Byrjunarliðið gegn Leicester kom ekkert sérstaklega á óvart nema það að Lindelöf byrjaði ásamt Martinez í hjarta varnarinnar. Garnacho kom inn í byrjunarliðið fyrir Sancho og Dalot í stað Wan-Bissaka. Það voru einhverjar sögusagnir um að byrjunarliði United hefði verið lekið og að Elanga ætti að byrja á kantinum en sá leki hefur a.m.k. ekki verið mjög áreiðanlegur. Brendan Rodgers gerði engar breytingar á Leicester liðinu sem pakkaði Tottenham saman 4-1 um síðustu helgi.
Liðin
United
1De Gea23Shaw6Martínez2Lindelöf20Dalot17Fred15Sabitzer49Garnacho8Fernandes10Rashford27Weghorst
Bekkur: Heaton, Varane, Malacia, Wan-Bissaka, Mainoo, McTominay, Pellistri, Elanga, Sancho
Leicester
Fyrri hálfleikur
Það voru United menn sem byrjuðu talsvert betur og fengu nokkra hornspyrnur og héldu Leicester mönnum alfarið á sínum vallarhelmingi fyrstu fimm mínútur leiksins. Það voru þó gestirnir frá Leicester sem fengu fyrsta færi leiksins, Fred ákvað að stinga Harvey Barnes inn fyrir, greinilega ekki alveg með á hreinu að þeir séu ekki samherjar. Barnes sendi boltann á Iheanacho sem gaf hann strax aftur til baka á Barnes sem var kominn einn gegn De Gea en spánverjinn sá við honum. Tveimur mínútum seinna fékk Iheanacho mjög fínt færi eftir mistök í uppspili United en skot hans af Lindelöf í hornspyrnu. Leikurinn fyrsta korterið spilaðist þannig að Leicester lágu djúpt og beittu skyndisóknum, á meðan hélt United boltanum að mestu inn á vallarhelmingi Leicester en áttu í bölvuðu brasi að búa eitthvað til. Á 20 mínútu fengu Leicester menn fína sókn þegar Tete gaf boltann fyrir markið og Iheanacho átti fínann skalla að marki en De Gea varði mjög vel, United menn heppnir.
Það skiptir þó engu máli þó að United sé ekki að spila frábærlega af því liðið er með kall sem heitir Marcus Rashford og hann skorar bara þegar hann vill. Bruno átti glæsilega sendingu inn fyrir á Rashford sem Souttar gerði réttstæðan og Marcus Rashford MBE aleinn gegn Ward og eftirleikurinn auðveldur, 1-0 United. Leikurinn róaðist aðeins niður eftir markið og ekki mikið um stór færi. Rétt rúmum 10 mínútum eftir markið geystust þó United menn í sókn, Dalot kom boltanum á Bruno og tók hlaupið sjálfur inn í teig, Bruno kom með glæsilega fyrirgjöf á Dalot sem þurfti bara að renna boltanum yfir línuna en klúðraði því á einhvern hátt. Í uppbótartíma í fyrri hálfleik átti Fred mjög vonda sendingu á eigin vallarhelmingi sem endaði með því að Maddison fékk fínt skotfæri fyrir utan teig en boltinn sem betur fer framhjá markinu. United fékk svo aukaspyrnu á fínum stað alveg í lok fyrri hálfleiks en skot Luke Shaw fór yfir markið.
United voru ekki góðir í fyrri hálfleik Fred var í basli í uppspilinu og það virtist of auðvelt fyrir Leicester að komast upp hægri kantinn, þá er ekki jafn mikil yfirvegun í Lindelöf og Varane. De Gea er ástæðan fyrir því að United var ekki lent undir eftir 7 mínútna leik og bjargaði svo aftur vel nokkrum mínútum síðar. Það verður þó að segjast United byrjuðu að spila ögn betur eftir markið frá Rashford eða hvort það hafi bara dregið af Leicester, skiptir kannski ekki öllu. Diogo Dalot átti svo að koma United í 2-0 en neitaði að nota vinstri fótinn og boltinn lak framhjá, mjög klaufalegt.
