Erik ten Hag þurfti að stilla upp Maguire og Lindelöf í hjarta varnarinnar vegna meiðsla Varane og Martinez. Líklegt að einhverjir United stuðningsmenn séu tilbúnir með brjóstsviðalyf í sófanum ef Harry og Victor fara að gera einhverjar gloríur. Marcel Sabitzer átti að hefja leik en meiddist í upphitun og Eriksen kom inn í byrjunarliðið í stað hans. Þá koma Dalot inn í stað Malacia, það má einnig geta þess að Marc Jurado 19 ára bakvörður fær sæti á bekknum í fyrsta skiptið. Slæmu fréttirnar af liðsuppstillingu Forest voru þær að Jonjo Shelvey settist á bekkinn, það hefði verið vel þegið að hafa hann inn á til þess að vera 12 maður United.
Liðin:
United:
Bekkur: Butland, Elanga, Pellistri, Weghorst, Jurado, Fred, Iqbal
Forest:
Fyrri hálfleikur
United menn byrjuðu frekar sprækir og fengu fínt færi á upphafsmínútunum þegar Navas sló boltann út í teig þar sem Sancho mætti á ferðinni en skot hans í varnarmann. Á 4 mínútu byrjaði brjóstsviðinn þegar Forest loftaði boltanum fram, Maguire og Awoniyi knúsuðust eitthvað sem endaði á að Maguire lá þver og endilangur ofan á Awoniyi og fékk gult spjald. Sæmilegi klaufaskapurinn hjá Maguire. Forest fékk fínasta færi eftir langt innkast nokkrum mínútum seinna en skot Awoniyi í varnarmann og í innkast. Leikurinn róaðist aðeins eftir fyrstu 10 mínúturnar, Harry Maguire virtist vera frekar illa stilltur og átti nokkar sendingar beint útaf. Á 18 mínútu átti Bruno Fernandes fínt skot sem Navas varði vel. Nokkrum augnablikum seinna fengu Forest hornspyrnu, upp úr henni fékk Maguire boltann í höndina, ekkert var þó dæmt enda hefði það verið mjög harður dómur. United var talsvert betri aðilinn en skyndisóknir Forest oft ágætar og föstu leikatriðin þeirra taugatrekkjandi, á 25. mínútu endaði hornspyrna Forest í stönginni eftir að boltinn fór af Maguire og McKenna.
Á 32. mínútu pressaði Martial boltann af Forest mönnum og hrökk boltinn til Fernandes sem stakk boltanum inn á Martial, Navas varði skot frakkans en Antony var mættur á fjær og potaði boltanum yfir línuna, 0-1 fyrir United. Undir lok fyrri hálfleiksins fengu bæði lið fín færi, fyrst voru það Forest menn sem geystust í sókn, eftir misheppnaða sendingu inn fyrir vörn United sem Dalot náði, missti Portúgalinn boltann of langt frá sér og beint á Awoniyi sem smellti boltanum yfir markið. Fernandes fékk þá fínasta skallafæri í uppbótartíma en skallaði boltann örfínt framhjá, hefði átt að láta reyna á Navas þar!
United menn voru talsvert betri í fyrri hálfleik en sköpuðu sér ekkert urmul færa. Forest menn reyndu að berja frá sér og það var alltaf ónotatilfing sem helltist yfir mann þegar Forest menn loftuðu boltanum inn í pakkaðann teig United. Forest menn munu að öllum líkindum halda áfram að beita skyndisóknum í byrjun seinni og um að gera að ná öðru marki sem fyrst.
Seinni hálfleikur
Seinni hálfleikur var einungis 90 sekúndna gamall þegar Neco Williams átti fyrirgjöf inn í teig United og boltinn af vinstri fæti Dalot í útrétta hægri hönd portúgalans. Það er þó ekki vítaspyrna ef boltinn hrekkur af fæti leikmannssins í hönd hans, en það botnar enginn lengur í reglunni um hendi víti í fótbolta, þannig vissulega fór um mann kaldur hrollur við þetta atvik. Nokkrum mínútum síðar átti United álitlega sókn sem endaði með sendingu frá Sancho fyrir en Martial aðeins of seinn til og náði ekki til knattarins. Eftir langa þunga sókn United fékk United horspyrnu á 55. mínútu, Bruno tók stutt horn á Eriksen sem setti hann aftur á Bruno sem átti geggjað skot en Navas varði boltann frábærlega í slána. United sóknin hélt áfram eiginlega næstu fimm mínútur og bæði Antony, Bruno og Eriksen áttu allir fínar skot tilraunir.
Á 64. mínútu fengu United aukaspyrnu, Bruno vippaði boltanum yfir varnarlínu Forest og Eriksen með boltann skoppandi einn gegn Navas en daninn náði ekki að hemja boltann. Sex mínútum síðar fékk Martial mjög gott skallafæri eftir sendingu frá Casemiro, en skallinn framhjá. Þetta var það seinasta sem Martial gerði í leiknum en hann Erik Ten Hag gerði sína fyrstu breytingu í leiknum og setti Wout Weghorst inn á fyrir Martial. United hélt áfram að þjarma að marki Forest, Antony átti skot/sendingu með hægri (já hægri) sem Navas sló út í teiginn og það mátti engu muna að United leikmaður næði til boltans.
