Manchester United er úr leik í bikarkeppninni eftir hörmulegt 3-1 tap gegn Leicester á King Power vellinum. Það voru einstaklingsmistök og einbeitingarleysi sem að kostuðu liðið sæti í undanúrslitunum.
Svona stilltu liðin upp:
Man Utd
Leicester City
Fyrri hálfleikur
Stöðubaráttan var mikil fyrstu 20 mínútur leiksins en United byrjaði leikinn þokkalega. Þó gekk ekki alltaf vel að halda boltanum innan liðsins og Leicester liðið pressaði okkar menn hátt. Það var lítill broddur í sóknarleiknum þar sem að Martial gekk illa að tengja við mennina fyrir aftan sig. Donny van de Beek leitaði oftast til baka þegar hann fékk boltann og lítið pláss var fyrir Greenwood úti hægra megin. Viðvörunarbjöllur fóru snemma í gang hvað miðjumennina Fred og Nemanja Matic varðar. Brasilíumaðurinn missti boltann nokkrum sinnum ákaflega klaufalega á eigin vallarhelmingi og var í litlum takti við gang mála.
Það var svo á 24. mínútu sem að Nígeríumaðurinn Kelechi Iheanacho kom Leicester yfir. Aðdragandinn var í besta falli sorglegur en United liðið reyndi þá að spila boltanum út úr vörninni eftir markspyrnu. Fyrirliðinn Harry Maguire setti boltann á Fred sem fékk á sig pressu frá Wilfred Ndidi. Fred taldi þann kost vænstan að setja boltann aftur á Dean Henderson í markinu, en sendingin var laflaus og það var auðvelt fyrir Iheanacho að komast inn í hana. Eftirleikurinn var tiltölulega auðveldur fyrir framherjann, hann lék á Henderson og rúllaði boltanum í autt markið. 1-0 fyrir Leicester og markið varð að teljast ansi falleg gjöf frá United.
Okkar menn átti í basli eftir mark heimamanna og nokkrum mínútum seinna bjargaði Aaron Wan-Bissaka því að Iheanacho tvöfaldaði forystu þeirra. Liðið leysti pressu Leicester illa og það var fátt sem benti til þess að United myndi bíta frá sér fyrir hálfleiksflautið. Á 38. mínútu náði liðið að byggja upp flotta sókn sem endaði með því að Paul Pogba setti boltann inn í miðjan teiginn, þar mætti Donny van de Beek en í stað þess að lúðra á markið þá steig hann snilldarlega yfir boltann og skildi hann eftir fyrir Mason Greenwood. Sóknarmaðurinn ungi gerði engin mistök og negldi boltanum framhjá Kasper Schmeichel. 1-1 og markið var gríðarlega kærkomið fyrir Greenwood.
Eftir jöfnunarmarkið var jafnræði með liðunum út hálfleikinn en Spánverjiinn Ayoze Perez var þó nálægt því að koma Leicester yfir nokkrum andartökum fyrir leikhlé. Hann lék þá skemmtilega á Nemanja Matic fyrir utan teig United og náði góðu skoti sem sveif rétt framhjá fjærstönginni, en Dean Henderson hreyfðist ekki á marklínunni. Eftir það gerðist lítið og staðan því 1-1 þegar liðin fóru inn í te og Gatorade.
Seinni hálfleikur
Það er óhætt að fullyrða að seinni hálfleikurinn hafi verið bölvanlega af stað fyrir United. Þeir snertu boltann mögulega einu sinni áður en að Youri Tielemans skoraði annað mark Leicester eftir góðan sprett. Varnarleikur United var ekki beinlínis til útflutnings og enn og aftur er hægt að horfa á Fred og Matic. Þeir voru hræðilega staðsettir og gerðu enga tilraun til þess að loka á Tielemans, þó að það væri augljóst frá upphafi hvað Belginn vildi gera. Maguire leit ekki vel út heldur. 2-1 fyrir Leicester. Afleitt.
Stuttu síðar hirti Wilfred Ndidi boltann af Greenwood á miðjunni og kom boltanum á Iheanacho. Hann fleytti honum áfram á Jamie Vardy sem að sólaði Maguire uppúr skónum og var þá einn gegn Henderson, en aldrei þessu vant brást Vardy bogalistin og hann setti boltann framhjá markinu. Afar ólíkt Vardy að klára ekki svona færi. En United liðið hafði bara ekki byrjaði seinni hálfleikinn ennþá. Þeir voru hreinlega eins og svefngenglar.
