Þá er komið að fjórðungsúrslitum í Evrópudeildinni. Aðeins 8 lið eru eftir og berjast um hinn mátulega eftirsótta Evrópudeildarbikar (áður UEFA-bikarinn). Bikarinn sjálfur er fallegur gripur og það er skemmtilegt að vinna keppni en við vitum öll að þetta er ekki Evrópukeppnin sem við viljum helst vera í. Hvað um það, það er bikar undir og skemmtileg ferð til fallegrar borgar framundan.
Það er alltaf leiðinlegt þegar áhorfendur mega ekki fara á fótboltavöllinn. Það að horfa á fótboltaleik í sjónvarpinu sem er áhorfendalaus hefur bara engan veginn sama yfirbragð á sér. Hvað þá þegar tilefnið er þetta. Undir venjulegum kringumstæðum gæti stuðningsfólk Manchester United núna verið á leiðinni til Spánar að heimsækja sögufræga og flotta borg, súpa á nokkrum köldum, anda að sér menningunni, hitta fótboltafélaga víða að og fara svo á stemningsleik annað kvöld. Megi slíkar stundir snúa aftur sem allra fyrst!
Leikurinn hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Spilað verður á Nuevo Estadio de Los Cármenes sem tæki vanalega tæplega 20.000 áhorfendur. Dómarinn í leiknum heitir Artur Dias og kemur frá Portúgal.
Byrjunarliðspælingar
Manchester United hefur aldrei áður mætt Granada. Enda ekki skrýtið þar sem spænska liðið hefur aldrei áður verið í neins konar Evrópukeppni. Og ekki hefur Manchester United tekið þátt í spænskum keppnum, það væri heldur óvenjulegt.
Framundan hjá okkar mönnum um helgina er áhugaverður leikur gegn Tottenham Hotspur. Eins og Zunderman fór vel yfir í stórskemmtilegri grein um xG þá er Manchester United að slá dálítið upp fyrir sig með því að vera í 2. sætinu. Það er því nauðsynlegt að vera á tánum í deildinni þótt staðan sé vissulega góð núna. En úrslitin um síðustu helgi gáfu þó ákveðið svigrúm, það eru 4 stig í næsta lið og 9 stig í liðið í 5. sætinu. Það væri þó alltaf gaman að hefna fyrir ófarirnar í síðasta leik gegn Tottenham.
Það er seinni tíma mál, núna er það þessi leikur. Spurningin er hvort yfirvofandi leikur gegn Tottenham hafi mikil áhrif á leikmannavalið í útleik gegn spænsku liði í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Mögulega eitthvað en ég held þó að Solskjær velji alltaf þokkalega sterkt lið og reyni að sækja úrslit. Vanalega myndi þetta vera leikur fyrir Eric Bailly til að koma inn í vörnina en hann náði sér í Covid-19 í þessu glataða landsleikjahléi svo hann missir af leiknum. Vonandi hafa veikindin ekki of mikil áhrif á hann í framhaldinu.
Aðrir sem eru frá hjá United eru Anthony Martial, Juan Mata og Phil Jones sem eru meiddir. Alex Telles og Marcus Rashford eru tæpir fyrir leikinn.
Ég spái þessu byrjunarliði:
Það er þó séns að Solskjær velji frekar að þétta miðjuna og setji Pogba framar vinstra megin í þessu hálfgerða 4-2-2-2 kerfi sem hann hefur stundum notað.
Það er töluvert um meiðsli hjá heimamönnum. Luis Suárez er meiddur. Ekki þó raðbítandi blakspilarinn sem kom við í Liverpoolborg um árið heldur 23 ára nafni hans frá Kólumbíu. Sá hefur tekið þátt í 6 leikjum í Evrópudeildinni á tímabilinu og skorað 2 mörk, í deildinni heima hefur hann spilað 19 leiki og skorað 5 mörk.
Að auki er varnarsinnaði miðjumaðurinn Luis Milla meiddur, hann hefur spilað þó nokkuð á tímabilinu, og miðjumaðurinn Neyder Lozano er líka meiddur en hann hefur ekkert spilað á þessu tímabili fyrir Granada.
Miðjumaðurinn Alberto Soro (19 leikir í deild og Evrópu, 15 þeirra sem varamaður) er tæpur og vörnin gæti orðið púsluspil líka þar sem Quini, Carlos Neva og Dimitri Foulquier eru allir tæpir. Það gæti farið svo að miðvörðurinn Jesus Vallejo þurfi að leysa af í hægri bakverði.
