Eftir tvo sigurleiki í röð fara United menn að öllum líkindum bjartsýnir inn í leik gegn neðsta liði ensku úrvalsdeildarinnar, Leicester City. United hefur gengið hrikalega á útivelli á almanaksárinu 2022 en síðustu helgi lauk lengstu leikjahrinu án sigurs á útivelli í 90 ár þegar United sigraði Southampton. Vonandi hefur sá sigur gefið mönnum meiri trú á að sigur á útivelli sé í raun möguleiki, sem var farið að virðast óraunverulegur möguleiki. Erik ten Hag gerði engar breytingar á liði sínu frá sigrunum á Liverpool sem kom líklegast engum á óvart enda var það mjög flottur leikur. Margir bjuggust kannski við aðeins betri frammistöðu en ég tel að allir stuðningsmenn United sætti sig við 1-0 sigurinn gegn Southampton. Sá sigur leit líka talsvert betur út eftir að Dýrlingarnir sigruðu Chelsea núna á þriðjudaginn. Það verður þó að segjast að United hefði alveg getað spilað betri leik gegn Southampton en hungrið og krafturinn var ekki alveg jafnmikill og gegn Liverpool. Sami kraftur og United liðið mætti með gegn Liverpool myndi gera okkur mjög líklega til þess að sigra Leicester.
Liðið
Ég held að Erik ten Hag haldi sig við sama lið en geri þó eina breytingu og það er að byrja með Casemiro í stað Scott McTominay. Þá gæti ég trúað því að ef Martial er kominn til baka úr meiðslum þá tel ég að hann byrji fram yfir Elanga og Rashford yrði þá færður út vinstra meginn og Martial upp á topp, að því sögðu þá held ég að Martial verði ekki tilbúinn fyrir leikinn gegn Leicester. Það gæti verið að ten Hag byrji með McTominay inn á í stað Casemiro ef hann telur Casemiro þurfa að aðlagast umhverfinu eitthvað meira en mér finnst talsvert líklegra að hann treysti Casemiro algjörlega fyrir því að vera tilbúinn. Sumir United menn hefðu kannski vonanst til þess að sjá nýja leikmann United Antony sýna brellur sínar í þessum leik en hann verður þó ekki kominn með leikheimild og þurfa menn að bíða aðeins lengur eftir honum.
Leicester City
Leicester City hefur verið í allskonar brasi frá upphafi leiktíðar, liðið hefur ekki keypt neinn leikmann og misst markmanninn sinn Kasper Schmeichel sem var einn af máttarstólpum liðsins og nú er Fofana ungi og efnilegi miðvörðurinn þeirra kominn til Chelsea. Þá situr liðið á botni ensku úrvalsdeildarinnar án sigurs og einungis eitt stig, sumir telja að það sé farið að hitna heldur betur undir Brendan Rodgers. Það verður þó að segjast að Brendan Rodgers er í talsvert erfiðri stöðu þegar hann fær ekki til sín neina leikmenn og önnur lið í deildinni eru farinn að kroppa í hans bestu leikmenn. Liðið hefur þó virkað frekar andlaust ekki bara í upphafi tímabils heldur líka bara á þessu almanaksári og eru ekki alveg jafn sprækir og þeir hafa verið undanfarin tímabil.
Liðið er þó með marga gæða leikmenn innanborðs sem geta alveg gert liði eins og United lífið leitt. Youri Tielemans er mjög góður miðjumaður og þá er Harvey Barnes alveg týpískur leikmaður til þess að slengja einum bolta sláin inn af 26 metra færi gegn United. Svo ekki sé minnst á Jamie Vardy sem er lúsiðinn fram á við og á eftir að skora á þessu tímabili. Liðið tapaði gegn Chelsea 2-1 síðustu helgi sem ætti ekki að vera skömmustulegt nema mögulega vegna þess að Chelsea fékk rautt spjald á 28 mínútu þegar staðan var 0-0 og lék manni færri restina af leiknum. James Maddison, markahæsti leikmaður Leicester á tímabilinu er tæpur fyrir leikinn og því spái ég því að hann byrji ekki inn á.
United ætti að vinna þennan leik ef maður skoðar frammistöðu Leicester á tímabilinu, það er þó alltaf hættulegt að mæta liðum sem hafa farið illa af stað, Liverpool fékk að kynnast því gegn okkur og Bournemouth fékk svo að kynnast því gegn Liverpool. Krafan er samt að United bara vinni Leicester og tryggi okkur þriðja sigurinn í jafn mörgum leikjum, en hafandi fylgst með United undanfarin ár þá veit maður að liðið bænheyrir ekki alltaf slíkar bónir og kröfur. Sigur núna á fimmtudaginn myndi gefa manni alvöru fiðring fyrir leikinn gegn Arsenal næstkomandi sunnudag. Sumir spá því að ef Leicester vinnur ekki leikinn gegn United þá verði Brendan Rodgers mögulega látinn fara, því er þó ekki hægt að svara fyrr en eftir leik og jafnvel ekki einu sinni þá.
Annað varðandi leikinn, Leicester og United
– Craig Pawson verður á flautunni í leiknum.
– United vann seinast á King Power í úrvalsdeildinni í júlí 2020
– Liðin hafa mæst 32 í úrvalsdeildinni og hefur United unnið 19 sinnum en Leicester 4 sinnum
Skildu eftir svar