Seinni hálfleikur
Erik Ten Hag gerði breytingu í hálfleik, Jadon Sancho kom inn á í stað Garnacho þrátt fyrir að vera einu marki yfir sem segir kannski til um það að hollendingurinn var ekkert sérstaklega ánægður með spilamennsku sinna manna í fyrri hálfleik. Eftir þriggja mínútna leik fékk United aukaspyrnu á vallarhelmingi Leicester, Shaw kom með góða fyrirgjöf og Lisandro Martinez skallaði boltann í slánna. Marcus Rashford átti svo mjög gott hlaup inn á teig framhjá tveimur, kominn í mjög gott færi en skotið klikkaði og boltinn beint á Danny Ward. Fyrstu 10 mínúturnar í seinni hálfleik voru mjög fjörlegur, á 54. mínútu fór þó flippið út í sprell þegar að Weghorst reyndi einhverskonar bakfallsspyrnu en yfir markið fór boltinn. Á 57. mínútu setti Fred, Rashford inn fyrir vörn Leicester, Rashford þeystist að marki Leicester og renndi boltanum undir Danny Ward en Marcus var dæmdur rangstæður, það var bara bull endar er hann það heitur þessa dagana að hann getur ekkert verið rangstæður, 2-0 United.
Erik Ten Hag nýtti sér VAR pásuna eftir mark Rashford til þess að gera breytingu, útaf fór Fred og inn á í hans stað kom Scott McTominay.
Leicester ákvað að skipta út miðjunni sinni í sömu andrá, Rodgers hefði kannski átt að sleppa því. Þar sem í næstu sókn vann Martinez boltann á miðju línunni, Rashford kom boltanum á Sancho sem setti hann út á Bruno sem gaf hann strax aftur fyrir markið og Jadon Sancho lagði boltann í netið, glæsilegt spil og staðan 3-0 fyrir United. Allt annað að sjá United liðið! Mínútu eftir markið var sjálfstraustið orðið svo mikið hjá United mönnum að Luke Shaw ákvað að prjóna sig í gegnum miðju Leicester og skjóta með hægri fyrir utan teig, það skot fór þó beint á Danny Ward. Á 69. mínútu gerði Ten Hag fleiri breytingar, Elanga kom inn á fyrir Rashford og Wan Bissaka kom inn á í stað Luke Shaw. Strax eftir breytinguna komst Sancho inn fyrir og var kominn í mjög gott færi en Wout Faes komst í veg fyrir skot hans Sancho fékk aðra tilraun á lofti en boltinn langt yfir. United hélt bara áfram Wan Bissaka átti fína sendingu fyrir eftir hraða sókn og Weghorst íglimrandi færi en Castagne náði að renna sér á boltann rétt á undan Weghorst. Á 80. mínútu gerði Ten Hag sína síðustu breytingu, útaf kom Sabitzer og inná í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni Kobbie Mainoo. Á 88. mínútu fékk Weghorst mjög gott færi eftir undirbúning Sancho en honum er bara fyrirmunað að skora og Danny Ward sá við hollendingnum. Lítið gerðist eftir það, nokkur hálf færi á báða bóga en eftir 4 mínútna uppbótartíma flautaði dómarinn til leiksloka og 3-0 sigur United á Leicester staðreynd.
Gríðarlega góður sigur á Leicester á heimavelli, United voru daprir í fyrri hálfleik en það er styrkleikamerki að geta skorað þrátt fyrir að spila illa. Það breyttist þó í síðari hálfleik og liðið koma mjög áræðið til leiks í síðari hálfleik og þegar uppi var staðið hefði sigurinn frekar getað orðið stærri. Eins og það var pirrandi að horfa á liðið í fyrri hálfleik var mjög gaman að sjá það í seinni hálfleik sérstaklega eftir mark númer 2, boltinn flæddi vel milli leikmanna, allir tilbúnir að hlaupa og vinna til baka. United á næst leik í miðri viku gegn Barcelona og ræðst þá hver fer áfram í 16-liða úrslit evrópudeildarinnar, svo eftir það er komið að úrslitaleik deildarbikarins næstu helgi gegn Newcastle. Leikjaprógrammið heldur því áfram að vera langt og strangt en á meðan United er að ná í úrslit og Marcus Rashford skorar í hverjum einasta leik þá er það einfaldlega bara veisla. Casemiro er líka búinn að taka út leikbannið sitt og tilbúinn að næla sér í sinn fyrsta enska bikar.
Síðast en ekki síst þá hefur David De Gea nú haldið hreinu í jafn mörgum leikjum fyrir félagið og Peter Schmeichel, sem er vel gert.