Svona er byrjunarliði Granada spáð í leiknum:
Herrera (ekki þó Ander heldur Yangel), gamli Spursarinn Roberto Soldado, Molina og Suárez eru saman markahæstir hjá Granada í Evrópudeildinni með 2 mörk. Enginn leikmaður liðsins hefur gefið fleiri en eina stoðsendingu í keppninni.
Í deildinni er Roberto Soldado markahæstur með 6 mörk, Suárez í öðru sæti með 5 mörk og Molina í þriðja með 4. Darwin Machís er stoðsendingahæstur með 4 stoðsendingar en þeir Foulquier og Puertas eru báðir með 3.
Machís er ekki meiddur en hefur líklega verið það, allavega hefur hann lítið spilað að undanförnu og aðeins fengið nokkrar mínútur í síðustu leikjum.
Liðið Granada
Granada heldur upp á 90 ára afmæli sitt í næstu viku en það var stofnað 14. apríl 1931. Gengi liðsins hefur verið rokkandi, það hefur flakkað á milli deilda, stundum unnið neðri deildirnar en besti árangur liðsins í alvöru keppni var silfurmedalía í spænska bikarnum tímabilið 1958-59.
Síðasta tímabil var eitt þeirra besta í sögunni í efstu deild á Spáni. Liðið var þá nýliði eftir að hafa varið 2 tímabilum í næst efstu deild og komið upp sem silfurliðið 2019. Sjöunda sætið varð niðurstaðan á þessu sérstaka tímabili. Granada hafði verið megnið af tímabilinu í 9.-11. sæti en náði með góðum endaspretti að stökkva upp í 7. sætið og ná í síðasta Evrópudeildarsætið.
Aðeins tvisvar hafði Granada náð að enda ofar en þetta, það var annars vegar tímabilið 1971-72 og hins vegar 1973-74. Í bæði skiptin endaði liðið í 6. sætinu.
Þá dugði það liðinu ekki til að komast í neina Evrópukeppni en núna komust þeir í Evrópudeildina og þurftu að byrja í 2. umferð í undankeppninni.
Í fyrsta leik vann Granada liðið Teuta frá Albaníu með 4 mörkum gegn engu. Í þriðju umferðinni sigraði liðið Locomotive Tbilisi frá Georgíu með 2 mörkum gegn engu. Það tryggði liðinu umspil gegn Malmö. Aðeins var spilaður einn leikur í því umspili sem Granada vann með 3 mörkum gegn 1.
Þá var komið að riðlakeppninni. Granada dróst með PSV Eindhoven, PAOK frá Grikklandi og kýpverksa liðinu Omonia. Granada byrjaði með öflugum útisigri á PSV þar sem hollenska liðið komst yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Molina og Machís sneru leiknum við í síðari háflleik. Það gekk þó ekki eins vel gegn PAOK því báðir leikirnir við gríska liðið enduðu með markalausu jafntefli. Omonia var ekki mikil fyrirstaða og náðust 6 stig gegn þeim en Granada tapaði svo heimaleiknum gegn PSV og endaði í 2. sæti riðilsins. Það dugði alveg til að komast upp úr riðlinum en miðað við góða byrjun hefur það sjálfsagt valdið vonbrigðum að ná ekki að vinna riðilinn (við könnumst við slík vonbrigði).
Í 32-liða úrslitum dróst Granada gegn Napólí. Fyrri leikurinn var á Spáni og endaði 2-0 fyrir heimamenn. Herrera og Kenedy skoruðu mörkin á 19. og 21. mínútu leiksins. Montoro skoraði svo útivallarmark á Ítalíu sem jafnaði þann leik. Ekki skipti miklu þótt Napólí næði að vinna þann leik 2-1, Granada var komið áfram.
Granada var svo frekar heppið með drátt í 16-liða úrslitum þar sem þeir mættu líklega léttustu andstæðingum sem þá voru eftir, norska liðinu Molde. Aftur var fyrri leikurinn á Spáni og aftur endaði hann 2-0 fyrir Granada. Molina skoraði í fyrri hálfleik og Soldado í seinni hálfleik, stuttu eftir að Molde missti mann af velli. Molde náði að vinna seinni leikinn, sem var spilaður í Búdapest, en aftur náði Granada sterkri stöðu með því að jafna leikinn í 1-1 áður en andstæðingurinn náði sínu sigurmarki.
Það er því ljóst að Granada er með þokkalega sterkan heimavöll, sérstaklega í þessari útsláttarkeppni.