Á 63. mínútu hafði Ole Gunnar Solskjær séð nóg og gerði fjórfalda skiptingu. Út fóru Matic, Telles, Pogba og van de Beek. Inn komu Bruno, Luke Shaw, Scott McTominay og Edinson Cavani. Pínu úr karakter hjá Solskjær, að henda öllum á einu bretti inn. En skiptingin var skiljanleg, þar sem að liðið var algjörlega heillum horfið. Liðið virtist bregðast vel við þessum skiptingum og náði að læsa Leicester neðar á vellinum, en að sama skapi voru Leicester alltaf hættulegir í skyndisóknum.
Lítið gerðist næstu mínútur og það var svo enn á ný ömurlegur varnarleikur sem kostaði United leikinn. Á 78. mínútu fékk Leicester aukaspyrnu úti á vinstri kantinum og Marc Albrighton setti háan, að því er virtist, sárasaklausan bolta á fjærstöngina. Scott McTominay las flug boltans skelfilega og hoppaði svona 10 mínútum áður en boltinn lenti. Þetta nýtti Kelechi Iheanacho sér og skoraði sitt annað mark í leiknum. 3-1 fyrir Leicester og verkinu lokið hjá heimamönnum.
Eftir þetta gerðist lítið markvert. Amad kom inná fyrir Fred og reyndi að lífga upp á leikinn. Kasper Schmeichel varði ágætlega aukaspyrnu Bruno Fernandes en United gekk lítið að skapa gegn þéttum Leicester múrnum, sem að reyndi svo að sækja hratt þegar færi gafst. Okkar menn áttu bara engin svör og því fór sem fór. Andre Marriner blés svo til leiksloka og staðfesti þar með 3-1 tap á King Power vellinum. Leicester City fara í undanúrslit bikarsins og mæta þar Southampton. Í hinum leiknum mætast Chelsea og Manchester City.
Neikvæðni eftir leik …
Sóknarlega var þetta dapurt í dag, eins og það hefur verið undanfarið, en vörnin hefur verið að halda hreinu undanfarið og litið ágætlega út. Það var ekki hægt að treysta á það í dag. Blanda af áræðni Leicester og algjörum bjánaskap United varð til þess að leikurinn fór eins og hann fór. Fred átti sinn allra versta dag í Manchester United treyju. Brassinn var hræðilegur á boltanum, illa staðsettur og var heillum horfinn. Það er kannski ósanngjarnt að taka hann út fyrir sviga, þar sem að liðið var heilt yfir hræðilegt.
Það er ekki ofsögum sagt að kalla mörk Leicester afar rausnarlegar gjafir. Þörfin á djúpum miðjumanni er æpandi. Einhver sem getur bundið spil liðsins saman. Hjá Leicester var Wilfred Ndidi brjótandi upp hverja sóknina af fætur annarri og hélt boltanum vel fyrir liðið. Það var lítið af því hjá okkar miðjumönnum. Hreinlega hauslausir og boltinn var þeirra versti óvinur. Ófyrirgefanlegur varnarleikur í marki Tielemans, þar leit Harry Maguire heldur ekki vel út – en Matic og Fred voru eins og keilur. Bara allt svo sárt.
Evrópudeildin fær aukið vægi með þessum úrslitum. Nú er þessi æðislega keppni okkar eina von um bikar á þessu tímabili. Með sigri í dag hefði United verið í dauðafæri á að komast í úrslitaleik bikarsins, en kæru- og hugsunarleysi leikmanna varð þeim að falli. Í raun er erfitt að orðlengja um það hvað þetta var slakt. Enn einu sinni falla menn á prófinu þegar raunverulegur séns er á bikar. Nú tekur við landsleikahlé, sem er nógu ömurlegt í sjálfu sér en það er alltaf jafn vont að tapa síðasta leik fyrir það. Ojæja.
Áfram Manchester United.
Karl Garðars says
Jæja nú hljóta ákveðnir menn að opna sér öl. Liðinu róterað, Bruno hvíldur og DVB byrjar.
