Eftir 60 leiki spilaða í öllum keppnum og 120 mörk skoruð er komið að lokaleik tímabilsins hjá Manchester United. Síðasti leikurinn er sjálfur úrslitaleikurinn í Evrópudeildinni með tækifæri til að enda tímabilið á hápunkti og tryggja sér um leið sæti í fyrsta styrkleikahópi fyrir Meistaradeildina á næsta tímabili.
Leikurinn fer fram annað kvöld, miðvikudaginn 26. maí, og hefst klukkan 19:00. Dómarinn í leiknum verður Clément Turpin frá Frakklandi.
Byrjunarliðspælingar
Anthony Martial og Phil Jones ná ekki leiknum vegna meiðsla. Þá er útlit fyrir að fyrirliði liðsins og leiðtogi í vörninni, Harry Maguire, verði ekki búinn að jafna sig af meiðslum sem hann hlaut gegn Aston Villa um daginn. Það er ekki gott að vera án hans í svona mikilvægum leik, hann hefur ítrekað sýnt hversu góður varnamaður hann er og mikilvægur fyrir liðið. Hann hefur verið flottur leiðtogi innan sem utan vallar síðan hann kom til United og verður áfram mikilvægur í hópnum þótt hann nái líklega ekki að spila leikinn. En það er vonandi að aðrir leikmenn geti stigið upp í hans fjarveru.
Byrjunarlið Manchester United velur sig nokkurn veginn sjálft. Helsta spurningamerkið er hver muni taka stöðu fyrirliðans í hjarta varnarinnar. Ég ætla að spá þessu byrjunarliði:
Tuanzebe gæti spilað í vörninni frekar en Bailly en ég ætla að spá þessu svona. Svo er náttúrulega spurning hvort de Gea fái að taka þennan leik eða Henderson. Hallast að því að Spánverjinn fái að taka þennan leik, hann fær þá tækifærið sem hann fékk ekki árið 2017 til þess að loka þessum titli inni á vellinum.
Hjá Spánverjunum er miðjumaðurinn Vicente Iborra meiddur. Hann kom töluvert við sögu hjá Villarreal fyrir áramót en hefur ekkert spilað fyrir liðið síðan í desember.
Kantmaðurinn Samuel Chukwueze og miðjumaðurinn Juan Foyth eru tæpir fyrir leikinn. Það er búist við að Villarreal stilli upp í stálheiðarlegu 4-4-2 og byrjunarliðið verði á þessa leið:
Villarreal hefur þó líka verið duglegt að spila 4-3-3 á tímabilinu, eða 4-1-4-1. Það verður áhugavert að sjá hvernig Evrópudeildarséníið Unai Emery teiknar upp þennan leik.
Aðalmarkvörður Villarreal er Sergio Asenjo, hann hefur varið mark liðsins í deildinni í vetur. Hins vegar hefur Emery valið að nota frekar hinn argentínska Gerónimo Rulli í Evrópudeildinni. Rulli kom til liðsins í september á síðasta ári frá Real Sociedad. Hann hefur aðeins tekið þátt í 3 deildarleikjum fyrir Villarreal en hefur spilað 12 af 14 Evrópudeildarleikjum liðsins á tímabilinu. Hann spilaði þó lokaleik liðsins í deildinni, gegn Real Madrid, um helgina.
Manchester United
Manchester United kláraði 2. sætið í deildinni mjög örugglega. Engu skipti þótt liðið tapaði nokkrum stigum í síðustu leikjum þegar leikir pökkuðust margir upp á stuttum tíma, silfrið var öruggt fyrir löngu. Einhverjir púllarar hafa gert grín að því að aðeins muni 5 stigum á liðunum þrátt fyrir að þeirra lið hafi átt glatað tímabil en okkar lið það besta í lengri tíma. Þeir mega reyna að hlæja að því eftir lélegustu titilvörn liðs í lengri tíma. Munurinn á þessum liðum í vetur var meiri en 5 stig og við vitum það öll. Eins og Zunderman fór vel yfir í góðri grein um daginn þá er Liverpool loksins búið að fá það sem liðið á skilið.
En hvað um það. Liverpool vann ekki neitt á tímabilinu og átti eðlilega slakara tímabil en Manchester United. Í fyrsta skipti síðan Ferguson hætti er liðið búið að landa Meistaradeildarsæti tvö tímabil í röð, það er mjög flott. Nú þarf að byggja á því með því að klára þennan titil og styrkja svo liðið vel í sumarglugganum til að gera alvöru atlögu að deildarsigri og almennilegum árangri í Meistaradeildinni á næsta tímabili.
