Jæja. Þessi leikur tapaðist. 0-2 tap gegn bláa liðinu í Manchester og það var svosem alvitað að verkefnið væri erfitt. Sigurinn var nákvæmlega aldrei í hættu og átti að vera miklu stærri.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United
Manchester City
Fyrri hálfleikur
Það var ljóst frá upphafi að United liðið myndi halda lítið sem ekkert í boltann í leiknum. Þó voru það okkar menn sem áttu fyrsta hálf færi leiksins. Þá átti Luke Shaw ágætis aukaspyrnu inn á teig City og Harry Maguire vann skallaeinvígi við Ruben Dias en boltinn fór talsvert framhjá markinu. Kannski ætluðum við bara að standa upp í hárinu á City?
Mínútu síðar höfðu gestirnir skorað. Eða réttara sagt skoruðum við – bara í vitlaust mark. Sú atburðarrás var að sjálfsögðu jafn gáfuleg og þær eru flestar þegar að United fær á sig mörk. Ilkay Gundogan átti þá virkilega góða fyrirgjöf inn í teig United en Victor Lindelöf kom boltanum frá á elleftu stundu. City hélt boltanum og hann barst út til vinstri á mann leiksins, Joao Cancelo. Portúgalinn setti fastan bolta inná teiginn og hinn yfirvegaði Eric Bailly lúðraði boltanum afar klaufalega í eigið net. Óverjandi fyrir David de Gea. 0-1 fyrir Manchester City.
Næstu 20 mínútur voru City bara á sjálfsstýringu og héldu boltanum. Við komumst ekki nálægt þeim og þeir virtust hreinlega vera á æfingu í að halda boltanum innan liðsins. Okkar menn virkuðu ragir, uppstökkir og síðast en alls ekki síst, óskipulagðir. United tókst þó að byggja upp ágætis sókn á 25. mínútu og Shaw setti ágætan bolta á Ronaldo, sem að tók boltann viðstöðulaust á lofti en Ederson varði í marki City. Meira hafði Brassinn svo ekki að gera, nema þá bara til að taka þátt í uppspili gestanna.
Stuttu síðar kom kafli sem að ég er einhvernveginn enn að átta mig á. City hefði getað verið sirka 6-0 yfir eftir hann. Kevin de Bruyne fékk virkilega gott færi sem að var blokkað af varnarmanni, boltinn skaust til Gabriel Jesus sem var í dauðafæri en David de Gea varði meistaralega í markinu. Lindelöf gerði svo stálheiðarlega tilraun til þess að skora sjálfsmark nr. 2 í leiknum eftir fyrirgjöf Foden, en aftur var de Gea mættur. Mínútu seinna varði Spánverjinn vel frá de Bruyne. Og mínútu eftir það varði hann frá Cancelo. Þetta var glórulaust.
Einni mínútu fyrir hálfleiksflaut frá Michael Oliver kom svo seinna markið. Varnarleikur United enn einu sinni nánast spaugilegur. Cancelo fékk boltann stuttu fyrir utan teig United og lyfti háum bolta á fjærstöngina. Shaw og Maguire voru eins og keilur og de Gea grafkyrr á marklínunni. Bernardo Silva stakk sér fyrir aftan varnarlínuna og bókstaflega tróð boltanum inn á fjærstönginni. 0-2. Michael Oliver blés svo í flautu sína og leikmenn United gengu til búningsherbergja undir bauli frá stuðningsmönnum liðsins.
Seinni hálfleikur
Í hálfleik ákvað Solskjær að breyta yfir í fjögurra manna varnarlínu og tók annan af markaskorurum City, Eric Bailly, útaf og setti Jadon Sancho á vinstri vænginn. Það verður seint sagt að United hafi komið eins og brjálaðir stríðsmenn til leiks í seinni hálfleikinn en þeir fengu að halda aðeins í boltann fyrstu mínúturnar. City sátu aðeins aftar á vellinum en pressuðu um leið og annar varnartengiliður United fékk boltann.
Okkar menn reyndu hvað þeir gátu að þrýsta á City ofar á vellinum, en það reyndist þeim bláklæddu helvíti auðvelt að leysa úr þeirri pressu. Þetta var leikur kattarins að músinni. Bernardo Silva, Kevin de Bruyne, Rodri og Ilkay Gundogan fundu alltaf pláss inn á miðjunni og gátu valið sér sendingar. Það var nokkrum sinnum í leiknum sem að gestirnir héldu boltanum í 2-3 mínútur án þess að rauð treyja kæmist nálægt honum. Gundogan var nálægt því að bæta við þriðja markinu um miðbik seinni hálfleiks en fyrsta snertingin hans var þung og skot hans fór framhjá úr þröngu færi.
