United mætir Nottingham Forest á morgun sunnudaginn 16. apríl klukkan 15:30, leikurinn fer fram á heimavelli Forest, City Ground í Nottingham. Það er óhætt að segja að maður er ekki enn búinn að jafna sig á leiknum í miðri viku gegn Sevilla. Öruggur sigur í súginn, Varane fór hnjaskaður af velli og Lisandro Martinez meiddist, þegar þetta er skrifað er enn ekki komið í ljós hvað sé að plaga Martinez. Ten Hag er þó búinn að staðfesta við fjölmiðla að þetta hefur ekkert að gera með hásinina sem eru góðar fréttir.
Þétta leikjaprógrammið heldur víst áfram þrátt fyrir meiðsli lykilleikmanna. Baráttan um meistaradeildasæti á næstu leiktíð er í hámarki og gríðarlega mikilvægt að United missi ekki stig gegn liðum eins og Forest í þeirri baráttu. Þrátt fyrir að United sé í miklum meiðslum getum við huggað okkur um stundarsakir við það að Nottingham Forest er í svipuðum ef ekki meiri meiðslavandræðum. Það reyndar ætti að koma maður í manns stað þar á bæ, enda keypti félagið bókstaflega tugi manns í sumar- og janúargluggunum.
Nottingham Forest berst núna fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni en liðið situr í 18. sæti með 27 stig jafn mikið og Everton sem er í 17. sæti en með talsvert verri markatölu. Forest hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum, en síðasti leikur þeirra var 2-0 tap á Villa Park í Birmingham. Forest menn hafa þó verið ágætir á heimavelli í vetur og hafa fengið 21 stig af 27 stigum sínum á heimavelli eða 78% stiga sinna í deildinni. Svipaða sögu má segja með United en félagið hefur verið talsvert betra á heimavelli, það er þó ekki jafn mikill munur og hjá Forest.
Það má búast við mikilli baráttu á City Ground núna á sunnudaginn, bestu leikmenn Forest á tímabilinu Brennan Johnson og Morgan Gibbs-White gætu alveg strítt lemstraðri vörn United einhvern veginn. Það er þó vonandi að Jonjo Shelvey fá að spila leikinn því hann hefur gert í því að reyna fella Forest eftir að hann var keyptur frá Newcastle núna í janúar.
Það er ekki alveg gott að segja hvernig Erik Ten Hag mun stilla upp vörn United í þessum leik, sérstaklega þar sem óvissa ríkir um Raphael Varane. Undirrituðum finnst það ekkert ólíklegt að við fáum að sjá miðvarðarparið sem gefur öllum United mönnum stífan brjóstsviða (Maguire og Lindelöf), Aaron Wan Bissaka og Tyrell Malacia verða þá líklegast í bakvarðarstöðunum.
Líkleg byrjunarlið
United:
Mér finnst frekar líklegt að Sabitzer byrji eftir flotta frammistöðu gegn Sevilla, þá er ég ekki viss um að Eriksen sé tilbúinn í heilan leik. Vörnin er spurningarmerki eins og minnst hefur verið á og hnjask Varane óljóst. Þá held ég að framlínan verði óbreytt enda ekki mikið um augljósa kosti á bekknum þó að Wout sé alltaf spenntur fyrir að prófa hvort hann geti skorað eða a.m.k. hitt á markið. Pellistri er líka kostur en ólíklegt að hann fái traustið til þess að byrja leikinn.
Forest:
Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því hvernig byrjunarliðið hjá Forest verður, Kouyate meiddist í seinasta leik og Freuler kom inn á í hans stað. Þá meiddist Niakhaté líka eitthvað smávægilega og ekki víst að hann geti byrjað, ég gæti því trúað að Mckenna komi inn í hans stað. Ef Steve Cooper vill vinna þá ætti Shelvey ekki að byrja leikinn, hann virðist þó enn vera að bíða eftir 35m sleggjunni sem Shelvey á inni einu sinni á hverju tímabili. Vonandi heldur Jonjo bara uppteknum hætti og er verri en enginn fyrir lið sitt, það væri þó alveg dæmigert að hann myndi hlaða í draumamark gegn United.
Að lokum
Þetta er hættulegur leikur, United verður að vinna þennan leik og halda 3 stiga bilinu í Tottenham, þá er þetta líklegast „auðveldasti“ leikurinn sem United á eftir á tímabilinu. Þrátt fyrir meiðsli lykilleikmanna þá mega djöflarnir ekki tapa stigum í þessari viðureign. Það er líka alltaf erfitt að spila gegn liði í fallbaráttu sérstaklega þegar að liðið er með heimavallarstuðning. Það er gott að Casemiro sé kominn aftur og vonandi veitir hann miðvörðunum hverjir sem þeir verða þarft skjól í leiknum, bara plís ekkert rautt Case, takk! Það er einhver ónota tilfinning sem ég hef fyrir leiknum en ef liðið mætir bara gírað til leiks þá ættu þetta að vera þrír þægilegir punktar í pokann góða. Forest hefur unnið United einu sinni frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar af ellefu skiptum, United hefur unnið átta sinnum og tvisvar hafa liðin skilið jöfn. Ég bið ekki um mikið bara að sigrar United verði 9 eftir þennan leik
Skildu eftir svar