Ég veit. Ég veit. Glazerarnir eru víst ennþá eigendur þessa félags. Því miður. En það má krossa putta og vona að þessi frábæru og mikilvægu mótmæli síðustu vikna hafi fengið þessa þumba sem eiga félagið til að hugsa sig um þannig að þeir ákveði að leyfa United að eyða sínum peningum með réttum hætti í ár.
Fyrst er það þó að klára þetta tímabil.
Manchester United hóf tímabilið í Meistaradeildinni og byrjaði stórkostlega með útisigri á PSG og algjörum meistaratöktum gegn RB Leipzig í fyrstu tveimur umferðunum. Svo fór allt til fjandans sem byrjaði á grínvarnarleik eftir hornspyrnu Manchester United í Istanbúl og endaði með 3. sæti í riðlinum þegar komið var fram í desember. Það var ekki gott og eðlilegt að margir spyrðu spurninga um Solskjær og þjálfarateymið eftir það.
En spilamennska liðsins í Evrópudeildinni eftir að liðið endaði þar hefur heilt yfir verið góð. Leið Manchester United í úrslitaleikinn var svona:
- 32-liða úrslit: Real Sociedad
- Fyrri leikur: 0-4 sigur á útivelli
- Seinni leikur: 0-0 jafntefli á heimavelli
- 16-liða úrslit: AC Milan
- Fyrri leikur: 1-1 jafntefli á heimavelli
- Seinni leikur: 0-1 sigur á útivelli
- 8-liða úrslit: Granada
- Undanúrslit: AS Roma
Eins og sést er mjög sterkt spánskt-ítalskt mynstur á þátttöku Manchester United í Evrópudeildinni í ár. Það kom líklega aldrei til greina annað en United myndi mæta spænsku liði í úrslitaleiknum, svona miðað við hvernig dróst í hinar umferðirnar. Þrátt fyrir að liðið hafi stundum hikstað þá hefur það samt sem áður verið betra liðið á öllum stigum mótsins og siglt í gegnum umferðirnar af þó nokkru öryggi þegar upp var staðið. Vonandi að sú fagmennska fylgi liðinu áfram í úrslitaleikinn, þá á liðið góðan möguleika á að lyfta Evrópudeildarbikarnum aftur.
Manchester United telst tæknilega séð vera útiliðið í þessum úrslitaleik. Miðað við árangur liðsins á útivöllum í vetur ætti það bara að vera til bóta.
Villarreal
Villarreal byrjaði vel í spænsku deildinni á tímabilinu, nánast allan fyrri hluta tímabilsins var liðið í topp 4 og liðið tapaði aðeins 2 leikjum í fyrstu 22 umferðunum. Hins vegar gerði liðið mikið af jafnteflum. Það fjaraði svo undan árangrinum seinni partinn og á endanum lenti Villarreal í sjöunda sæti deildarinnar. Það dugir þeim hvorki til að komast í Meistaradeildina né Evrópudeildina. Villarreal þarf að vinna þennan leik og Evrópudeildina til að komast í Meistaradeildina á næsta ári. Ef ekki þá verður liðið í umspili um að komast í nýju Evrópukeppnina ásamt Tottenham Hotspur og Roma.
Villarreal endaði síðasta tímabil í fimmta sæti og var því í Evrópudeildinni frá byrjun á þessu tímabili. Liðið var dregið í I-riðil ásamt Maccabi Tel Aviv, Sivasspor og Qarabag. Fyrir utan jafntefli á útivelli gegn Maccabi Tel Aviv náði spænska liðið að vinna alla hina leikina og tók efsta sæti riðilsins nokkuð örugglega. Í lokaleiknum var Villarreal dæmdur sigur gegn Qarabag en í hinum 5 leikjunum skoraði Villarreal 14 mörk og fékk 5 á sig.
Leið Villarreal í úrslitaleikinn var svona:
- 32-liða úrslit: Red Bull Salzburg
- Fyrri leikur: 0-2 sigur á útivelli
- Seinni leikur: 2-1 sigur á heimavelli
- 16-liða úrslit: Dynamo Kiyv
- Fyrri leikur: 0-2 sigur á útivelli
- Seinni leikur: 2-0 sigur á heimavelli
- 8-liða úrslit: Dinamo Zagreb
- Fyrri leikur: 0-1 sigur á útivelli
- Seinni leikur: 2-1 sigur á heimavelli
- Undanúrslit: Arsenal
- Fyrri leikur: 2-1 sigur á heimavelli
- Seinni leikur: 0-0 jafntefli á útivelli
Eins og sést af úrslitunum þá hefur Villarreal verið að gera mjög gott mót í Evrópu. Enginn tapleikur hjá þeim ennþá, aðeins tvö jafntefli í heildina og 12 sigurleikir. Liðið tók tvo sigurleiki í öllum umferðum og landaði svo sigrinum gegn Arsenal með því að loka alveg á Lundúnarliðið á útivelli. Liðið fær ekki mörg mörk á sig en skorar í flestum leikjum.
