Dagurinn sem Fred skoraði úr langskoti með hægri
Manchester United vann sinn fyrsta leik undir stjórn Ralf Rangnick gegn Crystal Palace í dag. United gerði það sem þurfti og virtist gera það sem til var ætlast af því.
Spennan, sem ríkti fyrir mögulegum breytingum á fyrstu uppstillingu Rangnick, var óþörf því hann stillti upp sama liði og byrjaði gegn Arsenal á fimmtudag. Breytingar voru á hópnum, Jesse Lingard og Anthony Martial meiddust á æfingu í gær en nafni hans Elanga fékk tækifæri í staðinn.
Leikurinn byrjaði þó á gömlum siðum. Eftir mínútu skellti Fred sér alltof seint í tæklingu og var stálheppinn að sleppa við spjald.
Fljótt kom á daginn að United virtist spila 4-2-2-2, með Rashford og Ronaldo fremsta og Sancho og Fernandez þar fyrir aftan, fremur en 4-2-3-1 sem þekktist undir Mourinho og Solskjær. Á blaðamannafundinum á föstudag var Rangnick tíðrætt um að mikilvægast væri að hafa stjórn á leiknum, United hefði vantað hana, en hún var fyrir hendi í dag.
Í fyrsta lagi virtist liðið spila sæmilega samhæfða pressu. Crystal Palace fékk aldrei tíma til að gera neitt af viti með boltann, ef mögulega eru undan skildar síðustu fimm mínúturnar í hvorum hálfleik. Stóru munurinn voru samt hraðari og lengri sendingar fram á við hjá United auk þess sem meiri breidd virtist vera í liðinu heldur en oft áður.
Plássið fékkst kannski því Palace stillti upp til að verjast, var með þéttan pakka fyrir framan markið. Þess vegna fékk United fá opin marktækifæri, þrátt fyrir að vera með boltann, en hin fræga lokasending klikkaði líka æði oft.
Í seinni hálfleik virtist heldur draga af United, hálffærunum fækkaði. Rangnick brást við með að skipta inn Greenwood og síðar Elanga fyrir Sancho og Rashford.
Svo kom Fred
En sigurmarkið á 78. mínútu. Síðasta sunnudag gengu brandarar um að Michael Carrick hefði sent Fred miða um að skjóta ekki aftur eftir glataða skottilraun og frábæru færi gegn Chelsea. Nú fékk Fred boltann á svipuðum stað en með töluvert fleiri leikmenn milli sín og marksins. Aftur skaut hann, að þessu sinni með hægri þannig að boltinn sveif í boga yfir markvörð Palace upp í fjærhornið.
Með þessu glæsimarki kórónaði Fred frábæran leik á miðjunni. Hann 9/15 návígum sem hann fór auk sjö tæklinga. Næstur honum kom Alex Telles sem vann 7/13 návígum. Hann átti einnig mjög góðan dag. Eins má nefna Diego Dalot sem skilaði ágætu framlagi á hægri kantinum.
Besta færi Palace kom kortéri fyrir leiklok, eftir hornspyrnu var boltinn skallaður fyrir á fjærstöngina þar sem leikmaður Palace sendi/skaut þvert fyrir markið þar sem samherji hans kom aðvífandi. Sé sem sendi boltann fyrir virtist þó rangstaður og hefði mark því vart talið. Gestirnir áttu nokkur hálffæri í byrjun, meðan United var að ná tökum á leiknum og beittu löngum boltum í lokin sem tókst þokkalega að eiga við.
Hvað tölum við um eftir leikinn?
Heráætlun United um að hafa stjórn á leiknum gekk upp og ákveðin fingraför Rangnick um pressu sömuleiðis. Ljóst er þó að fáar æfingar eru milli leikja og eins og hann hefur sjálfur varað við lítið svigrúm til að gera breytingar.
Rangnick hefur sagt að 30% marka séu skoruð úr föstum leikatriðum og því sé eðlilegt að verja þeim hluta æfinga í þau, nokkuð sem fæstir þjálfarar geri. United tók tvö stutt horn í leiknum sem voru snyrtilega útfærð, líklegt er að Þjóðverjinn sjái frekari sóknarfæri í þeim.
United hélt hreinu í fjórða sinn á leiktíðinni í öllum keppnum, í fyrsta sinn á heimavelli. Rangnick talaði á föstudag um að það gengi ekki að fá á sig að meðaltali tvö mörk í leik. Þetta var því mikilvægt markmið sem vonandi eykur sjálfstraustið. Af miðvörðunum tveimur var Lindelöf meira áberandi. Mikilvægasta atriðið var sendingar Palace fram á við voru flestar stöðvaðar á miðjunni.
