Manchester United mistókst að næla í stigin þrjú á Elland Road í dag þegar liðið sótti Leeds United heim. Leikurinn var tíðindalítill og vantaði talsvert uppá gæði fyrir framan vítateig andstæðingins.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United
Leeds United
Leikurinn
Fyrri hálfleikur
Það er hægt að lýsa fyrri hálfleiknum í einu orði. Gæðalítill. Bæði lið virtust eiga í mesta basli með að taka réttar ákvarðanir þegar þau komust á hættusvæði og í tilfelli okkar manna gat maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort að annað augað væri hreinlega komið á undanúrslitin í Evrópudeildinni, gegn Roma. Hvað svo sem olli því að þá var lítið að frétta sóknarlega. Það vantaði ekkert upp á baráttuna en færin létu á sér standa.
Bruno Fernandes fékk að kynnast varnartengiliðnum Kalvin Phillips býsna vel í fyrri hálfleik en Phillips elti hann eins og skugginn hvert sem hann fór. Í þau fáu skipti sem að Bruno losnaði að þá fannst manni hlutir geta gerst. Í eitt slíkt skipti setti Daniel James boltann á honum hægri megin í vítateig Leeds og Bruno fann í kjölfarið Mason Greenwood utarlega í teignum. Venjulega hefði Mason bara tekið eina snertingu og svo þrumað boltanum á markið en móttakan var í takt við frammistöðuna í fyrri hálfleik og hann missti boltann frá sér.
Þá var í nokkur skipti sem að Scott McTominay fékk boltann á miðsvæðinu og hefði getað losað boltann fyrr í holuna á Bruno, en kaus í stað þess að taka nokkrar aukasnertingar á boltanum sem oftar en ekki endaði með því að Skotinn lenti undir óþægilegri pressu og annaðhvort missti boltann eða þurfti að senda hann aftur á vörnina. Fred og McTominay voru þó vel á verði varnarlega og duglegir að brjóta upp sóknir Leeds.
Fyrir aftan þá stóðu Maguire og Lindelöf vaktina. Lindelöf átti tvær glimrandi góðar sendingar yfir vörn Leeds á Marcus Rashford, sem hafði þá tekið þverhlaup inn fyrir og fengið sendingu Svíans milli bakvarðar og miðvarðar. Honum brást þó bogalistin þegar kom að því að skjóta en það voru í raun bestu augnablik United í fyrri hálfleik þegar Lindelöf og Rashford tengdu.
Daniel James var virkur í pressunni og gríðarlega duglegur. Hann tók á sig nokkur þung högg og fiskaði aukaspyrnur á hættulegum svæðum. Lítið kom þó úr þeim. Mason Greenwood komst ekki mikið í takt við leikinn en miðað við formið á honum undanfarið að þá fannst manni sem að ef að Mason fengi færið þá myndi hann klára það. Undirritaður bað svo til æðri máttarvalda um skemmtilegri seinni hálfleik.
Seinni hálfleikur
Okkar menn mættu grimmari til leiks í seinni hálfleik og sköpuðu sér nokkur hálffæri. Bruno Fernandes var miðpunktur í flestum atvikum. Solskjær virtist hafa skipað Greenwood að koma dýpra niður til þess að sækja boltann og skilja Bruno eftir ofar á vellinum. Það virtist skapa smá vandræði í skipulagi á miðju Leeds, en þó engan glundroða kannski.
Daniel James var svo nálægt því að sleppa í gegn en skildi boltann heldur eftir fyrir títtnefndan Bruno sem að var í raun ekki á leið að marki. Mjög klaufalegt. Stuttu seinna var Daniel James í ákjósanlegu færi en Esgjan Alioski náði að hirða boltann af honum á ögurstundu. Leeds brunuðu þá upp hinu megin og Helder Costa var hársbreidd frá því að koma boltanum í netið fyrir Leeds. Komið smá fjör í leikinn í það minnsta!