Villarreal hefur á 98 ára sögu sinni ekki unnið mjög marga titla eða bikara. Besti árangur liðsins í deildinni var 2. sæti í spænsku úrvalsdeildinni tímabilið 2007-08. Annað sætið er meira að segja besti árangur liðsins í annarri og þriðju deildinni líka. Hins vegar vann liðið Tercera División, fjórðu efstu deildina á Spáni, árið 1970.
Í Evrópu hefur Villarreal einu sinni komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Það var tímabilið 2005-06 þegar Villarreal og Benfica komust upp úr D-riðli á meðan Lille fór í Evrópudeildina og Manchester United sat eftir í neðsta sæti.
Villarreal vann svo Rangers og Inter á útivallarmarkareglunni áður en liðið tapaði fyrir Arsenal í undanúrslitum.
Þrisvar sinnum hefur Villarreal komist í undanúrslit Evrópudeildarinnar en reyndar vann liðið Intertótó-keppnina tvö ár í röð, árin 2003 og 2004.
En þótt Villarreal hafi ekki mikla reynslu af því að vinna alvöru keppnir þá eru þeir með knattspyrnustjóra sem hefur mikla reynslu af Evrópudeildinni. Unai Emery tók við liðinu síðasta sumar og hann kann að vinna þessa keppni. Villarreal er fimmta spænska liðið sem hann stýrir en auk þeirra hefur hann meðal annars stýrt PSG og Arsenal.
Emery vann Evrópudeildina þrjú ár í röð með Sevilla árin 2014-2016. Að auki komst hann í úrslitaleikinn með Arsenal tímabilið 2018-19 en tapaði þar fyrir Chelsea. Hjá PSG vann hann frönsku deildina og franska bikarinn en náði ekki árangri í Evrópu.
Helsti sóknarleikmaður Villarreal síðustu árin hefur verið Gerard Moreno. Þessi 29 ára gamli framherji hefur raðað inn mörkunum og er núna í 2. sæti yfir markahæstu leikmenn í sögu félagsins með 81 mark. Hann vantar aðeins 1 mark til að ná Giuseppe Rossi, fyrrum leikmanni Manchester United, sem skoraði 82 mörk á árunum 2007 til 2013 með Villarreal.
Moreno kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Villarreal. Hann tók eitt lánstímabil með Mallorca og fjögur tímabil hjá Espanyol en hefur annars spilað allan sinn feril hjá Villarreal. Núverandi tímabil hefur verið hans besta hvað markaskorun varðar, hann skoraði 23 mörk í spænsku deildinni (endaði í 2. sæti yfir markaskorara ásamt Karim Benzema) og hefur skorað 6 mörk til þessa í Evrópudeildinni.
Moreno er líka duglegur að leggja upp fyrir samherjana, er með 7 stoðsendingar í deildinni og 3 í Evrópudeildinni. Ljóst að þar er maður sem þarf að hafa góðar gætur á.
Annar mikilvægur leikmaður hjá Villarreal er fyrirliðinn og hægri bakvörðurinn Mario Gaspar. Gaspar hefur spilað allan sinn feril hjá Villarreal og verið með aðalliðinu frá 2009. Hann tók ekki einu sinni lán hjá öðrum félagi. Gaspar hefur nú spilað 405 leiki fyrir Villarreal sem setur hann í annað sæti yfir leikjahæstu menn í sögu félagsins. Aðeins Bruno Soriano náði fleiri leikjum en hann spilaði 425 leiki fyrir Villarreal á árunum 2006 til 2020.
Villarreal var ekkert að hvíla menn í síðasta deildarleik heldur spiluðu á því liði sem menn telja líklegast að byrji gegn United. Þeir náðu að komast yfir gegn Real Madrid með marki frá Yeremi Pino (eftir stoðsendingu frá áðurnefndum Moreno). En Emery var með hugann við úrslitaleikinn og eftir að hann hafði tekið 5 byrjunarliðsleikmenn af velli náðu Karim Benzema og Luka Modric að snúa leiknum við á síðustu 5 mínútum leiksins.
Spænska félagið vill oftar en ekki halda boltanum, spila honum á milli sín og reyna að þræða sig í gegnum varnir andstæðinganna. Þeir geta þó alveg dottið í að verjast neðarlega og leyfa andstæðingunum að halda boltanum ef þeir mæta stærri liðum og það hentar þeim betur.
Styrkleiki liðsins eru sendingar, sérstaklega stungusendingar í gegnum varnir, sköpun skotfæra og að klára færin sín. Þá þykir liðið gott í að verjast föstum leikatriðum. Veikleikar liðsins eru hins vegar að þeir eru gjarnan gómaðir í rangstöðu, þykja ekki góðir í skallaeinvígum og eiga erfitt með að verja forskot og koma í veg fyrir að andstæðingurinn skapi færi. Þá hafa þeir átt það til að brenna sig á einstaklingsmistökum í vetur.
Saga liðanna í gegnum tíðina
Það hafa jafn mörg mörk verið skoruð í leikjum milli Manchester United og Villarreal í sögunni og hafa verið skoruð mörk í leikjum Manchester United gegn Leikni Reykjavík. Helsti munurinn er þó að Manchester United hefur mætt Villarreal fjórum sinnum á knattspyrnuvellinum en ekki mætt Leikni Reykjavík. Ekki ennþá allavega!
Það er í sjálfu sér ekki mikið að segja um þessar viðureignir. Liðin drógust saman í riðlakeppninni tímabilið 2005-06 og aftur tímabilið 2008-09. Í bæði skiptin enduðu báðir leikirnir með markalausu jafntefli.
Reyndar fékk Wayne Rooney rautt spjald í fyrsta leik liðanna fyrir að klappa fyrir dómaranum, Kim Milton Nielsen. Það var svona líklega það helsta. United sat eftir í riðlinum í fyrra skiptið en bæði United og Villarreal fóru áfram upp úr riðlinum í seinna skiptið.
Dómarinn
Dómarinn Clément Turpin hélt upp á 39 ára afmælið sitt fyrr í þessum mánuði. Hann er frá bænum Oullins í Auvergne-Rhône-Alpes héraðinu í suðausturhluta Frakklands.
Turpin hóf að dæma í knattspyrnudeildum Frakklands árið 2006 og var farinn að dæma í efstu deild 2008. Hann varð alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2010 og var settur á elítu-lista FIFA 2012. Hann dæmdi í lokakeppni EM 2016 og á HM 2018 auk þess að dæma í undankeppnum. Hann dæmdi líka á Ólympíuleikunum 2016 og var það sama ár valinn besti dómarinn í Frakklandi af knattspyrnusambandinu þar í landi.
Turpin hefur dæmt 91 leik fyrir UEFA, þar af 28 í Evrópudeildinni. Hann dæmdi leik Manchester United gegn FC Kaupmannahöfn á Old Trafford í Evrópudeildinni á síðasta tímabili, sem okkar menn sigruðu með 1 marki gegn engu.
Þar áður hafði hann dæmt leik United gegn Sevilla á útivelli í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2018. Sá leikur endaði 0-0 en við þurfum ekkert sérstaklega að rifja upp hvernig seinni leikurinn endaði…
Turpin hefur dæmt einn leik með Villarreal áður, það var leikur liðsins gegn Sporting í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í febrúar 2019. Villareal vann þann leik á útivelli 0-1.
Með Turpin í þessum leik verða flaggararnir Nicolas Danos og Cyril Gringore, myndbandsdómarinn Francois Letexier, aðstoðarmyndbandsdómararnir Jerome Brisard, Benjamin Pages og Pol van Boekel og fjórði dómarinn Slavko Vincic.
Vonum svo að þetta tímabil klárist á jákvæðum nótum. Áfram Manchester United!
Solvi says
Upphitun fyrir úrslitaleik í b-deildinni en samt tekst greinahöfundi að væla yfir gengi LFC.
Halldór Marteins says
Það er nú ekkert gengi til að væla yfir.
S Ó says
Búið að birta myndir frá æfingu í Gdansk og W. Fish hvergi sjáanlegur.
Audunn says
Það er eitthvað svo týpískt að Ole og félagar klúðri þessum leik.
Vona það besta en býst við því versta.
Skaginn says
Solvi: “Always the victim…”
Solvi says
Spurðu Brúnó,hann veit allt um það.
Gunnar says
Eruð þið hættir með Djöflavarpið?