Granada byrjaði tímabilið mjög vel í deildinni, náði meðal annars 5 sigrum í fyrstu 7 leikjunum. En liðið hefur verið dapurt að undanförnu, með aðeins 2 sigurleiki í síðustu 11 umferðum (3 jafntefli og 6 tapleikir).
Athygli vekur að rauð spjöld eru nokkuð algeng í leikjum Granada. Þannig hafa 11 rauð spjöld farið á loft í 29 deildarleikjum hjá Granada. 5 þeirra á leikmenn Granada og 6 á andstæðinga. Munar þar mest um hasarleikinn gegn Valencia í lok desember þar sem 3 rauðum spjöldum var veifað á loft.
Í Evrópudeildinni hefur liðið spilað 13 leiki og í 4 þeirra hefur leikmaður fengið rautt spjald. Í öll skiptin var þó um leikmann andstæðinganna að ræða, sem er áhugavert.
Borgin Granada
Granada er í Andalúsí á suðurhluta Spánar, við rætur Sierra Nevada fjallanna. Borgin hefur mjög langa sögu, hægt er að rekja byggð á svæðinu allt til 5.500 fyrir Krist.
Granada ber rík merki margra heimsvelda, allt frá Rómarveldi til ýmissa spænskra konungsvelda, í bland við íslömsk áhrif m.a. frá Marokkó.
Í Granada er bæði hægt að skella sér á skíði eða ströndina. Eitt það merkasta sem hægt er að sjá á staðnum er höllin Alhambra, byggt af márískum furstum á 14. öld.
Hin sögulega fjölmenning borgarinnar hefur mikil áhrif á menningu borgarinnar allt til dagsins í dag. Ekki síst í matarmenningunni. Tónlistin hefur líka skipað ríkan sess í menningarlífi Granada í langan tíma. Andalúsísk tónlist þykir heilt yfir í hressari kantinum, oftast með háu tempói og fjörleg, enda mikið notuð til að hafa gaman á hátíðum og í veislum. Flamenco-tónlistin hefur lengi verið sérstaklega vinsæl í Granada og nágrenni.
Hundraðleikja-Harry
Fyrirliðinn okkar, Harry Maguire, náði þeim merka áfanga í síðasta leik að spila 100. leikinn fyrir Manchester United. Það er ansi magnað afrek að ná því á tæpum 2 tímabilum, ekki nema 602 dagar. Það hefur munað miklu að hafa hann sem fastapunkt í vörninni.
Megi næstu hundrað leikir verða blómlegir og gæfuríkir.
100 appearances
43 clean sheets
5 goals
4 assists88.6% passing accuracy
Won 75% of his aerial duelsNever missed a league match
Most interceptions and progressive carries of anyone in PL 19/20
Well done @HarryMaguire93 👏#MUFC pic.twitter.com/fFB2AnuAFE
— The United Devils (@TheUnitedDevils) April 5, 2021
Maguire hefur borið fyrirliðabandið í 78 af 100 leikjum sínum fyrir félagið.
Dómarinn
Dómari leiksins heitir Artur Dias og kemur frá Portúgal. Hann fagnar 42 ára afmælinu sínu í júlí á þessu og hefur dæmt fótboltaleiki síðan 1996. Hann hóf að dæma í efstu deild í heimalandinu 2004 og varð alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2010.
Dias hefur dæmt 33 leiki í Evrópudeildinni og samtals 83 leiki á vegum UEFA. Þetta verður í fyrsta skipti sem hann dæmir leik hjá Granada en hann hefur tvisvar áður dæmt leiki hjá Manchester United. Báðir þeir leikir voru í Evrópudeildinni.
Fyrri leikurinn var 18. febrúar 2016, þegar Manchester United tapaði óvænt fyrir FC Midtjylland í Danmörku, 2-1. Seinni leikurinn gekk töluvert betur en það var 5-0 sigur á útivelli gegn LASK í 16-liða úrslitum fyrir ári síðan.
Atli+Þór says
Frábær upphitun. Gaman að fá þessar samantekt um Granada, bæði liðið og borgina.
Narfi says
Skemmtileg og fróðleg upphitun!
Þetta er bananahýði, sérstaklega þar sem það væri gott að hvíla einhverja lykilmenn fyrir átök helgarinnar.
Valdi says
Geggjuð upphitun! Gaman að fá nokkra svona fróðleiksmola fyrir leikinn :)
Vonandi mætum við sterkir og vinnum leikinn, mér er sama hvernig bara að fá 1-2 útivallarmörk lokar þessu einvígi.