Það er líklega skiljanlegt að vissu marki að leikurinn gegn Leeds hafi ekki verið hressari en hann var. Manchester United á enn tölfræðilega möguleika á efsta sætinu en það kallar á meira en blússandi óskhyggju að sjá fyrir sér að þetta Manchester City lið tapi nógu mörgum stigum til að það verði alvöru möguleiki. Annað sætið er svo gott sem klárt, í það minnsta er engin hætta á að Meistaradeildarsætið sé í nokkrum vafa. Manchester United hafði því ekki að miklu að keppa. Leeds hafði það í sjálfu sér ekki heldur, fyrir utan að verja sært stoltið frá síðustu viðureign þessara liða. Það sást á því hvað Leedsarar lögðu í varnarleikinn.
En nú er komið að alvöru, alvöru leik þar sem við treystum á að okkar menn geti gírað sig almennilega upp í verkefnið. Fyrri leikurinn í undanúrslitaviðureign í Evrópudeildinni. Fellur Solskjær enn og aftur á undanúrslitaprófinu eða nær hann að koma liðinu alla leið til Gdańsk þar sem úrslitaleikurinn verður spilaður 26. maí?
Helstu upplýsingar
Leikurinn verður annað kvöld á Old Trafford og hefst klukkan 19:00.
Dómari leiksins verður Carlos del Cerro Grande frá Spáni.
Veðurspáin er fín, það stefnir í 6-9 gráðu hita, varla vindur að ráði, hálfskýjað með 30-40% séns á úrkomu. Viðrar vel til fótbolta.
Hinn undanúrslitaleikur Evrópudeildarinnar er leikur Villareal og Arsenal sem verður spilaður á Spáni á sama tíma.
Byrjunarliðspælingar
Helstu leikmannafréttir síðustu vikuna voru af því þegar Eric okkar Bailly skrifaði undir nýjan samning. Samningurinn gildir til 2024 með framlengingarákvæði til eins árs.
Það er lítið óvænt við það. Við vitum öll að á sínum degi er Eric Bailly frábær miðvörður. Helsta vandamálið hans hefur verið að hanga heill nógu lengi til að spila almennilega. Hann er núna á sínu fimmta tímabili og hefur spilað slétta 100 leiki fyrir félagið. Það er ekkert alslæmt, þannig lagað, en aðalmiðverðir United þurfa að spila meira. Phil Jones er með 96 leiki á sama tíma. Harry Maguire er með 104 leiki á tveimur tímabilum. En það er reyndar ósanngjarnt að bera aðra leikmenn saman við klettinn Harry Maguire sem er í sérflokki hvað þetta varðar.
Vonum að Bailly fari að finna sinn stöðugleika. En það er spurning hvort þetta þýði eitthvað fyrir komandi sumarglugga, er þá félagið ólíklegra til að splæsa í nýjan miðvörð í sumar eða breytir þetta kannski engu þar um?
Um það bil hálfur leikmannahópur Manchester United tók út leikbann í síðasta leik vegna uppsafnaðra, gulra spjalda. Það var ansi vel gert fyrir þessa viðureign. Það er því enginn í leikbanni í þessum leik.
Það eru tveir frá vegna meiðsla, Anthony Martial og Phil Jones. Munar mismikið um þá í þessum leik.
Það er óþarfi að hvíla einhvern sérstaklega fyrir leikinn gegn Liverpool um helgina. Sá leikur skiptir Liverpool meira máli en United. Aðalfókus okkar manna ætti að vera á þessari keppni, þar sem við getum unnið hana.
Spái þessu byrjunarliði:
Ef Marcus Rashford spilar í þessum leik þá verður það hans 50. Evrópuleikur á stuttum en mögnuðum ferli.
Roma hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu, til dæmis voru 5 meiddir fyrir síðsta Evrópudeildarleik hjá þeim.
Meðal þeirra sem hafa verið að glíma við meiðsli hjá Rómverjunum eru góðkunningjar okkar, Chris Smalling og Henrikh Mkhitaryan. Þeir voru báðir í byrjunarliði Manchester United sem vann þessa keppni fyrir tæplega fjórum árum síðan.
Báðir hafa staðið sig með mikilli prýði fyrir Roma síðan þeir komu þangað. Þeir fóru báðir á láni í fyrstu, Smalling í lok ágúst 2019 og Mkhitaryan í upphafi september sama ár. Mkhitaryan var síðan á undan að skrifa undir fastráðninguna, hann samdi við félagið í lok ágúst 2020. Smalling fylgdi honum svo eftir í byrjun október.
Smalling hefur spilað samtals 55 leiki fyrir Rómarliðið og skorað í þeim 3 mörk. Mkhitaryan hefur hins vegar skorað 20 mörk í sínum 66 leikjum og er orðinn ein helsta sóknarógn þeirra, hvort sem hann skorar sjálfur eða býr til eitthvað fyrir samherja sína.
