Eftir tvo fína deildarsigra í röð er nú komið að útsláttarkeppni í Meistaradeild Evrópu. Manchester United dróst fyrst gegn franska liðinu PSG í 16-liða úrslitum en í ljós kom að mistök höfðu valdið því að United fór ranglega í pottinn gegn Villareal en ekki í pottinn þegar andstæðingar Atlético Madrid voru dregnir. Atlético fengu upphaflega þýsku meistarana í Bayern Munchen og kvörtuðu formlega þegar þessi mistök urðu ljós. Þeir fengu í gegn að dregið var aftur, eðlilega, og í það skiptið drógust Atlético og Manchester United saman. Mikið fjör, allt saman.
Þrátt fyrir að þessar viðureignir gegn PSG hafi verið orðnar ansi margar á stuttum tíma þá var alveg fínt að sjá fram á einvígi gegn þeim, sérstaklega þar sem Manchester United hefur haft gott tak á Parísarmönnum í París. Fyrirfram hefði maður haldið að Atlético væri lið sem hentaði Manchester United mun verr. En það er alveg hægt að vinna þetta lið og það er undir Ralf og leikmönnunum komði að finna leikplan og ástríðu til að mæta þessu fastspilandi og vel skipulagða liði frá Madrid.
Fyrri leikurinn verður spilaður annað kvöld á Estadio Metropolitano, eða Wanda Metropolitano, í Madrid og hefst klukkan 20:00 að íslenskum tíma. Dómari leiksins verður Ovidiu Haţegan frá Rúmeníu.
Bæ bæ, útivallamarkaregla
Stór breyting fyrir þetta tímabil var að útivallamarkareglan fræga/alræmda var tekin út. Það verður mjög áhugavert að sjá hvaða áhrif það hefur til lengdar í útsláttarkeppninni og hvort við munum sjá eftir þessari reglubreytingu eða ekki. Á síðustu árum hefur Atlético Madrid þó verið það lið sem hefur hvað best og reglulegast náð að nýta sér þessa reglu, sérstaklega þegar liðið hefur átt fyrri leikinn á heimavelli eins og er tilfellið núna. Með því að gjörsamlega múra fyrir rammann og koma í veg fyrir að andstæðingurinn næði útivallarmarki náðu piltarnir hans Simeone oftar en ekki að fylgja því eftir með því að ná sjálfir útivallarmarki í seinni leiknum.
Manchester United á þó nýlegan, frækinn Evrópusigur sem einmitt vannst á útivallarmörkum. En það var reyndar pínu undantekning frá hefðinni þar sem bæði lið unnu á útivöllum.
Fyrir utan ævintýrið í París hefur Manchester United aðeins tvisvar lent í því að Evrópueinvígi hefur ráðist á útivallamörkum. Annars vegar var það tímabilið 2009-10 þegar Bayern Munchen vann fyrri leikinn í Þýskalandi 2-1 en United vann á Old Trafford 3-2. Grátlegur leikur þar sem United komst yfir í Þýskalandi en Bayern náði sigurmarki á 92. mínútu og svo komst United í 3-0 í seinni leiknum. Hins vegar var það svo í undanúrslitum tímabilið 2001-02 þegar United og Bayern Leverkusen gerðu tvö jafntefli, fyrst 2-2 á Old Trafford og svo 1-1 í Þýskalandi. Aftur var þetta grátlegt þar sem United tók þrisvar sinnum forystu í einvíginu, bara til að sjá Þjóðverjana jafna þrisvar og hanga á útivallarmörkunum.
Svo það er óhætt að segja að útivallamarkareglan hafi líka leikið okkar menn grátt í gegnum tíðina. En það þarf einhvern veginn að útkljá þessi einvígi og stundum er það mjótt á milli að það sem ræður úrslitum á endanum virkar ekki endilega mjög sanngjarnt.
Það eru líka ekki bara beinu áhrifin sem útivallamarkareglan hafði, þegar úrslitin bókstaflega réðust á þessari reglu. Það voru líka óbeinu áhrifin, þegar útiliðið náði marki sem þýddi að heimaliðið þurfti allt í einu tvö og þurfti að sækja af meiri ákafa og jafnvel örvæntingu sem leiddi til þess að útiliðið gat sett skyndisóknarmark í andlitið á þeim. Þeir hafa alveg verið ófáir slíkir leikir í gegnum tíðina.
