Síðasti rúmi mánuður hefur ekki verið sá besti hjá Manchester United eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við liðinu. 4 slæm töp í 7 leikjum, ósannfærandi spilamennska og þessir 2 sigurleikir sem hafa þó komið hafa verið ansi tæpir. Efasemdaraddirnar um Solskjær hafa hækkað til muna á síðustu vikum og liðið á verulega erfiða leikjatörn framundan. Þrátt fyrir að þeir fjölmiðlamenn sem hafa tengingar við félagið staðhæfi að Solskjær hafi fullt traust innan Manchester United áfram þá fær maður samt á tilfinninguna að liðið og þjálfarahópurinn séu með bakið upp að veggnum núna.
Fyrsti leikurinn í því verkefni er Meistaradeildarleikur á Old Trafford gegn ítalska liðinu Atalanta. Leikurinn er annað kvöld og hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Dómarinn verður Pólverjinn Szymon Marciniak.
Manchester United
Manchester United hefur gert óþarflega stórt verkefni úr þessum riðli miðað við styrkleika hans fyrirfram. Liðið missti vissulega mann af velli með rautt spjald í tapinu gegn Young Boys í fyrstu umferð en United á alltaf að vera miklu sterkara lið en Young Boys og spilamennskan bæði fyrir og eftir rauða spjaldið var ekki sæmandi fyrir lið með jafn marga gæðaleikmenn innanborðs og Manchester United. Villareal geta verið seigir og það var gott að ná loksins sigri gegn þeim en spilamennskan var áfram áhyggjuefni. Villareal kom á Old Trafford og leit löngum stundum út eins og betra liðið. Það er ákveðinn styrkleiki að hafa þó samt náð 3 stigum. En fjandinn hafi það, liðið hlýtur að geta fundið meira mojo en þetta! Vonum að þetta verði leikurinn til að starta góðu tímabili af skemmtilegri og árangursríkri spilamennsku. Það má alltaf vona.
Það eru nokkrir meiddir hjá Manchester United. Varane, Martial og Amad eru allir frá vegna meiðsla á meðan Fred og Cavani eru tæpir. Það var augljóst á síðasta leik að Harry Maguire var enn meiddur í þeim leik og alls ekki tilbúinn í leikinn (hann er svo sannarlega ekki svona lélegur í fótbolta). Það er spurning hvort hann fái þennan leik til að jafna sig en Solskjær virðist einfaldlega ekki treysta Eric Bailly. Við höfum þó alltaf Phil Jones…
Ronaldo. Hvað á Solskjær að gera við Ronaldo?
Það ætti ekkert að koma á óvart að Ronaldo pressi ekki, þetta er eitthvað sem við vissum alveg fyrirfram. Spurningin var alltaf að fara að verða hvernig ætti að bæta upp fyrir það með uppleggi frá þjálfurum og vinnusemi annarra leikmanna. En Ronaldo er ekkert endilega maðurinn í alla leiki. Á hann að spila þennan leik og byrja á bekknum gegn Liverpool? Eða byrja á bekknum í þessum leik og byrja gegn Liverpool um helgina? Eða hvað? Kannski er Cavani nógu tæpur til að þetta verði engin sérstök ákvörðun að taka.
Spái þessu byrjunarliði:
Hvernig teljið þið að byrjunarliðið verði?
Atalanta
Í hlaðvarpsumræðu um daginn heyrði ég speking segja að Atalanta væri hálfgert Leeds United þeirra Ítala. Það er vonandi rétt því þá þýðir það að þetta er lið sem hentar Manchester United mjög vel að mæta.
Atalanta var stofnað árið 1907 í borginni Bergamo í Langbarðalandi í norðurhluta Ítalíu. Gælunafn félagsins er La Dea eða Gyðjan þar sem nafnið kemur frá íþróttagyðjunni Atalanta úr rómverskri goðafræði.
Liðið var rokkandi í árangri lengi framan af og flakkaði milli deilda en hefur á síðustu árum haldið sessi í efstu deild og vakið athygli fyrir áhugaverða spilamennsku sem einkennist helst af hugmyndaríkum sóknarbolta. Það hefur skilað sér í því að liðið náði inn á topp 10 listann í ár yfir félög með mestan stuðning á bak við sig á Ítalíu. Á meðan mörg stærri félög hafa verið að safna sér upp aðdáendum innan sem utan lands á síðustu áratugum hefur Atalanta löngum verið með lítinn en góðan stuðning á bak við sig en safnað sér auknu fylgi víðar um Ítalíu og jafnvel utan landssteinanna á síðustu misserum. Félagið hefur líka gefið til baka til sinna stuðningsmanna, til að mynda er treyjunúmerið 12 ekki notað hjá Atalanta því það er tileinkað stuðningsmönnum félagsins.
Atalanta hefur einu sinni orðið ítalskur bikarmeistari. Það var tímabilið 1962-63 þegar liðið vann Torino 3-1 í úrslitaleiknum. Auk þess hefur Atalanta fjórum sinnum tapað í úrslitaleik bikarsins, nú síðast á þessu ári. Þessi bikar er eini alvöru titill Atalanta í sögu félagsins en liðið hefur þó sex sinnum unnið Serie B og einu sinni unnið Serie C1 North.
