Í gærkvöldi var tilkynnt um væntanlega stofnun Ofurdeildar Evrópu. Manchester United er eitt tólf stofnfélaga og er augljóslega framarlega því Joel Glazer er fyrsti varaformaður deildarinnar. Þá fjármagnar JP Morgan deildina, líkt og yfirtökuna á sínum tíma en Ed Woodward er fyrrum starfsmaður bankans. Tilkynningin um stofnun deildarinnar hefur vakið hörð viðbrögð meðal margra knattspyrnuáhugamanna. Rauðu djöflarnir rýna í stöðuna.
Hver eru liðin?
Manchester United, Manchester City, Liverpool, Arsenal, Chelsea, Tottenham, Barcelona, Real Madrid, Atletico Madrid, Juventus, AC Milan, Inter Milan.
Hvað vantar?
Stofnliðunum er ætlað að vera 15, síðan eiga fimm lið að geta áunnið sér keppnisrétt. Því vantar enn þrjá stofnmeðlimi. PSG og tvö þýsk lið væru því líklegt veð en þýsku liðin hafa í morgun neitað því að þau verði með.
Hver er forsagan?
Hugmyndir um stofnun evrópskrar ofurdeildar hafa verið á sveimi í um 30 ár og áttu sinn hlut í að Meistaradeildin varð til í stað Evrópukeppni meistaraliða árið 1994. Þær hafa síðan farið af stað reglulega, einkum þegar liðin hafa viljað svínbeygja UEFA til að breyta Meistaradeildinni í sinn hag. Síðast árið 2018 birti Der Spiegel gögn sem sýndu fram á samskipti forsvarsmanna liðanna þar sem þeir veltu fyrir sér stofnun eigin deildar.
Gert er ráð fyrir að liðin spili í tveimur 10 liða riðlum og svo útsláttarkeppni. Leikið verður í miðri viku en reiknað er með að liðin verði áfram í sínum deildakeppnum.
Er meiri alvara nú?
Mjög trúlega. Yfirlýsingin er farin út og fulltrúar liðanna tólf hafa í morgun sagt af sér embættum innan UEFA og samtaka evrópskra félagsliða.
Af hverju?
Fyrsta svarið eru peningarnir. Félögin sjá fram á auknar tekjur sem nema hundruðum milljóna punda samanlagt á hverri leiktíð. Þau eru líka afskaplega skuldsett, miðað við ársreikninga sem birtir voru áður en Covid-faraldurinn skall á.
Í öðru lagi er það fótboltinn. Það er alltaf samkeppni um sæti í Meistaradeildinni og því áform um að stækka hana. Kjörnir fulltrúar treysta á atkvæði víða að og því er freistandi að hleypa liðum frá fleiri löndum á. Vandamálið er að riðlakeppnin fyrir jól er orðin leiðinleg og fyrirsjáanleg. Í dag átti að tilkynna nýtt fyrirkomulag deildarinnar sem liðin voru ósátt við. Að auki glíma eru mörg þessara liða komin með einokunarstöðu heima fyrir.
Þá sýna markaðsrannsóknir fram á að yngri stuðningsmenn sækjast eftir fleiri stórleikjum og stórstjörnum. Svarið við þessu öllu saman er að búa til deild sem eykur líkurnar á að þeir bestu mætist oftar.
Í þriðja lagi má nefna hugmyndafræði, eða eignarétturinn þar sem það sem þú hefur eignast veður ekki tekið af þér. Í þessu tilfelli er það sætið í deildinni. Eigendur nokkurra þessara liða eru bandarískir og þar þekkist úr NBA deildinni að lið eiga keppnisréttinn. Þar verður lélegt tímabil ekki til þess að þú missir þátttökuréttinn (og þar með tekjurnar) á næsta tímabili, eða í versta lagi fallir.
Af hverju er þetta vont?
Í fyrsta lagi aukinn ójöfnuður. Liðin hafa flest nógu ráðandi stöðu í sínum deildum en hætt er við að bilið milli þeirra og annarra liða aukist enn frekar fái þau auknar tekjur. Þau líklega rífa enn frekar leikmenn af minni liðum.
Í öðru lagi er það hugmyndafræðin. Enginn á neitt víst í evrópskum fótbolta. Ef þú ert lélegur þá fellurðu. Arsenal, í tíunda sæti ensku deildarinnar, er ekkert á leið í Meistaradeildina á næsta tímabili. Eins er bent á að liðin séu ekkert betri en önnur. Nottingham Forest og Derby County eiga fleiri Evróputitla en mörg stofnfélaganna. Það á að vera félagslegur hreyfanleiki í fótbolta. Í fyrsta lagi er þetta trúnaðarbrestur. Liðin hafa ekki haft samráð við stuðningsmenn eða aðra haghafa, þau eiga þetta og mega þetta. Þau hafa hins vegar haft sæti við borðið hjá UEFA og fleirum til dagsins í dag og vitað hvað væri í gangi þar.