Fjórða og fimmta sætið
Í þessu einvígi mætast liðin í fjórða og fimmta sæti í sínum deildum. Manchester United er sem stendur í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þótt einhver lið eigi leiki inni í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Atlético Madrid er á meðan í fimmta sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, með jafnmörg stig og Barcelona en með verra markahlutfall og auk þess búið að spila leik meira en Börsungar.
Það er þó einnig hægt að slá þessu upp sem leik liðanna sem enduðu í 1. og 2. sæti sinna deilda á síðasta tímabili. Atlético Madrid náði þá að vinna deildina á Spáni á meðan Manchester United var lang næstbesta liðið á Englandi. En það er þó varla sanngjarnasta leiðin til að mála upp þetta einvígi.
Staðreyndin er þó að þetta eru tvö öflug lið sem hafa verið í brasi á þessari leiktíð en innihalda topp leikmenn og geta bæði spilað öflugan fótbolta þegar sá gállinn er á þeim.
Sagan
Liðin eiga eitt einvígi að baki í knattspyrnusögubókunum. Tímabilið 1991-92 mætti Manchester United inn í Evrópukeppni bikarhafa sem ríkjandi meistarar í þeirri gömlu, góðu keppni. Tottenham fylgdi þeim þangað frá Englandi sem ríkjandi bikarmeistarar og Atlético Madrid tók þátt fyrir hönd Spánar eftir að hafa unnið Mallorka í úrslitum spænska bikarsins tímabilið áður. Atlético vann þá reyndar líka bæði Barcelona og Real Madrid á leið sinni í úrslitaleikinn.
Liðin mættust í annarri umferð keppninnar, eða 16-liða úrslitum, í lok október og byrjun nóvember 1991. Fyrri leikurinn var, líkt og nú, spilaður í Madrid, á Vincente Calderón vellinum. Það var völlurinn sem Atlético Madrid notaði frá 1966 til 2017. Þessi fyrri leikur endaði ekki vel, Paulo Futre kom heimamönnum yfir eftir rúman hálftíma og undir lok leiksins bættu Futre og Manolo við mörkum og kláruðu þetta einvígi. Seinni leikurinn byrjaði vel, Mark Hughes kom United yfir strax á fjórðu mínútu. En þegar þýski miðjumaðurinn Bernd Schuster jafnaði á 68. mínútu var þetta endanlega búið. Atlético komst þó ekki mikið lengra í þessari keppni heldur féll út í næstu umferð á eftir gegn Club Brugge.
Elskar að skora gegn Atlético
Þótt Manchester United hafi ekki mikla reynslu af því að skora mörk gegn Atlético Madrid þá er einn leikmaður innan liðsins sem hefur bæði reynslu og að því er virðist sérstaklega mikla ánægju af að skora einmitt gegn Atlético Madrid. Cristiano Ronaldo hefur skorað 25 mörk í þeim 35 leikjum sem hann hefur spilað gegn Atlético. Hann hefur að auki lagt upp 5 mörk til viðbótar. Hann hefur skorað fjórar þrennur gegn Madridarliðinu, þrjár með Real og eina með Juventus.
Leikmannafréttir
Það eru nokkrir meiddir hjá Atlético. Brasilíumaðurinn Matheus Cunha er meiddur en hann var búinn að vera sprækur fyrir Atlético, kominn með 5 mörk og 2 stoðsendingar í spænsku deildinni. Hann var samt töluvert meira að koma inn af bekknum en byrja leiki.
Danski varnarmaðurinn Daniel Wass er líka meiddur. Thomas Lemar og Mario Hermoso eru tæpir vegna Covid auk þess sem fyrirliðinn Koke er tæpur, gat lítið æft í byrjun vikunnar og gæti misst af þessum leik.
Belginn Yannick Carrasco, sem getur spilað á báðum köntum, framliggjandi á miðjunni eða fremst í sókninni, missir af báðum leikjunum gegn Manchester United vegna leikbanns sem hann hlaut eftir rautt spjald sem hann fékk gegn Porto í riðlakeppninni.
Hjá Manchester United er Tom Heaton sá eini sem er skráður fjarverandi vegna meiðsla. Mason Greenwood er að sjálfsögðu ekki í hópnum heldur. Fyrir utan það er Edinson Cavani tæpur fyrir leikinn.
Líkleg byrjunarlið
Spekingarnar spá því að Atlético Madrid stilli upp í 3-5-2 á þessa leið:
Manchester United gæti hins vegar stillt upp einhvern veginn á þessa leið:
Seinni leikurinn verður svo spilaður á Old Trafford þriðjudagskvöldið 15. mars, klukkan 20:00.
Skildu eftir svar