Í kvöld mætti Manchester United á Selhurst Park í 19. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar í lokaleik fyrri hluta deildarinnar. Casemiro og Fred voru báðir á sínu fjórða gula spjaldi og gátu því lent í banni ef þeir fengju spjald í kvöld. Margir bjuggust því við að Casemiro yrði hvíldur svo hann yrði ekki ætti ekki á hættu á að vera í banni gegn Arsenal næstu helgi en svo reyndist þó ekki. En allir leikir í deildinni eru mikilvægir og jafnmörg stig sem fást við það að vinna Crystal Palace og Arsenal, óháð stöðu þeirra á töflunni. Þá var Wout Weghorst einnig í byrjunarliðinu í sínum fyrsta leik fyrir United. Annars var liðinu stillt upp svo:
Bekkurinn : Heaton, Lindelöf, Maguire, Malacia, Fred, McTominay, Pellistri, Elanga og Garnacho
Patrick Viera stillti líka upp sterku liði enda hafði liðið ekki unnið í síðustu 7 leikjum sínum:
Á bekknum voru þeir : Johnstone, Ward, Tomkins, Riedewald, Milivojevic, Schlupp, Ozoh, Eze og Ayew.
Fyrri hálfleikur
United byrjaði leikinn mun betur og spilaði ofarlega á vellinum fyrstu fimm mínúturnar. Á 7. mín komst Marcus Rashford inn fyrir vörnina en hljóp í átt frá markinu og Guehi elti hann uppi og færið rann út í sandinn. Crystal Palace færðu sig örlítið ofar á völlinn eftir fyrstu tíu mínúturnar en United voru gríðarlega snöggir að snúa vörn í sókn og uppbygging sókna var markviss og lipur. Eftir þessar upphafsmínútur tók við talsvert miðjumoð og lítið um markverð færi eða færasköpun en eftir um kortersleik fór United að þrengja verulega að heimamönnum. Aaron Wan-Bissaka átti huggulega fyrirgjöf frá miðri endalínunni hægra megin við markið þvert yfir vítateiginn á bakvarðarbróðir sinn Luke Shaw sem smellhitti boltann á lofti en tuðran sleikti stöngina á leiðinni framhjá markinu.
Afmælisbarnið Lisandro Martinez fékk síðan væna afmælisgjöf í formi olnboga frá Mateta og lá lengi í grasinu en búið var um höfuð hans og hann gat haldið leik áfram eftir stutt stopp. Eftir það kom leikkafli þar sem spilamennska United var mjög yfirvegað og agað og lögð talsverð áhersla á að sækja upp hægri kantinn og leita að Weghorst með fyrirgjöfum. Hollendingurinn kom vel út úr fyrri hálfleiknum og var duglegur að halda boltanum og skila honum til samherja á hárréttum augnablikum.
Næsta færi United kom þegar Casemiro henti í eina bjúgverpilssendingu yfir megnið af vellinum á Antony á hægri kantinum, en brassinn hristi af sér varnarmann og ákvað að reyna að pota boltanum yfir Guaita sem var kominn út úr markinu í átt að vítateigshorninu en boltinn endaði í hliðarnetinu. En vinstri vængurinn var ekkert óvirkur því eftir um hálftíma leik átti Luke Shaw magnaða sendingu inn í teig, beint á pönnuna á hávaxna Hollendingnum sem átti slaka skalla sem endaði ofan á þaknetinu. Þá fékk Rashford líka aukaspyrnu af um 25 metra færi en skotið úr henni fór vel framhjá og skapaði enga hættu fyrir markvörð heimamanna.
Fyrsta hættulega færi heimamanna kom eftir um 40 mínútna leik þegar boltinn endaði hjá Odsonne Edouard sem kom boltanum fyrir sig við vítateigslínuna og hamraði á markið. Skotið virtist stefna þráðbeint upp í Samúel, sem einnig er þekktur sem vinkillinn, en David de Gea var vel vakandi og vandanum vaxinn og varði boltann í slánna og yfir. Spænski markvörðurinn hafði varla sést í mynd í útsendingunni en þurfti að taka á honum stóra sínum til að koma í veg fyrir að Palace næði forystunni.
Heimamenn virtust fá aukið sjálfstraust við þetta og settu meiri pressu á okkar menn, fengu t.a.m. álitleg færi úr hornum og tempóið í leiknum jókst. Það dróg svo loks til tíðinda þegar United spilaði boltanum upp völlinn og hann endaði hjá Christian Eriksen á vinstri vængnum nálægt vítateignum en hann renndi boltanum í átt að vítateigspunktinum. Þar var enginn annar en Bruno og bókstaflega enginn annar því Portúgalinn var einn og óvaldaður, tók smásnertingu á boltann og lagði hann fyrir sig áður en hann lagði hann innanfótar í netið án þess að Guaita næði að koma nokkrum vörnum við. Staðan orðin 0-1 og það sem eftir lifði hálfleiks var lítið að frétta.