Þetta tölfræðiskilti kom upp á 75. mínútu leiksins – úff …
Þegar sirka 20 mínútur lifðu leiks þá var allur kraftur farinn úr stuðningsmönnum United. Þetta var svo vonlaust. Eltingaleikur gegn betra liði sem að var þúsund sinnum betur skipulagt. Marcus Rashford, Alex Telles og Donny van de Beek komu allir inná en þeir breyttu litlu. Það hefði í raun verið sama hver hefði inná komið – ráðaleysið var algjört.
Áfram hélt Manchester City á „cruise control“. Kevin de Bruyne komst í fínasta skotfæri inni í teig United en hitti boltann afar illa. Ef boltinn vannst svo fyrir framan eigin vítateig þá vorum við pressaðir í kaf um leið og boltinn tapaðist strax aftur. Phil Foden slapp í gegn stuttu fyrir leikslok en fast skot hans hafnaði í utanverðri stönginni. Yfirburðirnir gríðarlegir og héldu áfram allt til lokaflauts. Michael Oliver batt svo enda á þjáningar Manchester United á 94. mínútu. Guardiola hafði tekið Ole Gunnar Solskjær í kennslustund. 0-2 lokatölur, en manni leið eins og leikurinn hefði tapast 0-10.
Er þetta búið spil hjá Ole?
Hvað getur maður sagt eftir svona niðurlægingu? Lokatölurnar gefa engan veginn rétta mynd af gangi leiksins og þetta hefði getað orðið svo miklu verra. David de Gea varði nokkrum sinnum meistaralega, en fékk svo á sig ansi klaufalegt mark undir lok fyrri hálfleiks. Við hann verður þó ekki sakast í dag.
Undirritaður vonaðist eftir svari frá Ole og leikmönnum. Að liðið yrði þétt til baka, að leikmenn myndu berjast fyrir hvorn annan og fá fólk á vellinum með sér. Reyna í það minnsta að gera City erfitt fyrir. Það var ekkert að frétta. Sko, nákvæmlega ekkert. Andleysi, ráðaleysi, skipulagsleysi. Það var ekki einn jákvæðan hlut að finna við spilamennsku United í leiknum. Við töpuðum 0-5 fyrir Liverpool um daginn, en frammistaðan í dag var ekki skárri – þó að lokaniðurstaðan sé ekki jafn ljót.
Varnarleikur liðsins á tímabilinu hefur í besta falli verið sorglegur. Ákvarðanatakan og staðsetningarnar bara út úr korti. Luke Shaw var sennilega besti vinstri bakvörður deildarinnar á síðustu leiktíð, en hann hefur verið afleitur framan af þessu. Harry Maguire virðist hafa lent á einhverjum vegg. Ekkert sjálfstraust og laus við allt sem gæti kallast áræðni. Svona mætti lengi telja. Bruno Fernandes komst aldrei í takt við leikinn og virtist meiri áhuga hafa á því að rífast við allt og alla. Leikmenn þurfa að taka ábyrgð. En það er auðveldara að reka einn knattspyrnustjóra, frekar en 22 leikmenn.
Ekki mjög æðisleg tölfræði.
Það vonaði hver einasti aðdáandi Manchester United að hlutirnir myndu ganga upp hjá norsku hetjunni okkar. Sem leikmaður gaf hann okkur stærstu gleðistund lífs okkar sem stuðningsmenn liðsins og hann hefur sannarlega bætt leikmannahópinn síðan hann tók við lúbörðu og eyðilögðu liði Jose Mourinho í desember 2018. Lengra kemst hann ekki með liðið. Eins og Björn Friðgeir talaði um eftir Liverpool tapið, þá er í raun engin leið til baka fyrir hann. Hann hefði þurft að vinna þessa þrjá leiki fyrir landsleikjahlé með markatöluna 20-0 til að endurvekja einhverskonar tiltrú aðdáenda (og leikmanna) á verkefninu.
Hver getur svo tekið við? Þessari spurningu var velt upp eftir 0-5 tapið. Þá var hávær orðrómur um að Antonio Conte vildi ólmur taka við liðinu. Hann er ekki á lausu lengur. Veðbankar telja Brendan Rodgers líklegastan ef að Woodward og co. taka í gikkinn, en vill hann koma? Rodgers hefur stýrt Liverpool og er í virkilega góðu verkefni hjá Leicester. Zidane vill taka við franska landsliðinu, það hefur margoft komið fram. Áðan sá ég meira að segja Roberto Mancini orðaðan við starfið – fyrr skal ég dauður liggja!
