Manchester United mætir í kvöld FC Sheriff Tiraspol frá Moldóvu í Evrópudeildinni. Tveir fyrrum leikmenn Sheriff, þeir Maxim Iurcu og Serghei Diulgher hafa í sumar spilað með Einherja frá Vopnafirði í íslensku fjórðu deildinni. Rauðu djöflarnir hittu Maxim og Serghei eftir að Einherji tryggði sér sæti í þriðju deildinni að ári í gærkvöldi og fræddist um þá sjálfa, Moldóvu og Sheriff.
„Við fórum í gegnum unglingaliðið hjá FC Sheriff. Þetta er félag með góðan heimavöll, æfingasvæði og mikið unglingastarf. Liðið í dag er hins vegar nær alfarið skipað erlendum leikmönnum, það eru bara tveir Moldóvar þar núna,“ segir Serghei.
Serghei, sem fæddur er árið 1991, spilaði 15 leiki með Tiraspol á árunum 2008-10, meðal annars í Evrópudeildinni. „Ég var alltaf varamaður en fór með til margra landa, Króatíu, Sviss, Hollands. Ég hálfgerður ferðalangur.“
Maxim er tveimur árum yngri, spilaði með Sheriff milli 2011-16 og er skráður með 5 mörk í 29 leikjum. „Ég var líka mest á bekknum en spilaði í bæði Evrópudeildinni og Sambandsdeildinni. Það er allt annað að spila í Evrópukeppni en í deildinni, maður þarf bæði að hugsa og hlaupa hraðar,“ segir hann. „Auðvitað er maður dálítið óttasleginn fyrir að mæta svona góðum liðum en það er líka mjög mikil reynsla þegar maður er ungur,“ bætir Serghei við.
Áður en Maxim kom til Einherja var hann hjá Petrocub sem er liðið sem er næst á eftir Sheriff í Moldóvu. „Ég skrifaði undir fyrsta atvinnumannasamninginn minn hjá Sherriff árið 2014 og lék með liðinu næstu þrjú ár á eftir. Ég vann með þeim meistaratitilinn og bikarkeppina. Það er hins vegar mikil samkeppni um sæti í liðinu því það eru engar takmarkanir á erlendum leikmönnum í deildinni. Þeir eru dýrari svo það er mikil pressa á liðin að nota þá frekar en heimamennina,“ segir hann.
Kom fyrst til að vinna í sláturhúsinu
Fjarlægðin milli Vopnafjarðar og Moldóvu er hins vegar æði löng. „Ég kom hingað fyrst til að vinna. Búlgarskur vinur minn, sem var liðsfélagi minni Moldóvu, var kominn til Íslands og sendi mér skilaboð um hvort ég vildi prófa að koma hingað og spila og vinna meðfram því. Hann sagði hér væri hægt að fá fína vinnu. Þar til við komum hingað höfðum við Maxim bara verið atvinnumenn í fótbolta,“ segir Serghei.
„Ég kom fyrst bara til að vinna í sláturhúsinu, hjá Sláturfélagi Vopnfirðinga. Það sumar fékk ég að mæta á æfingar og Víglundur (Páll Einarsson, formaður Einherja), sagðist vilja fá mig í liðið árið eftir. Þess vegna kom ég aftur í fyrra til að spila með liðinu.“
Serghei segir að stundum geti verið erfitt að tvinna saman vinnuna og fótboltann. „Við erum stundum á næturvöktum og mætum svo á æfingar. Það er ekki auðvelt en við höldum okkar striki. Næsta sumar bætist síðan við að þurfa að fara til Reykjavíkur til að spila á tveggja vikna fresti.“
Það var síðan Serghei sem fékk Maxim til Íslands. „Hann hringdi og spurði hvort ég vildi koma til að vinna og spila fótbolta. Ég hafði aldrei unnið áður, bara spilað fótbolta en það er ekki hægt að komast af með 2.000 evrur á mánuði þannig ég var til í að prófa. Ég er orðinn betri starfsmaður en ég var í byrjun. Mér fannst líka frekar kalt þegar ég kom hingað í vor en það hefur skánað.“
Maxim skoraði eitt marka Einherja í gær í 5-2 sigri á Ými úr Kópavogi í seinni leik liðanna í undanúrslitum fjórðu deildar. Úrslitin þýða að Einherji er kominn upp um deild og mætir Árbæ í úrslitaleik um helgina. „Það er ótrúlega gaman að vera komin upp um deild. Þótt við í liðinu komum úr ólíkum áttum þá erum við eins og ein stór fjölskylda,“ segir Serghei.
Ótryggt ástand í heimalandinu
Þeir verða á Vopnafirði út síldarvertíðina sem lýkur um miðjan nóvember og stefna þá heim til Moldóvu í frí. „Þetta er flókið land því það skiptist í tvennt, eiginlega tvö lönd svipað og Kosovo. Annars vegar ertu með rúmenska hlutann þar sem Chisnau er höfuðborgin, hins vegar er það rússneskumælandi hlutinn þaðan sem við erum. Þar eru rússneskir hermenn staðsettir,“ útskýrir Maxim.
„Vegna stríðsins í Úkraínu hafa verið framin hryðjuverk í Tiraspol. Þess vegna er borgin ekki talin örugg og því hefur UEFA fyrirskipað að leikurinn fari fram á þjóðarleikvanginum í Chisnau,“ bætir Serghei við.
Við slíkar kringumstæður er eðlilegt að hugurinn leiti reglulega heim. „Við höfum stöðugar áhyggjur af fjölskyldu okkar og vinum en við getum aðeins vonað það besta,“ segir Serghei.
Vel er hins vegar hugsað um þá á Vopnafirði. „Allir í bænum elska liðið og okkur. Þetta er lítið þorp þar sem allir þekkja alla. Við berum mikla virðingu fyrir Vopnfirðingum,“ bætir hann við.
Mikill áhugi fyrir leiknum
En þótt ástandið sé erfitt í Moldóvu er mikill áhugi fyrir leiknum í kvöld. „Leikvangurinn tekur 14.000 manns, miðarnir seldust upp á fimm tímum. Sheriff er stórt félag með marga stuðningsmenn,“ segir Serghei.
Hann varar United-menn við að vera of værukærir. „Sheriff vann Real Madríd á Bernabeu í fyrra, það getur því allt eins unnið United þótt Manchester sé auðvitað líklegra. Það getur ýmislegt gerst í fótboltanum og United er alls ekki öruggt.“
Þeir benda þó á að liðið sé mikið breytt frá í fyrra. „Þetta er alls ekki sama liðið. Það er búið að fjárfesta mikið í nýjum leikmönnum.“
Því er við þetta að bæta að Þorsteinn Hjálmsson, liðsmaður Rauðu djöflanna, var í leikmannahópi Ýmis í gær en kom ekki inn á.
Skildu eftir svar