Það hefur hreint ekki verið upp á marga fiska að fylgjast með Man United að undanförnu og leikir liðsins hafa alls ekki náð að vekja mikla spennu fyrir margan stuðningsmanninn. Endalausir orðrómar um sundrung í klefanum, í bland við ýmsar sögur um mögulega og ómögulega framtíðarstjóra félagsins og slúður um skoðanir leikmanna og fyrrum leikmanna liðsins um hver eigi að taka við skútunni ásamt því að liðið er hér um bil dottið úr öllum keppnum, hefur gert það að verkum að lítil sem engin eftirvænting er eftir næsta leik.
Næsti leikur er samt sem áður leikur við umdeilanlega lélegasta lið deildarinnar. Þeir eru kannski ekki alveg Derby 07/08 lélegir en hafa hlotið þann vafasama heiður að hafa fengið það orð á sig að vera jójó-lið deildarinnar. Þeir komast upp og versla lítið og fyrir vikið bóka farseðil aftur niður í Championship deildina þar sem þeir hins vegar eru sem kóngar í ríki sínu. Á síðustu 20 árum hafa þeir þrívegis unnið Chmapionship deildina og einu sinni lent í 2. sæti og í eitt skipti komist í gegnum umspilið. Þá hafa þeir líka á því tímabili fallið úr Championship deildinni niður í League One en auðvitað unnu þeir deildina árið eftir og fóru beint aftur upp.
Í dag sitja þeir á botni Premier League með 21 stig eftir 31 leik. Liðið hefur einungis komist upp úr fallsæti einu sinni á leiktíðinni, það var eftir 22. leikviku en þá var mikil óregla vegna Covid-19 og leikjum frestað og átti Burnley til að mynda tvo leiki inni og Watford í það minnsta einn. Það má því segja að þeir hafi verið í fallsæti allt tímabilið og eru samkvæmt tölfræðinni slakasta liðið í deildinni. Þeir hafa einungis skorað 20 mörk (0,64 mörk per leik) á meðan þeir hafa fengið á sig 63 (2,03 mörk per leik). Þá er ekkert lið heldur með hærra xGC (expected goals conceded) á útivöllum en þeir eða 2,2 vænt mörk í leik.
Þeim hefur einnig mistekist að skora í tveimur af hverjum þremur útileikjum sínum og eru þar að auki með afleitan árangur gegn stóru liðunum á þessu tímabili. Hins vegar er liðið í gallharðari fallbaráttu og hefur í raun engu að tapa. Þá hefur gengið United verið sömuleiðis hörmulegt en í þeim leikjum þar sem United er talið mun sigurstranglegra (með stuðul 1.25 eða lægri) hefur liðið einungis klárað 58% af þeim leikjum þegar sigurlíkur eiga að vera nær 80%. En þrátt fyrri að Norwich hafi einungis unnið fimm leiki þá unnu þeir tvo leiki í röð í tvígang og það sem verst er, fimmti sigurinn kom í síðustu umferð…
Í fyrri viðureign liðanna á tímabilinu sáum við 4-2-2-2 uppstillingu Ralf Rangnick falla saman þar sem maður leiksins var David de Gea í leik sem United vann með vítaspyrnu frá Ronaldo. Hlutfall með bolta var ískyggilega sambærilegt, (47,2% / 52,8%) og ekki mikið sem skildi liðin að fyrir utan þetta eina mark portúgalans. Ekki lítur það betur út þegar meiðslalistinn hjá Kanarífuglunum frá þessum tíma er skoðaður en 5 byrjunarliðsleikmenn voru frá eða að snúa aftur eftir meiðsli eða covid-19 og svo gat Brandon Williams ekki spilað þar sem hann er á láni frá okkur.
Það sama er upp á teningnum núna, Williams má ekki spila gegn uppeldisklúbbnum sínum og þá eru þeir Adam Idah, Andrew Omobamidele, Joshua Sargent og Ozan Kabak frá vegna meiðsla. Dean Smith sem tók við liðinu á miðju tímabili hefur verið að reyna að þétta varnarleik liðsins með misjöfnum árangri en hefur verið duglegur að breyta leikkerfi liðsins til að aðlaga sig að mótherjanum. Hann hefur notast við 4-2-3-1 og 4-3-3 en hefur í síðustu leikjum verið að prófa sig áfram með mismunandi jólatrés-leikkerfi á borð við 5-3-2, 4-3-2-1 og 4-3-1-2. Það er því erfitt að segja hvernig hann mun stilla upp liðinu á morgun, síðast þegar liðin mættust stillti hann upp í 4-3-3 en mín spá er á þessa leið:
En það má nánast bóka það að United mun ekki stilla upp í 4-2-2-2 núna á morgun eins og í síðustu viðureign. Ralf Rangnick hefur snúið aftur til 4-2-3-1 leikkerfisins en því miður hefur liðið ekki spilað góðan sóknarbolta né varnarbolta. Í síðustu 12 viðureignum hefur liðið einungis haldið hreinu í tvígang, gegn Watford og 10-manna Brighton liði.
Miklir orðróma hafa farið af stað um möguleg leikmannakaup fyrir sumarið í kjölfar mikillar umræðu um næsta stjóra Manchester United, nú þegar það er ljóst að Rangnick mun ekki halda áfram með liðið eftir leiktíðina. En það er líka áhugavert að heyra hvaða leikmenn er verið að orða burt frá United, hverjir úr núverandi hóp liðsins muni henta inn í leikstíl eftirmanns Rangnick. Pogba og Lingard eru að renna út á samning, Matic hefur óskað eftir því að fara og það virðist stefna í stærri yfirhalningu á liðinu en við höfum átt að venjast. Það verður því fróðlegt að sjá hvaða leikmönnum Rangnick treystir til að mæta á völlinn með hausinn rétt skrúfaðan á því að undanförnu hafa fæstir endurgoldið honum traustið á vellinum sjálfum.
Edinson Cavani er enn frá vegna meiðsla en ásamt honum eru þeir Fred, Luke Shaw, Raphael Varane og Scott McTominay á meiðslalistanum. Það er því ekki um auðugan garð að grysja, einkum og sér í lagi á miðjunni.
Ef þessir leikmenn skila ekki þremur stigum í hús á heimavelli, fyrir framan um og yfir 70 þús. stuðningsmenn gegn liði sem er 8 stigum frá öruggu sæti og einungis haldið sex sinnum hreinu (þar af í fimm 0:0 jafnteflum) þá þarf að rífa upp einhverja samninga þarna á Old Trafford. Á meðan það er ennþá tölfræðilegur möguleiki á 4. sætinu má liðið ekki gefa tommu eftir en við virðumst hins vegar staðráðnir í því að vilja spila á fimmtudögum á næsta tímabili. Bæði liðin hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu en einstaklingsgæðin hjá United eiga að vera nóg til að kaffæra Norwich og senda þá í áttina að Championship deildinni á nýju tímabili. Að því sögðu þá gætu Kanarífuglarnir hafa fengið byr undir báða vængi við að vinna Burnley í síðustu umferð og gætu mætt dýrvitlausir í þennan leik.
Leikurinn á morgun hefst kl 14:00 og flautuleikarinn verður Andrew Madley.
Skildu eftir svar