Erik ten Hag stillti upp frekar sterku liði gegn Everton í kvöld í bikarnum. Þrátt fyrir að Lisandro Martinez hafi verið klár þá byrjaði hann á bekknum og Shaw byrjaði í miðverðinum með Varane.
Á bekknum voru þeir Tom Heaton, Anthony Elanga, Lisandro Martinez (’77), Aaron wan-Bissaka, Harry Maguire (’84), Victor Lindelöf, Fred, Scott McTominay (’84) og Alejandro Garnacho.
Gestirnir stilltu einnig upp sínu sterkasta liði.
Bekkurinn: Begovic, Holgate, McNeil, Davies, Calvert-Lewin, Gordon, Mina, Doucoure og Simms.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór vel af stað. United var meira með boltann og virtust ætla sér stóra hluti strax frá upphafi. Fyrsta tækifærið kom eftir sókn hjá Everton þegar United vann boltann fyrir framan eigin vítateig og boltinn barst á Anthony Martial á miðjunni. Umkringdur 3-4 Evertonmönnum tók frakkanum að missa boltann en samt enda aftur með boltann og kom stungusendingu á Marcus Rashford á vinstri kantinum. Sá kom með huggulega fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Antony kom á fleygiferð og potaði tuðrunni yfir línuna og kom heimamönnum í 1-0.
Eftir markið fóru gestirnir að leita meira upp völlin og átti Gray skot sem hrökk af stönginni og lenti í bakinu á David de Gea og þaðan útaf. Spánverjinn slapp með skrekkinn þarna en áfram héldu gestirnir að sækja. Það skilaði sér þegar Neal Maupay elti boltann út að endalínu og kom boltanum fyrir. Sú fyrirgjöf var reyndar alveg út við stöngina og David de Gea stóð að því er virtist 30cm frá stönginni en boltinn hrökk á einhvern óskiljanlegan máta á milli lappanna hans og enginn annar en Connor Coady mættur eins og framherjagammur til að hirða boltann fyrir aftan markmanninn og jafnaði fyrir Everton 1-1 eftir tólf mínútna leik.
Stuttu eftir þetta fór að færast aukinn hraði og barátta í leikinn. Bæði lið sýndu ágæta takta en United virkaði þó ívið sterkari. Martial var duglegur að komast í boltann og reyndi hvað hann gat til að skapa sér eitthvað og uppskar erindi erfiðisins þegar hann slapp einn inn fyrir eftir frábæra stungusendingu en Jordan Pickford var fljótur út úr markinu og varði meistaralega og hélt stöðunni hnífjafnri.
Næsta stórhættulega færi United kom ekki fyrr en eftir tæplega 40 mínútna leik þegar Casimiro og Antony pressuðu Everton upp við hornfánann og unnu að lokum boltann og komu honum á Eriksen. Sá danski rak boltann inn í teig og þrumaði honum í átt að markvinklinum með talsverðum snúning en örlítið of hátt og hann skreið yfir slánna. Eins átti Rashford hörkuskot af tæplega 30 metra færi en Pickford sló boltann og var sjálfsagt aldrei að fara sleppa þeim bolta framhjá sér.
Þrátt fyrir að pressa heimamanna hafi aukist og þeir ráðið lögum og lofum fram að hálfleik tókst þeim ekki að nýta sér yfirburðina og Everton slapp inn í klefann í ágætismálum eftir fyrstu 45 mínúturnar.
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur hófst með látum en Alex Iwobi varð fyrir því óláni að snúa á sér ökklann eftir (löglega) tæklingu frá Malacia eog í hans stað kom Doucoure. Hins vegar tókst honum ekki að stöðva yfirburði United framan af hálfleiknum en United þjarmaði verulega að gestunum í leit að markinu og forystunni. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir því að eitthvað marktækt liti dagsins ljós því eftir flotta skiptingu frá hægri kantinum yfir á Rashford á þeim vinstri tók enski landsliðsmaðurinn á rás og með góðri gagnhreyfingu skildi hans Seamus Coleman eftir og gaf fasta fyrirgjöf inn í markmannsteiginn. Þar var enginn United-maður en Connor nokkur Cody, sem alla jafna skorar ekki tvö mörk í einum og sama leiknum, rak fremstu tánöglina í tuðruna og sendi boltann framhjá Pickford og kom United í forystu, 2-1.
Næsta færi kom þegar United fékk aukaspyrnu á vinstri kantinum og Shaw og Eriksen ákváðu að í stað þess að fleygja knettinum inn í boxið væri upplagt að leggja hann fyrir Bruno Fernandes sem lagði boltann fyrir sig og hamraði hann að marki en nokkuð nálægt Pickford sem sló boltann í horn.
