Manchester United heimsækir Emirates völlinn í Lundúnum á morgun, sunnudaginn 22. janúar klukkan 16:30. Þetta er stærsti leikur 21. umferðar enska boltans er, það er langt síðan að leikur United og Arsenal var stærri fyrir titilbaráttuna en leikur Chelsea og Liverpool sem er einmitt hinn stórleikur helgarinnar. Það þarf ekki að segja neinum hvernig Arsenal hefur gengið í deildinni á þessu tímabili, allt í einu man maður eftir því að maður þekkir fólk sem heldur með Arsenal. Liðið hefur tapað einum leik í deildinni á tímabilinu og það var á Old Trafford í haust, þegar United sigraði Skytturnar 3-1. Eftir sigurinn gegn City um síðustu helgi hafa eflaust margir United menn farið að gera sér talsverðar vonir um alvöru titilbaráttu, jafntefli gegn Crystal Palace í miðri viku setti þær vonir þó kannski aftur á ís.
Það var þó ekki bara það að hafa misst leikinn gegn Crystal Palace niður í jafntefli, heldur var það gula spjaldið sem Casemiro fékk í leiknum. Gula spjaldið þýðir að Casemiro er í banni gegn Arsenal, sem gæti þýtt að í annað sinn á árinu 2023 fáum við McFred miðju í upphafi leiks. McTominay hefur gert það að listgrein að mæta á þriggja mánaðarfresti í stórleik og vera frábær, ef hann byrjar á sunnudaginn þá væri vel þegið að hann eigi svoleiðis leik.
Arsenal er með fimm stiga forskot á topp deildarinnar og á leik til góða á Manchester City, United er 8 stigum á eftir Arsenal en hefur leikið einum leik meira en Skytturnar frá Norður Lundúnum. Ef bæði Manchester liðin vinna um helgina eykst pressan á Arsenal talsvert, það væri líka fínt að fá smá þögn frá Arsenal mönnum á samfélagsmiðlum. Það má alveg búast við einhverjum breytingum á United liðinu frá leiknum gegn Crystal Palace, við sáum Ten Hag stilla upp bæði Eriksen, Fred og Casemiro gegn City, þá var Bruno út á kanti sem gæti alveg orðið raunin gegn Arsenal nema að McTominay kemur í stað Casemiro. Það verður einnig áhugavert hvort Jadon Sancho verði á bekknum gegn Arsenal en hann er byrjaður að æfa aftur með liðinu sem eru gleði fréttir. Hjá Arsenal er það einungis Gabriel Jesus sem vantar úr byrjunarliði Arsenal en hann meiddist á HM og mun að öllum líkindum ekki spila leik fyrr en a.m.k. í mars.
Líkleg byrjunarlið
United
Ég tel líklegt að Ten hag stilli upp svipuðu byrjunarliði og gegn City, Bruno væri því út á kanti og Antony eða Garnacho verða hinu megin ég ætla að skjóta á Garnacho. Rashford verður upp á topp þar sem ég held að Martial sé ekki alveg tilbúinn í að byrja og þrátt fyrir að nýi maðurinn okkar Wout Weghorst hafi byrjað gegn Palace þá gæti ég alveg trúað því að hann vermi bekkinn í þessum leik. Þá held ég Dalot hæti byrjað ef hann er tilbúinn en tel þó líklegra að Wan-Bissaka byrji þennan leik.
Arsenal
Arsenal mun að öllum líkindum byrja eins og þeir hafa gert undanfarið í 4-3-3 með Eddy Nketiah upp á topp.
Að lokum
Þessi lið hafa marga hildina háð, undanfarinn áratug hafa þó ekki margir leikir þeirra verið titilráðandi eins og þeir voru um og rétt eftir aldamót. Það virðist þó allt vera stefna í rétta átt hjá þessum klúbbum og orrusturnar sem leikir þessara liða voru eitt sinn gætu orðið að veruleika aftur. Liðin hafa mæst 61 sinni í ensku úrvalsdeildinni, United hefur unnið 26 sinnum en Arsenal 17 sinnum. Fyrir þá sem vilja fá fiðringinn sem maður fékk þegar Keane mætti Vieira eða þegar Ferguson mætti Wenger, mæli ég með að horfa á þessa hér heimildarstuttmynd um baráttu Ferguson og Wenger.
The Feud – Sir Alex Ferguson vs Arsene Wenger – Exclusive Documentary – YouTube
Dómari leiksins er Anthony Taylor.
Skildu eftir svar