Manchester United náði í stórgóð úrslit á útivelli í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Marcus Rashford og Bruno Fernandes tryggðu liðinu 0-2 sigur til að taka með heim til Manchester. Dómarinn var þó í fullmiklu spjaldastuði og sendi samtals fimm leikmenn í bann fyrir seinni leikinn.
Það var ágætt að ekki þurfti mikla orku í þennan leik því framundan er spennandi leikur gegn Tottenham Hotspur á útivelli næsta sunnudag.
Það helsta
David de Gea fékk kallið í þessum leik. Það er spurning hvort það þýði að Dean Henderson sé orðinn aðalmarkmaður liðsins eða hvort það sé áfram verið að rótera eitthvað í öllum keppnum.
Solskjær stillti upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Henderson, Grant, Telles (46′ fyrir Shaw), Tuanzebe, Williams, Amad, Fred, Mata, Matic (74′ fyrir Pogba), Van de Beek (85′ fyrir Greenwood), Cavani (66′ fyrir Rashford), Elanga.
Heimamenn stilltu upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Aarón, Arneu, Foulquier (75′), Nehuen, Germán (54′), Suárez (87′), Yan Eteki, Machís (75′), Molina.
Mörkin: Marcus Rashford skoraði á 30. mínútu. Átti þá góðan sprett innfyrir og fékk frábæra sendingu úr vörninni frá Lindelöf sem fór yfir alla varnarlínu Granada og beint í hlaupaleiðina hjá Rashford.
Bruno Fernandes skoraði úr víti á 90. mínútu eftir að það var brotið á honum sjálfum. Markvörðuinn var mjög mikið í boltanum en einhvern veginn lak hann samt inn. Víta-Bruno strikes again!
Spjöld: Pogba gult á 8. mínútu. Var í baráttu við tvo andstæðinga sem náðu boltanum af Pogba, Frakkinn henti sér í tæklingu til að reyna að vinna boltann strax aftur en fór í öklann á öðrum þeirra. Rétt spjald.
McTominay fékk gult á 40. mínútu. Fór með takkana á undan sér í andstæðing, rétt spjald. Þýðir að hann verður í banni í seinni leiknum.
Shaw fékk gult á 43. mínútu. Hljóp aftan í andstæðing sem var að hlaupa að marki í skyndisókn. Mögulega óviljandi en sennilega hægt að réttlæta spjald. Þýðir að hann verður líka í banni í næsta leik.
Duarte fékk gult á 51. mínútu fyrir að gjörsamlega hakka Daniel James niður. Misreiknaði hraðann á Walesverjanum, alveg rétt spjald og Duarte verður líka í banni í næsta leik.
Maguire fékk gult á 72. mínútu. Greip þá í leikmann Granada sem lét sig falla. Fyrsta brot, margir hefðu sleppt þessu en má alveg færa rök fyrir að þetta sé rétt. Maguire missir þá líka af seinni leiknum.
Matic gult á 83. mínútu fyrir að setja olnbogann út þegar hann fór upp í skalla. Algjörlega óviljandi, var bara að skapa sér pláss. En dómarinn var í miklu spjaldastuði í kvöld.
Brice fékk gult á 88. mínútu fyrir að brjóta á Bruno Fernandes í vítateignum. Fannst þetta vera brot en veit ekki með gult. Eins og áður sagði, dómarinn í spjaldastuði og Brice verður líka í banni næst.
Annað: Granada átti almennilegt færi á 41. mínútu eftir brotið frá McTominay sem endaði í gula spjaldinu hans. Soldado fékk þá boltann vinstra megin í teignum, aleinn, og lét vaða á lofti. De Gea virtist misreikna hann en boltinn endaði í stönginni.
Bruno Fernandes fékk dauðafæri á 83. mínútu eftir fínt upphlaup hjá Daniel James. Markvörðurinn varði vel en Bruno var líklega rangstæður hvort sem er.