Næsti leikur er strax á miðvikudag gegn Young Boys. Sá leikur skiptir engu fyrir United, hafandi unnið Meistaradeildarriðilinn. Það gefur Rangnick því væntanlega tækifæri til að hvíla leikmenn sem spilað hafa þrjá strembna leiki á viku og skoða leikmenn sem alla jafna fá færri tækifæri. Allir þurfa að sanna sig upp á nýtt og aðrir geta eignast nýtt upphaf. Hentar Henderson betur með vörninni, sem í dag var uppi á miðju? Er Wan-Bissaka að tapa sæti sínu? Hvað gerir Elanga með 90 mínútur? Verða Martial og Lingard tilbúnir í harkið?
Rangnick kvaðst vilja fá 1-3 aðstoðarmenn með sér. Gerhard Struber, Austurríkismaður sem þjálfar hjá Red Bull í New York, hefur verið nefndur. Þá var Jesse Marsch, þjálfari RB Leipzig, rekinn í morgun. Marsch var aðstoðarmaður Rangnick síðast þegar hann var aðalþjálfari Leipzig. Hann er því á lausu. Hæpið er þó að maðurinn, sem fyrir nokkrum mánuðum var orðaður við fleiri feitar stjórastöðu, sætti sig við að verða númer tvö, jafnvel þótt gott sé að koma sér á framfæri hjá Manchester United og þótt það sé í skamman tíma.
Liðið
Varamenn: Henderson, Bailly, Jones, Wan-Bissaka, Mata, Matic, Van de Beek, Greenwood, Elanga
Steve Bruce says
Þokkalegur fyrri hálfleikur. Það þarf að prófa eitthvað annað en þessa endalausu krossa. Þeir eru allir skallaðir frá nokkuð auðveldlega. Minnir aðeins á Moyes spilamennskuna 13/14. Hinsvegar er verið að pressa og leggja sig fram sem er vel.
Scaltastic says
Fyrstu 30 mín var flæðið í spilinu fínt og leikmennirnir afslappaðir, það var í raun aulaskapur að setja ekki eitt stykki mark á þeim kafla. Eftir það datt tempó-ið niður og liðið stífnaði upp og fór að ofhugsa í uppspilinu. Vonandi gefur það leikmannahópnum aukið sjálfstraust að halda loksins hreinu á heimavelli.
Ronaldo, Rashford, Bruno og Sancho voru allir arfaslakir í dag. Ég hafði væntingar um að McTominay hefði það í sér að vaxa inn í að verða alvöru miðjumaður… vonin er vægast sagt veik.
Predikarinn okkar heldur uppteknum hætti með 90 mín sálfræðitryllina. Mergjað slútt hjá kauða :)
Einar says
Frábær leikur mikil breyting á liðnu var á vellinum sá líka leikinn við Arsenal það var ógleymanleg stund fyrsta ferðin á Old Trafford
Audunn says
Þetta var heilt yfir fínn leikur þótt maður hafi alveg séð smá taugaveiklun og stress í leikmönnum.
Persónulega sé ég ekki mikinn mun á 4-2-2-2 kerfi eða 4-2-3-1 kerfi ef einhvern .
Það sem maður tók eftir var að bakverðirnir voru ofar á vellinum og tóku meiri þátt í sóknum liðsins annars er voða lítið að marka þetta eftir einn leik.
Held að bæði Shaw og Wan Bissaka getu haft töluverðar áhyggjur af því að missa sæti sín í þessu liði.
Það má líka einhver þjálfari United taka að sér að kenna Rashford rangstöðuregluna, hann virðist ekki kunna hana ennþá greyið. Hann þarf líka að fara að sýna einhvern áhuga inn á vellinum.
Fannst Ronaldo vinna vel í þessum leik, Bruno er búinn að vera slakur og það þarf að koma mikið meira frá honum. Það er spurning um að prófa að bekkja hann nokkra leiki.
Ég er að vona að Ralf hafi pung í það að taka á mönnum eins og Rashford og Bruno, þessir menn þurfa að sýna mikið meira.
Hef nú reyndað alltaf grunað að Rashford verði aldrei neitt meira en efnilegur ungur leikmaður, honum hefur ekkert farið fram síðustu 2 árin. Hann verður kominn í Lingard pakkann með sama áframhaldi eftir 1-2 ár.