Þeir einu sem eru meiddir hjá Roma fyrir þennan leik eru gamli Chelsealeikmaðurinn Pedro og svo hinn ungi Nicolo Zaniolo. Zaniolo hefur ekkert spilað fyrir Roma á tímabilinu svo hans meiðsli hafa lítil áhrif. Pedro hefur hins vegar spilað töluvert í deild og Evrópu svo það gæti munað eitthvað um fjarveru hans. Hins vegar er ítalska liðið líklega aðallega fegið að vera komið með nánast alla heila aftur, ættu að geta stillt upp sínu sterkasta liði á Old Trafford á morgun.
Roma hefur verið að stilla upp í 3-4-2-1 með Smalling í hjarta varnarinnar. Þetta er líklegt byrjunarlið hjá gestunum:
Roma er sigurlaust í síðustu fjórum leikjum en inní því er jafntefli sem tryggði þeim sigur í einvíginu gegn Ajax. Svo er spurning hversu mikil áhersla er á ítölsku deildina hjá þeim. Roma er í 7. sæti eins og er, talsvert á eftir Lazio sem er í neðra Evrópudeildarsætinu og enn lengra á eftir Juventus sem er í neðsta Meistaradeildarsætinu.
Þeirra besti sóknarmaður í Evrópu hefur verið framherjinn Borja Mayoral. Hann hefur skorað 7 mörk og lagt upp 2 önnur. Edin Dzeko, fyrrum leikmaður fjármálasteraboltanna í Manchester City, sem ég hélt reyndar að væri löngu hættur að sparka í bolta, kemur þar á eftir með 4 mörk og 1 stoðsendingu.
Mkhitaryan er með 9 mörk og 8 stoðsendingar í ítölsku deildinni en hefur hins vegar verið rólegur í Evrópu til þessa, bara með 1 mark og eina stoðsendingu þar. En það borgar sig samt að fylgjast vel með honum og passa upp á hann.
Sagan gegn Rómverjum
Manchester United og AS Roma hafa sex sinnum áður mæst á knattspyrnuvellinum. Merkilegt nokk þá leið ekki nema 371 dagur á milli þess sem liðin spiluðu fyrsta leikinn og þann síðasta.
Manchester United hefur betur í innbyrðisviðureignunum og með töluverða yfirburði í markatölu. United er með 4 sigra, Roma einn og einum leik lauk með jafntefli. Markatalan er 13-4 í leikjunum sex.
Fyrsti leikurinn var í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2006-07. Fyrri leikurinn var á Ólympíuleikvangnum í Róm, miðvikudagskvöldið 4. apríl 2007. Það var hiti í mannskapnum bæði í stúkunni og inni á vellinum. Áhorfendur köstuðu hlutum inn á völlinn United-megin og lögreglan þurfti að skerast í leikinn, stundum reyndar af meiri krafti en nauðsyn endilega þótti.
Paul Scholes lét stemninguna gíra sig fullmikið upp svo hann endaði með rautt spjald eftir aðeins 34 mínútna leik. Þá var hann að fá sitt seinna gula spjald. Rodrigo Taddei kom heimamönnum yfir á 40. mínútu en Wayne Rooney jafnaði metin eftir klukkutíma leik. Mirko Vucinic tryggði Rómverjum þó sigurinn með marki sjö mínútum síðar. Staðan 2-1 fyrir seinni leikinn á Old Trafford.
Manchester United þurfti þó sem betur fer ekki mikið að treysta á útivallarmarkið úr fyrri leiknum, hvað þá að fjarvera Paul Scholes kostaði þá mikið í seinni leiknum á Old Trafford, tæplega viku síðar. Manchester United rúllaði yfir Roma í leiknum, skoruðu 4 mörk í fyrri hálfleik og bættu þremur við í seinni. Lokastaðan 7-1 og United fór áfram samanlagt 8-3.
Michael Carrick skoraði ekkert rosalega mörg mörk fyrir Manchester United á ferlinum, Patrice Evra enn færri. Þeir skoruðu báðir gegn Roma, Carrick með tvö glæsimörk. Alan Smith, Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo x2 skoruðu rest. Þetta var stærsti sigur Manchester United í Evrópu síðan liðið vann írska liðið Waterford með sömu tölum í október 1968.
Eftir um klukkutíma leik kom Ole Gunnar Solskjær inn á fyrir Ryan Giggs. Þetta var síðasti Evrópuleikurinn sem Solskjær spilaði fyrir Manchester United á ferlinum. Hann náði því miður ekki að skora. Hann spilaði 7 leiki til viðbótar fyrir félagið, náði að vinna deildina með United en tapaði svo lokaleiknum sínum í bikarúrslitum gegn Chelsea.