Ég ætla að segja að ef Martial og Matic nenna þessu í dag og DVB verður ekki alveg týndur þá vinnum við 1-2 ef ekki þá töpum við 3-0.
e.s. Elsku Tony minn. Plís skildu nú hundshausinn eftir heima og hlauptu af þér rassgatið.
Rúnar P says
Ef þið ætlið að dæma Fred fyrir þetta þá þurfið þið fyrst að horfa á þann sem gaf á hann, sá hinn sama hefur gerst marg oft sekur um slæm mistök í ár sem bitna oftast á öllum í kringum hann- voða bresk aðferð!
Björn Friðgeir says
Þetta var algert samvinnuverkefni. Þurfti tvo til
Karl Garðars says
Sjitt! Búinn að skrifa þvílíkt drull og var að fara að ýta á senda…
Rosalega er þetta dásamlegt allt saman Ole Ole Ole Ole
Björn Friðgeir says
Matić og Fred.
Karl Garðars says
Átakanlegt að horfa upp á.
Egill says
Bara Ole er nógu heimskur til þess að hvíla mikilvægustu mennina í svona leik fyrir landsleikjahlé.
Bara Maguire er nógu heimskur til þess að senda boltann á Fred í fyrsta markinu.
Skelfileg frammistaða hjá þessu liði eina ferðina enn. Það skiptir engu hver er í markinu, aldrei getum við varist föstum leikatriðum. Vörnin okkar er ekki betri en þetta, ég er ekki hissa að Bailly vilji fara þegar þessir trúðar eru teknir fram yfir hann trekk í trekk.
Martial er búinn, Matic var búinn fyrir 3 árum, Fred er því miður það allra heimskasta sem hefur stigið fæti á fótboltavöll og VdB eru tilgangslausustu kaup sem ég man eftir.
Ole þarf að fara, það sjá það allir sem eru ekki með sléttan heila.
Herbert says
Jæja nú hlítur Martial að hafa spilað sinn seinasta byrjunarliðsleik. Hann gefur svo lítið af sér. Er hreyfingarlaus hvort heldur sem er í vörn eða sókn. Ekki það að Leicester voru góðir og með hörku þjálfara. En vonandi koma menn sterkir til baka úr meiðslum og gefa aukna breidd fyrir evrópudeild og deildina. Hins vegar rannsóknarefni þessi kaup á Donny. Er engann veginn að passa inn í þetta. Klára þetta annað sæti og klára að hreinsa farþega úr hópnum næsta sumar og klára 3-4 góð kaup. Hellst framherja, hafsent miðjumann og hægri bakvörð. Martial, Jones, matic, mata og bailly út.
Björn Friðgeir says
Það er margbúið að rulla í gegnum ástæður með og móti Ole. Einfalda svarið er að hann er ekki að fara.
Scaltastic says
Vill þakka Fred og Matic fyrir að leyfa mér að rifja upp í huganum gömlu góðu dagana þar sem Fellaini og Schneiderlin réðu lögum og lóðum.
Halldór Marteins says
Mikil vonbrigði, það hefði verið stórt að fara í gegnum þessa keppni og vinna hana en nú er engin innanlandskeppni eftir og bara séns í Evrópudeildinni að koma í veg fyrir titlalaust tímabil.
Leicester City var betra liðið í dag og vildi þetta meira. Það er ekki nógu gott. Fyrirfram var ég ánægður með að sjá Donny fá traustið í svona stórum leik og fá að spila með Pogba. Markið sem United skoraði í leiknum var stórkostlegt og veitti smá innsýn inn í hvað við gætum séð með þessa tvo saman inni á vellinum. Auk þess átti Mason skilið að skora, hann var líklega besti maður United í leiknum og sá eini sem virtist almennilega vilja þetta.
Solskjær á ekki að dæmast bara af þessum leik en það er alveg ljóst að hann þarf að taka skref upp á við sem stjóri til að ná að koma sér upp á það level að geta leitt United til alvöru árangurs.
Ég er ekki enn sannfærður um Solskjær sem stjóra en mér finnst hann samt eiga skilið að fá aðeins lengri tíma og tækifæri til að taka þetta skref upp á við með liðinu. Ég get skilið gremju eftir svona frammistöðu en mér finnst samt óþarfa vanvirðing að tala um slétta heila bara af því menn vilja ekki sparka Solskjær strax í kvöld.
