Manchester United spilaði í vikunni sinn 1.938. leik á útivelli í efstu deild á Englandi og vann sinn 704. sigur með því að leggja Brentford með þremur mörkum gegn einu. Árangurinn er þó hlutfallslega miklu skemmtilegri ef við horfum bara á deildarleiki frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar, þá var þetta 300. sigurinn í aðeins 568 leikjum. Það er hressilega gott sigurhlutfall þótt auðvitað megi aðallega þakka framúrskarandi spilamennsku á fyrstu 20 árum þeirrar deildarkeppni fyrir frekar en spilamennskunni á síðustu árum. Og þó, auðvitað fóru piltarnir hans Solskjærs á virkilega gott og öflugt útileikjaskrið í fyrra, sællar minningar.
Á morgun er hins vegar komið að heimaleik númer 1.938 í efstu deild á Englandi. Sigurhlutfallið er, eins og vænta má, töluvert betra á heimavelli en útivelli. Þar eru sigrarnir orðnir 1.155. Sé aftur miðað við upphaf knattspyrnu stofnun úrvalsdeildarinnar eru heimaleikir í deild orðnir 567 og sigrar í þeim 397 talsins. Styttist í stóra fjarkann og vonandi að liðið komist einum leik nær því marki á morgun.
En þrátt fyrir alla þessa talnasagnfræði þá er þetta bara einn leikur sem er framundan og þrjú stig í boði í honum eins og vanalega. Þetta eru mikilvæg stig fyrir bæði lið í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. West Ham stendur töluvert betur en okkar menn eins og er, auk þeirra eru bæði Tottenham og Arsenal að þvælast fyrir þessu markmiði okkar. West Ham eru í fjórða sætinu eins og er en hafa leikið fleiri leiki en öll hin liðin sem eru í baráttunni. Okkar lið stendur verst að vígi eins og er, á leik inni á West Ham en hefur spilað fleiri leiki en bæði Arsenal og Tottenham. Eins og spilamennska United hefur verið síðustu vikur, og raun á tímabilinu öllu ef fyrsti leikurinn er skilinn frá, þá er erfitt að segja að liðið eigi heima í Meistaradeildinni. En það er enn tími til að spýta í lófa, bretta upp ermar og fara að vinna fyrir þessu sæti.
Leikurinn á morgun hefst á hinum klassískasta af leiktíma, eins og ótalmargir af þeim 3.875 leikjum sem Manchester United hefur spilað í efstu deild hafa verið flautaðir á í gegnum tíðina, klukkan 15:00 á laugardegi. Dómari leiksins verður Jonathan Moss. Með honum verða Marc Perry og Timothy Wood á flöggum og fjórði dómarinn Michael Salisbury. Í VAR-herberginu verður Paul Tierney með Ian Hussin sér til aðstoðar.
Manchester United
Það hefur ekki gengið eins vel hjá liðinu að fóta sig eftir að Ralf Rangnick tók við og flestir höfðu vonað. Það er ekki að sjá að hann sé að ná að fá liðið til að spila sinn bolta, hann er að nota mikið til sömu leikmenn og Solskjær var að nota með misgóðum árangri og úrslitin hafa verið álíka rokkandi og spilamennskan. United er að vísu aðeins búið að tapa 1 leik af síðustu 12 en 4 jafntefli og heilt yfir lítið spennandi spilamennska hafa gert lítið til að kveikja neistann í stuðningsmönnum.
David de Gea hefur verið að spila fantavel en það er því miður oft þannig að þegar de Gea er hvað bestur þá er það merki um að restin af liðinu sé ekki að spila nógu vel. Það var þó frábært að sjá Elanga, Greenwood og Rashford skora mjög góð mörk í síðasta leik og Bruno vera duglegan að leggja upp og skora í síðustu tveimur leikjum. Það er eitthvað sem liðið þarf á að halda núna.
Eric Bailly er enn í Afríkukeppninni með landsliði Fílabeinsstrandarinnar. Hann spilaði fyrstu tvo leikina í riðlakeppninni en fór meiddur af velli í öðrum leiknum og spilaði ekki þann þriðja. Fílabeinsströndin er þó komið áfram í 16-liða úrslit og mætir Egyptalandi á miðvikudag í næstu viku, það verður áhugavert að sjá hvort Bailly verði aftur mættur í liðið. Hann gæti þó verið búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Manchester United því það eru sögusagnir um að hann leiti leiða til að komast frá félaginu strax í janúarglugganum.
