Það var lagið! 0-2 sigur á Spáni og við erum komnir í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Knattspyrnan var ekki áferðafalleg og við sáum lítið af boltanum á löngum stundum, en það skiptir engu máli úr því að stigin þrjú koma með okkur til Manchester. Michael Carrick gerði nokkrar breytingar á liðinu sem byrjaði síðasta leik. Bruno Fernandes og Marcus Rashford fengu sér sæti á bekknum, auk þess sem að Luke Shaw var meiddur. Í stað þeirra komu Donny van de Beek, Anthony Martial og Alex Telles inn í liðið.
Svona leit byrjunarlið Man Utd út:
Bekkur: Heaton, Henderson, Dalot, Bailly, Fernandes, Mata, Matic, Amad, Rashford
Fyrri hálfleikur
United fékk fyrsta hálffæri leiksins á þriðju mínútu þegar að aukaspyrna Alex Telles rataði á fjærstöngina og beint á koll Scott McTominay, en Skotinn skallaði boltann í hliðarnetið. Eftir þetta tóku Villarreal þó völdin og komu sér í nokkrar álitlegar stöður. David de Gea varði ágætlega frá bæði Moi Gomez og Manu Trigueros og okkar menn virtust lítinn áhuga hafa á því að halda í boltann.
Lítið markvert gerðist þó að Villarreal væri miklu meira með boltann og United gengi skelfilega að byggja upp eitthvað sem líktist sókn. Fyrri hálfleikurinn var, í einu orði sagt, leiðinlegur. Rétt fyrir hálfleiksflaut Felix Brych þá gerðu United heiðarlega tilraun til þess að spila úr markspyrnu en það gekk ekki betur en svo að Aaron Wan-Bissaka missti boltann klaufalega og Arnaut Danjuma komst í ágætis færi en þrumaði boltanum yfir markið. Stuttu síðar flautaði Brych til hálfleiks.
Óskemmtilegur hálfleikur að baki og það mátti brýna á nákvæmlega öllu. Jadon Sancho hafði verið þokkalega líflegur þegar hann hafði komist í boltann en kollegi hans, Anthony Martial, var heillum horfinn og maður veltir því fyrir sér hvort að skoðað verði að fá einhvern aur fyrir Tony í janúar. Victor Lindelöf sömuleiðis leit vel út.
Victor Lindelöf stóð sig vel sem skuggi fyrir Harry Maguire.
Seinni hálfleikur
Það var nokkuð endurtekið efni í upphafi síðari hálfleiks. United komst ekki mikið í boltann en að sama skapi þá voru heimamenn afar lítið að skapa af tækifærum. Eitt slíkt leit þó dagsins ljós á 60. mínútu. Segir kannski ýmislegt að ekki sé frá öðru að segja fram að því… Allavega, þá barst boltinn til Manu Trigueros í vítateig United. Spánverjinn negldi boltanum í jörðina þannig að hann fleyttist á ógnarhraða að marki United en David de Gea varði meistaralega í marki United og hélt stöðunni í 0-0. Sex mínútum síðar gerði Michael Carrick sínar fyrstu breytingar á liðinu. Þá komu Marcus Rashford og Bruno Fernandes inná fyrir van de Beek og Martial.
Allt annað var að sjá til liðsins eftir þessar skiptingar. Á 71. mínútu átti Sancho glimrandi sprett inná vallarhelmingi Villarreal þar sem að hann klippti inn af hægri kantinum. Hann tók gott þríhyrningsspil við Bruno og var einn gegn Geronimo Rulli, en argentíski markmaðurinn varði vel frá Sancho. Eftir færið hélt United uppi góðri pressu og átti langbesta kafla sinn í leiknum. Þeir héldu vel í boltann og Bruno Fernandes sótti boltann villt og galið til þess að dreifa spilinu.