Hvað er til ráða?
Stór spurning. Við skulum líta á nokkur atriði.
a) Bannfæring
Hvernig?
Ef liðin vilja vera sér þá geta þau verið sér. Þessi lið eru minnihluti félaganna í deildunum, eftir allt eru 14 önnur lið í ensku úrvalsdeildinni og hafa því meirihluta atkvæða. Þau rekið stórliðin sex í burtu. Frádráttur stiga og fleiri úrræði má reyna. UEFA á mögulega einhver svipuð verkfæri. Þar er nefnt að svipta liðin Evróputitlum og svo framvegis. Eins skoða UEFA og FIFA að banna leikmönnum sem spila í Ofurdeildinni, að spila í keppnum á þeirra vegum.
Kostur:
Alvöru aðgerð sem sýnir óánægju í verki. Myndi tryggja samkeppnishæfni liðanna sem eftir verða. Ofurdeildarliðin treysta á önnur lið til að ala upp leikmenn. Þrýstingur á fleiri aðila, í þessu tilfelli leikmann, að taka afstöðu.
Vandamál:
Liðin hafa sannarlega áunnið sér rétt til að keppa í landsdeildunum. Er hægt að taka hann af þeim? Verður lögfræðilega flókið og krefst samstöðu.
Áhætta:
Að Ofurdeildin verði stækkuð eða verði líka spiluð um helgar í samkeppni við landsdeildirnar. Stærstu liðin með bestu leikmennina er vænlegasta
söluvaran. Að reka þau úr deildunum gæti grafið undan þeim. Alþjóðasamböndin treysta líka á bestu leikmennina fyrir sín mót.
b) Aðgerðir stuðningsmanna
Hvernig?
Í fyrsta lagi hörð mótmæli hvar sem því verður við komið, í öðru lagi sniðganga félögin en sérstaklega deildina með að kaupa ekki miða á völlinn, merkjavöru og allra síst sjónvarpsáskrift.
Kostur:
Félögin eru að þessu í gróðaskyni. Þess vegna skilja þau helst og finna til ef þetta gengur ekki fjárhagslega. Stuðningsmenn hafa vægi í liðum eins og Barcelona og Real Madrid þar sem þeir kjósa forsetana. Séu þeir óánægðir með ráðahaginn geta þeir sett þá af og rifið í handbremsuna. Þannig er líka með flest þýsku liðin sem kann að útskýra hvers vegna þau sitja enn hjá.
Vandamál:
Þótt allir segist sakna áhorfenda af vellinum og tekjur félaganna hafi vissulega rýrnað í faraldrinum verður ekki framhjá því litið að spilamennskan síðasta árið hefur gengið út á að standa við sjónvarpssamninga og fullnægja styrktarsamningum. Sá sem mætir á völlinn skiptir minna máli. Félögin þekkja það þó að færri mæta á leiki í miðri viku þegar færri eru á ferðinni. Þetta krefst líka einstakrar samstöðu. Þótt vissulega hafi margir mótmælt yfirtöku Glazer-fjölskyldunnar á United þá er Old Trafford enn fullur og áfram rúlla tekjurnar inn.
Þótt stuðningsmenn hafi atkvæðisrétt þá er hann ekki nýtilegur nema að loknum kjörtímabilin. Forseti Real Madrid var endurkjörinn án mótframboðs í síðustu viku og forseti Barcelona tók við í vetur. Eins og svo oft virðist félögunum sama um stuðningsmennina.
Tímasetningin er góð því stuðningsmenn geta ekki mótmælt á leikjum og kannski verður allt gleymt í haust?
c) Annað
Dómarar
Enginn dómari, enginn leikur. Dómarar tilheyra ekki liðunum tólf heldur yfirleitt landssamböndunum í gegnum héraðssambönd. Þau hafa því betri tök á þeim en mörgum öðrum haghöfum. Þau gætu reynt að banna dómurum, sem taka þátt í Evrópudeildinni, að dæma í heimadeildunum eða alþjóðakeppnum. Líklegt er að dómarar treysti á deildakeppnirnar upp á tekjur sínar. Þá þarf Ofurdeildin einfaldlega að bæta þeim það tap. Ella verða það Neymar, Ronaldo og Jon Moss …
Sjónvarpsréttarhafar og styrktaraðilar
Einhverjir sjónvarpsréttarhafar eru æfir og hóta lögsóknum eftir tilkynninguna í gærkvöldi vegna þess sem þeir telja brot félaganna á núverandi samkomulagi. Einhverjir styrktaraðilar gætu verið í sömu sporum, eða óttast illt umtal. Það er bögg og vandamál en væntanlega hægt að leysa. Einhver sjónvarpsréttarhafi mun líka sýna deildina, sá sér væntanlega fram á gróða.