Eftir ágætis byrjun á seinni hálfleiknum þá féllu leikmenn Man Utd í þá gildru að fara að flýta sér of mikið. Ótímabærar úrslitasendingar og óþarfa pirringur þegar að leikmenn Leeds brutu á hættulausum svæðum gaf manni einhverja ónotatilfinningu fyrir síðasta korterið. Mason Greenwood virtist sérstaklega önugur yfir aðferðum Leeds, sem þó voru ekkert stórhættulegar. Þá kynnti stjórinn Paul Pogba til leiks og tók vinnudýrið Daniel James af velli.
Það var lítið um hugmyndir og Ole setti þá Edinson Cavani inná fyrir Marcus Rashford á 86. mínútu. Mögulega gæti Úrúgvæinn átt gæðaaugnablikið sem hafði vantað allan leikinn. Vörn Man Utd hafði haldið Leeds vel í skefjum en það sama má segja um heimamenn. Þeir þrengdu völlinn gríðarlega þegar gestirnir nálguðust vítateiginn og fylgdu öllum hlaupum gífurlega vel. Ákaflega frústrerandi. Stuttu seinna kom Donny van de Beek inná fyrir Fred.
Tíminn rann svo út án þess að liðunum tækist að finna sigurmarkið. Sanngjarnt jafntefli niðurstaðan.
Pælingar eftir leik
Það var greinilegt frá upphafi að Leeds ætlaði ekki að láta grípa sig í landhelgi eins og í fyrri leik liðanna. Þeir vörðust vel, voru skipulagðir og náðu yfirleitt að tvöfalda á boltamann þegar að nálægt markinu var komið. Þetta er gömul saga og ný hjá okkar mönnum. Leikmenn okkar voru pirraður og voru þar Bruno og Mason fremstir meðal jafningja. Þetta var vatn á myllu Leeds sem vörðust bara af meiri ákefð og okkar menn áttu engin svör.
Það hefur mikið verið ritað og rætt um miðjumannsmál hjá United. Fred og McTominay eru ávallt harðduglegir en þá skortir yfirsýn og hugrekki á boltanum. Það er of oft sem að þeir neyðast til þess að klappa boltanum til þess að ná valdi á stöðunni, í stað þess að taka eina snertingu og finna svo mennina fyrir framan sig á hættulegum svæðum. Í þessu ástandi er svo auðvelt fyrir andstæðinginn einfaldlega að finna sér stöðu á ný og stilla upp varnarlega.
Svo gerist það seint í leiknum að Donny van de Beek fær boltann beint fyrir framan vítateig Leeds og það eina sem vantar er utanáhlaup frá Shaw eða Pogba vinstra megin, en það kemur aldrei og Donny er kæfður. Þetta gerist þegar mínúta er eftir af leiknum. Ég kalla einfaldlega eftir því að menn lesi aðeins í augnablikið og skynji hvar hættuna er að finna. Þarna hefði vinstri kantmaðurinn komist í dauðafæri á ögurstundu. Okkur mistókst að koma Leeds í alvöru vandræða og skapa ringulreið inni í teig þeirra.
Frammistaðan var ekki hræðileg, en hún var heldur ekki góð. Vonandi verður þetta stig bara gott þegar á hólminn er komið en Leeds bauð uppá það lítið sóknarlega að manni fannst okkar menn eiga að refsa. Nú tekur við heimaleikur í Evrópudeildinni gegn Chris Smalling og félögum í Roma. Er fullmikil óskhyggja að vonast eftir 7-1 sigri eins og 2007?
Áfram Manchester United.
Danni says
Guð minn góður… James. Þetta hljómar ekki vel.
Karl Garðars says
Úfff.. þetta var nú eins leiðinlegt og það gerist.
Egill says
James var skelfilegur.
Leeds gerði ekkert nema að brjóta af sér allan leikinn.
Ole gerði skiptingar alltof seint.
Meiddur Rashford gat ekki neitt.
Bruno gat ekki neitt.
McFred miðjan gat ekki neitt.
Maguire klúðrar opnum skallafærum.
Sama sagan leik eftir leik.
Helgi P says
En er Solskjær að gera skiftingarnar alltof seint það hlýtur að vera ömurlegt að vera varamaður undir stjórn Solskjær
Scaltastic says
Bailly að framlengja um þrjú ár, get ekki sagt að ég sé hoppandi kátur með þá ákvörðun… Tuanzebe mun fá nýjan vinnuveitanda í haust.