Svekkjandi jafntefli á heimavelli gegn Newcastle
United og Newcastle skildu jöfn á Old Trafford í dag og fyrsta jafntefli United í deildinni á þessu tímabili staðreynd. Byrjunarlið United var talsvert breytt frá síðasta úrvalsdeildarleik, Rashford settist á bekkinn og Sancho koma inn í hans stað, Eriksen var hvorki í byrjunarliði né á bekknum en Ten Hag sagði að hann væri veikur og tæki því engan þátt, Fred fékk því að byrja annan leikinn í röð.
Byrjunarlið United
Varamenn: Heaton, Victor Lindelof, Tyrell Malacia, Facundo Pellistri, Alejandro Garnacho, Marcus Rashford, Anthony Elanga, Zidane Iqbal, Kobbie Mainoo
Byrjunarlið Newcastle
Fyrri hálfleikur
Leikurinn byrjaði mjög rólega og varla hægt að skrifa nokkuð um hann, Newcastle var ef eitthvað er sterkari aðilinn en sköpuðu þó ekki mikið. Um miðbik fyrri hálfleiksins fengu Newcastle aukaspyrnu á hættulegum stað, Trippier tók aukaspyrnuna og setti boltann beint í vegginn fékk þó boltann aftur og lyfti honum inn í teiginn. Inn í teignum var Joelinton sem skallaði boltann í slána fékk hann aftur og skallaði hann þá í stöngina, Dalot koma svo boltanum í horn. Þetta færi var í raun eina færi fyrri hálfleiks United komust oft í fínar stöður en sköpuðu ekkert úr þeim.
Seinni hálfleikur
Seinni hálfleikurinn var mun betri frá United og miðað við yfirburði þá hefðu þeir átt að skora en það var mikil sköpunarstífla hjá United liðinu og liðið skapaði sér lítið framan af seinni hálfleik. Í byrjun hálfleiksins skoraði Ronaldo fínt mark en hann var vel rangstæður í uppbyggingu marksins og markið því dæmt af. Á meðan Pope bjó sig undir að taka aukaspyrnuna sem Newcastle fékk eftir rangstöðudóminn á Ronaldo sendi Schar boltann á markmanninn sinn, Ronaldo tók því sem að Schar hefði verið að taka aukaspyrnuna stal boltanum og setti hann í autt markið. Ronaldo uppskar þó ekkert annað en gult spjald frá Craig Pawson dómara leiksins. Eftir þetta upphófst mjög skrítinn kafli í leiknum þar sem United vildu fá þrjú víti á stuttum tíma. Fyrsta var þegar Ronaldo komst í skotfæri inn í teig en Tripper fór frekar lauslega í stoðfót Ronaldo sem greinilega varð til þess að skot Ronaldo fór víðsfjarri. Það hefði þó alveg verið möguleiki að dæma vítaspyrnu á þetta brot, það hefði þó kannski verið dálítið „soft“. Nokkrum mínútum seinna komst Jadon Sancho inn í vítateig og Sean Longstaff eiginlega sparkaði bara í hann en dróg fótinn aðeins til baka þegar hann áttaði sig á að hann myndi ekki ná boltanum, að mínu mati þá var þetta víti þrátt fyrir að Longstaff hafi dregið úr sparkinu, VAR dómararnir skoðuðu þetta í smá tíma en dæmdu ekkert. Aftur nokkrum mínútum seinna togaði Dan Burn í Casemiro þannig sá síðar nefndi komst ekki í skalla inn í teig Newcastle, líklegast ekki vítaspyrna en eftir að hafa verið hafnað um tvær nokkrum mínútum fyrr þá var maður orðinn helvíti pirraður.
