Erik ten Hag stýrði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í dag þegar Brighton kom í heimsókn. Nýr stjóri og tveir nýir leikmenn í byrjunarliði dugðu ekki gegn Brighton því með þeim inn á voru níu leikmenn frá síðustu leiktíð.
Að mörgu leyti er það synd að skrifa um þennan leik fyrir Manchester United síðu því það kallar á að fyrst og fremst er fjallað um United. Brighton verðskuldar hins vegar fullt af fögrum orðum fyrir sigurinn sem byggðist á framúrskarandi fyrri hálfleik.
Strax úr upphafsspyrnunni sýndi Brighton hvernig leggja átti leikinn upp. Framlína og miðja pressuðu United og unnu boltann oft á góðum stöðum. Moisés Caicedo mætti á rétta staði á miðjunni til að vinna boltann og hafi United áhuga á framherja yfir þrítugu þá mætti kannski líta á þennan Welbeck sem stöðugt olli vörninni vandræðum með krafti, hraða og góðum tímasetningum.
En Manchester United er liðið sem skapar fyrirsagnirnar og gerði það fyrir leik. Hvorki Christian Eriksen né Cristiano Ronaldo fóru með liðinu í æfingaferð um Tæland og Ástralíu en það var Daninn sem byrjaði leikinn sem framherji. Ten Hag virtist vera að sýna vald sitt með að bekkja óþekka Portúgalann, sem kann að vera skynsamlegt, en vald þjálfara byggist fyrst og fremst upp á að þeir vinni leiki.
Eriksen, eins og aðrir sóknarmenn United, fengu ekki úr miklu að moða í fyrri hálfleik. United var í basli með að koma boltanum fram úr vörninni. Scott McTomainay var ýmis of lengi á boltanum eða sendi út í buskann og Fred komst ekki í takt við leikinn.
Þótt United væri með boltann fyrsta hálftímann virtist Brighton beittara í aðgerðum sínum. United fékk þó ágætt færi á 24. mínútu. Aukaspyrna var tekin hratt niðri við D-boga, spilað fljótt upp völlinn að Eriksen en hans fyrsta snerting brást honum og skot hans olli Sanchez, markverði Brighton, engum vandræðum.
Hjartað enn lítið
En eftir hálftíma byrjaði brasið. Fyrst fór McTominay í groddalega tæklingu eftir að hafa misst boltann frá sér. Í næstu sókn var honum einfaldlega ýtt af boltanum og Brighton hóf skyndisókn. Hægri hlið United varnarinnar náði ekki að loka á sóknarmenn Brighton, Welbek tímasetti hlaup sitt á bakvið Harry Maguire fullkomlega og náði boltanum fyrir við endamörk yfir á fjær þar sem Pascal Gross kom á ferðinni og skoraði.
Markið molaði brothætt sjálfstraust United og spilið fór fjandans til í kjölfarið. Annað markið kom á 39. mínútu. Enn og aftur lenti miðja United í eltingaleik, boltinn barst til vinstri yfir á Trossard sem skaut, de Gea varði skot hans beint fyrir fætur Gross sem aftur var mættur á fjærstöngina. Á milli þessara marka hafði Welbeck náð að skjóta sér fram fyrir Maguire í fyrirgjöf en skallaði yfir. Ekki löngu síðar var Welbeck nærri búinn að hrista Maguire af sér á sprettinum, að þessu sinni varð það þeim rauðklædda til happs að boltinn fór aftur fyrir endamörk.
Eftir annað markið fóru varamenn United af stað til að hita upp, ekki furða miðað við frammistöðu þeirra sem inn á voru. Heimaliðið náði tveimur fínum sóknum fyrir leikhlé, skásta færið var þegar Eriksen reyndi að hæla boltann fyrir.
Eriksen tekur stjórnina
Það er eðlilegt að þegar fólk reynir sig á nýjum sviðum að það taki tíma að læra og á þeim tíma verði mistök. Erik ten Hag er að læra inn á enska boltann og lið hans sýndi vissulega stórstígar framfari í seinni hálfleik. Því miður reyndist það heldur seint.