Á 78. mínútu gaf Rulli svo boltann á Étienne Capoue sem að sneri bakinu í markið. Frakkinn var alltof seinn að átta sig á pressu Fred sem að gerði frábærlega í að vinna boltann, sem að barst svo til Cristiano Ronaldo. Hann gerði nákvæmlega engin mistök, enda vissi hann að Rulli væri kominn langt út úr markinu. Herra Meistaradeild lyfti boltanum yfirvegað yfir Rulli og fagnaði vel og innilega. 0-1!
Hefur þessi maður virkilega verið vandamál liðsins?
Eftir mark þurftu Villarreal menn að taka sénsa ef að sækja átti stig úr leiknum. Capoue átti fastan skalla langt yfir markið eftir fyrirgjöf Alberto Moreno, sem margir muna ekki eftir frá tíma hans hjá Liverpool. Í kjölfar þess fengum við nokkra sénsa til að gera út um leikinn. Ronaldo var nálægt því að nýta sér mistök Juan Foyth en laust skot hans fór framhjá markinu úr þröngu færi. Mínútu síðar varði Rulli frá Rashford, sem að hafði gert vel í að leika inn á teig Villarreal.
Það var svo á 90. mínútu sem að smiðshöggið var rekið. Þá endaði Jadon Sancho frábæra skyndisókn United á því að þruma boltanum í slá og inn. 0-2 og við komnir áfram. Ofboðslega auðvelt að samgleðjast Sancho sem að hefur farið hægt af stað með liðinu eftir endalaust umtal síðastliðin tvö ár. Eftir þetta var formsatriði að klára leikinn sem og við gerðum. Brych flautaði til leiksloka og Michael Carrick getur fagnað 100% árangri sem knattspyrnustjóri Manchester United. Nú er bara spurningin hver tekur við – hvort sem það er til bráðabirgða eða til langtíma.
Hver tekur við sem knattspyrnustjóri?
Samkvæmt fjölmiðlum er Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG, lang líklegastur til þess að taka við Manchester United. Aðrir sem að nefndir hafa verið til sögunnar eru t.d. Erik Ten Hag (Ajax), Zinedine Zidane og Ernesto Valverde. Því fyrr sem að orðrómarnir taka enda og við fáum staðfestingu, því betra. Hvern vilja lesendur helst sjá taka við starfinu? Endilega látið í ykkur heyra!
Áfram Manchester United!
Einar H says
Já en Martial ekki beint lifandi.
Scaltastic says
Standandi lófaklapp fyrir Carrick að henda Bruno á bekkinn. Því miður fylgdu Harry og Wan Bissaka ekki með í þeim hrókeringum. Nú er bara að vona að við grísum út eitt stykki stig úr þessari ferð.
Egill says
Hversu mörgum leikjum þarf Maguire að klúðra til þess að verða tekinn úr liðinu?
Helgi P says
Ekki gleyma mcfred það er ótrúlegt hvað þeir er búnir að spila mikið og ekki getað neitt
Zorro says
De Gea bjargar…liðið er með ekkert sjalfstraut…svo er sköpunargáfan hja Mcfred ekki til að hròpa hùrra fyrir…enda skilur enginn hvernig fòtbolta við spilum):
Zorro says
Mc Tomm er ömurlegur..skapar ekkert..gefur lélegar sendingar…òþolandi að horfa á þetta
birgir says
Hver er líklegastur til að hafa sem best tök á Ronaldo?
Ole réði augljóslega ekkert við hann.
Scaltastic says
DeGea og Lindelöf héldu liðinu á floti. Skiptingarnar breyttu flæði leiksins og að sjálfsögðu var það okkar ástsæli predikari Fred sem kláraði dæmið.
Audunn says
Virkilega góður og öflugur sigur okkar manna, gefur liðinu smá búst og sjálfstraust vonandi.
Það er ekkert auðvelt að peppa sig upp í svona leik eftir það sem á undan er gengið og því verðum við að hrósa liðinu og teyminu að hafa ná þessum mikilvæga og sterka útisigri.
