Það er erfitt verkefni á morgun, útileikur á Etihad. Manchester City hefur verið að sýna hvers vegna liðið er besta liðið í deildinni síðustu ár, en tókst engu að síður að tapa fyrir Spurs fyrir tveimur vikum og setja spennu í baráttuna á toppnum. Það sem meira var, á tímabili þar sem Spurs hefur spörsað yfir sig oftar en venjulega var þetta annar sigur þeirra á City í deildinni. City hefur aðeins tapað gegn einu öðru liði, Crystal Palace, og gert þrjú jafntefli, gegn Liverpool og tvisvar gegn Southampton. Það væri því fróðlegt að vita hvernig staðan á Ralf og Ralph er og hvort sá fyrrnefndi hefur getað heyrt hljoðið í þeim síðarnefnda til að sjá hvað hægt sé að gera.
Nestu fréttirnar fyrir morgundaginn eru þær að Edinson Cavani er til í slaginn, eða eins og rætnisfullar rægitungur á víðlendum lýðnetsins vilja meina, nenni að láta að sjá sig. Það veitir ekki af því að hafa beittan senter í baráttunni, því flestir hinna í hópnum hafa, af mismunandi ástæðum, ekki getað sinnt markaskorun sem skyldi. Það má kannske dæma hópinn eftir því slúðri sem hefur verið að ríða röftum um að Harry Maguire sé ekki hátt skrifaður í klefanum. Eins og alltaf hins vegar vitum við á götunni sjaldnast hvort um er að ræða raunverulegt vandamál eða hvort einhver einn er fúll yfir að Maguire stal orkudrykknum hans eða hvað svo sem 2022 útgáfan af því að skita í skóinn hans er sem var einu sinni hámark klefastríðninnar. Það væri líklega dómsmál í dag.
En að gamni og kerskni slepptu þá er ljóst að það e rekkert að ganga of vel hjá okkar mönnum. Jafnteflin hafa hrannast upp og þó að raunsæisfólk myndi þiggja slík úrslit á morgun, væri sigur á morgun kærkomið veganesti inn í leik gegn Tottenham um næstu helgi og Atlético á þriðjudaginn á eftir. Það eru leikirnir sem verður að vinna.
Ralf hefur verið að segja réttu hlutina undanfarið og það er vonandi að einhverjir fyrir ofan hann hafa verið að hlusta. Það þarf ekkert að deilda um úrslitin undanfarið, þau hafa verið slök, og líklega verður Rangnick ekki næsti stjóri. En það er búið að segja A og það vitum við öll að það jafnvel þó Pep Guardiola yrði ráðinn á morgun er þessi hópur tæpast að fara að vinna deildina á næsta ári. Það er betra að staldra við, ákveða leiðina og byggja til framtíðar. Ef peningarnir halda áfram að vera til þarf að eyða þeim skynsamar en hingað til hefur verið.
En nóg um það. Leikur á morgun. Sem fyrr segir er Cavani tilbúinn og ég rétt vona hann sé nægilega tilbúinn til að byrja. Ronaldo hefur verið afskaplega slakur undanfarið og það væri alls ekki slæmt að hafa hann tilbúinn á bekknum
Það verður spennandi að sjá hvernig Maguire málið fer, ég leyfi mér að setja hann á bekkinn í þessari spá. Wan-Bissaka er betri varnarmaður en Diogo Dalot og fær tækifærið á morgun
Manchester City
Helstu fréttirnar úr herbúðum City er að Rúben Diaz er meiddur og er það skarð fyrir skildi
En það er svo sem ekki hægt að tala mikið um það. það er 20 stiga munur á liðunum og það er verðskuldað. Meira að segja Jack Grealish er farinn að skila sínu og þetta verður helvítis hark á morgun. Hugsunin sem svo má halda fyrir ykkur vöku í nótt er hvort eigi að líta á leikinn sem win/win: Sigur United er sigur, og tap þýðir að Liverpool bölvar okkur, eða lose/lose: Ef við töpum er það tap og ef við vinnum verður Liverpoolfólk skælbrosandi í morgunkaffinu í vinnunni á morgun. Við treystum bara á að West Ham létti þessar hugsanir á eftir.
Leikurinn er kl 16:30 og þverflautuleikari er Michael Oliver
Skildu eftir svar