Manchester United leggur leið sína til höfuðborgarinnar fyrir næstu viðureign sína í deildinni þar ytra en röðin er komin að því að mæta Chelsea sem situr í sætinu fyrir ofan United og það sem meiru máli skiptir, síðasta sætinu sem veitir þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu. Það má því með sanni segja að United sé að mæta þeim bláklæddu í baráttu um 4. sætið en einungis eitt stig skilur liðin að.
Að þeim leik loknum hefur United spilað gegnöllum stóru liðunum í deildinni og tekið samtals úr þeim leikjum 9 stig auk þeirra stiga sem fást á Brúnni ef einhver verða. Það verður að teljast sæmilegasti árangur það sem af er en töpuð stig gegn liðum neðar á skiltinu er að valda því að við erum ekki ofar á töflunni. Með sigri færi United upp í 4. sætið og væri þá stigi á eftir Tottenham (sem hefur fram að þessu leikið einum leik meira en United) og væri þá virkilega farið að blanda sér í toppbaráttuna en sem stendur er enn töluvert bil á milli efstu þriggja liðanna og pakkans sem fylgir á eftir.
Chelsea
Leikmenn Chelsea þurftu að kveðja Thomas Tuchel fyrr á leiktíðinni en í hans stað kom Graham Potter frá Brighton en eins og mörgum er kunnugt um þá fór Brighton gífurlega vel af stað á þessari leiktíð og var lengi vel í Meistaradeildarsæti. Lið Graham Potters þykja afskaplega vel skipulögð og þrátt fyrir að liðin breyti um leikkerfi eins og nærbuxur og leikmenn þurfa að spila mismunandi stöður virðast þeir vera vel meðvitaðir um hlutverk sitt á vellinum. Á undanförnum árum var helsta vandamál Brighton að finna mann sem gat klárað færin en hjá Chelsea hefur verið svipaða sögu að segja og verður áhugavert að sjá hvernig Potter leysir þá flækju. Á tímabilinu 21/22 var Mason Mount markahæstur þeirra bláklæddu í deildinni með 11 mörk en þar áður var það Jorginho með 7 mörk.
Liðið keypti Lukaku frá Inter en sá fann ekki fjölina sína og eins hefur Kai Havertz verið notaður upp á topp en báðum þeim hefur mistekist að skila inn mörkum af nokkrum stöðugleika. Tuchel losaði sig við Tammy Abraham sem var með 15 mörk í deildinni 19/20 verandi 21 árs en samt fékk hann ekki tækifærið sem aðalstriker liðsins. Á þessari leiktíð hefur Chelsea skorað 15 mörk í deildinni sem hafa dreifst á ellefu markaskorara og þessi vandi virðist því vera enn til staðar þrátt fyrir að liðið hafi skorað að meðaltali 1,5 mark í leik.
Þeir sitja einu stigi fyrir ofan okkur í töflunni en hafa einungis leikið við Tottenham á heimavelli af þessum stóru liðum og hafa haft tiltölulega léttara leikjaplan (á blaði) en United liðið. Þeir hafa sigrað sex, gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum. Síðasta viðureign þeirra var einmitt við Brentford liðið sem rótburstaði United í upphafi leiktíðar en David Raya sá um að Chelsea fékk ekki meira en stig úr þeim leik. Graham Potter sýndi enn og aftur þar fram á það að hann er óhræddur við að gera tilraunir innan vallar en hann stillti upp í 3-5-1-1 og lét Armando Broja byrja upp á topp. En á heimavelli gegn United getur verið að hann muni brydda upp á einhverju allt öðru.
Nokkrir eru á meiðslalistanum hjá Chelsea, Conor Gallagher, N’golo Kanté, Reece James og Wesley Fofana eru allir frá og verða ekki með á morgun. Því spái ég liðinu svona:
Manchester United
Manchester svöruðu líflausu jafntefli gegn Newcastle með yfirburðarsigri á Antonio Conte og hans mönnum í Tottenham Hotspurs. Lundúnarliðið hefur verið á mikilli siglingu og situr í þriðja sæti deildarinnar en þeir voru langt frá því að líta vel út á miðvikudaginn var. Eitt heitasta par síðustu ára í ensku Úrvalsdeildinni, Harry Kane og Heung Min Son, var ekki fyrirferðarmikið í leiknum og lengst af var enski fyrirliðinn í vasanum hjá Lisandro Martinez og Rafael Varane til skiptis. Varnarlega var United þéttara en nokkur sinni á leiktíðinni og Tottenham litu sjaldan út fyrir að gera sig líklega til að skora.
Fred og Casimiro voru stórglæsilegir á miðjunni en Bruno Fernandes virtist allt í einu hafa fattað hvernig á að spila fótbolta aftur og var gjörsamlega allt í öllu ásamt brössunum tveimur. Loksins virtist liðið syngja og dansa og leika í takt við Erik ten Hag tónlistina og það var hrein unun að horfa á leikinn. Yfirvegun og sjálfsöruggi skein úr andlitum flestra leikmanna liðsins og augljós að menn voru að njóta þess að spila saman og pakka Norður-Lundúnarliðinu saman og senda þá heim með ekkert nema skömmina. Það var einungis fyrir stórfenglegan leik hjá Hugo Lloris að United tókst ekki að niðurlægja Tottenham hvað markatöluna varðar en hann átti nokkrar heimsklassa markvörslur í leiknum og var áberandi besti leikmaður mótherjanna á miðvikudagskvöldinu.
Það verður að teljast ólíklegt að sama sagan endurtaki sig á heimavelli Chelsea en takist United að binda vörnina með sama hætti og í miðri viku þá mun David de Gea reynast erfitt að fá hærra en 6 í einkunn þar sem hann mun hafa lítið að gera annað en að taka útspörk og æfingabolta. Samvinna og samband Martinez og Varane er orðið firnasterkt á stuttum tíma og Dalot og Shaw eru að leika betur en nokkurn tímann í United treyju og með svellkaldan og yfirvegaðan Casimiro fyrir framan varnarlínuna erum við komnir með leikmann sem tekur boltann af vörninni og kemur honum í leik og um leið er orðið virkilega erfitt að skora hjá okkur. Það hefur þvingað lið til að skjóta utar af vellinum sem er einmitt einn af styrkleikum de Gea, að verja skot utan af vellinum.
Þessi blanda getur verið svo miklu betri en nokkuð það sem við höfum séð undanfarin ár hjá okkar mönnum og þrátt fyrir að stutt sé liðið af tímabilinu þá er þetta góður fyrirboði fyrir það sem koma skal undir Erik Ten Hag.
Á fréttamannafundi kom fram að Anthony Martial verður frá vegna meiðsla og þá verður dramadrottingin og athyglissjúki Portúgalinn okkar ekki í hópnum fyrir leikinn eftir að hann gerðist sekur um að draga að sér allt sviðsljósið undir lok leiksins á miðvikudaginn með því að rjúka út í fússi eins og 14 ára frekjudós með mótþróaþrjóskuröskun. Synd hvað fréttamenn og -konur gerðu sér mikinn mat úr þessu atviki í stað þess að ræða það sem öllu máli skiptir en það var spilamennska liðsins í heild og niðurstaðan.
Það sem verður áhugaverðast að sjá á morgun er hvort Fred fái tækifærið að nýju eða hvort Eriksen komi beint aftur inn í liðið. Annars spái ég liðinu einhvern veginn svona:
Leikurinn hefst 16:30 og Stuart Attwell sér um flautuleikinn á Brúnni þennan laugardagseftirmiðdag. Koma svo!
Skildu eftir svar