Byrjunarliðið United gegn Southampton var aðeins sóknarsinnaðra en við höfum vanist frá Ten Hag. Það virtist vera 4-1-4-1 með þá Antony, Fernandes, Weghorst, Sancho og Rashford alla inn á og væntanlega eru eitthvað flæðandi í þessum framliggjandi stöðum. Casemiro fékk engan Fred, Sabitzer eða McTominay með sér inn á miðjuna, þá fékk Aaron Wan-Bissaka traustið.
Byrjunarliðin
United:
Bekkur: Heaton, Maguire, Malacia, Dalot, Fred, Pellistri, McTominay, Mainoo, Garnacho
Southampton
Fyrri hálfleikur
Fyrri hálfleikur byrjaði hálf rólega og ekkert almennilegt færi hafði litið dagsins ljós á fyrstu 15. mínútum leiksins. Kyle Walker-Peters hafði átt skot í byrjun leiks en það fór beint á De Gea og var alltaf frekar hættulítið. En eftir rétt rúmlega 15 mínútna leik fékk Rashford ágætt færi, átti skot úr frekar þröngri stöðu sem Bazunu varði vel. Áfram hélt leikurinn ekki að bjóða upp á mörg færi, á 24. mínútu fékk Theo Walcott, já hann er enn að spila, fínt skallafæri sem De Gea varði vel enda á ekki að vera boðlegt að fá á sig skallamark frá Walcott. Nokkrum mínútum seinna fékk Sulemana fínt færi eftir að hafa stungið Wan-Bissaka af var Ganverjinn kominn inn á teig en skot hans í Varane sem gerði vel. Á 30. mínútu fékk Weghorst fínt skallafæri eftir að sending frá Luke Shaw fór yfir Bella-Kotchap en Weghorst klaufi og gerði ekki ráð fyrir boltanum.
5 mínútum síðar sóttu Southampton, Casemiro renndi sér á boltann en braut á Alcaraz í leiðinni, Taylor gaf Casemiro gult spjald fyrir tæklinguna. Anthony Taylor fékk þó skilaboð að fara í VAR skjáinn og eftir nánari skoðun ákvað Taylor að taka til baka gula spjaldið og senda Casemiro í sturtu. Svekkjandi, svosem hægt að réttlæta rautt en algjört óvilja verk hjá Casemiro og brasilíumaðurinn óheppinn. James Ward-Prowse tók aukaspyrnuna, boltinn fór í vegginn og rétt framhjá markinu. Nokkrum mínútum síðar fékk United aukaspyrnu sem Bruno slengdi inn í teiginn þar var Varane mættur en Bazunu varði vel. Á 44. mínútu gerði Ten Hag loks breytingu, McTominay kom inn á í stað Weghorst, United hafði þó verið talsvert betri aðilinn eftir bottvik Casemiro og haldið boltanum ágætlega manni færri. Lítið annað markvert gerðist í fyrri hálfleiknum, eftir rauða spjaldið vildu United menn þó tvisvar fá vítaspyrnu fyrra atvikið var þegar Walker-Peters tæklaði Bruno en virtist þó hafa náð boltanum eitthvað þó hann hafi klárlega farið fyrst í Bruno. Seinna atvikið fannst undirrituðum talsvert meiri vítaspyrna, en þá stoppaði Bella-Kotchap boltann með hendinni þannig að boltinn barst ekki til Weghorst sem var í fínu færi. Bella-Kotchap er að detta og er að setja hendina niður sem stuðning en hún virtist vera talsvert frá líkamanum og var ekki komin á jörðina.
Svekkjandi fyrri hálfleikur, United voru ágætir en voru með smá mislagða fætur þegar á vallarhelming Southampton var komið og náðu að skapa sér frekar lítið. Rauða spjaldið á Casemiro gerir leikinn enn erfiðari fyrir United en liðið var þó miklu betri en Southampton þrátt fyrir að vera manni færri. Það var eins og rauða spjaldið hefði kveikt í leikmönnum United. Anthony Taylor var þó ekkert að hjálpa United með því að sleppa því að dæma víti í fyrri hálfleik.