Það verður samt að segjast að Leicester City er mjög flott dæmi um það hvernig knattspyrnufélag er rekið. Hvernig félagið hefur byggt ofan á það að hafa í raun slysast til að vinna ensku úrvalsdeildina er aðdáunarvert. Stefnan sem er í gangi þar, hvernig unnið er í öllum stöðum fyrir ofan leikmenn, hvaða leikmenn eru fengnir þangað inn og hvernig þeim er stýrt inná vellinum er til algjörrar fyrirmyndar. Ég vona að Leicester taki enska bikarinn í ár og megi þetta góða gengi þeirra innan sem utan vallar halda áfram á næstu árum.
Einar Ingi Einarsson says
Fred og Matic hræðilegir og Beek gaf boltann alltaf til baka ,en afhverju að hvíla þegar pása er framundan ?
Karl Garðars says
Sammála Halldór.
Mig langar að koma inn á þrennt.
1. Fyrir utan heimskutalið (sem maður les í gegnum þegar maður veit að mönnum er heitt í hamsi) þá er mikið til í fyrstu setningunni hjá Agli. Svona mikil rótering í svona mikilvægum leik er stórundarleg korter í landsleikjahlé.
2. Liðið virkar á köflum sem það sé illa þjálfað, ætla ekki að fara út í detaila en sjáið föstu leikatriðin, sendingarnar/spilið og það að við séum alltaf að reyna að spila út frá marki þegar Shaw, Bruno, Pogba og McSauce (tel ekki Mata með) eru líklega einu mennirnir sem eru færir um það í öllu liðinu.
3. Ef þið væruð að reka fyrirtæki og væruð að borga ein hæstu launin í bransanum, mynduð þið ekki ætlast til þess að starfsfólkið myndi berjast eins og ljón fyrir félagið í öllum aðgerðum? Stjórnandinn verður númer eitt, tvö og þrjú að ná að mótivera liðsheildina. Síðan þarf hann að ná því besta út úr einstaklingunum.
Áður en menn fara að missa sig í drull yfir Martial og Matic þá vil ég líka benda á þá staðreynd að líklega voru þeir einu mennirnir sem sýndu gæði byggð á stöðugleika í dag. Alveg jafn vonlausir og verið hefur alla leiktíðina. 😆
Tómas says
Ég kallaði á það fyrir einhverjum árum að Tielesman væri keyptur til United. Hefði verið frábær kaup. Akkúrat maðurinn sem vantar á miðjuna hjá okkur. Góður á boltanum, sterkur varnarlega og skapandi.
Held að Ole hafi gert mistök í liðsvalinu í gær en hann neyðist kannski að gera breytingar til að halda mönnum ferskum. Ég hefði viljað sjá Pogba á miðjunni og McTominay með honum. Martial á kanntinum, Greenwood eða Cavani frammi og svo Mata eða Diallo á hægri vængnum.
Matic er búinn, gengur ekki að nota hann meira. Fred er ekki nógu góður þó að hann geti oft djöflast. McTominay varamaður eða maður sem maður róterar inn á miðjuna í þessu varnarmiðjuhlutverki.
Hans bíður enn stórt verkefni í að kaupa inn í liðið og koma öðrum út. Vantar gæðaleikmann í vörn, miðju og center fyrst og fremst. Því miður er ég hræddur um að þeir nái kannski bara einum gæðaleikmanni inn í sumar.
Helgi P says
Er búinn segja það við múnum aldrei vinna neitt með Solskjær og þetta þjálfaralið sem er með honum þeir eru bara ekki nógu góðir við erum jú í öðru sæti með lægsta stiga skor sem lið í 2 sæti hefur verið með en hvar endum við á næsta tímabili þegar flest lið verða betri ég sé bara enginn framför hjá þessu liði hundleiðinnleg varnar taktík sem gengur stundum upp það ferður mikil mistök að látta Solskjær fá nýjan samning bara leifa honum að klára samninginn og sjá svo til hvort þetta skánni einhvað hjá honum
Cantona no 7 says
Ole
gummi says
Out
Karl Garðars says
Eina með öllu.
Björn Friðgeir says
In out in out and shake it all about