Roma hefur sennilega verið komið með nóg af Manchester United eftir þennan leik en þurfti svo að standa í því tímabilið á eftir að mæta United fjórum sinnum. Fyrst drógust liðin saman í F-riðil ásamt Sporting og Dynamo Kyiv.
Fyrri leikurinn var spilaður á Old Trafford í byrjun október 2007. Wayne Rooney skoraði eina mark þess leiks í 1-0 sigri. Seinni leikurinn var spilaður um miðjan desember og endaði 1-1 þar sem Gerard Pique kom United yfir í fyrri hálfleik en Alessandro Mancini jafnaði fyrir heimamenn í seinni hálfleik.
Manchester United endaði í efsta sæti riðilsins með 16 stig af 18 mögulegum. Roma endaði í 2. sæti með 11 stig.
United sló svo Lyon út í 16-liða úrslitum á meðan Roma gerði sér lítið fyrir og tók Real Madrid út með því að vinna báða leikina gegn þeim með 2 mörkum gegn 1.
United og Roma mættust því aftur í 8-liða úrslitum. Þótt það hafi ekki verið neitt 7-1 rúst í þetta skiptið þá sigldi United einvíginu mjög þægilega í land með því að byrja á 0-2 útisigri í fyrri leiknum og taka svo 1-0 heimasigur í þeim síðari. Ronaldo setti tóninn með einhverju magnaðasta skallamarki sem Meistaradeildin hefur séð. Rooney bætti svo við á Ítalíu en Tevez tryggði sigurinn í Manchester.
Manchester United fór svo alla leið í úrslit það árið og vann Meistaradeildina. Það var nú bara alls ekkert leiðinlegt.
Hin undanúrslitaviðureignin í Evrópudeildinni
Í hinni undanúrslitaviðureigninni í Evrópudeildinni mætast Villareal, sem er í 7. sæti í spænsku úrvalsdeildinni, og Arsenal, sem er í 10. sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Það verður áhugavert að sjá hvað Unai Emery gerir gegn sínum gamla liði. Hann hefur auðvitað mikla og góða reynslu af Evrópudeildinni eftir að hafa unnið hana þrjú ár í röð með Sevilla á árunum 2014-2016. Hann náði líka að koma Arsenal í úrslitaleikinn 2019 en tapaði þar fyrir Chelsea.
Seinni leikirnir í báðum einvígjum verða spilaðir fimmtudagskvöldið 6. maí, klukkan 19:00.
Robbi Mich says
Fyndið að þú nefnir að Phil Jones sé meiddur og geti því ekki spilað. Er hann bara endalaust meiddur, án pásu? Hvenær spilaði hann eiginlega síðast fyrir félagið? Mundi ekki einu sinni eftir því að hann er ennþá leikmaður okkar. Er ekki kominn tími til að losa hann undan samning?
Halldór Marteins says
Phil Jones hefur núna verið skráður meiddur síðan 20. júní og misst af 68 leikjum á þeim tíma. Síðasti leikur sem hann náði hins vegar að spila var bikarleikur gegn Tranmere í janúar 2020. Hann náði aðeins 8 leikjum tímabilið 2019-20.
Fyrir utan það hefur hann átt 5 tímabil þar sem hann spilaði 24-26 leiki, eitt tímabil með 13 leikjum og svo eitt 39 og eitt 41 leiks tímabil. En þetta er orðið svakalega mikið af meiðslum. Fjölbreyttum meiðslum líka, ekki eins og það sé alltaf það sama sem er að angra hann.
Hann er á samningi fram að sumri 2023, með möguleika á ársframlengingu. Væri líklega of dýrt að losa hann beint undan samningi. Frekar að reyna að koma honum á fætur, leyfa honum að sprikla eitthvað og sjá hvort hann geti þá annað hvort hangið heill til að gagnast eða nógu heill til að hægt sé að selja hann. Annars fer hann bara 2023.
Audunn says
Flott upphitun, er reyndar alveg ósammála því að Eric Bailly sé frábær miðvörður á sínum degi, man amk aldrei eftir að hafa séð hann frábæran. Hann getur jú alveg verið góður og jafnvel mjög góður á sínum degi.
Enn vonandi fáum við góðan leik hjá okkar mönnum, ætla að spá 2-0..
Áfram Man.Utd
Halldór Marteins says
Já, ég skil hvað þú meinar með Bailly, Auðunn. Ég greip kannski aðeins of sterkt orð þarna til að lýsa honum. Mjög góður á sínum degi passar betur. Vonum að hann eigi meiri stöðugleika inni, bæði hvað meiðsli og spilamennsku varðar.