Stjórnmálin
Macron Frakklandsforseti er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa áformin. Eftir allt þá hafa kjörnir fulltrúar þessara landa eitthvað um það að segja hver lögin eru og félögin þurfa að fara eftir þeim. Hins vegar er vandséð hvernig þau verða útfærð.
Leiðindi
Hluti fegurðarinnar við leiki milli Manchester United og Barcelona er að þeir eru sjaldgæfir og vekja því meiri athygli þegar þeir fara fram. Þess vegna er hætta á að glansinn fari af Ofurdeildinni eftir einhvern tíma. Möguleikar litla mannsins eru líka eitt af því sem er spennandi við fótboltann. Þannig fögnum við að sjá lið eins og Atalanta eða Lyon ná góðum árangri í Meistaradeildinni eða Burnley vinna Liverpool.
Mótstaða á heimavelli
Hver verða viðbrögð þjálfara liðanna þegar þeir verða spurðir út í skoðun sína á deildinni? Hvað með leikmenn? Hvað með aðra stjórnarmenn sem mögulega hafa verið sniðgengnir í ferlinu? Munu þeir geta náð til sín völdum eða skipta þeir engu máli og halda áfram að mæta í vinnuna?
Hvað næst?
Önnur evrópsk félagslið funduðu um helgina og halda áfram í dag. Víðar verður fundað í dag og næstu daga. Það er hins vegar erfitt að snúa til baka. Yfirlýsingin í gærkvöldi fól í sér svik, trúnaðarbrest og vinslit sem erfitt verður að brúa. Ofurdeildin hefur verið lengi í undirbúningi, kannski var kominn tími á að taka plásturinn af. Eftir á að koma í ljós hvort eigendur ofurliðanna hafi gróflega mislesið stöðuna og neyðist til að bakka eða hvort öll heiftin verði búin á morgun, hvort hún hafi verið viðbúin og þeir einfaldlega við henni búnir.
Hvað finnst þér um Ofurdeildina? Hvað telur þú rétt að gera? Láttu okkur vita í athugasemdum. Það verður tekið upp Djöflavarp í kvöld þar sem farið verður rækilega í þessi mál og spurningum svarað eftir bestu getu.
TonyD says
Það sýður á mér. Helvítis f*****g f**k!!@
Það stefnir að óbreyttu í skilnað eftir 26 ára samband og þetta hefur verið geggjuð vegferð. Ég bíð með að skrifa undir pappírana þangað til í sumar en svikin við mig sem aðdáenda klúbbsins eru slík að ég mun aldrei fyrirgefa þau. Megi þessir eigendur súpa seyðið af þessari drullu og þetta verði sögulegt flopp.
Að því sögðu eru breytingarnar á meistaradeildinni ekkert sérstaklega spennandi en þessi ofurdeild er alveg út úr kortinu rugluð hugmynd. Kannski þið ræðið um hvað ykkur finnst um þessar hugmyndir Uefa og hvað ykkur finnst.
Er í ákvörðunin tekin út af þessum fyrirhuguð breytingum á CL eða af því að enginn virðist geta rekið fótboltaklúbba án þess að þeir séu á hausnum?
Eins þá er í meira lagi allir þessir 12 stofnklúbbar að gera sig að athlægi ef það finnast í fyrsta lagi ekki þrír stofnklúbbar í viðbót og öll önnur stærri félög í evrópu neita að taka þátt.
Ég held að þessi Glazer fjölskylda geti farið að pakka saman og vonandi næst samstaða í að hundsa klúbbinn ef þessu er haldið til streytu. Eru fleiri á sömu skoðun og ég?
Örn Svarfdal says
þetta er alveg út í hött…. maður er búinn að tala reyndar bara væla um það hvað peningarnir skifta allt of miklu máli í boltanum en nú er þetta bara hugsun um peninga…
ok þetta er bara „busnies“ hja eigendum eins og i mínu yndislega klúbb United þá hafa eigendur mjólkað endalaust úr klúbbnum til að gera Tampa Bay að NFL meisturum og fyrir mitt leiti þá er þetta orðið gott.
Mun aldrei fylgjast með þessari deild og ef hún verður að veruleika sem allt bendir til vo á ég að þessir klúbbur verði felldir niður um deildir eða jafnvel úthýst úr sínum samböndum og deildum.
Vonandi verður ekki að þessu ég er alveg brjálaður út af þessu.
Vilhelm says
Þetta er gegn öllu sem United stendur fyrir, Glazer er ađ pissa á merki og sögu United.
Ég ætla ekki ađ kaupa neinn varning eđa setja eina krònu til klùbbsins.
Nù er kominn tími á ađ stuđningsmenn hefji ađgerđir
Danni says
Woodward farinn og klúbburinn mögulega til sölu?