Vel má vera að Ed Woodward hafi hugsað sér að hætta hjá Manchester United í árslok en augljóst er að Ofurdeildarklúðrið flýtti því að það væri opinberað. Woodward hefur lengi verið skotspónn óánægju stuðningsmanna United en hve verðskuldað er það og hver var sök hans í Ofurdeildinni.
Woodward var verðlaunaður fyrir að setja saman fjármögnunum á kaupum Glazer-fjölskyldunnar í United í fyrra starfi sínu hjá JP Morgan fjárfestingabankanum. Hann er fæddur í Essex, nam eðlisfræði í Bristol áður en hann færði sig yfir í endurskoðun.
Framan af var hann næstráðandi hjá United og sá um auglýsingasamninga meðan David Gill gegndi framkvæmdastjórastöðunni. Hann stóð sig ágætlega í henni – og þurfti þess – því hala varð inn tekjur til að borga af yfirtökuskuldunum. En það var eftir að Gill hætti, samhliða Alex Ferguson, árið 2012 sem Woodward komst í kastljósið.
Til eru frásagnir enskra blaðamanna af því hvernig andrúmsloftið hafi breyst í kringum United eftir að Woodward tók við. Í stað þess að þeim væri haldið í fjarlægð, álitnir sníkjudýr, varð aðgengið auðveldara. Sumt af því sem Woodward lét út úr sér í árdaga elti hann síðar uppi. Hann sá möguleikana í samfélagsmiðlunum og keyrði grimmt á þá en sagði líka að Manchester United ætti aldrei aftur að þurfa að þola þá niðurlægingu að missa af leikmanni því félagið hefði ekki efni á honum. Bæði fyrri stefna og sú nýja reyndust félaginu dýrkeyptar.
Of mikið í fang
Fyrir tíu árum var kerfið hjá Manchester United byggt upp í kringum Alex Ferguson. Að missa bæði hann og David Gill út á sama tíma var blóðtaka sem félagið var ekki undirbúið. Þótt Woodward hafi í byrjun sagt að hann myndi deila út völdum voru það sennilega hans stærstu mistök að gera það ekki því eftirmælin hans eru „Frábær í markaðsmálum, ömurlegur í fótbolta.“ Á þeim tímapunkti hefði knattspyrnustjóri (director of football) verið gagnlegur til að tryggja samfellu í utanumhaldi.
Woodward réði ekki David Moyes, en það kom í hans hlut að segja honum upp. Það hefði mátt höndla betur, sem og brottför Louis van Gaal tveimur árum síðar. Af mistökunum var lært þegar Jose Mourinho var rekinn. Hins vegar bera ráðningar þeirra og þar með leikmannakaup merki um stefnuleysi sem rakið verður til æðsta starfsmanns. Fyrir þau mátti hann þola að flogið væri yfir Old Trafford með borðann: „Ed Woodward: sérfræðingur í klúðri.“
Þjónn Glazer-fjölskyldunnar
Woodward hefur líka verið kennt um að hafa lagt stein í götu stjóranna, til dæmis ekki viljað kaupa miðvörð handa Mourinho sumarið 2018. Þarna er ekki víst að Woodward njóti sannmælis. Í fyrsta lagi fær enginn þjálfari allt sem hann vill. Þeir geta hins vegar valið hvort þeir bera óánægju sína á torg eða kyngja henni. Í öðru lagi eru það eigendurnir, eða stjórnar, sem móta fjárhagsrammann og framkvæmdastjórans að vinna eftir honum. Í þessu tilfelli er hann því vart annað en boðberi óvinsælla tíðinda. En það er líka það sem það sem bakað hefur Woodward mestu vandræðin, að hann sé ekki annað en handbendi Glazer-fjölskyldunnar.
En það er ekki slæmt starf, árslaun Woodward eru margfaldar ævitekjur okkar flestra. Ekki má þó gleyma að hann er manneskja eins og við hin. Hann eignaðist tvíbura með konu sinni fyrir fáum árum. Fyrir rúmu ári var fjölskyldu hans ógnað þegar óánægðir stuðningsmenn mættu fyrir utan hús hans með blys til að lýsa óánægju sinni með seinagang í samningaviðræðum um Bruno Fernandes. Sumir gleyma því að það er meira í lífinu en fótbolti. Í kjölfarið flutti fjölskyldan til Lundúna en United er bæði með skrifstofur þar og í Manchester.
