Manchester United vann mikilvægan sigur í baráttunni um fjórða sætið þegar Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í 3-2 sigri á Tottenham Hotspur á Old Trafford. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur með alls konar færum og misvafasömum atvikum. Nú er bara að halda áfram á þessari braut og vonandi að Arsenal fari að tapa einhverjum stigum líka.
Dómari leiksins var Jonathan Moss.
Uppstillingar og helstu atvik
Ralf Rangnick stillti þessu liði upp í byrjun leiks:
Bekkur: Henderson, Bailly, Jones, Lindelöf, Wan-Bissaka, Lingard (81′ fyrir Ronaldo), Mata, Elanga (68′ fyrir Rashford), Cavani (80′ fyrir Matic).
Gestirnir frá London stilltu upp þessu liði:
Bekkur: Gollini, Rodon, Sanchez, Royal, White, Winks (88′), Bergwijn (87′), Lucas (78′), Scarlett.
Mörk:
12′ – United: Ronaldo með frábæru langskoti eftir flott flikk frá Fred
35′ – Spurs: Harry Kane mjög öruggur úr víti eftir að Alex Telles fékk boltann í hendina
38′ – United: Ronaldo eftir frábært uppspil, Sancho með stoðsendingu fyrir markið eftir flotta sendingu frá Matic
72′ – Spurs: Harry Maguire með sjálfsmark. Reguilón aleinn fyrir framan markiðsvo Maguire þurfti að fara í tæklinguna en Reguilón var augljóslega rangstæður og hafði mikil áhrif á markið í þeirri stöðu. Óheppni hjá Maguire.
81′ – United: Ronaldo með frábæran skalla af harðfylgni eftir horn frá Alex Telles. Ætlaði að klára þennan leik.
Spjöld:
30′ – Spurs: Eric Dier með gult.
35′ – United: Fred með gult þegar hann mótmælti ósamræmi í vítadómum.
85′ – United: Pogba með gult.
Leikurinn
Þetta var hörku leikur þar sem bæði lið gáfu sitt í þetta. United vildi fá víti eftir um það bil 10 mínútur þegar Ronaldo átti skot sem fór greinilega í hendina á Eric Dier. Stuttu síðar náði Ronaldo þó að kvitta fyrir þann dóm með frábæru marki. Boltinn barst inn að miðju við teig Tottenham á Fred, sem var frábær í dag, sem flikkaði boltanum snyrtilega áfram á Ronaldo. Ronaldo lagði boltann fyrir sig og lét vaða af löngu færi. Fast skot sem Lloris réð ekki við. Mögulega átti franski markvörðurinn að gera betur en skotið var frábært og United komið yfir.
Tottenham skoraði en það var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Góður varnarleikur þar hjá United. Dalot bjargaði á línu og liðin héldu áfram að sækja til skiptis. Mikið munaði um Matic á miðjunni hjá United, Fred var gríðarlega sprækur og Pogba gerði miðjuna þéttari og balanseraðri, jafnvel þótt hann hafi verið fullmistækur í sendingum oft.
En Tottenham fékk víti á 35. mínútu. Hinn mjög svo spræki Kulusevski fór þá upp teiginn og átti fyrirgjöf sem fór í hendina á Alex Telles. Mjög áþekkt atvikinu hjá Dier en í þetta skipti var dæmt. Óþarflega mikið ósamræmi þarna en Harry Kane var sléttsama og skoraði mjög örugglega úr vítinu þótt de Gea færi í rétt horn.
Aftur sá Ronaldo um að kvitta fyrir dóminn þegar hann skoraði, nánast í næstu sókn á eftir. Matic átti frábæra sendingu upp völlinn á Sancho sem var hárfínt ekki rangstæður. Hann gaf fyrir þar sem Ronaldo var einn og átti ekki í vandræðum með að skora. Mjög gott.
Ralf pældi mikið í skiptingunum og eftir 67 mínútur sendi hann Elanga inn fyrir Rashford. Sancho hafði verið mjög líflegur í leiknum en Rashford ekki jafn mikið, frekar að hann þvældist fyrir ef eitthvað var. Vonandi að hann fari að finna sig betur. Elanga kemur samt alltaf með eitthvað inn á völlinn. Síðan var planið að setja Lindelöf inn á fyrir Matic en þá jafnaði Tottenham.