Pælingar eftir leik
Það markverðasta framan af leik var ekki eitthvað sem leikmennirnir gerðu, það var ekki einu sinni neitt sem dómarinn gerði. Nei, það var maðurinn sem ákvað að nýta tækifærið og stökkva nakinn inn á völlinn. Nógu athyglissjúkur til að hlaupa nakinn inn á fótboltavöll en samt örugglega pínu feiminn líka fyrst hann kaus að gera það þegar það var áhorfendabann. Talandi um áhorfendabann, hvernig komst þessi strípalingur eiginlega á völlinn til að byrja með, hvað þá inn á sjálfan leikvöllinn?
A naked man just ran across the pitch and rolled around. I didn’t realise it was so cold. And he’s not using Manscaped. pic.twitter.com/d7H5CzNkxl
— Andy Mitten (@AndyMitten) April 8, 2021
Marcus Rashford skoraði sitt 20. mark á tímabilinu í kvöld. Hans besta tímabil fyrir þetta var síðasta tímabil sem skilaði 22 mörkum. Hann hefur greinilega ekki verið heill upp á síðkastið en það er merki um gæði leikmannsins að geta alltaf skilað sínu í markaskorun og stoðsendingum þrátt fyrir að spila í gegnum meiðsli. Gríðarlega mikilvægur fyrir þetta lið og verður gaman að fylgjast með hvernig hann þróast sem leikmaður á næstu árum.
Það var annars mikill gæðamunur á liðunum í kvöld, Manchester United hafði boltann og stjórnina á leiknum megnið af tímanum. Markið kom þokkalega snemma og eftir það var eiginlega aldrei hætta á að leikurinn færi í jafntefli. Það var helst að Granada sýndi lit í föstum leikatriðum. Stundum komu skemmtilegar útfærslur og hættulegasta færi Granada var skot í stöng eftir aukaspyrnu. En fyrir utan það voru þetta aðallega langskot sem de Gea varði auðveldlega.
Miðvarðaparið hjá Manchester United var öflugt í þessum leik. Harry Maguire blandaði sér mikið í uppspilið og var að vanda sterkur í loftinu, tæklingum og blokkeringum. Victor Lindelöf var hins vegar mögulega maður leiksins í kvöld. Frábær í vörninni með flottar staðsetningar og las leikinn vel. Síðan átti hann stórkostlega sendingu á Rashford í fyrra markinu.
Luke Shaw fór af velli í hálfleik. Vonandi var það frekar vegna gula spjaldsins en meiðsla.
Það var fínt að þurfa ekki að eyða mikilli orku í þetta verkefni en þó hefði liðið alveg mátt setja fleiri marktilraunir á rammann. Nánast allan leikinn var mark Rashford eina tilraun United á rammann, það var ekki fyrr en í lokin að Bruno bætti öðru við.
Dómarinn virtist hafa sett það sem sérstakt markmið að veiða sem flesta leikmenn í leikbann fyrir seinni leikinn. Það var ekki alveg alltaf samræmi í því sem hann dæmdi, til dæmis komust leikmenn Granada meira upp með að juðast í leikmönnum á borð við Pogba án refsingar. McTominay, Shaw og Maguire missa allir af seinni leiknum, gæti munað ansi miklu um það.
Verkefnið ætti þó að vera komið langleiðina í hús. 0-2 útisigur og seinni leikurinn á Old Trafford eftir viku. Kannski var þetta því bara ágætt hjá dómaranum, að leyfa leikmönnunum að taka bannið út í næsta leik frekar en eiga á hættu að missa af leik í undanúrslitum.
Evrópudeildin í kvöld
Það voru þrír aðrir leikir í Evrópudeildinni í kvöld:
- Ajax 1:2 Roma
- Arsenal 1:1 Slavía Prag
- Dinamo Sagreb 0:1 Villareal
Seinni leikir liðanna verða að viku liðinni. Ef Manchester United fer áfram í undanúrslit þá verður andstæðingurinn sigurvegarinn í viðureign Ajax og Roma.
Karl Garðars says
Gullfalleg sending hjá Lindelof og Marcus nýtti færið. Það eru bara jólin! 😄
Rúnar P says
Held að striplingurinn hafa verið það fjörugasta sem gerðist í þessum leik?
Cantona no 7 says
Ole Ole
Atli+Þór says
Flottur leikur og góð úrslit. Tvö fín útivallarmörk :)