Pérsónulega fannst mér þetta vera sigur liðsheildarinnar, liðið sýndi okkur að það er þó karakter í þessum leikmönnum þrátt fyrir allt saman. Auðvita var skjálfti í leikmönnum í upphafi leiks enda gífurlega mikil pressa og mikið undir. De Gea átti fínar og mikilvægar vörslur en heilt yfir var þessi sigur sanngjarn.
Að hlusta á og lesa að Ronaldo sé vandamál hjá United er bara brandari, að menn skuli láta svona rugl út úr sér á almannafæri er náttl bara djók.
Það er svo mikið af fréttum í gangi þessa dagana varðandi komandi stjóra að ég vona að þetta klárist sem allra fyrst svo þetta sé frá amk fram á sumar.
Pochettino virðist ekki koma á þessum tímapunkti samkvæmt nýjustu fréttum, ef þær eru réttar þá þarf að fá inn stjóra til að taka við liðinu út tímabilið og hann þarf að koma inn ASAP.
Persónulega er ég mest spenntur fyrir að fá Ralf Rangnick til að taka við liðinu núna.
Á eftir honum væri ég til í Ernesto Valverde.
United þarf að fá kall með bein í nefinu og ég held að báðir þessir menn séu einmitt þannig týpur að leikmenn komast ekki upp með neitt múður hjá þeim.
Eitt af því sem hefur vantað í leik United unanfarna mánuði er dugnaður og vinnuframlag leikmanna, ég held að þessir menn myndu breyta því snarlega.
Telma says
Held með Liverool (já ég veit ég veit lesið þetta bara samt) en held líka með real madrid og Ronaldo er uppáhalds leikmaðurinn minn. þið ættuð að þakka guði fyrir það að hafa náð að stela honum frá city sem hann hefði pottþétt farið til afþví maðurinn er vél og vill titla og einstaklingsverðlaun. og að hlusta á sumt af þessu rugli um að hann sé vandamál er svo sorglegt að það er ekki fyndið. væruð í fallbárattu í ensku og dottnir út úr CL án hans það er svo augljóst að vandamálið var léleg stjórn hjá Óla og hræðileg miðja og 80 milljon punda kartafla í harry maguire..
Ragnar says
Er ekki Utd stuðningsmaður (QPR) en held að það hafi verið virkilega gott skref hjá United ef þeir hafa tryggt sér Rangnick gæti munað miklu þó það yrði bara til bráðabirgða en tíminn leiðir það í ljós hvernig það kemur út.
Björn Friðgeir says
Það verður vonandi allt staðfest með Rangnick í dag, grein í vinnslu og svona.
Við Auðunn erum ekki alltaf sammála en núna erum við það. Ég er alveg hrottalega spenntur fyrir Rangnick og að sjá hvað hann getur gert. Lýsingarnar á vinnunni við ráðninguna eru þannig að maður skilur varla þetta sé stjórnin sem við þekkjum, John Murtough er greinilega að hafa frábær áhrif og sagt að Arnold ætli að skipta sér minna af fótboltahliðinni en Woodward gerði.
Þetta gæti, gæti! orðið rosalegt!
birgir says
Rangnick er ekki að fara að leyfa CR7 og Bruno að spila sinn göngubolta.
Hann er líklega að fara að spila gegenpressing, en eins og er þá er þetta ekki sérlega hentugur hópur fyrir svoleiðis bolta. Ole reyndi að fá liðið til að pressa og mögulega varð það honum að falli.
Kannski gæti CR aðlagast kerfinu að einhverju leyti, en ég sé ekki hvar Bruno eða Mata ættu að fitta öðruvísi en að gjörbreyta sínum leikstíl.
Audunn says
Ég er ósammála því Birgir að þetta sé ekki hentugur hópur fyrir pressubolta eins og Ralf vill spila.
Þetta snýst um aga, vinnuframlag, taktík og að gera mönnum grein fyrir því að þeir verða að leggja mikið á sig til að ná árangri, nenni menn því ekki þá þurfa þeir að fara annað.