United hélt áfram að banka og banka en samt sem áður náðu þeir ekki að skapa færi af einhverri alvöru. Á 72 mínútu gerði Erik Ten Hag sína fyrstu og einu skiptingu í leiknum, Rashford koma inn á fyrir Ronaldo. Það virtist þó ekki breyta mjög miklu þó að pressan upp á topp virtist batna aðeins en það gæti líka verið þar sem Newcastle var farið að sitja aftar og ætla að halda í stigið. Það var svo á 89 mínútu þar sem United fékk sitt fyrsta góða færi boltanum var stungið inn á Rashford sem náði honum á vítateigshorninu, Nick Pope var kominn í skógarhlaup Rashford fór framhjá honum sendi boltann fyrir þar sem Fred koma á ferðinni inn í teiginn en var í litlu jafnvægi og setti boltann framhjá, það var þó enginn Pope í markinu einungis luralegur Dan Burn á línunni og Fred átti að gera betur. United hélt pressunni á Newcastle allan uppbótartímann og á síðustu mínútu uppbótartíma sendi Casemiro snyrtilega sendingu inn í teig Rashford var þar einn og óvaldaður en skallaði boltann framhjá í dauðafæri. Þarna hefði Rashford átt að verða hetja United en það var eiginlega erfiðara að setja boltann framhjá en á markið í þessu færi. Rétt eftir þetta flautaði Craig Pawson til leiksloka og jafntefli súr niðurstaða.
Að lokum
United menn voru frekar kraftlitlir í fyrri hálfleik og þó að þeir hafi teki stjórnina í þeim síðari þá voru þeir samt sem áður frekar kraftlitlir, spurning hvort að þessi fimmtudagsleikir séu að fara illa með menn. Þá má ætla að fjarvera Eriksen hafi reynst United erfið þar sem sköpunarmáttur hans er talsvert mikið meiri en sköpunarmáttur Fred. United skapaði sér ekki nægileg mörg færi í leiknum til þess að hægt sé að segja að United hafi klárlega átt skilið sigur í leiknum. United hefði þó átt að fá a.m.k. eina vítaspyrnu í þessum leik og því hægt að vera mjög súr yfir niðurstöðunni, þar sem hvorugt lið virtist líklegt til þess að skora mark úr opnum leik. Fyrsta jafntefli United kemur í níunda leiknum, það er mjög augljóst að það vantar talsverðan sköpunarmátt í liðið sérstaklega þegar Bruno eða Eriksen vantar. Mér fannst Antony mjög sprækur á hægri kantinum í dag en það vantar smá slípun þegar hann kemst í góðar stöður, hann lét Dan Burn oft líta illa út en gerði svo lítið við stöðuna sem hann koma sér í. Þá var Raphael Varane mjög stöðugur í öftustu varnarlínu og það veitir manni alltaf ró að hafa hann í vörninni. Næsti leikur er gegn Tottenham á Old Trafford á miðvikudaginn 19. október, vonandi að menn verði kraftmeiri í þeim leik!
David De Gea og Ronaldo voru heiðraðir fyrir leik. Ronaldo fyrir 700 mörk skoruð með félagsliði og De Gea fyrir 500 leiki með United.
Steve Bruce says
Þetta var einfandlega ekki nógu gott. Vantaði gæði á síðasta þriðjungnum. Nokkuð viss um að með sprækum Eriksen hefðum við unnið vegna þess að lygilega oft í góðum stöðum var það Fred sem átti lokahnykkinn á sókninni. Rashford kom mjög sprækur inn og hefði sannarlega átt að skila okkur stigunum þremur í síðustu sókn leiksins (Þarna hefði topp-striker skorað í 8 af hverjum 10 skiptum).
Svo er það Sancho….. enn er beðið eftir stöðugum og góðum Sancho. Hann minnir af og til á sig en líkt og var með Paul Pogba þá er þetta heilt yfir ekki nærri því nóg. Hann var keyptur inn sem stoðsendingavél.
Zorro says
Við erum en bara miðlungs lið…erum i basli öllum leikjum…tekur væntalega 3 ár hja Ten Hag að fá sìna menn þarna…..samt òþolandi hjá svona stòrum klùbbi😡
Hallmar says
Við verðum að fá inn Striker í janúar annars held jeg að við munum vera í miklu meira veseni en við erum nuna því liðið er ekki að ná að klára færinn sem jeg er viss um að striker mundi gera