Eftir sannkallaða Jekyll & Hyde frammistöðu Manchester United á byrjun tímabilsins, er ekki laust við að stuðningsmenn séu bæði spenntir og taugaveiklaðir í aðdraganda leiksins. Eftir að hafa farið með skottið á milli lappanna eftir fyrstu tvo leikina gegn Brighton og Brentford, gerði liðið sér lítið fyrir og lagði Liverpool, nokkuð sem liðinu hefur ekki tekist frá því 2018 (í deildinni það er). United var fyrir umferðina í neðsta sæti deildarinnar en situr nú í því fjórtánda. Því ef einhverjir stuðningsmenn liðsins getaekki fundið huggun í því að sigra erkióvinina frá Liverpool þá er líka hægt að líta á töfluna og sjá að það eru talsvert skrýtnir hlutir að gerast og flestöll stóru liðin að hiksta að því er virðist.
En það þarf að hamra járnið á meðan það er heitt og gera Liverpool leikinn að vendipunkti leiktíðarinnar því næstu vikur verða mjög strembnar þar sem liðið leikur fimm af sjö næstu leikjum á útivelli. Stuttu síðar mun liðið svo mæta þremur Lundúnarliðum í röð (Spurs, Chelsea, West Ham) áður en liðið fær einhverja leiki sem eiga að teljast auðveldari á blaði. Leikurinn gegn dýrlingunum er því óþægilega mikilvæg byrjun á erfiðri leikjadagskrá okkar manna í september og október.
Southampton
Margir álitu svo að Ralf Hasenhuttl og hans menn yrðu í miklu basli í ár þar sem þeir enduðu síðasta tímabil afleitlega með einu stigi úr síðustu fimm leikjunum og hafa síðan verið rólegir á leikmannamarkaðinum. Þeirra helstu kaup eru Gavin Bazunu (markmaður) og Romeo Lavio (varnarmiðjumaður) báðir úr varaliði Manchester City, Sekou Mara, tvítugur framherji með 890 mínútur úr frönsku deildinni á síðasta ári og Armel Bella-Kotchap (miðvörður) sem hefur reyndar farið ágætlega af stað í deildinni og er þegar komið með stoðsendingu eftir 2 leiki. Liðið missti á sama tíma Fraser Forster, Dan N’Lundulu og Shane Long.
Hasenhuttl hefur frá því hann kom til Southampton ekki verið hræddur við að breyta til og aðlaga leikkerfi sitt eftir leikmönnum og líka mótherjum sínum. Á tímabilinu 2018/2019 notaðist hann mikið við 3-4-3 og 3-5-2 en hefur í seinni tíð fikrað sig yfir í 4-4-2 og virðist hann vera að festa leikkerfið í sessi hjá sínum mönnumef marka má síðustu leiktíðir: 33 leikir 19/20, 42 leikir 20/21 og 32 leikir 21/22. Það væri því tölfræðilega best að skjóta á að austurríkismaðurinn hendi í 4-4-2 en hann hefur ekki enn gert það á þessari leiktíð:
Southampton vann síðasta deildarleik 1-2 gegn Leicester City og ég býst við að Hasenhuttl haldi nánast óbreyttu liði með nýju leikmennina, Aribo, Lavia og Bazunu alla innanborðs en líklegast kemur Che Adams inn í stað Mara eftir að Adams kom inn á og breytti síðasta leik úr tapi í sigur með tveimur mörkum. Þeirra hættulegustu menn verða líklega Djenepo og téður Che Adams en ekki má gleyma að þeir eru vafalaust með besta aukaspyrnusnilling Úrvalsdeildarinnar, James Ward-Prowse, sem er alltaf stórhættulegur úr föstum leikatriðum.
