Ofurdeild Evrópu virðist heyra sögunni til 48 tímum eftir að hún var stofnuð eftir að ensku liðin flúðu út úr brennandi húsinu sem þau byggðu og kveiktu í. En hvað gerðist, hvað gerist næst og hver er staðan hjá Manchester United eftir tvo tilfinningaríka sólarhringa?
„Hver sá sem ver nokkrum stundum í innsta hring fótboltans gerir sér fljótt grein fyrir því að rétt eins og olía er hluti af olíuiðnaðinum er heimska hluti af knattspyrnuviðskiptum.“ Þessum orðum tísti blaðamaðurinn Simon Kuper, annar höfunda bókarinnar Soccernomics, um það leyti sem Ofurdeild Evrópu hrundi til grunna í gærkvöldi.
Vart hefur verið hægt að taka sér augnablikshlé frá fótboltafréttum síðustu tvo sólarhringa. Fyrst var ekki þverfótað fyrir þeim sem á mjög hreinskilinn hátt fordæmdu hugmyndir um deildina, síðan hófst flóttinn og loks fuku hausar.
Hvað gerðist?
Ætla hefði mátt að eftir um 30 ára umtal um mögulega Ofurdeild Evrópu lægju ítarlegar áætlanir, athuganir, útfærslur og viðræður þegar hún yrði loks sett í loftið. En nánast frá fyrstu mínútu virtust bitarnir í púslinu ekki mikið fleiri en tólf talsins og svo illa saman að helst mætti halda að Íslendingur með „þetta reddast“ viðhorfið eitt af vopni hefði verið að verki.
Í fyrsta lagi var deildin aldrei fullkláruð. Stofnfélögin voru tólf en áttu að vera fimmtán og alls tuttugu í deildinni. PSG, Bayern München og Borussia Dortmund var ætlað að vera með en þau biðu og forðuðu sér svo lengst í burtu þegar þau sáu viðbrögðin á mánudag. Þar með vantaði átta lið í stað fimm. Þá lágu engar áætlanir fyrir um hvernig átti að velja fimm lið. Þegar um það bil öll önnur lið mótmæltu komu í ljós veikar undirstöður því vart stendur Ofurdeildin undir nafni þótt hún hafi bæði Manchester United, Barcelona og Real Madríd ef fylla þarf upp í með BATE Borisov og FC Baku.
Í öðru lagi voru fögur loforð en litlar innistæður. Talað var um að deildin myndi skila bæði liðunum sem tækju þátt sem þeim sem stæðu utan hennar auknum tekjum. Þar bjó ekkert að baki nema lánalína frá JP Morgan. Engir sjónvarpssamningar eða styrktaraðilar voru í sjónmáli, þvert á móti tóku báðir til fótanna þegar óvinsældirnar jukust.
Í þriðja lagi virðist takmarkað hafa verið hugsað út í lagalegu hliðina. Vissulega tókst deildinni að vinna mál fyrir dómstól í Madríd sem taldi Alþjóðasamböndunum ekki geta bannað leikmönnum úr deildinni að spila með landsliðum eða í öðrum keppnum. Niðurstaðan hefði hins vegar getað orðið önnur fyrir öðrum dómsstigum. Þá virðist sem lítið hafi verið spáð út í viðbrögð eða samninga leikmanna eða þjálfara eða annarra liða en samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar er liðum óheimilt að leika í öðrum keppnum en þeim sem eru til staðar í dag án leyfis deildarinnar.
Það ber þó að taka fram að sitja á svikráðum er flókið verk. Sá sem þú ræðst gegn má alls ekki vita hvað er í gangi fyrr en verkið er af staðið. Hefði deildin haft samband við of marga, til dæmis leikmenn, eru talsverðar líkur á að ráðahagurinn hefði lekið út.
Í fjórða lagi virðast hörð viðbrögð fjölmiðla, stuðningsmanna, leikmanna, fyrrverandi leikmanna og annarra hafa komið á óvart. Eða öllu heldur það virðist engin viðbrögð hafa verið til. Vissulega mun hafa verið ráðið almannatengslafyrirtæki en eftir að deildin var tilkynnt á sunnudagskvöld reyndi varla nokkur að verja deildina, útskýra eða tala fyrir henni fyrir utan nokkra stórfurðulega botta á Twitter. En kannski komu þau ekki á óvart. Að minnsta kosti vogaði samfélagsmiðladeild Manchester United sér ekki að setja tilkynninguna um Ofurdeildina út á Twitter og fréttin var ekki birt á forsíðu heimasíðunnar.