En Everton voru ekki búnir að kasta inn handklæðinu og nóg eftir. Þeim tókst að skapa sér gott færi þegar Demariay Gray fékk sendingu á vinstri kantinn og heimamenn virtust fáliðaðir í vörninni. Han komst upp að endalínu eftir dapran varnarleik hjá Malacia og hamraði boltann í kassann á Dominic Calvert-Lewin sem þurfti lítið annað en að stýra boltanum örlítið og inn í netið. Sem betur fyrir United var Gray einni og hálfri tommu fyrir innan varnarlínu United þegar sendingin kom og markið því réttilega dæmt af en tæpt var það.
Martinez tókst að krækja í aukaspyrnu á 87. mínútu og að sjálfsögðu ákvað Rashford að grípa tækifærið og stilla í einn þrumufleyg. Fullkomin fjarlægð fyrir fallegt aukaspyrnumark frá réttfættum leikmanni en Pickford blakaði boltanum yfir en sennilega var hann alltaf á leiðinni yfir.
Á 90. mínútu áttu svo Everton menn aftur færi eftir litla pressu síðasta korterið en skot frá Gray var auðvelt fyrir de Gea. 6 mínútum var bætt við og það var eins og Evertonmenn áttuðu sig á því hvað tímanum leið og fóru að bæta í pressuna. Þó virtust gestirnir hafa takmarkað á tanknum og reyndist auðvelt fyrir heimamenn að bægja hættunni frá og halda boltanum réttu megin á vellinum.
Fimm mínútum síðar var Scott McTominay í mikilli baráttu út við hliðarlínunna en leysti vel úr því, kom boltanum á Fred sem sendi boltann strax á Bruno Fernandes. Hann tók 1-2 snertingar og stakk svo boltanum í gegnum vörn gestanna á Alejandro Garnacho sem var mikið búinn að kvarta undan því að fá ekki boltann. Ungi Argentínumaðurinn gerði sér lítið fyrir og stakk Ben Godfrey af sem tókst ekki að vinna það upp og endaði með að brjóta á Garnacho þegar hann var í þann mund að fara skjóta eða senda boltann. Víti og á punktinn steig Marcus Rashford. 96 mínútur komnar á klukkuna en vítið stóð og eftir hægt tilhlaup lagði Rashford boltann snyrtilega í hægra hornið þegar Pickford var farinn í það vinstra. 3-1 og leik lokið.
Pælingar eftir leik.
Ekki besti leikur okkar en úrslit sem skila okkur inn í næstu umferð bikarsins. Marcus Rashford geislar af sjálfstrausti og spilar betur en hann hefur gert undanfarna 18 mánuði. Casimiro átti ekki sinn besta leik en það sem hann gerir fyrir liðið og sú staðreynd að hann er alls staðar á vellinum án þess að hann virðist nokkurn tímann þurfa að hlaupa gerir það að verkum að United getur spilað mun framar og pressaði á viðeigandi augnablikum. Anthony Martial skoraði ekki en hann var líflegri en í síðustu tveimur leikjum og vonandi vex hann áfram inn í leikstíl liðsins.
Eflaust er Erik ten Hag ekki ánægður með leikinn í heild sinni en vörnin virtist stundum ekki vera alveg með samstillta strengi en það sem kom á óvart var að Martinez byrjaði ekki leikinn. Næsti leikur er Charlton á Old Trafford í 8-liða úrslitum í deildarbikarnum og ætti að vera kjörinn leikur til að gefa byrjunarliðsmönnum kærkomna hvíld fyrir nágrannaslaginn við Man City um næstu helgi en það hefði mögulega verið gott að byrja með varnarlínuna sem ten Hag hyggst nota þá til að þeir væru búnir að spila í það minnsta einn leik saman áður.
En mögulega er Erik ten Hag með laumu-ás upp í erminni og kemur með enn eitt taktíska trompið fyrir þann leik. Hins vegar er það klárt mál að maðurinn hefur snarbreytt leikstíl liðsins, saumað saman varnarleikinn og þrátt fyrir skort á framherjum er markaskorun ekki eins mikið vandamál og margir hefðu haldið eftir að liðið hefur misst 3 framherja á undanförnu ári.
Næsti leikur er eins og fyrr segir á fimmtudaginn gegn Charlton Athletic sem sitja í 17. sæti í C-deildinni og verður áhugavert að sjá liðsuppstillinguna fyrir þann leik. En sigur í hús og United er áfram í öllum keppnum þrátt fyrir að Everton liðið hafi sýnt tífalt meiri karakter en í síðasta leik gegn Brighton.
Helgi P says
Þau verða ekki mikið klaufalegri mörkin en þetta
Egill says
Hérna… hvenær ætlum við að viðurkenna að Antony er ekki einu sinni besti brassinn í Man Utd?
Varane er betri í að rekja boltann en hann.
Einar says
Vá hvað ég er pirraður ömurlegt spilamennska
EgillG says
3-1 og við spiluðum ílla á móti lélegu liði, ten hag skammast í þeim í klefanum og við höldum áfram, næsta leik takk