Eftir langt og strangt undirbúningstímabil kemur loks að fyrstu umferðinni. Liðin eru stirð, eins og alltaf í byrjun en það er spenna. Gaman er að fylgjast með mönnunum sem keyptir voru um sumarið og þeim fylgir von um betra gengi. Spilamennskan lagast í annarri og þriðju umferð þannig að hægt er að hlakka til þeirrar fjórðu. Nema þá kemur landsleikjahlé.
Við sem elskum enska fótboltann tengjum við spennufallið sem fylgir landsleikjahléi þegar deildin er nýhafin. Það má þó ekki horfa á það bara frá Englandi, sums staðar í álfunni eru sumardeildir og annars staðar í heiminum lítur fótboltadagatalið öðruvísi út. Landsleikjahrinurnar eru hins vegar sameiginlega og því þarf alltaf einhver einhvers staðar að taka á sig skell. Það dreifist yfir tímabilið.
En landsleikjahrinur á tímum Covid-veirunnar eru ekki bara óþolandi, þær eru óskynsamlegar. Tekist hefur að halda landsdeildum gangandi með ströngu eftirliti og aðhaldi með leikmönnum og fleiri starfsmönnum liða. Þeir hafa saman náð að lifa í kúlu.
Tæpir tveir leikir á viku
Vegna þess hversu teygðist úr síðasta tímabili fór þetta seint af stað. Nú er verið að reyna að vinna upp glataðan tíma til að geta náð eðlilegum takti á ný fyrir það næsta. Þetta þýðir að leikið er einstaklega þétt.
Með bikarleiknum gegn Leicester hefur Manchester United spilað 63 leiki síðan enska deildin hófst á ný í maí, sem gerir 3,96 dagar í hvíld milli leikja, ef frá er dregið sýnishorn af sumarleyfi. Álagið á United er með því allra mesta, í Englandi er það bara Manchester City sem tekst á við álíka leikjafjölda og margar aðrar deildir eru með færri leiki almennt. Það breytir því ekki að álagið er meira en flest atvinnumannalið þekkja. Inn á milli í allt þetta er troðið landsleikjavikum, eins og nú, með þremur leikjum og ferðalögum.
Landsleikir á tímum kórónaveirunnar
En landsleikjahléin auka ekki bara álagið. Þau skapa líka aukna smithættu. Undanfarið ár hafa flest ríki valið þá leið að verja landamæri sín með einhverjum hætti. Frumskylda ríkisins er að þjónusta sína skattborgara auk þess sem lokuð landamæri hjálpa til við að hemja útbreiðslu veirunnar.
Innan félagsliða má halda leikmönnum í kúlu og gera kröfur til þeirra í samræmi við það. Með landsleikjum verður til óþarfa blöndun og þar með smithætta. Þó nokkrir leikmenn komu smitaðir heim úr síðustu landsleikjatörn og líklega verður það afdrifaríkt fyrir fleiri nú en Jonas Hoffmann og Marcus Halstermann að hafa sest niður saman til að spila kotru.
Að auki má setja siðferðilegar spurningar við að á sama tíma og ferðalög milli landa eru heft þannig að ástvinir geta vart hist sé fótboltamönnum flogið fram og til baka yfir landamæri. Með nákvæmlega þessum sömu rökum hefði mátt slá af Evrópukeppnirnar í vetur. Það hefði verið fyllilega réttlætanlegt.
Vökvi grasrótarinnar
Ástæðan fyrir þessu er einföld. Álfusambönd eins og UEFA og svo FIFA sjálft treysta á alþjóðakeppnir, einkum landsleikina, til að halda starfsemi sinni gangandi. Ef engar eru keppnirnar fást hvorki tekjur af sjónvarpsrétti né auglýsingum. Ágóði þessara sambanda skilar sér síðan áfram. Landssambönd eins og KSÍ treysta á tekjur frá alþjóðasamböndunum og þær skila sér svo enn lengra til einstakra félaga hérlendis. Og ekki veitir af þegar sem tekjur þeirra hafa fengið mikið högg.
En þrátt fyrir þennan göfuga tilgang er rétt að spyrja gagnrýninna spurninga. Landsleikjatörnin nú er sú fyrsta í forkeppni HM í Katar sem er ár í burtu. Áfram heldur sú illa fengna keppni að valda vandræðum. Var þörf að keyra hana áfram af fullu? Þarf að vinna upp allan glataðan tíma? Framundan er Interrail-EM í sumar. Hefði verið hægt að slá af til að vernda leikmenn? Hefði verið hægt að fara aðrar leiðir í skipulaginu?
Engin ofurmenni
Ole Gunnar Solskjær setti Bruno Fernandes á bekkinn gegn Leicester um síðustu helgi með þeim orðum að hann væri mannlegur og þyrfti hvíld. Það sama má segja um aðra leikmenn. Með því plani sem áður var lýst sjá leikmenn eins og Bruno vart fram á vitræna hvíld fyrr en árið 2023. Slíkt eykur hættuna á meiðslum.
Þegar horft er til leikjaálags leikmanna Liverpool síðustu ár þarf ekki að koma á óvart að liðið hafi lent í miklum meiðslum í vetur. Vonandi er að fleiri lið eða leikmenn fylgi ekki í kjölfarið á næstu misserum og að sem fæst lið þurfi að setja leikmenn sína í einangrun fram í miðjan apríl vegna Covid-smits.
Það góða við landsleikjatörnina fyrir United er að aðeins fjórtán leikmenn taka þátt í landsleikjum og margir þeirra eru á varamannabekknum, til dæmis bæði Paul Pogba og Anthony Martial. Svo er að krossa fingur og vona að enginn komi heim með kórónaveiru í kokinu.
Steve Bruce says
Hvað haldiði að gerist í framherjamálum í sumar, nú þegar allt virðist benda til þess að Cavani vilji fara aftur heim í sólina?
Kun Aguero á lausu. Verður 33 ára í sumar. Búinn að eiga erfitt vegna meiðsla. Gæti þó átt 2-3 góð ár ef hann heilst heill.
Harry Kane fær æ fleiri áskoranir að fara frá Spurs til að vinna titla. Vissulega hafa ManUtd ekki raðað upp titlunum síðustu árin en lítið vantað upp á. Hann er klárlega hluti af því pússli.
E.B. Haaland….. nenni ekki einu sinna að byrja að tala um það mál en ljóst að hann verður ekki alltaf hjá Dortmund.
Aðrir?