Sömu ellefu leikmenn mættu aftur inn á og enn á ný var Welbeck í góðu skallafæri eftir fyrirgjöf en boltinn fór yfir. En fleiri teljandi færi fékk Brighton ekki í seinni hálfleik, þótt nýi maðurinn Martinez hefði getað fengið á sig vítið þegar hann fór í bakið á Welbeck.
United tók að sækja og á 49. mínútu sendi Eriksen sendi fyrir frá hægri á Rashford sem kom hlaupandi á fjærstöngina en skaut yfir. Fjórum mínútum síðar var Ronaldo hleypt út úr skammarkróknum og hann hafði ekki verið lengi inn á þegar hann slapp inn fyrir vörnina og sendi fyrir á Rashford sem lét Sanchez verja frá sér úr algjöru dauðafæri. Sem betur fer fyrir hann var Ronaldo að lokum dæmdur rangstæður en munurinn var það lítill að markið hefði mögulega getað staðið eftir varsjárskoðun.
En það var ekki innkoma Ronaldo sem skipti mestu máli, heldur út fór Fred og Eriksen var færður aftar á miðjuna sem kom honum – og þar með öðrum leikmönnum United, meira í snertingu við boltann. Daninn var langbesti leikmaður United í dag. Hvað eftir annað sendi hann boltann fram á við á samherja í fyrstu snertingu, bjó til breidd með að senda boltann milli kanta eða bjó til vandræði fyrir varnarmenn Brighton með góðum fyrirgjöfum
Löng bið eftir staðfestingu
Á 66. mínútu átti hann fyrirgjöf á Rashford sem mætti á fjærstöngina en skaut yfir. Mínútu síðar valdi Eriksen að skjóta sjálfur, Sanchez varði út í teig þar sem samherji hans hreinsaði í horn. Eriksen tók hornið, Sanchez mistókst að kýla boltann frá sem breytti um stefnu af upphandlegg Dalot í átt að markinu. Mac Allister og Sanchesz reyndi í örvæntingu að bjarga en sendu boltann að lokum í netið.
Við tók nokkur bið eftir staðfestingu marksins. Í fyrsta lagi vildu Brighton-menn meina að Dalot hefði haldið Sanchez, sem ekki var. Hins vegar má ekki skora með hendi svo Mac Allister hefur trúlega bjargað marki fyrir United.
United sótti eftir þetta en ávallt vantaði síðasta boltann. Sennilega var besta færið á 87. mínútu þegar boltinn féll fyrir Martinez á fjærstönginni eftir horn en skotvinkill hans var þröngur og gestunum tókst að fleygja sér fyrir boltann.
Martinez átti ágætan dag, nokkuð hefur verið gert úr smæð hans og vissulega olli Welbeck United-vörninni vandræðum. Martinez staðsetti sig hins vegar almennt vel, virtist var um hvað væri að gerast í kringum hann, er þokkalega fljótur og ágætlega spilandi.
Donny van de Beek fyrir McTominay var önnur skipting United þegar um kortér var eftir. Á 90. mínútu gerði ten Hag þrefalda skiptingu, Alejandro Garnacho, Anthony Elanga og Tyrrell Malacia komu inn fyrir Bruno Fernandes, Jadon Sancho og Luke Shaw. Trúlega hefði mátt gera þá skiptingu töluvert mikið fyrr því Sancho og Bruno voru lítt sýnilegir í leiknum.
Góður seinni hálfleikur afsakar ekki afleit úrslit
Vissulega má ekki dæma of hart út frá fyrsta leik en staðreyndin er engu að síður sú að tap gegn Brighton er óásættanlegt, sama hvort um er að ræða leik númer eitt eða 15. Ralf Rangnick kann að hafa bakað sér óvinsældir með að segja að United þyrfti 10 nýja leikmenn og að núverandi hópur væri ekki líkamlega tilbúinn í verkið. Helst er að Rangnick hefði getað bætt því við að auk þess vantaði fótboltalega getu til að geta talist hæfur byrjunarliðsmaður fyrir Manchester United.