Til varnar Woodward má segja að hann hafi vaxið í starfi síðustu misseri. Hann hefur staðið með Ole Gunnar Solskjær á erfiðum tímum og gert það opinberlega. Kvennaliðið hefur endurreist og unglingaliðið eflt. Loks hefur Woodward deilt völdum sínum og ráðið knattspyrnustjóra, hver veit nema honum takist að laga leka þakið á Old Trafford á næstu mánuðum.
Ofurklúðrið
Hann var því á réttri leið þar til Ofurdeildin kom til skjalanna. Eftir að hún fór út um þúfur í gær átti Woodward vart undankomu auðið. Og þá skiptir ekki máli hvaða útgáfu sögunnar er trúað.
Woodward hefur látið spyrjast út að hann hafi verið sáttur við endurbætur á Meistaradeildinni en Glazer-fjölskyldan ekki og hún skipað honum að ráðast í Ofurdeildina. Það fórst honum afar illa úr hendi og því eðlilegt að gjaldi fyrir það með starfi sínu.
Ljóst er að Manchester United var framarlega í plottinu um Ofurdeildina og bar trúlega mikla ábyrgð á skipulagi og framkvæmd, sem klúðraðist vægast sagt stórkostlega. Sú staðreynd að JP Morgan bankinn ætlaði að fjármagna deildina eru fingraför Woodward á vopninu. Eftir stóð hann rúinn trausti í allar áttir.
Þjálfara og leikmönnum United var hent fyrir úlfana með að þurfa að svara fyrir málefni sem þeir höfðu ekkert með að gera, jafnvel andsnúnir, frekar en góðan sigur eftir leikinn gegn Burnley á sunnudag. Hann hafði svikið starfssystkini sín í úrvalsdeildinni, munu þau treysta einu orði hans næst þegar hann hringir til að ræða leikmannaviðskipti? Woodward hafði náð frama innan evrópsku knattspyrnuhreyfingarinnar, traustið þar er farið og hann slippur eftir að hafa sagt af sér samhliða tilkynningunni um Ofurdeildina. Þá er hann líka rúinn trausti innan hennar sem maðurinn með loforðin sem ekki stóðust.
Vandamálið er enn eftir
Á næstu vikum kemur í ljós hver arftaki hans verður. Richard Arnold, markaðsstjórinn og skólabróðir Woodward frá Bristol, er augljóst nafn. John Alexander hefur starfað með félaginu sem ráðgjafi, áður ritari félagsins. Hann er stuðningsmaður Liverpool en Glazer-fjölskyldunni er örugglega sama um það. Síðan eru spurningar um hennar framtíð, hyggst hún selja fyrst Ofurdeildin gekk ekki eftir, eða siglir hún bara áfram sinn sjó?
Þótt óánægjan hafi oft beinst að Woodward er svarið trúlega að það sem hann tók skellinn fyrir hafi ekki alltaf verið hans sök. Í því liggur þó fall hans og arfleifð, að hafa verið handbendi fjölskyldu sem notar félagið til að fjármagna sjálfa sig. Hann situr líka eftir með að hafa ekki þekkt takmörk sinni, eins og Íkarus freistast til að fljúga of nærri sólinni. Því miður er brotthvarf hans vart lausnin á því vandamáli sem eigendur Manchester United eru félaginu.
kristjans says
Var þetta ekki dauðadæmt hjá Ed frá byrjun?
Þetta byrjaði ekki vel hjá kappanum þegar hann rauk úr æfingaferð í Ástralíu sumarið 2013 til að sinna „urgent transfer business“. Þá var talað um að Man Utd væri að eltast við Bale, Ronaldo og Fabregas.
Svo þetta rugl í kringum Fellaini. Moyes bakkaði út úr kaupnum á Thiago og Man Utd bauð 28 milljónir punda í Fellaini og Baines. Fellaini var með klausu og var falur fyrir um 23 milljónir punda fyrir tiltekinn tíma en félagið endaði með að borga eitthvað í kringum 28 milljónir punda fyrir Fellaini.
Maður veit svo ekki hvort maður eigi að hlægja eða gráta yfir þessu hér:
https://www.youtube.com/watch?v=4TByQocPUBs