Manchester United lýkur leik þetta árið með því að heimsækja Wolverhampton Wanderes í hádeginu á morgun, gamlársdag. Enn er verið að fást við afföll í vörninni en það stendur til bóta því heimsmeistarinn er mættur til æfinga.
Lisandro Martinez mætti aftur til æfinga í vikunni, tíu dögum eftir að hann varð heimsmeistari með Argentínu. Silfurmaðurinn Rafael Varane spilaði 77. mínútur gegn Nottingham Forest en var þá skipt út fyrir Harry Maguire sem glímt hefur við veikindi. Viktor Lindelöf hefur líka legið í rúminu.
Enginn þeirra glímir við langtíma vandamál og þess vegna ættu tveir af þessum fjórum að geta mannað miðvarðastöðuna frekar en Luke Shaw hlaupi þar aftur undir bagga í hallæri.
Phil Jones er ekki á meiðslalista en fékk hvorki tækifæri í deildarbikarnum gegn B-deildarliði Burnley né Forest þrátt fyrir meiðsli og veikindi annarra.
Diego Dalot kom heim af HM með tognun. Aaron Wan-Bissaka, sem í haust virtist fullkomlega heillum horfinn hefur nýtt sér fjarveruna og spilað það vel að Erik ten Hag notaði blaðamannafund dagsins til að hrósa honum. Hann benti á að Wan-Bissaka hefði verið óheppinn við meiðsli en sýnt að hann skipti máli fyrir samkeppnina í leikmannahópnum.
Líkt og Lindelöf lá Scott McTominay heima með lumbru meðan United vann Nottingham Forest 3-0 í vikunni. Ekkert hefur spurst til Jadon Sancho nema að enskir miðlar eru byrjaðir að tala um andlega erfiðleika.
Julen Lopetegui tók við Wolves í HM-hléinu. Síðan hefur liðið unnið báða sína leiki, gegn Gillingham í deildarbikarnum og Everton á útivelli í deildinni. Ekki má vanmeta liðið þótt það sé í 18. sæti, stuð er gjarnan hjá nýjum þjálfurum og sigurmark vikunnar kom í uppbótartíma.
Lopetegui var áður hjá Sevilla og hafði þar Anthony Martial síðasta vor. Spánverjinn var orðaður við stjórastarfið hjá United þá, sennilega var það mest umboðsmaður hans Jorge Mendes, sem ýtti honum þar áfram. Mendes hefur löngum verið duglegur að skaffa bæði United og Wolves leikmenn þótt aðeins hafi súrnað hjá hans síðasta skjólstæðingi sem lét af störfum hjá United í nóvember.
Hjá Wolves er mesti vafinn um Daniel Podence, sem skoraði fyrra markið gegn Everton. Einnig er beðið tíðinda af Boubacar Traore og Jonny en þeir Chiquinho, Pedro Neto og Sasa Kalajdiz eru örugglega fjarverandi.
Skildu eftir svar