Paul Pogba, Aaron Wan-Bissaka, Edinson Cavani, Jesse Lingard og Luke Shaw eru allir skráðir tæpir vegna meiðsla eða leikforms. Harry Maguire er ekki lengur meiddur en hefur verið mikið á bekknum í síðustu leikjum. Það var ekki sjálfgefið að hann myndi ná sætinu aftur af Victor Lindelöf eins og Svíinn hefur verið að spila. En á meðan Manchester United spilaði síðasta leik var brotist inn á heimili Lindelöf þar sem konan hans og börn voru heima. Skiljanlega fór það illa í Lindelöf-fjölskylduna sem er að jafna sig eftir þetta í Svíþjóð og mun Victor því fá frí í þessum leik. Maguire mun því líklega koma aftur inn í vörnina í staðinn.
Scott McTominay hefur oft verið gagnrýndur af stuðningsmönnum Manchester United en hann var mjög góður gegn Brentford, sérstaklega í síðari hálfleik. Hann þurfti þó að yfirgefa völlinn vegna meiðsla. Vonum að þau séu ekki að trufla hann neitt meira.
Spáum þessu byrjunarliði:
Vilt þú sjá liðið öðruvísi? Endilega hentu því þá í komment hér að neðan.
West Ham United
Fyrir þau ykkar sem trúið á hjátrú og jinx eða annað slíkt þá biðst ég fyrirfram afsökunar á því sem kemur hér næst.
David Moyes hefur aldrei unnið útisigur í deildinni á Old Trafford sem knattspyrnustjóri. Í fjórtán tilraunum til þessa hefur hann fjórum sinnum náð jafntefli en tapað 10 leikjum. Aðeins Harry Redknapp á fleiri leiki á Old Trafford án sigurs (15).
Þrátt fyrir allt sem hægt var að segja um stjóratíð Moyes hjá Manchester United þá má Skotinn eiga það að hann hefur staðið sig mjög vel með þetta West Ham lið. Hann hefur sýnt mikla kænsku á leikmannamarkaðnum og sett saman afar sprækt og seigt lið sem hefur haldið sér í Evrópubaráttunni á síðustu tímabilum. Þetta tímabil er engin undantekning, West Ham er sem stendur í fjórða sætinu með 37 stig eftir 22 leiki. Og sá árangur hefur ekki náðst á einhverjum rútulagningum heldur hafa aðeins þrjú efstu liðin skorað fleiri mörk en West Ham (41 mark).
Einn af bestu leikmönnum West Ham á þessu tímabili hefur verið Jarrod Bowen. Þessi skemmtilegi leikmaður getur spilað bæði frammi, á kanti og miðju og hefur verið mikið notaður í holunni. Hann hélt með Mancester United þegar hann var krakki og átrúnaðargoð hans var David Beckham. Hann mun þó væntanlega ekki láta það stoppa sig á morgun heldur reyna að bæta í markaaðkomu sem hefur verið mjög blómleg í síðustu leikjum. Í síðustu 7 leikjum er hann með 5 mörk og 3 stoðsendingar, samtals er hann með 9 mörk og 8 stoðsendingar í öllum keppnum fyrir West Ham á tímabilinu.
Annar sem hefur verið góður er Jamaíkinn Michail Antonio sem er ávallt drjúgur fyrir West Ham. Hann hefur skorað 8 mörk í deildinni og lagt upp 6 önnur. Þeir eru þó fleiri hættulegir í þessu liði og hefur markaskorunin verið að dreifast ansi vel. 14 leikmenn West Ham eru komnir á blað í deildinni til þessa.
West Ham er líka með einn leikmann á Afríkuleikunum, það er Alsíringurinn Saïd Benrahma. Hann spilaði þó ekki nema 52 mínútur eða svo í tveimur leikjum af þremur í riðlakeppninni þar sem ríkjandi meistarar Alsír féllu úr leik. Benrahma er því á leiðinni heim aftur en nær samt ekki þessum leik.
Angelo Ogbonna er meiddur. Tomas Soucek, Kurt Zouma og Mark Noble eru allir tæpir.
West Ham tapaði síðasta leik sínum, skrautlegum 2-3 leik á heimavelli West Ham gegn Leeds á sunnudag. West Ham náði tvisvar að jafna leikinn en Leeds vann með þrennu frá Jack Harrison. Þar áður hafði West Ham unnið 4 leiki í röð og skorað í þeim 11 mörk.
Moyes stillir líklega upp eitthvað í þessa áttina:
Mikilvægur leikur og algjörlega krúsjal að vinna þennan leik til að haldast í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Hvaða trú hafið þið á liðinu fyrir þennan leik?
koko says
Sorry góð grein og gott að lesa þetta hérna…en liðið okkur er bara alls ekki á góðum stað…við myndum tapa á móti VÖLSUNGI..eins og staðan er i dag..spilamenskan kanski góð i 15 vmín i hverjum leik…það gengur ekki..og við eigum ekkert heima i meistaradeildarsæti eins og er…það sjá það allir og öll lið…þetta mun taka sinn tíma..það er á hreinu..liverpool..man.city..mörgun áratugum á undann okkur..það leysist ekki á nokkrum mánuðum