Ef Liverpool getur spilað svona taktík þá getur Man.Utd það líka með rétta þjálfaranum því ég er á því að ef við tökum leikmenn fyrir leikmenn þá er alls ekki mikill munur á þessum liðum. Hinsvegar er himinn og haf á milli getu liðanna inn á vellinum vegna þess að Klopp er að fá mikið meira út úr sínu liði en OGS var að fá út úr Man.Utd, ég vill meina að munurinn liggji fyrst og fremst í taktík, vinnuframlagi og aga en ekki getu einstakra leikmanna.
Liðsheild Liverpool er mikið betri en hjá United vegna sem ég taldi upp áðan og það var/er fyrst og síðast vegna þess að OGS er bara ekki góður þjálfari á meðan Liverpool er með topp stjóra sem kann þessa list mikið betur.
Halldór says
100% á sömu línu og Auðunn hérna. Hlakka mikið til að sjá hvaða áhrif Rangnick hefur, bæði fram á vor en ekki síður næstu tvö ár á eftir. Hefur möguleika til að hafa ansi víðtæk áhrif innan félagsins, bæði á spilamennsku liðsins innan vallar en ekki síður á strúktúrinn og vinnuna sem fer fram á æfingasvæðinu og í greiningarherbergjum.
Ég held að Darren Fletcher muni njóta mjög góðs af samvinnunni við Rangnick og ef Carrick og McKenna verða áfram þá eigi þeir líka eftir að græða helling, sama hvort það nýtist svo hjá United eða í störfum þeirra annars staðar.
Næstu leikmannagluggar verða líka miklu áhugaverðari núna. Ekki endilega janúarglugginn en allir gluggarnir eftir það.
birgir says
Það má áætla að Rangnick vilji spila keimlíkt og Klopp.
Hvernig verður Harry Maguire í hárri varnarlínu? Ræður De Gea við það að fara af línunni og sweepa?
Vinuframlag og agi,, er það eitthvað sem á við um Pogba, Bruno, Ronaldo, Mata, Martial?
Þetta verður alltsaman mjög fróðlegt.
Auðunn says
Fyrst Jones og Smalling gátu það undir Van Gaal þá getur Harry það.
De Gea gat það líka undir Van Gaal og ég tel að United liðið í dag sé töluvert betur mannað en þegar Van Gaal var stjóri liðsins.
Þetta snýst um taktík þjálfarans og að leikmenn trúi á hana og geri eins og þeim er sagt að gera.
Það eru nóg gæði í Manchester United þótt við vitum að þau mættu alveg vera meiri.
Ef leikmenn trúa á taktíkina og treysta þjálfaranum og gera það sem þeim er sagt þá hef ég bullandi trú á þessu.
birgir says
„Fyrst Jones og Smalling gátu það undir Van Gaal þá getur Harry það“.
Sorry en hvorugur þeirra réði við það. Voru báðir hræðilegir undir stjórn LVG.
Ole hefur fært línuna talsvert ofar síðustu mánuði. Hvernig hefur Maguire litið út? Til að spila ofarlega í hárri línu þarftu að hafa hraða.
De Gea sweepaði ekki undir stjórn LVG.
Auðunn says
Þeir voru nú samt 100 sinnum betri undir Van Gaal en David Moyes ásamt reyndar öllu liðinu.
Lið Manchester United í dag er alls ekki betra lið en það var eftir að Van Gaal fór og þá skiptir engu hvaða stjórar hafa komið inn, hvaða taktík Þeir hafa spilað og hversu mikið þeir hafa eytt í leikmenn.
Það segir mér að vandamál liðsins liggur ekki í hvort Harry geti spilað pressubolta eða ekki heldur taktík fyrrum stjóra.
Ég er alveg viss um það að Harry geti spilað jafnvel og betur hjá Manchester United og hann gerir með Enska landsliðinu ef United fær inn topp stjóra á heimsmælikvarða sem er vonandi að gerast núna.