Erik ten Hag mun horfa á hvernig spilað er upp í gegnum miðjuna. Mögulega er einhver lausn að setja Eriksen þangað með annað hvort Fred eða McTominay, þeir tveir saman eru ekki málið. Búið er að eyða ársfjórðungi í að elta Frenkie de Jong, ef hann vill ekki fara þá verður að vera til plan b því þessa miðju er ekki á enn einn veturinn setjandi. Dalot var með þeim slakari í fyrri hálfleik, þótt hann bætti sig líka verulega í þeim seinni, þá er erfitt að treysta honum í heilt tímabil. Maguire og Martinez verðskulda tíma til að spila sig saman en það er líka ákvörðun að geyma Raphael Varane á bekknum. Ef markvörðurinn á að taka þátt í uppspilinu þarf annað hvort að finna slíkan mann eða de Gea að taka snarlegum framförum. Ronaldo kann sitt en er orðinn heldur svifaseinn, Marko Anautovic virðist ekki spennandi varakostur. Ten Hag má þó eiga það að þeir leikmenn sem keyptir hafa verið á hans vakt voru þeir skástu í dag.
Aðspurður um nýja leikmenn eftir leikinn í dag svaraði ten Hag að fyrst og síðast þyrfti að ná meiru út úr þeim sem fyrir eru. Það er vissulega hárrétt en hann segir trúlega sínum yfirboðurum að þeir þurfi að haska sér næstu þrjár vikurnar.
Egill says
ETH á þetta tap algjörlega.
Hann hefur haft allt sumarið til þess að bæta í þær stöður sem þarf að bæta, en við erum ennþá að notast við Shaw, Maguire, McFred og Rashford. Enginn þeirra á að fá fleiri sénsa í þessu liði. Að mæta í fyrsta leik á Old Trafford án framherja og að geyma besta leikmann sögunnar á velknum er til skammar, og ETH er ábyrgur fyrir því.
Það er löngu ljóst að McFred miðjan er ekki góð, það hefur verið ljóst lengi, en samt er ekki búið að bæta miðjuna.
Rashford hefu nekkert getað í 3 ár en virðist alltaf fá að halda sínu sæti.
Byrjunarliðið og nýting á sumarglugganum er á ábyrgð ETH, og ég er ansi hræddur um að hann vwrði farinn fyrir áramót.
Audunn says
Verður erfiður vetur ef liðið ætlar að spila svona.
Ég held að ETH hafi því miður ekki úr öðrum kostum að velja. Ronaldo er líklega ekki kominn í form fyrir 90 mín og það eru ansi fáir kostir á bekknum eins og staðan er í dag.
Þetta snýst um að þeir sem sjá um leikmannakaup girði sig í brók og bakki stjórann upp með kaupum á 3 gæða leikmönnum.
Svo er stóra spurningin hvort þeir leikmenn vilja koma til Manchester United eða hvort eigendur liðsins séu tilbúnir til að eyða þeim upphæðum sem þarf.
Þetta eru spurningar sem enginn getur svarað nema þeir sjálfir.
Dór says
Ef ég sé maguire og Mcfred aftur í þessu liði þá mun ég slökkva á þeim leik
oli says
Það munu skiptast á skin og skúrir þetta tímabilið. Það jákvæða er að félagið er loksins komið með knattspyrnustjóra sem flestir eru sammála um að hefi framtíðarsýn og muni koma liðinu í fremstu röð. Það mun hins vegar taka tíma alveg eins og það tók Klopp tíma hjá Liverpool.
Það sem hryggir mig meira en úrslitin í dag er að sjá Erling Haaland skora tvö mörk fyrir City. Minnir mig á þegar Rooney kom til United og skoraði þrennu í fyrsta leik gegn Fenerbache. Haaland er leikmaður sem var skapaður til að leika listir sínar í „leikhúsi draumanna“ og það hefði hann gert ef hann væri 10-15 árum eldri. Að sjá hann hjá City neyðir mann til að horfast í augu við það að Manchester United hefur ekki sama adráttarafl og á árum áður og í dag eru heilu kynslóðirnar að vaxa úr grasi sem stuðningsmenn Manchester City og Liverpool.