Atalanta hefur reynslu af því að spila í Evrópukeppni bikarhafa, UEFA bikarnum og Evrópudeildinni. Þetta er núna þriðja tímabilið í röð sem Atalanta mætir til leiks í Meistaradeild Evrópu og liðið hefur í síðustu 2 skipti komist upp úr riðlinum. Þetta er líka þriðja skiptið í röð sem liðið er með enskan mótherja í riðlakeppninni. Tímabilið 2018-19 var það Manchester City og á síðasta ári Liverpool. Atalanta náði jafntefli við Manchester City á heimavelli 2019 og í fyrra vann liðið Liverpool á Anfield. Raunar var útivallaárangur liðsins á síðasta ári eftirtektarverður þar sem Atalanta vann alla útileikina sína en engan heimaleik (gerði þó jafntefli á heimavelli gegn Ajax og Midtjylland). Ekki nóg með að liðið ynni alla útileikina heldur gerðu þeir það án þess að fá á sig mark.
Félagið hafði auk þess einu sinni mætt Everton í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Það var árið 2017 og Atalantamenn sigruðu þá báða leikina sína gegn Everton, 3-0 á heimavelli og 1-5 á útivelli. Svo þetta er félag sem kann að ná í úrslit gegn enskum liðum.
Þeir enduðu í þriðja sæti í Serie A á síðasta tímabili. Atkvæðamestur hjá liðinu á tímabilinu var Kólumbíumaðurinn Luis Muriel. Muriel kom til Atalanta frá Sevilla árið 2019 og hefur verið iðinn við markaskorun síðan þá. Hann meiddist reyndar í september en hefur verið að koma til baka eftir þau meiðsli. Hann náði fyrri hálfleiknum gegn Empoli núna um helgina og lagði upp eitt mark í 4-1 sigri.
Markahæstur á þessu tímabili er annar Kólumbíumaður, Duván Zapata. Hann hefur skorað 4 mörk í 6 leikjum í deildinni og lagt upp 2 til viðbótar. Auk þess er hann með tvær stoðsendingar í Meistaradeildinni. Annar sem hefur verið sprækur fyrir þá á þessu tímabili er króatíski miðjumaðurinn Mario Pasalic. Hann er kominn með 1 mark og 3 stoðsendingar í 8 leikjum í deildinni.
Atalanta er sem stendur í 6. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar eftir 4 sigurleiki, 2 jafntefli og 2 töp. Markatalan þeirra er 14-10. Í F-riðlinum í Meistaradeildinni er Atalanta í 2. sæti eftir að hafa gert 2-2 jafntefli á útivelli við Villareal í fyrsta leiknum og sigrað svo Young Boys 1-0 á heimavelli í síðustu umferð.
Það er töluvert um meiðsli í herbúðum Atalanta fyrir þessa viðureign. Fyrirliði liðsins, ítalski miðvörðurinn Rafael Tolói, er meiddur. Albanski miðvörðurinn Berat Djimsiti er líka meiddur. Atalanta spilar vanalega með 3 miðverði svo það munar fyrir þá þegar margir miðverðir meiðast. Aðrir á meiðslalistanum þeirra eru Hans Hateboer, Matteo Pessina og Robin Gosens.
Þetta er byrjunarliðið sem spekingarnir reikna með að Atalanta stilli upp:
Ef þetta er rétt þá gæti veiki punkturinn í liði Atalanta verið miðvörðurinn Matteo Lovato. Þessi piltur er fæddur árið 2000 og hefur aðeins leikið 29 mínútur með Atalanta á þessu tímabili sem er hans fyrsta frá því hann kom til félagsins frá Verona.
Annað
Þetta verður fyrsta viðureign þessara liða í sögunni.
Amad Diallo kom til Manchester United frá Atalanta. Þar spilaði hann helst með yngri liðunum og varaliðinu en náði þó að vekja athygli á fáum mínútum með aðalliðinu þar sem hann spilaði samtals tæpan klukkutíma í fimm leikjum en náði þó að skora mark.
Ronaldo mætti Atalanta fjórum sinnum í deildinni með Juventus og allir fjórir leikirnir enduðu með jafntefli. Ronaldo náði þó að skora 3 mörk í þessum 4 leikjum.
Ef Bruno spilar þennan leik þá verður það hans 50. leikur í félagsliðakeppnum á vegum UEFA.
Dómarinn verður Szymon Marciniak frá Płock í Póllandi. Hann varð fertugur í janúar, hefur dæmt 38 leiki í Meistaradeild Evrópu og 93 UEFA leiki í heildina.
Hann hefur áður dæmt leik hjá Manchester United. Það var í riðlakeppninni í nóvember 2015 þegar United vann 1-0 sigur á CSKA Moskva með langþráðu marki eftir mikinn markaþurrk leikina á undan. Þetta verður fyrsti leikurinn sem Pólverjinn dæmir hjá Atalanta.
Skildu eftir svar