Manchester United
Hvar á að byrja? Flestir stuðningsmenn eru eflaust orðnir örmagna og komnir með upp í kok af fréttum, slúðri, neiðkvæðni, bulli og öðru tengdu klúbbnum í þessum leikmannaglugga. Frenkie de Jong verður líklegast áfram hjá Barca og í vikunni fyrir Liverpool leikinn vorum við orðaðir við alla leikmenn sem hafa reimt á sig takkaskó undanfarin tvö árin. Eftir hroðalega byrjun á leiktíðinni fylltust fréttir af því að United ætlaði að kaupa marga leikmenn inn, Antony, Frenkie de Jong, Trapp, Gakpo og hægri bakvörð en um leið og leiknum lauk á mánudagskvöldinu féll allt í dúnalogn og svo virtist sem allir íþróttafréttamenn hefðu farið í frí á sama tíma. Enda eflaust taktík hjá eigendunum að skapa jákvæða umræðu með því að tala um stór kaup þegar illa gengur en um leið og örlítil sólarglæta gerir vart við sig að skella í bakkgír og fara í sama gamla Glazer-farið.
En góðu fréttirnar eru þær að Casemiro er orðinn leikmaður United og verður væntanlega í hópnum á laugardaginn en enn bíðum við eftir sóknarmönnunum sem liðið hyggst kaupa. United hefur ekki verið með almennilega og hreinræktaða sexu frá því að Michael Carrick var að spila þrátt fyrir að stuðningsmenn hafi grátbeðið um slíkan leikmann síðustu ár. Vonandi verður hann settur beint í liðið enda algjör heimsklassaleikmaður hér á ferð.
Þá hefur mikið verið ritað um þá ákvörðun stjórans að taka bæði Maguire og Ronaldo út úr liðinu gegn Liverpool en það skilaði sér sannarlega. Martinez og Varane voru óaðfinnanlegir í vörninni og Tyrell Malacia var einstaklega flottur í vinstri bakverðinum. Þrátt fyrir að United hefði einungis eins marks forystu í leiknum undir lokin þá læddist ekki þessi óþægilega tilfinning að vörnin væri að fara fá á sig mark undir lokin og missa leikinn frá sér. Það er langt síðan varnarlína United hefur veitt manni þá öryggiskennd en Erik ten Hag virðist vera kominn með ágætisblöndu í varnarlínuna og ekki skemmir fyrir að fá Casemiro fyrir framan hana, hafandi spilað í fjölda ára með Varane og auðvitað Ronaldo.
Þegar kemur að liðsvalinu gæti ten Hag komið okkur á óvart en ég tel að þetta verði liðið gegn dýrlingunum. Hugsanlega getur verið að hann fari í 4-3-3 en ég myndi gera ráð fyrir því að hann myndi halda sama leikkerfi en gefa þeim sem spilar við hlið Casemiro aukið frelsi til að sækja fram völlinn.
Líklegast mun Ronaldo koma inn í liðið á kostnað Elanga sem stóð sig samt sem áður mjög vel í síðasta leik. Þá geri ég ráð fyrir að McTominay fái að víkja fyrir Casemiro og þrátt fyrir að Fred hafi ekki spilað vel þá á hann og Casemiro gott samband á miðjunni hjá Brasilíu og það gæti hjálpað að vera að spila með leikmönnum sem þú ert vanur að spila með, að minnsta kosti fyrst um sinn. Vonandi fáum við þá að sjá bestu hliðar Fred, sem nýtur sín vel í box-to-box hlutverki á miðjunni þegar hann þarf ekki að liggja með McTominay og vernda varnarlínuna eins mikið. Það er ekkert útilokað að við sjáum samt Casemiro-Eriksen-Fernandes miðju í 4-3-3 leikkerfinu sem gæti verið algjör negla, varnarlega og sóknarlega en það kunna að vera draumórar höfundar.
Engin meiðsli ættu að setja strik í reikninginn varðandi byrjunarliðið en þeir Brandon williams, Facundo Pellistri og Victor Lindelöf eru á meiðslalistanum.
Takist liðinu að vinna þennan leik verður liðið með sex stig eftir 4 umferðir og þrátt fyrir að liðið verði að horfa á einn leik í einu eins og staðan er í dag þá er gríðarlega mikilvægur leikur 4. sept þegar erkifjendurnir í Arsenal koma á Old Trafford, en þeir eru með fullt hús stiga og hafa litið hvað best út það sem af er.
Næstu leikir:
Leicester (úti)
Arsenal (heima)
Crystal Palace (úti)
Leeds (heima)
Leikurinn hefst á slaginu 11:30 og flautuleikarinn dagsins Andrew Medley.
#Glazersout
Skildu eftir svar