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur hófst mjög rólega en Palace tókst að skapa sér færi fljótlega þegar Edouard fékk boltann við vítateigsbogann og var að komast í gott skotfæri en Casemiro kom á siglingunni og potaði boltanum í horn. Eberechi Eze kom þá inn á fyrir Mateta og það átti eftir að breyta heilmiklu fyrir heimamenn, a.m.k. í sóknarleiknum. United var 63% með boltann í fyrri hálfleik en það átti eftir að breytast í þeim síðari.
Rashford átti því næst skot af löngu færi en hátt yfir markið. Tempóið í leiknum var mun rólegra og United var með yfirhöndina en fátt marktækt og gestirnir virtust bara vera að þreyta heimamenn og reyna að leysa upp leikskipulagið og sem dæmi má nefna að Odsonne Edouard var nánast meira á eigin vallarhelming en í sókn. Á 67. mínútu vildu Palacemenn fá víti þegar Edouard og Varane lentu saman en lítil snerting og ekki raunhæft að flauta á það. Scott McTominay og Alejandro Garnacho komu þá inn á í stað Weghorst og Antony.
Stuttu síðar vann Eriksen boltann á miðjum vellinum og bar hann upp vinstri kantinn og skipti yfir á Bruno á hægri vængnum þar sem hann var einn og óvaldaður en ákvað í stað þess að skjóta að renna boltanum fyrir aftur en beint á varnarmann. Næsta færi kom eftir innkast hjá Palace þegar United vann boltann hátt á vellinum og Bruno tókst að stinga boltanum inn í vítateig á McTominay sem var tæklaður af Richards en dómarinn dæmi ekki víti. VAR leit á atvikið en taldi ekki um brot að ræða en erfitt var að sjá á endursýningu hvort varnarmaðurinn snerti boltann eða ekki.
Hiti fór því næst að færast í leikinn og átti McTominay glímufaðmlag við fyrrum Unitedmanninn Wilfred Zaha og réttilega dæmd aukaspyrna. Fyrirgjöfin úr aukaspyrnunni var samt hreinsuð auðveldlega en pressa heimamanna jókst og uppskáru þeir horn stuttu síðar. Úr horninu kom besta færi þeirra til þessa þegar Guehi skallaði boltann í átt að markinu en De Gea átti frábæra vörslu aftur.
En þá kom höggið sem líklegast allir United stuðningsmenn voru að óttast. United tapaði boltanum klaufalega og þvingaði Casemiro í að brjóta á Zaha sem var að sleppa inn fyrir vörnina. Gult spjald og aukaspyrna en það þýðir að hann er í banni í næsta leik. Næsta færi kom loks undir lok leiksins þegar Bruno átti stórkostlega sendingu yfir völlinn á Rashford frammi sem var með Garnacho hægra megin við sig en var mjög lengi að fóta sig og varnarmenn Palace hirtu boltann af honum.
Síðasta markverða andartakið í leiknum kom þegar Luke Shaw gerðist brotlegur og uppskar gult spjald sjálfur. Olise stillti sér upp á 91. mínútu af um 28 metra færi og einungis Casemiro, Fred og Garnacho í varnarvegg, þrátt fyrir að aukaspyrnan væri á hættulegu svæði. En Olise gerði sér lítið fyrir og smellti tuðrutruntunni í hægra hornið, sláin inn og óverjandi fyrir David de Gea sem átti ekki skilið að fá á sig mark í þessum leik en ef hann þurfti að gera það þá þurfti það að vera mark umferðarinnar eins og þetta mark var.
Að lokum…
2 stig glötuð úr sigurstöðu, enginn Casemiro gegn Arsenal og 8 stig í toppinn. Engir 10 sigurleikir í röð, ekkert víti sem mögulega hefði tryggt stigin þrjú, engin hvíld fyrir marga lykilmenn og margt til að hafa áhyggjur af fyrir helgina. En áfram gakk!
Egill says
Lélegar skiptingar hjá ETH enn einu sinni klúðruðu þessum leik
Einar says
Vá hvað ég er svekktur mér fannst Rashford vera lélegur rangar ákvarðanir aftur og aftur en það er svo sem ekkert nýtt þó vel hafi gengið að undanförnu hjá honum,og gulaspjaldið hjá casemiro ekki með í næsta 😡
Tòmas says
@ Egill: Hvernig klúðruðu skiptingar ETH leiknum?
Get ekki séð að þær skiptu miklu máli.
Það að dómarinn/VAR skyldu ekki dæma víti var gjörsamlega fáranlegt!
Annars var þetta ruglað mark hjá Palace.