Við leysum sennilega ekki þessa þjálfaravitleysu hér í þessari leikskýrslu. Ef að Solskjær fær sparkið, þá vil ég þakka honum fyrir að hafa unnið starfið eftir bestu sannfæringu. Hann hefur gefið sig allan í verkefnið og eins og áður segir, þá rétti hann skútuna af þegar henni hafði verið svo gott sem kafsiglt. Hann er ekki sá heimsklassa stjóri sem að United þarf til að komast aftur á meðal þeirra bestu. Það er engin skömm fólgin í því að viðurkenna það. Það er bara staðan.
Áfram Manchester United
Gummi says
Að við séum að spila park the bus á old trafford með þennan hóp við verðum að fara skipta út þessum trúðum þetta er hætt að vera fyndið
Helgi P says
solskjær þar að fara hætta þessu favorite rugli og fara gefa öðrum sénsinn
Tryggvi T says
Framför samt að halda hreinu í rúmar 6…
Dór says
Við lítum út eins og lélegt fyrstu deildar lið
Arni says
Djöfull er þetta orðið lélegt fótboltalið að það sé ekki löngu búið að reka Solskjær er ótrúlegt þetta er versti stjóri knattspyrnu sögunnar
Zorro says
Man.Utd er ekki lengur rekið sem fòtboltalið..þetta snýst um buisness og söluvarning…..hreinasta hörmung að horfa á leik eftir leik
Gummi says
Staðan gæti verið 5_0 fyrir city hvernig getur þessi maður ferið en þá stjóri united
Einar says
Hvernig er hægt að hafa marga frábæra fótboltamenn og gera þá svona lélega?
Tryggvi T says
Með því að ráða þjálfara sem hefur ekki hugmynd
Arnar says
Þetta hlýtur að vera síðasta hálmstráið. Það hljóta allir að sjá, þ. á m. stjórnin að þetta er búið hjá Ole.
Elis says
Árið er 2021 og Man utd eru komnir í þá stöðu að pakka í 11 manna varnarpakka á heimavelli með lið sem er eitt það dýrasta í heimi.
Þetta er sorglegt ef þú heldur með UTD en frábært ef þú ert einn af stuðningsmönnum sem syngja Ole is at the wheel þessa dagana.
Arni says
Er ekki kominn tími á djöflavarp frá ykkur
Scaltastic says
Til að taka allan vafa af… Bæði Man City og Liverpool eru helmingi betri fótboltalið en United í dag og Ole er vanhæfur í starfið og ætti að fá stígvélið eigi síðar en á morgun, mun það gerast… ó nei :(
Frammistaðan í dag er sú allra aumkunarverðasta sem ég hef séð á Old Trafford, þær hafa btw verið helvíti slakar síðastliðin fjögur ár. Það var hryllilegt að horfa uppá hversu mikla virðingu við sýndum þeim.
Það eru aðeins tveir alvöru sigurvegarar í þessu liði og Varane er að sjálfsögðu meiddur. Eftir þennan horbjóð ætti u – 23 liðið að spila leikinn á móti Watford. Menn eins og Shaw, Greenwood og McTominay ættu að vera utan hóps.
Félagið er í afneitun/tilvistarkreppu. Rekstrarkostnaður vs framtíðarhorfur…. úff það er ekki bjart yfir þessu. Ef það yrði haldið rétt á spilunum þá væri hægt að endurbyggja og skipuleggja félagið þannig að það væri samkeppnishæft á toppnum eftir 10 – 15 ár. Því miður óttast ég að hlutirnir munu versna áður en þeir batna miðað við hverjir stjórna félaginu.
Scaltastic says
Til að koma ritstjórn aðeins til varnar. Þá skil ég þá vel að hlífa sér við því að taka upp podcast eftir back to back rassskelli á heimavelli frá okkar helstu erkióvinum.
Halldór Þormar says
Góður pistill
birgir says
Flestir stuðningsmenn annarra liða spáðu Man Utd betra gengi í deildinni en Liverpool. Þeir styrku sig hressilega og eru með mikið stærri og dýrari hóp.
Rio Ferdinand talaði um þennan mettíma sem það tók Soskjær að komast fram úr Klopp og miðvörðurinn sjálfur sagðist ekkert gefa fyrir þessar endalausu meiðslaafsakanir poolara.
Maður sér núna hvað er að gerast þegar United þarf að rótera miðvörðum eða spila þeim tæpum, en þeir eru ekki enn byrjaðir að færa miðjumenn í vörnina og ólíklegt er að nota þurfi 18 mismunandi miðvarðapör í deildinni einni, sem gerir 2,1 leik á par.
Menn á borð við Rhys Williams sem gerði allt brjálað í fyrstu leikjum sínum á láni hjá Swansea. Hann var það skelfilegur að hann kemst ekki í hópinn hjá þeim í dag. Schalke voru það desperate að losa sig við Ozan Kabak að þeir buðu öllum að kaupa hann á niðursettu verði, en enginn vildi svo hann fór í lán til Norwich og er að ég held búinn að missa stöðuna eftir 2 hræðilega leiki. Ekkert ásættanlegt tilboð kom í Nat Phillips sem lengi vel var fyrir aftan þessa tvo í göggunarröðinni og þetta tímabil hefur hann kominn inn á sem varamaður í einum deildarbikarleik.
