Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan að Manchester United spilaði síðast í ensku Úrvalsdeildinni fyrir tæpri viku síðan. Á meðan á leik stóð var greint frá því að nokkur af stærstu liðum Evrópu hefðu ákveðið að segja skilið við keppnir á vegum UEFA og stofna sína eigin ofurdeild. Aðdáendur liðanna mótmæltu harðlega og sýndu að með samstöðu og hávaða má ýmislegt fella. Þrátt fyrir að það sé löngu augljóst að eigendum liðanna er alveg sama um klúbbinn svo lengi sem hann skapar tekjur að þá snerist þeim hugur og eitt af öðru kvöddu liðin þennan stutta draum.
Sama dag og tilkynnt var að Ofurdeildin væri í andarslitrunum þá tilkynnti Manchester United að Ed Woodward myndi láta af störfum. Ólíklegt þykir að brotthvarf hans verði ástæða til sorgar í langan tíma en þar sem að glasið hefur verið hálf tómt hjá stuðningsmönnum Manchester United í langan tíma, þá má gera að því skóna að eftirmaður hans verði ekkert mikið skárri. En við tökum litlu sigrana.
En það breytir ekki þeirri staðreynd að á morgun er knattspyrnuleikur. Magnað! Á morgun, sunnudaginn 25. apríl, mætir Manchester United á Elland Road og etur kappi við erkifjendur sína í Leeds United. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 13:00 og best að vera búinn að föndra á sig stríðsmálningu nokkru áður. Við eigum góðar minningar frá fyrri leik liðanna þar sem að okkar menn léku á als oddi og unnu frábæran 6-2 heimasigur. Undirritaður gerir sér engar vonir um slíkt rótburst á morgun en það væri óeðlilegt að gera ekki kröfu um sigur.
Liðsfréttir
Það virðist sem það sé heil ævi síðan að Manchester United naut síðast þeirra forréttinda að spila ekki í miðri viku og fær því heila sjö daga í frí fyrir komandi leik. Anthony Martial er úr leik út tímabilið og hefur Mason Greenwood komið vel inn í hans stað. Marcus Rashford er í örlitlu kapphlaupi við tímann, en hann glímir við ökklameiðsli. Ole er þó bjartsýnn á að geta notað Marcus á morgun. Þá má ekki gleyma elsku Phil Jones. Samkvæmt PhysioRoom talaði stjórinn síðast um hann í mars og bjóst þá frekar við því að Jones yrði klár á næsta tímabili. Jæja, krossleggjum fingur.
Þá er Eric Bailly klár í slaginn eftir að hafa greinst með COVID-19 og tók þá við sóttkví. Skulum vona að okkar maður hafi virt allar reglur. Miðvörðurinn er til taks en fær sér væntanlega sæti á bekknum á morgun. Aðrir eru til í stríð og dugar ekkert minna þegar mætt er á Elland Road.
Liðsval
Ole Gunnar Solskjær hefur nær alla menn tiltæka og tel ég líklegt að hann reyni að líkja eins mikið eftir byrjunarliðinu sem burstaði Leeds í fyrri leiknum og hann getur. Þar kom eldingin Daniel James að gríðarlega góðum notum, bæði þegar kom að pressu og að taka hættuleg hlaup á bakvið vörnina. Paul Pogba hefur komið gríðarlega sterkur inn að undanförnu og leyst stöðu vinstri kantmanns með stakri prýði. Það er spurning hvort að Ole haldi sig við að hafa hann úti vinstra megin eða setji hann miðsvæðis og Rashford á vinstri kantinn. Að mörgu leyti veltur þetta á heilsu Rashford en sömuleiðis er gott að hafa hlaupadýr eins og McTominay og Fred á miðjunni gegn þessu áræðna Leeds liði. Donny van de Beek átti flotta innkomu gegn Burnley en veðmálafíklar eru beðnir að sleppa því að henda of háum upphæðum á að Donny verði í byrjunarliðinu.