Í fimmta lagi virtist grundvöllur deildarinnar byggja á sérstæðum markaðsrannsóknum og enn furðulegri túlkunum á henni, sem birtust best í einu varnarræðunni sem haldinn var fyrir deildina þegar Florentino Perez, forseti deildarinnar og Real Madrid, mætti í viðtal á spænski sjónvarpsstöð á mánudagskvöld. Perez reifaði þar hugmyndir eins og að stytta leiki niður í 60 mínútur því unga kynslóðin hefði svo litla þolinmæði og því minni áhuga á fótbolta en horfðist ekki frekar en fyrr í augu við mögulegar skýringar á borð við að sífellt hækkandi miðaverð eða sjónvarpsáskriftir, til að borga vaxandi skuldir sökum fjármálaóstjórnar, hrekja frá fjölskyldufólk og efnaminni. Eða bara sú staðreynd að meintir stórleikir eru varnarsinnaðir og leiðinlegir.
En mikilvægasta atriði var trúlega samstaðan. Annars vegar samstaða þeirra sem voru sviknir og skildir út undan um að deildin væri verk þess illa, að gegn henni skyldi ráðist með öllum tiltækum ráðum og látið skína í grimmilegar refsingar fyrir svikarana. Hins vegar brast samstaða svikaliðanna. Strax á mánudagskvöld bárust fréttir um að einhver þeirra væru hrædd, þau létu spyrjast að þau hefðu ekki haft stórkostlegan áhuga á málinu, eiginlega verið blekkt til að vera með. En um leið og Chelsea og Manchester City stukku frá borði snérist málið um að hver yrði að bjarga sér. Þar með urðu sífellt stærri skörð að fylla upp í. Þegar þetta er skrifað hafa vissulega Juventus og spænsku liðin ekki gefið það út að þau séu hætt við, aðeins sé verið að endurmóta verkefnið, en vandséð er hvernig þau geti haldið áfram.
Hvað gerist næst?
Tvær algjörlega andstæðar leiðir koma til greina: Annars vegar að Ofurdeildin, vopnið sem stórliðin hafa hótað að beita í hvert sinn sem þau hafa þurft að knýja fram breytingar á Meistaradeildinni, sé búið að vera. Reynt var að beita því og það snérist algjörlega í andhverfu sína. Í ljós kom að fótboltaheimurinn hafnaði því og það er þar með ónothæft. Liðin höfðu dregið sig út úr Samtökum evrópskra knattspyrnufélaga (ECA) og eiga ekki lengur sæti við borðið hjá UEFA. Trúnaðarbresturinn er slíkur að leiðin þangað aftur verður erfið. Þau hafa þar með gloprað frá sér völdum. Hinn möguleikinn er að liðin láti sér segjast í bili en læri af mistökum sínum og vinni heimavinnuna betur þannig að næsta tilraun gangi eftir.
En svo eru ýmsar aðrar afleiðingar sem greiða þarf úr. Bíða svikaliðanna eða stjórnenda þeirra einhverjar refsingar, svo sem sektir, bönn eða félagsleg útskúfun úr knattspyrnuheiminum? Hvernig tryggja hin félögin og stofnanirnar að nokkrum detti aftur í hug að reyna að stofna Ofurdeild?
Á næstu dögum munu berast ýmsar fréttir um að þessi eða hinn hafi ekki verið svo hlynntur þessu, ekki borið ábyrgð og bara elt einhvern annan. Slíkum fréttum ber að taka með varúð, hver mun reyna að koma sinni sögu í gegn til að minnka sinn skaða.
Þegar rykið sest verður kannski rætt í hvort eitthvert vit hafi verið í því sem liðin voru að segja. Forvitnilegt væri að sjá markaðsrannsóknirnar frekar. Er ríkur vilji fyrir fleiri leikum stórliðanna, hvernig verður því komið í kring á betri hátt? Væri skynsamlegt að stytta leikina niður í klukkutíma? Eða á að endurmóta reglur um eignarhald enskra liða, gera kröfur um 50+1 eign stuðningsmanna eins og í Þýskalandi?
Á hitafundi Serie A liðanna á mánudagskvöld gengu skeytin á milli. Minni liðin sögðu þau stærri vera að bæta við sig þannig þau sæti ein að meistaratitlinum næstu árin. Agnelli frá Juventus mun hafa svarað til baka að þannig hefði það verið. Á Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi og jafnvel Englandi hafa örfá lið einokað meistaratitlana síðustu ár. Svar minni liðanna hefur verið krafa um að dreifa jafnar fjármunum frá sjónvarpssamningum en þau stóru hafa á móti reynt að taka meira til sín. Hvernig verður þetta leyst áður en ójafnræðið drepur deildirnar.
Og hvað með endurbæturnar á Meistaradeildinni. Skilur þær einhver? Munu þær virka til að hleypa aftur fjöri í keppnina fyrir jól?