Eigendur sem splæsa í Sancho, Varane og Ronaldo eru nefnilega ekkert verri en félagar þeirra sem tíma ekki að borga Mo Sala sömu laun og David De Gea og reyndu að redda tímabundinni miðvarðakrísu með að fá Kabak að láni og kaupa Ben Davies á 500k frá frá Preston, en slúðrað er um að sá gaur sé líklega sá lélegasti sem sést hefur á æfingasvæðinu þar.
davíð says
Hvað er að fara að gerast ?
United er með 700 milljón punda skuldahala, Old Trafford er að drabbast niður o.s.f.
Er eitthvað Barcelona dæmi í uppsiglingu ?
Helgi P says
Það er bara búið að eyðileggja þennan klúbb ég er ekki að sjá okkur komast aftur á sama stal með glazer viðbjóðunum sem eigendur
Hjalti says
Ole sagði eftir síðasta tapleik: „I have come too far to give up“.
Hann er núna kominn ennþá lengra og því sennilega ennþá ólíklegra að hann gefist upp núna.
Egill says
Lélegur stjóri, léleg miðja, léleg vörn og vonlaus fyrirliði. 3 ár og 500 milljón pund í súginn, burt með Ole strax!
David Moyes er að ná betri árangri á skemmri tíma, með minni pening og lélegri hóp heldur en Ole, þetta er orðið vandræðalegt. Eitt mark árið 1999 á ekki að halda honum svona lengi í starfi, Sheringham skoraði og lagði upp í þessum sama leik, eigum við að gefa honum 10 ára samning?
Þetta var æfingaleikur fyrir City, aðeins De Gea og Ronaldo vildu vinna þennan leik.
Reka Ole, rífa fyrirliðabandið af Slabhead og selja hann ásamt Fred og McTom. Shaw og Bissaka mwga svo fara líka. Hlutirnir þurfa að breytast rosalega núna.
Tómas says
Hef heyrt galnari hugmyndir en Mancini… af hverju ekki? Út af City?
Ronaldo hefði gengið til liðs við þá.
Mancini er sigurvegari sést bæði á leikmannaferlinum og þjálfara.
Annars veit ég það ekki… miðað við gengið seinustu ár veit ég ekki hvað hjálpar liðinu!
Davið says
Furðuleg umræða að vilja Ole burt. Hann skilaði okkur ì 2 sæti s.l. leiktìð, menn fljòtir að gleyma þykir mèr. Hvernig væri nú að styðja liðið okkar og þjàlfaran í gegnum þetta. Tel okkur enn eiga gòðan sèns à titlinum, vorum td ekki slakara liðið ì dag þò uppleggið hafi verið òlìkt nàlgun city sem við leyfðum að hafa boltann. Ef ronaldo gerði sett hann verðum við tekið þetta og àttu þà gott tala að gæja um að reka gurdiola, kommon standard hèrna.
Dór says
Davið já við eigum svo mikinn séns á titlinum ef solskjær klárar tímabilið þá endum við í svona 12 sæti hann er með besta leikmannahóp í deildinni en samt spilar hann eins og lið í fallbarátu við þurfum að losna við þennan pappakassa og það strax að spila mcfred í hverjum einasta leik er bara galið við þurfum að fara fá topp þjálfara
Gummi says
Davið þú getur stiðið þessa skitu en ekki vera segja að við þurfum öll að stiðja solskjær það sjá það flest allir að hann er bara ekki góður stjóri
Arni says
Ekki slakara liðið davið ákvað varstu þú að horfa við hefðum getað tapað þessu 6 til 7 núll
Davíð says
Úff, voðalegur æsingur er hèrna. Auðvitað eigum við sjèns à titlinum. Væri kannski betra finnst mèr ef að mèr sem bara ekkert vita à knattspyrnu væri ekki að kommenta hèr.
Scaltastic says
David Moyes… Gjöfin sem heldur áfram að gefa.
Helgi P says
Ef við losum okkur ekki við solskjær strax þá verðum við langt frá 4 sætinu
Sveinbjörn says
Var spenntur fyrir Conte og hefði veirð til í að skipta Ole út fyrir hann eftir livepool afhroðið. En er einhver alvöru stjóri á lausu núna? Hver á að taka við??
Sindri says
Moyes er í 2-3. sæti með West Ham… hvernig ætli staðan væri hjá United ef Moyes hefði bara fengið 100% traust og þolinmæði og hefði verið samfellt með liðið frá því að Ferguson fór?