Þá er komið að fyrsta bikarleik United á leiktíðinni en liðið mun leika á móti Aston Villa á Old Trafford í kvöld rétt fyrir klukkan átta. Sigurvegarinn úr þessari viðureign mun mæta Middlesborough í 4. umferð bikarsins á heimavelli en Middlesborough situr í 7. sæti Championship deildarinnar og eru á sannkölluðu flugi þar undir stjórn Chris Wilder.
Bikarkeppnin (FA Cup) er ein elsta og virtasta bikarkeppni í heiminum en eins og flestum er kunnugt um þá getur allt gerst í bikarleikjum og nú þegar hefur 3. umferðin boðið okkur upp á nokkur merkileg úrslit. Ríkasta lið í heiminum, Newcastle, tapaði óvænt fyrir C-deildarliðinu Cambrigde United og utandeildarliðið Kidderminster sigraði Reading og komið í 4. umferð bikarsins í fyrsta sinn í 40 ár. Þá slógu Nottingham Forest út Arsenal í gær en leikur United og Aston Villa er sá síðasti í 3. umferðinni.
Aston Villa
Síðast þegar United mætti Aston Villa var Dean nokkur Smith að stýra liðinu frá Birmingham og tókst að leggja Rauðu djöflana á útivelli. Hæglega má segja að United hafi telft fram sínu sterkasta liði þar og því gríðarlega mikið afrek hjá Dean Smith í ljósi þess að liðið var þá einungis 4 stigum frá toppi deildarinnar en næstu fimm leikir töpuðust allir og þar með bókaði hann farseðil sinn út úr stjórastólnum. Í hans stað kom Steven Gerrard sem tókst umsvifalaust að snúa gengi liðsins við og vann 4 af næstu 6 leikjum, en leikirnir sem liðið tapaði voru gegn Liverpool og Man City.
Gerrard hefur haldið sig við 4-3-3 í öllum leikjum nema gegn Chelsea þar sem hann spilaði Emi Buendía í holunni fyrir aftan þá Ollie Watkins og Danny Ings. Það má því gera ráð fyrir að hann haldi sig við það kerfi þrátt fyrir að leikurinn í kvöld geti reynst sem ákveðin generalprufa fyrir deildarleik við United. Því liðin mætast aftur á laugardaginn kemur í deildarleik nema að þessu sinni á heimavelli Aston Villa. Mikið er um meiðsli hjá Aston Villa og þá sérstaklega á miðsvæðinu en ekki hjálpar til að Trezeguet og Traoré eru báðir í Afríkukeppninni. Watkins virðist hins vegar vera orðinn leikfær en hann hefur verið mun betri eftir komu Gerrard. Annars geri ég ráð fyrir að liðið verði eitthvað á þennan veg:
Man Utd
Eftir útreiðina sem við fengum gegn Úlfunum í upphafi árs hefur biðin verið mörgum óbærileg. Sífelldar fréttir um óeiningu og óánægju meðal leikmanna liðsins hefur kostað það að Harry Maguire fór í viðtal þar sem hann ræddi um brösótt gengi liðsins og það að leikmenn vildu komast burt. Það orsakast líklega að miklu leyti til þess að hópurinn er feikistór og sömu liðsmenn United hafa átt fast sæti í byrjunarliðinu þrátt fyrir skelfilegar frammistöður á vellinum. Af þeim leikmönnum sem byrjuðu gegn Wolves virtust einungis þeir Phil Jones og David de Gea vera sæmilega vel stemmdir í leikinn en Jones hafði þá ekki spilað keppnisleik fyrir United í 712 daga.
Til að gera langa og leiðinlega sögu stutta þá þurfa menn einfaldlega að girða sig í brók, hætta að koma með afsakanir eftir leiki og sýna það á vellinum afhverju í ósköpunum þeir eru að fá margar milljónir á viku fyrir að elta tuðru. Miðað við metnaðar- og áhugaleysið sem skein út úr andlitum þessara forréttindapostulínspésa í upphafi síðasta leiks þá væri undirritaður frekar til í að sjá Fred, Jones, Elanga, Telles, Dalot, Mejbri og McNeil á leikskýrslunni í kvöld. Það er þó hægt að bóka það að þessir leikmenn myndu mæta og skila sínu besta. Alveg sama þó það skilaði bara 0-5 tapi þá væru þeir að minnsta kosti að reyna sem er meira en hægt er að segja um marga af hinum plebbunum.
Bikarkeppnir hafa löngum verið tækifæri fyrir stjóra til að gefa ungum og óhörðnuðum leikmönnum tækifæri til að spreyta sig. Það kann þó að vera að of mikið sé í húfi fyrir Ralf Rangnick í kvöld þar sem liðið er þegar dottið úr deildarbikarnum og ósigur í kvöld myndi gera það að verkum að liðið (og stjórinn) lægi en betur við höggi en það hefur gert. Það verður því að finna rétt jafnvægi milli ungdóms og reynslu, drifkrafts og útsjónarsemi en í augnablikinu er líklegast auðveldara að ganga á vatni eða kljúfa atóm með skærum.
Af okkar leikmönnum er Victor Lindelöf að ná sér eftir COVID en gæti náð leiknum, Paul Pogba er enn meiddur og sama á við Harry Maguire að öllum líkindum, Anthony Martial er ekki til staðar andlega og Eric Bailly er í Afríkukeppninni. Þá eru þeir Luke Shaw og Scott McTominay báðir í banni í næsta deildarleik United (gegn Aston Villa á laugardaginn) svo það má fastlega gera ráð fyrir þeim í byrjunarlið kvöldsins.
Leikurinn hefst kl 19:55 og flautuleikarinn er enginn annar en Michael Oliver.
Egill says
Plííís ekki tapa gegn Slippy G, það bara má ekki gerast.