Það má kannski ekki alveg hundsa þá staðreynd að markaðurinn virðist hafa tekið vel í hugmyndirnar um Ofurdeildina miðað við að gengi hlutbréfa í Manchester United hækkaði snarpt eftir að tilkynnt var um hana en hríðféll svo í gærkvöldi þegar hugmyndirnar hrundu. En kannski er það ekki að marka, gengi bréfa í Dortmund hækkuðu líka á mánudag.
Hvað þýðir þetta fyrir Manchester United?
Ed Woodward er fyrsta fórnarlambið. Heyrst hefur að hann hafi verið á móti þessu og gengið erinda eigendanna, en þegar litið er á að hans gamli vinnuveitandi, JP Morgan, var með í gigginu birtist frekar sú mynd að honum hafi verið falið að útfæra verkið en mistekist það hrapallega. Fyrir það gjaldi hann með starfi sínu. Hann er líka rúinn trausti gagnvart leikmönnum og þjálfaranum, sem þurftu að svara spurningum um hans klúður frekar en góðan sigur gegn Burnley og gagnvart starfssystkinum úr Evrópu sem treysta honum ekki lengur.
Leiddar hafa verið að því líkur að klúðrið auki líkurnar á að Glazer-fjölskyldan selji United. Það væru góðar fréttir að því leyti að fjölskyldan hefur haldið aftur af fjárfestinum í annað en leikmenn og notað félagið sem einkabanka. Það er hins vegar slæmt að því leyti að reksturinn hefur verið þokkalegur og tekjurnar aukist þannig að staðið hefur verið í skilum í lánum. Óvíst er að nokkuð skárra taki við. Ekki hver sem er hefur efni á United og fáir auðjöfrar hafa fullkomlega hreina samvisku. Meira að segja Jóakim Aðalönd framdi óhæfuverk á leið sinni að auðæfunum. En það er stigsmunur á þeim. Nokkrum sinnum hefur spurst af áhuga Sádi-arabísku konungsfjölskyldunnar á United en viljum við blaðamannamorðingja sem eigendur?
Þá á eftir að koma í ljós hvort félagið muni sæta einhverjum þvingunum, svo sem sektum, stigarefsingum eða öðru fyrir þátttöku sína í gönuhlaupinu.
Vonandi er að það sleppi með skrekkinn og við getum sem fyrst farið að einbeita okkur að boltanum. Mikilvægt er að ókyrrðin sitji ekki í leikmönnum síðustu leikina þannig þeir klári sitt verk og tryggi helst bæði sigur í Evrópudeildinni og sæti í Meistaradeild Evrópu að ári.
Tómas says
Flott samantekt.
Kæmi mér á óvart að liðunum yrði refsað af úrvalsdeildinni.
Leikmennirnir verða halda áfram þeir eru enn í sínum keppnum og hafa fullt að keppa að á næsta tímbili, þar á meðal að ná góðum árángri í meistaradeildinni en þá verður það krafa að vera samkeppnishæfir í meistaradeildinni og reyna að vinna hana.
Jona says
Vel gert….
Scaltastic says
Það er of snemmt til fagna ástandinu, hvað þá að líta á þetta sem einhverskonar málalyktir. Svo það sé alveg á hreinu þá hefur ekkert breyst hjá yfirvaldinu, Woody og varðhundarnir hans hafa ekki sagt sitt síðasta hjá okkar ástkæra félagi… því miður :(
Lítum á jákvæðu hlutina fyrst. Það var alsælu tilfinning sem fór í gegnum líkamann þegar að Glazer’s voru þeir síðustu sem fóru heim með skottið á milli lappanna í gærkvöldi. Höfum það hugfast að þessar #$*! hafa í gegnum þetta ferli ekki haft frumkvæði að neinu. Kirsuberið á toppnum var svo að vakna við ávarpið frá John Henry. Niðurlæging Glazer’s var fullkomnuð með því move-i.
Það sem hefur gengið fram af mér er ekki formatið af ofurdeildinni (sem er btw vonlaust), heldur er það framtíðarsýn þessarar bévítans fjölskyldu um að útrýma Old Trafford. Það verður erfitt að sannfæra mig um að þessi félög myndu með árunum verða heimavallarlaus og stað þess ferðast um heiminn að spila sýningarleiki.
Nú er bara eitt í stöðunni. Sama á hvaða forsendu fólk styður liðið, þá verður að sameinast um að binda enda á þetta 16 ára kjaftæði. Ég veit ekkert hvort nýjir eigendur myndu verða skíthælar eður ei… en nóg er nóg komið.
Hvað varðar liðið í dag. Þá má ekki láta þetta kjaftæði stöðva ferlið í að vinna þessa evrópudeild. Þá geta okkar yndislegu eigendur fengið að það sem þeir þrá heitast… að taka á móti málminum, það yrði viðeigandi kveðjugjöf, vonandi… vonandi :-