá nokkra af þeim sem prýða meiðslalistann koma til baka í þessi verkefni, en að þeim loknum kemur örlítil pása þar sem að landsleikir verða spilaðir í lok mars.
Við förum því kát inn í vikuna með þrjú stig í farteskinu. Áfram Manchester United!
Zorro says
Ekki er þetta skemmtilegur fòtbolti hja okkar mönnum😞😞getum ekki gefið fyrigjafir inn teig..þvì þar er enginn😞
Helgi P says
Þarf ekki fara látta solskjær vita að það má gera skiptingar þetta er orðið stórfurðulegt
Karl Garðars says
3 punktar og hreint lak. Tökum það.
Þetta var David Moyes á Old Trafford => þrautleiðinlegur leikur og DM vinnur sjaldnast.
Luke Shaw frábær og Harry góður.
Tómas says
Vorum mun betra liðið. Áttum að setja amk eitt í viðbót.
West Ham mjög þéttir til baka.
Maguire, Shaw… mjög góðir. Miðjan vann vel. Greenwood átti fína spretti.
Skil vel að Solskjaer gerði ekki skiptingu. Til hvers? Afþvíbara? Engin leikmaður á bekknum var að fara bæta einhverju sérstöku við í þessari stöðu.
Einar Ingi Einarsson says
Maguire bestur .
Cantona no 7 says
Ole
TonyD says
Flott að halda út og mér fannst liðið aldrei fara að vera að gefa mark í þessum leik. Maguire virkilega flottur og Shaw geggjaður. Einnig gaman að sjá Greenwood, hann vantar eitt stykki mark til að þetta fari að hrynja inn hjá honum en hann skilaði sýnu vel í dag.
Ég skil vel að bekkurinn var ekki nýttur, það hefði mátt taka James af velli eða Rashford, Það hefði sennilega ekki verið málið að henda Shoretire eða Amad í djúpu laugina í þessum leik og eiga í hættu að tapa stigum í jöfnum leik vegna þessa.
Solid 3 punktar
Björn Friðgeir says
Frábær vinnusigur í sex stiga leik.
Liðið var mun betra en markatalan segir til um og margir að spila mjög vel.
Var vissulega fúll yfir að ekki skyldi skipt út en eins og TonyD segir, þá hefði það verið áhætta.
Stór bikarvika framundan!