Seinni hálfleikur
Seinni hálfleikur byrjaði talsvert rólega en efttir þriggja mínútna leik komst Walker-Peters upp að endamörkum. Sending hans fór af Scott McTominay sem var við það að skora sjálfsmark eftir að hafa sett fótinn í boltann, Wan-Bissaka var þó mættur á línuna og bjargaði hreinlega marki. Á 52. mínútu fengu Southampton aukaspyrnu fyrir utan teig, það er bara einn maður sem kemur til greina þegar Southampton fær aukaspyrnu rétt fyrir utan teig, James Ward-Prowse. Ward-Prowse setti boltann ofan á þverslána, United heppnir. United lágu aðeins til baka og Southampton áttu í erfiðleikum með að búa til færi, Shaw fékk fínt færi eftir hraða sókn en Walker-Peters bjargaði í horn. Upp úr horninu fékk Southampton hraða sókn, Walcott slapp alveg einn inn fyrir. Martinez elti hann uppi en Walcott náði máttlausu skoti sem De Gea blakaði í horn. Á 67. mín átti Bruno mjög gott skot fyrir utan teig en Bazunu varði skotið í innanverða stöngina og út.
Fimm mínútum síðar gerði Ten Hag tvöfalda skiptinu, Pellistri og Garnacho komu inn á fyrir Sancho og Antony. Leikurinn hélt áfram að vera endanna á milli en samt lítið um opin færi, United að spila ágætlega verandi manni færri. Þegar 90 mínútur voru liðnar komu Fred og Maguire inn á fyrir Martinez og Garnacho, Garnacho hafði meiðst eitthvað nokkrum mínútum fyrr vonandi ekki of alvarlegt. Liðin héldu áfram að mása og blása en færi af skornum skammti og eftir 5 mínútna uppbótartíma flautaði Anthony Taylor leikinn af og markalaust jafntefli staðreynd.
Ég veit ekki hvað er hægt að segja eftir þennan leik, 11 á móti 11 þá hefði United alltaf unnið þennan leik, ég er sannfærður um það. Rauða spjaldið á Casemiro er fyrst og fremst svekkjandi, þá er líka alveg galið að United hafi ekki fengið a.m.k. eina vítaspyrnu í leiknum.
Anthony Taylor má alveg taka fína pásu frá því að dæma United leiki, kannski það þurfi að heyra í Arsenal og spyrja hvernig þeir hentu Lee Mason í burtu. Leikurinn sjálfur var frekar skrítinn hann var líflegur og endana á milli en samt er ekki eins og liðin hafi verið að fá urmul góðra færa. Oftast þegar United komst í fína stöðu á vellinum þá virtust leikmennirnir fá mislagða fætur og sóknin rann út í sandinn. Það er alveg uppörvandi þó að liðið hafi ekki gefist upp eftir rauða spjaldið, þá voru þeir ekkert verri en Southampton, sem segir kannski meira um hversu lélegir Southampton eru.
Að lokum
Þessi leikur var einstaklega frústrerandi, Casemiro á leið í fjögurra leikja bann, Anthony Taylor ákvað að United mætti ekki vinna, Garnacho meiddist og Southampton voru í afskaplega ljótum búningum. Það verður þó kannski að virða punktinn, United situr enn þægilega í þriðja sæti, tveimur stigum á undan Tottenham sem hefur þó leikið einum leik meira. Næst er það seinni leikurinn gegn Betis á Spáni, Casemiro fær a.m.k. að spila þann leik, svo er það heimaleikur gegn Fulham í FA Cup næstu helgi. Næsti leikur í ensku úrvalsdeildinni er 2. apríl á St. James’ Park í Newcastle.
Það er bara næsti leikur!
Svo legg ég til að Anthony Taylor biðjist afsökunar á að hafa gleypt flautuna sína og verið almennt óþolandi.
Turninn Pallister says
Casemiro er búinn að vera frábær fyrir okkur, á þessari leiktíð, en guð minn hvað þessi tækling hjá honum gerði mig pirraðan og reiðan. Nokkuð ljóst að hann er að fara í 4 leiki í bann og ekki alveg beint maðurinn sem við megum við að missa.
Gummi says
Við erum örugglega eftir að klúðra þessa 4 sæti
Einar says
Er ekki hægt að sjá þetta brot á tvo vegu hann fer vissulega með sólann en fer í boltann en rennur yfir og í manninn algjört óviljaverk.En afhverju fengum við ekki víti höndin kemur í veg fyrir að Weghorst fái boltann?
Tòmas says
Fáranleg dómgæsla, jú mögulega rautt en ekki það augljóst eða ásetningur í því að leiðrétta eigi dóminn. Engin samkvæmni því svona brotum hefur verið sleppt endurtekið í VAR.
Svo var þetta augljóst víti.
Helgi P says
Dómarar á Englandi eru að eyðileggja þessa íþrótt það er engin samræmi hjá dómurum