Harry Maguire er mikið gagnrýndur fyrir allt mögulegt, sama hversu mikið hann á það endilega skilið. Það er þó satt að hann hefur verið að spila undir sinni eðlilegu getu og óheppnin virðist elta hann uppi, sem getur alveg verið merki um annað en tilviljun. Í þetta skipti þurfti hann að tækla fasta fyrirgjöf sem kom fyrir markið og sendi boltann í eigið mark. Romero, sem hegðaði sér eins og smákrakki í kjölfar marksins, var augljóslega rangstæður svo það hefði mátt réttlæta að dæma fyrst hann hafði greinilega áhrif á leikinn. En það er þó oftast ekki dæmt á svoleiðis. Markið stóð.
Þessu svaraði Ralf með því að hætta við að setja Lindelöf inn á og setti þess í stað Cavani inn fyrir Matic. Sókndjörf skipting. Ronaldo vildi augljóslega reyna að ná þrennunni og setti fastan táarbolta á rammann sem Lloris varði vel.
United fékk nokkrar hornspyrnur og þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum gerðust undur og stórmerki, Manchester United skoraði eftir horn! Cristiano Ronaldo reis þá hæst í teignum eftir að hafa slitið sig frá varnarmanni og skallaði í netið. Aðeins önnur þrenna hans fyrir Manchester United staðreynd en það sem skiptir meira máli: þrjú stig í hús!
Pælingar eftir leik
Bruno Fernandes missti af þessum leik og miðjan virkaði nokkuð góð án hans. Matic var flottur, Fred var frábær og það var yfirferð á Pogba. Hvernig púslast Bruno best inn í þetta lið?
Það er augljóst að liðið þarf annan miðjumann sem hefur svipaðan karakter og Matic. Það bara gefur liðinu svo mikið.
Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að Fred sé vanmetnasti leikmaðurinn í hópnum hjá Manchester United. Hann var frábær í dag og getur gefið liðinu svo mikið, þótt hann eigi það auðvitað líka til að gera mann gjörsamlega gráhærðan úr gremju yfir aulaskap þegar hann getur varla gefið einföldustu sendingar. Það var þó ekki vandamál í dag.
Framundan er seinni leikurinn gegn Atlético Madrid í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Staðan er 1-1 eftir fyrri leikinn og allt í járnum.
Eftir það kemur líklega ágætis pása því næsti staðfesti leikur er 2. apríl, gegn Leicester City. Nema leiknum gegn Liverpool verði troðið þarna á milli einhvers staðar.
doddi says
Erum svo með þennan leik, Ronaldo óstöðvandi. Erum á þvílíku runni núna.
Turninn Pallister says
Rétt @doddi
Maguire…Hold my beer
Egill says
Captain fat feck strikes again. Það er glæpsamlegt hvað hann fær að spila mikið þrátt fyrir að vera einn erati miðvörður deildarinnar.
Arni says
Maguire er eitt versta eintak af varnarmanni sem ég hef séð
Sindri says
Afhverju þurftum við endilega að vinna? Það fækkar athugasemdum hér um amk 20 :(
Egill says
Fred var gjörsamlega geggjaður í þessum leik. Hann og Ronaldo by far bestu menn vallarins.
Ég er alveg búinn að missa trúna á Rashford, hann virðist bara ekki vera með hausinn við fótbolta. Ef það er satt að hann sé farinn að hóta því að fara í sumar þá eigum við bara að stökkva á tækifærið og hirða pening fyrir hann.
Ég elska að vinna Tottenham!!
Golli Giss says
Átti ekki von á miklu. Karakterinn í liðinu kom manni á óvart, enda vonin um 4 sætið veik. Rónaldo steig upp þegar svartsýnin fyrir liðinu og neikvæðnin var að verða alsráðandi. Nú þarf liðið í heild að taka þennan jákvæða þráð og gera hann óslítanlegan og varðveita hann og verja með lífi og limum. Ef það tekst þá verðum við Evrópumeistarar í vor. Og hafiðið það, hananú.
Robbi Mich says
Geggjað að klára þennan leik. Flottur karakter.