Egill says
Tómas, fannst þér skiptingin á McTominay gera eitthvað annað en að Palace tók öll völd á vellinum? Rashford spilaði 90 min án þess að gera neitt nema þessi eina sending á Eriksen í markinu. Rash hafði meiri áhuga á þessu meti heldur en að vinna leikinn, gjörsamlega glatað hugarfar alltaf hjá honum.
Casemeiro átti ekki að spila svona lengi með Arsenal bíðandi við næsta horn fagnandi því að hann sé í banni.
Antony var tekinn útaf þrátt fyrir að vera miklu meira ógnandi heldur en Rashford, eins lélegur og hann er nú samt, og Weghorst hefði nýst talsvert betur í að halda bolta og byggja upp spil heldur en Rashford.
Svo ákvað ETH að pakka í vörn með því að vera með þrjá djúpa miðjumenn á vellinum undir lokin sem endaði að sjálfsögðu með jöfnunarmarki.
Jújú við hefðum átt að fá víti, en ekki falla í sömu gildru og Nallarar og púlarar með því að kenna dómaranum um þetta, það var ekki hann sem spilaði illa gegn lánlausu Crystal Palace liði.
Ég hefði fyrirgefið þetta jafntefli ef við hefðum getað notað Casemeiro gegn Arsenal, eða ef við hefðum unnið í kvöld en verið án hans í næsta leik. En nei, ETH brást seint og illa við og við sitjum í súpunni.
Böddi says
Hvaða helvítis neikvæðni er alltaf í þér! Jú ekki besti leikurinn hjá okkur en ETH er ástæðan fyrir því að maður er farinn að hafa gaman af fótbolta aftur!!
Ps. Rashford er búinn vera frábær og hugarfarið 110% frá því að hann fékk alvöru þjálfara.
Tökum Arsenal á sunnudaginn og áfram gakk!
Tòmas says
Ég er ósammála þessu. Fannst skiptingarnar ekki gera okkur verri en við vorum í upphafi seinni hálfleik.
Casemiro er það mikilvægur að erfitt er að taka hann út af.
Rashford vissulega með off leik en þannig leikmaður og búinn að vera það góður upp á síðkastið að hann metur það væntanlega svo að hann geti gert eitthvað.
Anthony var lélegur ágætur til að byrja með.
Hvaða breytingar hefðu verið betri? Skil það ekki alveg.
Audunn says
Vond úrslit og vond frammistaða, sérstaklega í síðarihálfleik.
Liðið skapaði sér ekkert í síðari hálfleik og voru bæði andlausir og bara lélegir þannig að liðið fékk nákvæmlega það sem það átti skilið út úr þessum leik.
Jú jú liðið átti að fá augljósa vítaspyrnu sem hefði getað breytt öllu og komið okkur í 0-2 enn líklega fékk United gefins mark á móti Man.City um daginn þannig að þetta jafnast út.
Frammistaðan var bara það léleg að liðið átti ekki skilið að fá 3 stig út úr þessum leik, alltof mikið um feila allstaðar á vellinum. Sendingar lélegar og hægar og alltaf verið að reyna sömu hlutina fannst mér.
Það voru ekki skiptingar ETH sem gerðu útslagið í þessum leik, af og frá.
Mjög skiljanlegt að hann hafi viljað fá ferska fætur inn og reyna að þétta liðið aðeins því það sáust alveg opnanir áður en skiptingarnar komu.
United var bara ekki með í seinnihálfleik bæði fyfir og eftir skiptingar, sköpuðu sér ekki neitt.
Enn þetta kom svo sem ekkert mjög mikið á óvart, liðið búið að vera á blússandi siglingu og búnir að vera margir leikir og mikið álag. Auðvita koma svona leikir inn á milli.
Leikurinn á móti Arsenal verður alls ekki auðveldur, verð mjög ánægður ef við fáum jafntefli út úr þeim leik.
Aðal málið hjá United er að halda sér í topp 4.. og svo byggja ofan á það á næsta tímabili.
Við skulum muna að þetta er fyrsta tímabil ETH, liðið á bara eftir að verða betra í framtíðinni með hann sem stjóra.
Steve Bruce says
Svona stig tapast alltaf einhvern tímann á hverju tímabili. Ég get skilið að Cas hafi ekki verið tekinn út af í svona tæpri stöðu. Munum að þessi þrjú stig hefðu verið jafnmikilvæg og hver önnur.
Vítið algjörlega augljóst en mér fannst slæmur leikur Rashford gera út af við okkur. Fékk boltann sjálfsagt 5-6 sinnum í stöðu sem hefði getað skilað marki en hann tók rangar ákvarðanir í hvert einasta skipti.
Hef ákveðnar áhyggjur af stærð hópsins. Það er lítið af varamönnum sem geta komið inn á og breytt leiknum…. bara Garnacho í dag.