Scaltastic says
Það hafa verið, eru og munu verða um ókomna framtíð forréttindi að fylgjast með vegferð og staðfestu Glazer’s, Woodward, „pintu“ Rikka og Murtough. Kvikindin verða seint sökuð um annað en umbuna þessum sigurvegurum og stríðsmönnum líkt og þeir eiga skilið. Það er ekki laust við að undirritaður hafi fellt tár þegar að ég sá heilögu þrenninguna (Joel, Rikka og Murtough) í stúkunni.
Ég er sammála því að Ten Hag var ekki að finna taktinn með liðsvali og ég var vel pirraður yfir því að Garnacho fékk ekki a.m.k. hálftíma í staðinn fyrir Rashy eða Sancho. Honum til varnar þá er þessi leikmannahópur víðsfjarri því að vera samkeppnishæfur, sérstaklega í ljósi þess að fimm skiptingar eru leyfðar.
Það er óraunhæft að ætlast til þess að svona risastór aðdáendahópur sé samhæfður og sammála um flest. Hins vegar er það mjög sorglegt að horfa uppá það meirihluti hanns sættir sig því miður við núverandi stefnu/leysi félagsins. Við því er lítið hægt að gera, því miður :(
Rúnar P says
Harry Maguire gat ekki einusinni dekkað sjálfan sig í báðum mörkunum sem Brighton skoraði, alveg út á túni
Einar says
Hvaða grín er í gangi hjá klúbbinum?
Ekkert plan, engin fyrirhyggja, algjört kaós.
Eina sem mér dettur í hug er örvæntingarfull óskhyggja um að Glazers ætli loksins að selja klúbbinn og vilji þess vegna ekki setja alvöru pening í að bakka upp ETH.
Benjamin Šeško kaupin ganga ekki, of dýr. En nú tweetar Fabrizio Romano um að Leipzig sé að kaupa hann. Vel gert! En þetta er í góðu lagi, því Marko Arnautović (ég hélt hann væri hættur!) er til í að koma!
Nú heyrast fréttir um og Rabiot! Rabiot sem ku vera bæði hundlatur, ófagmannlegur og algjört eitur í búningsklefanum, fyrir utan að vera lítil bæting á McFred trúðskombóið sem við höfum núna á miðjunni. Hvílík kaup!
Svo virðist ETH (kannski skiljanlega) ekki treysta scouting kerfinu hjá United.. leitaði bara í hollensku deildina eða í fyrrum leikmanna fyrr í sumar. Ætla vissulega að gefa Malacia og Lisandro sín tækifæri áður en maður getur lagt mat á þau kaup, því ég hreinilega hafði aldrei heyrt um þessa leikmenn fyrir sumarið. . En það verður að segjast að svona liðstyrkir munu ekki breyta neinu fyrir liðið. Við enduðum í 6. sæti og áttum hreint hörmungartímabil.. við erum ljósárum á eftir öðrum liðum og því miður er ekkert nema miðjumoð framundan.
Í kringum okkur? City vinna titilinn og kaupa Erling Haaland og Kalvin Phillips!
Liverpool lenda í öðru sæti og kaupa Darwin Nunez á metfré. Arsenal kaupa Gabriel Jesus og Zinchenko, Chelsea versla vel inn, Sterling, Koulibally, Cucurella.. hugsanlega Frenkie De Jong
Þetta er farsi.
Laddi says
Einar hér fyrir ofan mig hefur rétt fyrir sér, það að United sé að reyna að kaupa Arnautovic (?!?) og Rabiot hlýtur að vera einhvers konar lélegur brandari. Rabiot er reyndar (fyrrum) franskur landsliðsmaður en hann er vandræðagemsi af verstu sort og United var að losna við einn franskan vandræðagemsa fyrr í sumar og því fáránlegt að falla beint í faðminn á þeim næsta! Arnautovic er svo reynd stærð í deildinni sem gat ekki einu sinni plummað sig vel hjá West Ham eða Stoke, hverju hann á að breyta á Old Trafford er mér hulin ráðgáta…
En að leiknum. Leikmenn eru margir hverjir í sama bullinu og á síðasta tímabili, leggja sig einfaldlega ekki nógu mikið fram og gleyma sér á lykilstundum. Bæði mörk Brighton eru vegna mistaka + einbeitingarleysis. McTominay og Fred saman á miðjunni er orðinn einhver innanhúss brandari sem hlýtur að hætta að vera fyndinn fljótlega, allavega er áhorfendum ekki skemmt. Það hvað miðjan snöggbatnaði við að Eriksen færi niður í seinni hálfleik hlýtur að vera það sem koma skal. Rashford heldur áfram að vera dapur og það er eiginlega kjánalegt að segja það en Martial hefði sennilega breytt helling ef hann hefði verið heill.