Í markinu mun Dean Henderson sennilega standa vaktina. Hann fékk smá hland fyrir hjartað í upphafi leiks gegn Burnley og virtist örlítið óviss um sjálfan sig á löngum köflum án þess þó að gera neinar gloríur. Ole treystir honum og hann þráir ekkert meira en að verða nr. 1 hjá Manchester United. Að sjálfsögðu verður fyrirliðinn, Harry Maguire, í hjarta varnarinnar og Victor Lindelöf mun að öllum líkindum standa við hlið hans. Ef frá er talinn Bruno Fernandes að þá hefur Luke Shaw verið okkar besti leikmaður og hefur bæði tekið ótrúlegum framförum sem og sýnt stöðugleika. Leikur hans á þessu tímabili hefur verið í heimsklassa. Aaron Wan-Bissaka mun svo taka hægri bakvörðinn föstum tökum.
Svo getur Ole valið á milli þess að láta Edinson Cavani eða Mason Greenwood leiða línuna. Hvor um sig hentar ágætlega í þetta verkefni. Cavani er afar duglegur í pressu United og hreyfing hans án bolta er í hæsta gæðaflokki. Greenwood gæti sömuleiðis alltaf fundið pláss fyrir skot ef að hann fær boltann á réttum stöðum. Yrði sáttur hvort sem það væri El Matador eða Mason sem byrjaði. Kannski byrja þeir svo bara báðir!
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Mótherjinn
Leeds United hafa sannarlega verið ferskur andblær í ensku Úrvalsdeildinni. Undir stjórn Marcelo Bielsa hefur liðið leikið fótbolta sem afar skemmtilegt er að horfa á og jafnframt óvanalegt að sjá nýliða í deildinni spila opinn leik, í stað þess að verja stigið og reyna að lauma inn sigurmarki. Liðið sækir á mörgum mönnum og spilar á gríðarlega háu tempói. Þetta reyndist þeirra banabiti gegn Manchester United á Old Trafford. Megi það vera svo á morgun líka!
Bielsa verður að öllum líkindum án vængmannsins leikna Raphinha, en hann á við meiðsli í læri að stríða. Það er skarð fyrir skildi hjá Leeds en Brassinn hefur verið virkilega góður. Þá er fyrirliðinn Liam Cooper í banni og framherjinn Rodrigo er meiddur. En málið með þetta Leeds lið er að Bielsa hefur nánast bókstaflega breytt vatni í vín. Leikmenn sem væru Championship leikmenn undir öðrum stjórum líta út fyrir að vera klárir í Meistaradeildina undir El Loco.
Í liðinu eru þó gæðaleikmenn. Fyrir framan vörnina er brimbrjóturinn Kalvin Phillips. Hann er góður á boltanum og yfirferðin á honum er mikil. Phillips er útsjónarsamur og áræðinn og líklegt þykir að Gareth Southgate velji hann í enska landsliðshópinn fyrir EM í sumar. Með honum á miðjunni er Fantasy-goðsögnin Stuart Dallas. Hann skoraði tvívegis í ótrúlegum 1-2 sigri á Manchester City um daginn, en Leeds spilaði þar manni færri heilan hálfleik. Sigurmark Dallas kom á 92. mínútu og var jafnframt annað skot Leeds í leiknum. Miðjumaðurinn knái er með gott markanef og því má ekki leyfa honum að dúkka upp á hættulegum svæðum í kringum vítateiginn.
Frammi er svo Patrick Bamford. Hann hefur sennilega komið sjálfum sér mest á óvart á þessu tímabili. Bamford skoraði 16 mörk í 45 leikjum í Championship deildinni í fyrra en er nú með 14 mörk skoruð í 32 leikjum í Úrvalsdeildinni. Hann er gagnrýndur fyrir að klúðra full mikið af færum en tölfræðin sýnir að hann kann líka að finna netmöskvana. Á honum þarf að hafa góðar gætur.
Líklegt byrjunarlið Leeds United:
Spá
Eigum við ekki bara að fá markaveislu? 5-3 sigur í skemmtilegasta leik tímabilsins.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar