Cristiano Ronaldo var ekki lengi að minna á sig í sínum fyrsta leik í United-treyju á Old Trafford síðan í maí 2009. Hann skoraði 2 mörk og hjálpaði Manchester United að komast í toppsæti deildarinnar eftir 4-1 sigur. Bruno Fernandes og Jesse Lingard skoruðu hin mörk okkar manna í leiknum.
Þetta var fyrsti leikur Raphaël Varane á Old Trafford eftir að hann gekk til liðs við Manchester United. Newcastle United lagði stífa áherslu á varnarvinnu og aga með skyndisóknum inn á milli. Flestar þeirra trufluðu vörn United lítið en einstaka sinnum náðu þeir að skapa hættu og skoruðu eitt mark eftir frábæra skyndisókn.
Bestu leikmenn Manchester United í leiknum voru Paul Pogba og Ronaldo. Nemanja Matic, Luke Shaw og Varane komust líka mjög vel frá þessum leik að mínu mati.
Það var líka mjög skemmtilegt að sjá Jesse Lingard skora aftur á Old Trafford. Eftir erfiða tíma í sínu lífi innan sem utan vallar og svo afskaplega vel heppnaða og skemmtilega upprisu með West Ham þá var virkilega sætt að sjá hann halda áfram að byggja ofan á þann góða árangur nema í þetta skiptið í Manchester United treyju. Kannski verður þetta síðasta tímabil hans hjá United en megi það þá verða sem skemmtilegast fyrir hann og okkur!
Byrjunarliðin
Byrjunarlið Manchester United var nákvæmlega eins og skýrsluhöfundur spáði í upphitun. Það að krafa Brasilíu um að Fred færi í 5 daga bann var afturkölluð hafði engin áhrif á liðsvalið.
Bekkur: Heaton, Bailly, Dalot, Lindelöf, Fred, Lingard, Mata, van de Beek, Martial.
Gestirnir hófu leik með þetta lið inni á vellinum:
Bekkur: Darlow, Schär, Lewis, Hendrick, Krafth, Fernández, Murphy, Gayle, White.
Helstu atvik
Skiptingar:
Jesse Lingard kom inn á fyrir Jadon Sancho á 66. mínútu. Sancho hafði verið sprækur fram að þessu og mikið að reyna. Stundum var hann kannski að reyna of mikið sjálfur eða reyna of mikið að finna Ronaldo en við viljum auðvitað sjá hann reyna alls konar. Lingard átti góða innkomu. Vann að vanda vel fyrir liðið og skoraði gott mark.
Anthony Martial og Donny van de Beek komu inn á á 85. mínútu fyrir Bruno Fernandes og Mason Greenwood. Þeir fengu ekki mikinn tíma en reyndu samt að sýna sig sem mest. Áttu báðir mjög fínan þátt í markinu hjá Lingard.
Gul spjöld:
Bara eitt gult spjald kom í leiknum. Það var á Paul Pogba á 60. mínútu. Það var ekki fyrir miklar sakir. Á móti var alveg hreint ótrúlegt að Woodman í marki Newcastle hafi ekki fengið áminningu fyrir að tefja frá fyrstu mínútu og taka endalausan tíma í öll útspörk. Hann fékk þó tiltal á 25. mínútu, sem segir sitt.
Mörkin:
Fyrsta markið – Ronaldo 45+1′ (1-0)
Leikmenn Manchester United höfðu mikið reynt að finna Ronaldo í upphafi leiks. Oft með aðeins of langsóttum eða erfiðum sendingum. Í uppbótartíma virtist Mason Greenwood vera kominn með nóg af slíkum pælingum og lét einfaldlega vaða sjálfur. Boltinn hrökk aðeins af varnarmanni Newcastle sem fipaði Woodman í markinu þannig að hann náði ekki að halda boltanum. Boltinn hrökk út í markteiginn þar sem gammurinn Ronaldo var búinn að lesa stöðuna fyrir mörgum vikum síðan (byrjaði alltént að hlaupa áður en Mason skaut) og skoraði. Virkilega vel gert hjá Mason og Ronaldo.
Cristiano Ronaldo skoraði auðvitað í endurkomunni til Manchester United. pic.twitter.com/0hSWiy5OJR
— Síminn (@siminn) September 11, 2021
Annað markið – Manquillo 56′ (1-1)
Newcastle átti helst tækifæri í leiknum í gegnum skyndisóknir og flestar þeirra voru auðveldar viðfangs fyrir varnarlínu United. Í þetta skiptið náði Miguel Almirón hins vegar frábærum spretti upp völlinn, vann einvígi við Maguire og brunaði upp völlinn. Gaf á Allan Saint-Maximin sem fann bakvörðinn Manquillo í yfirhlaupinu. Sá átti fast slútt sem de Gea réð ekki við. Margir munu sjálfsagt setja spurningamerki við Maguire í þessu marki en þetta var líka einfaldlega virkilega vel gert hjá Newcastle.
Þriðja markið – Ronaldo 62′ (2-1)
Talandi um góðar skyndisóknir þá var seinna mark Ronaldo í dag eftir frábæra skyndisókn hjá Manchester United. Eftir smá spil við vítateig Manchester United til að losa pressu fékk Luke Shaw boltann og setti einfaldlega í fimmta gír. Skeiðaði upp völlinn og fann svo hárréttan tímapunkt til að gefa vel vigtaða stungusendingu á Ronaldo. Ronaldo bar boltann áfram inn í teig og þrumaði honum svo í markið, óverjandi fyrir Woodman í marki Newcastle. Stórgott mark og vel unnið hjá báðum.
Fjórða markið – Bruno Fernandes 80′ (3-1)
Eftir hornspyrnu frá Newcastle átti David de Gea gjörsamlega stórkostlegt útspark beint á Mason Greenwood frammi. Eftir smá spil barst boltinn á Pogba sem renndi honum til hliðar á Bruno Fernandes. Portúgalinn var ekkert að pæla mikið í þessu heldur átti frábært langskot sem hafnaði óverjandi í marki Newcastle, rétt undir slánni. Frábært mark!
Fimmta markið – Jesse Lingard 90+1′ (4-1)
Manchester United hélt boltanum vel í lokin eftir að Newcastle hafði eiginlega gefist upp. Margir menn voru í boltanum, Donny gaf á Pogba sem þræddi hann í gegnum vörnina inn á teiginn. Martial steig yfir boltann án þess að snerta hann og Jesse Lingard náði að snúa sér og slútta vel. Flott mark og liðið fagnaði vel.
Pælingar eftir leik
Newcastle United kom vissulega á Old Trafford til að liggja vel til baka og spila agað. Þeir tví- og þrídekkuðu helstu sóknarógnir Manchester United svo það þurfti þolinmæði til að brjóta þetta niður. Það hafðist á endanum og virtist í raun ekki í mikilli hættu. Það hefði alveg mátt vera meiri ákefð í spilinu á tímum, meiri hraði, meiri kraftur. En Manchester United hafði mikla yfirburði í þessum leik og úrslitin voru mjög sanngjörn miðað við spilamennsku. Samt er líka hægt að segja að Newcastle United hafi staðið sig að mörgu leyti vel.
Ronaldo kemur ekki bara með mörk í þetta lið, hann kemur líka með rosalegt hugarfar og mikla stemningu. Hún var áþreifanleg á vellinum og mun án efa skila sér inn í liðið áfram í vetur.
Paul Pogba var frábær í leiknum. Það slapp til að hafa hann aftarlega á miðjunni og rúmlega það.
Paul Pogba’s game by numbers vs. Newcastle United:
124 total touches
92% pass accuracy
23 passes into the final third
12 attempted long passes
9 successful long passes
9 passes into the box
7 ball recoveries
5 attempted tackles
3 successful tackles
2 assistsUnreal. 🅰️🅰️ pic.twitter.com/NoJn2HlARg
— Statman Dave (@StatmanDave) September 11, 2021
Bruno þurfti ekki að gera allt og hefur oft verið betri en skoraði samt sturlað mark og var næstum búinn að taka gott Beckham-tribute mark frá miðju. Flott að eiga meira af honum inni.
Ronaldo er núna kominn með 120 mörk fyrir Manchester United. Hann er 1 marki frá Andy Cole og 6 mörkum frá Solskjær. Hann er 133 mörkum frá Wayne Rooney og stefnir líklega á að komast nær honum með hverjum leiknum.
Manchester United er komið á topp deildarinnar. Það er frábært.
Næsti leikur Manchester United er á þriðjudaginn þegar United fer til Sviss og mætir Young Boys í fyrsta leik liðsins í Meistaradeild Evrópu á þessu tímabili. Næsti deildarleikur er svo á sunnudaginn þegar liðið mætir David Moyes og lærisveinum hans í West Ham United. Meira fjör, meira stuð!
Hver var þinn maður leiksins í dag?
Gummi says
Ekkert skapað neitt í 45 mín er ekki gott
Egill says
Viva Ronaldo!!
Þetta var það besta sem gat gerst, nú þurfa Newcastle að sækja framar
Scaltastic says
Sú fintan! (J – Lingz)
Liðið saknar McTominay rosalega mikið. Matic og Pogba voru í bölvuðu basli í dag, þó svo að Pogba bæti það hressilega upp sóknarlega. Væri til að sjá hann út á væng í næsta leik. Ronny klínískur að vanda og Varane smellpassar í liðið. 10 punktar í höfn og liðið er ekki komið almennilega í takt… ég kvarta ekki :)
Robbi Mich says
Þvílíkur dagur!
Valdi says
Gaman að sjá CR7. Má ekki enn senda menn í lán? (Fred)
Bjarni Þór says
Ánægður með að okkar menn fundu útúr aftarlegum varnar tilbrögðum Newcastle, eitthvað sem hefur vantað síðastliðin ár. Þessi lowblock lið hafa verið akkilesarhæll þar sem við töpum stigum.
Helgi P says
Fínn sigur en við verðum að fara spila betur
Árni Björnsson says
Mörg lið sem koma á Old Trafford spila eins og Newcastle gerði, og þá þarf oft þolinmæði til að sigrast á því. Það tókst mjög vel í dag og ég vona að United hafi áfram þá hæfileika til að vinna leiki á síðustu mínútunum eins og þeir hafa svo oft gert.
Árni