Glugganum lokar eftir 23 daga, á þeim tíma þarf að kaupa almennilegan miðjumann, framherja og hægri bakvörð. Það mun að sjálfsögðu ekki gerast, þ.e. mögulega verða einhverjir keyptir en miðað við fregnirnar eru það í besta falli skammtímalausnir eða í versta falli vondar lausnir. Eigendurnir hafa einfaldlega ekki áhuga á að eyða alvöru pening í þá leikmenn sem vantar, henda 100M í West Ham og fá Rice eða henda 50M í Salzburg og fá Sesko. Það væru skynsamleg kaup þrátt fyrir hátt verð, góðir leikmenn kosta mikið og það eina sem myndi breytast er hversu mikinn arð eigendurnir geta tekið útúr félaginu. Ég á ekki þennan pening, það að eigendurnir þurfi að borga mikið hefur engin persónuleg áhrif á mig, og það kostar bara mikið að styrkja liðið, fjármagn sem klúbburinn augljóslega á (eða átti einhvern tímann, arðurinn, sko).
En þetta er ofurhlaup, ekki spretthlaup. Það tekur tíma að rétta þetta af en ég er alls ekki mjög bjartsýnn fyrir hönd ten Hag, lykilatriðið í svona uppbyggingu er að klúbburinn standi þétt við bakið á honum og kaupi þá leikmenn sem hann vantar og óskar eftir. Ég er bara hræddur um að eigendunum sé nokkuð drull á meðan aurinn heldur áfram að tikka í kassann og gera eins lítið og þeir mögulega geta…
Dór says
Ef united kaupir Arnautovic og Rabiot þá mun ég segja skilið við þennan klúbb sem ég hef haldið þeð 37 ár þetta er ekki lengur manchester united lengur
Arni says
Manni er farið að vera alveg sama þótt united tapi við erum búnir að vera svo lélegir lengi
Gummi says
Við endum í 14 sæti í vetur erum ekki með betri hóp en það
Hjöri says
Andskotans svartsýni er þetta hjá mönnum, þetta var bara fyrsti leikur (að vísu bjóst maður við sigri) en svona er fótboltinn óútreiknanlegur. En ef ég man rétt þá hefur fyrsti leikur tímabilsins tapast æði oft.
Helgi P says
Þetta er nú kominn heil 9 ár af skitu þótt þetta hafi verið fyrsti leikur á þessu tímabili ég horfi bara á spilamennskuna og hún hefur ekkert batnað í 9 ár ef THG hefði einhvað verið búinn að fylgjast með united síðustu ár þá ætti hann að vita að McFred er ekki málið nema að hann vilji missa vinnuna fyrir jól þetta var ömurleg uppstilling í fyrsta leik
Tómas says
Meiri hörmungin að fylgja þessu liði.
Kenni ETH ekki um tapið heldur eigendum og stjórn.
Rétt eins og einhver skrifaði hér að ofan þetta er farsi.
Það mun ekkert breytast meðan Glazers eiga klúbbinn.
Danni says
Það að sögur um að Murtough og Co séu að pissa utan í Juve út af Rabiot sýnir bara á hversu slæmum stað klúbburinn okkar er. Ætla bara rétt að vona að þetta sé einhver örvæntingafull tilraun til að koma einhverri hreyfingu á De Jong tilboðinu frekar en það sé alvöru áhugi á Rabiot. Ef ekki, þá hljóta aðrir kostir að vera fullreyndir og örvæntingin hefur tekið völd.
Það að við höfum verið orðaðir við nánast alla miðjumenn í Evrópu megnið af sumrinu og að útkoman sé hrokafullur fýlupúki sem aldrei hefur verið meira heldur en efnilegur er talsvert verra heldur en þegar Fellaini var keyptur í panic kasti um árið.