Egill says
Ég held að ETH hafi tekið gagnrýni mína eftir síðasta leik persónulega og handrotar mig núna. Þvílíkur seinni hálfleikur!
Helgi P says
Rashford er orðinn sturlaður leikmenn undir ETH
Einar says
Fyrstu 20 mín leiksins lofuðu ekki góðu en það sem á eftir kom frábært.
siggi says
jæja risinn að vakna úr roti og katar að kaupa bjartir tímar framundan glory glory
S says
Ekkert bjart við það að Katar sé að kaupa klúbbinn.
Helgi P says
Það verður samt mun bjartara en að hafa glezer draslið sem eru að blóðmjólka þennan klúbb
Silli says
Það er svo gaman að sjá sjálfstraustið sem býr í þessu liði núna. Það bókstaflega geislar af þeim – Já og svo eigum við Casemiro inni, sem er sturlað!
Dór says
Nú vilja glazerarnir vera áfram ef við losnum ekki við þá núna losnum við aldrei við þetta pakk
Audunn says
Virkilega sterkur og góður sigur.
De Gea þurfti að verja 2 eða 3x og þá er bara eins og United hafi verið í nauðvörn allan leikinn og stálheppnir að hafa náð 3 stigum út úr þessum leik.
Ég tel svo ekki vera, Man.Utd gerð alveg nóg og meira til í þessum leik til að eiga skilið að fá 3 stig.
Jú jú Leicester áttu fína spretti í fyrrihálfleik og fengu færi en þannig er nú bara boltinn, Leicester er hörku lið á góðum degi eins og sást þegar þeir tóku Spurs 4-1 og Aston Villa 2-4 þannig að það þarf ekki að koma á óvart að þeiri hafi átt sína spretti.
Hvað varðar tilvonandi nýja eigendur (vona nú innilega að svo verði svo við losnum nú við þetta USA hyski) þá er mér persónulega alveg sama hvaðan þeir koma svo framalega að þeir fjárfesti í liðinu, hreinsi upp allar skuldir, fjárfesti í vellinum og æfingarsvæði og leggji peninga líka í kvennaliðið sem og allt unglingastarf Man.Utd. Allt starf sem tihleyrir Manchester United…
Jú jú það eru einhverjir sem vilja ekki sjá að Manchester United verði í eigu fjárfestingarhóp frá Katar ofl olíufursta löndum sem er gott og gilt mín vegna. Það er öllum velkomið að hafa sínar skoðanir á þessu sem öðru.
Það eru líka margir sem sjá Jim Ratcliffe í hyllingum. Enn er hann í alvöru nógu sterkur fjárahldslega til að ráðast í það sem þarf að ráðast í ? Ég er bara alls ekki sannfærður um að svo sé, ég held að hann hafi ekki aðgang að sömu fjármunum eins og hinir hafa sem myndi þá bara pirra stuðningsfólk Manchester United meira.
Ef allir fara eftir reglum og gera það sem ég taldi upp áðan fyrir klúbbinn þá er mér drull sama hvaðan nýjir eigendur koma.
s says
Það er svolítið gefið í þessum sportwashing verkefnum að reglum og lögum verður ekki fylgt. Fyrir utan mannréttindaþáttinn sem þeir margbrjóta heima fyrir.
Audunn says
Það er reyndar ekkert gefið í því S,
ég veit ekki betur en að mestu skandalar í fótboltanum undanfarið hafi m.a komið frá Ítalíu og Spáni. Múturgreiðslur, hagræðing úrslita osfr.
Það eru margir eigendur liða út um alla Evrópu með óhreint mjöl í pokahorninu sama hvaðan þeir koma.
Hvað varðar brot á mannréttindum heima fyrir þá er það auðvita alls ekki gott og ber að fordæma.
Auðvita viljum við ekki að það sé brotið á fólki, við viljum að allir séu jafnir og fái að lifa sínu lífi án afskipta stjórnvalda í hverju landi.
Enn við skulum nú samt ekki gleyma því að mannréttindi eru brotin út um allan heim daglega og þá er sama hvort maður horfi til Katar, USA, Evrópu, Asíu osfr osfr. Því miður er það staðreynd sem þarf að horfast í augu við.
Enn ég ætla að láta mannréttindarsamtök sjá um að berjast fyrir réttindum fólks út um allan heim og vona innilega að þeim takist að ná tilætluðum árangri. Ég styð þau að sjálfsögðu heilshugar.