Loksins, loksins! Antony keyrði upp völlinn og köttaði inn á vinstri (sjokker) í stað þess að skjóta sneiddi hann boltann glæsilega inn á Dalot sem var að taka hlaup inn á teiginn og portúgalinn setti hann þægilega fram hjá Navas. Fyrsta mark Dalot í ensku úrvalsdeildinni og staðan 0-2 United. Fred koma inn á fyrir Eriksen rétt eftir markið. Eftir þetta fór leikurinn að snúast dálítið upp í gamla góða bumbubolta taktík, menn fengu bara boltann og keyrðu og hvíldu svo í sókninni eftir á, þetta skilaði samt engu nema því sama og það gerir í bumbubolta (of löngum seinustu sendingum, menn að missa boltann of langt frá sér og þrusudúndrum yfir markið). Cooper hafði séð nóg af því þannig hann ákvað að setja Jesse Lingard inn völlinn til að koma einhverju skikki á leikinn. Þegar að tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma koma há sending inn fyrir vörn Forest, Niakhate og Weghorst börðust um boltann, Weghorst var eitthvað smá pirraður og ákvað að reyna að fá rautt spjald og sló til Niakhate en hitti eiginlega ekki þannig hann fékk bara gult spjald. Þetta var það seinasta sem gerðist í leiknum og 0-2 sigur United staðreynd.
Að lokum
United voru talsvert betri í leiknum og áttu skilið að vinna stærra, Bruno var gjörsamlega frábær og leitt að hann hafi ekki skorað, né lagt upp. Varafyrirliðinn gjörsalega hægeldaði miðju og vörn Forest manna, þá var Antony einnig mjög góður. United gerði nákvæmlega það sem þurfti í þessum leik, spiluðu bara sinn leik, voru þolinmóðir og ekki með neitt vesen. Það má samt alveg nefna að liðið mætti alveg vera klínískara í færunum sem þeir fá, Keylor Navas er samt augljóslega frekar góður markmaður. Ég gerði mikið grín af brjóstsviða bræðrunum Maguire og Lindelöf, en þeir hentu í kaffi og sígó frammistöðu og Forest áttu ekki skot á rammann í leiknum. United voru með 3.49 í xG á meðan Forest voru með 0.68 í xG, United var 68% með boltann, United átti 8 skot á markið en Forest ekkert. Tölfræðin eigilega talar sínu máli, þetta var þægilegur sigur að lokum, þó að á meðan staðan var 1-0 þá er alltaf stress til staðar. United fer til Sevilla í vikunni og þá eru undanúrslit FA bikarsins gegn Brighton næstu helgi.
Tottenham og Newcastle töpuðu í gær og þessi sigur var því gulls í gildi, baráttan um meistaradeildarsæti heldur áfram og United nú með þremur stigum meira en Newcastle, komnir aftur upp í þriðja sæti. Tottenham situr hins vegar í fimmsta sæti 6 stigum á eftir United og United á leik til góða.
Egill says
Það er talað um að Sabitzer hafi meiðst í upphitun.
Ef Bruno meiðist erum við fucked, og miðað við hvað menn eru að hrynja niður í meiðsli undanfarið þá er það ekki spurning um hvort, heldur hvenær.
Við þurfum að klára þennan leik í fyrri hálfleik og gefa mönnum hvíld.
Egill says
Flottur sigur í óþarflega erfiðum leik. Ef Forest væri með markmann á þeirra kaliberi hefði þessi leikur klárast snemma.
Antony maður leiksins að mínu mati, með Bruno, Eriksen og Casemiro þar á eftir.
Maguire var tæpur til að byrja með en skánaði þegar leið á leikinn, og Lindelöf var flottur.
Martial hefði oft mátt vera betur staðsettur, en var samt ekki slakur.
Það eina sem pirraði mig í leiknum var Sancho, ég er hræddur um að þau kaup séu bara ekki aðnganga upp, hann græddi ekkert á þessari útlegð og er ekki að skila neinu. Ég ætla ekki að eyða orðum í Weghorst.
Sir Roy Keane says
Mjög flott frammistaða og dýrmætur sigur. Miðjan okkar með Bruno, Eriksen og Casemiro er alveg frábær og ekki mörg lið í heiminum með betri miðju. Mjög langt síðan við höfum haft svona gott þríeyki á miðjunni sem smellur svona vel saman.
Antony var áræðinn og hungraður allan leikinn og skilaði mörkum. Það væri óskaði að hann sýndi þetta oftar.
Mér fannst báðir bakverðirnir líka mjög góðir og athyglisvert hvað þeir voru oft framalega og sóttu oft ákveðið inn á miðjuna og tóku mikið pláss. Það hefur verið erfitt að verjst þessum hlaupum frá þeim og frekar óútreiknalegt fyrir Forest, enda kom seinna markið þannig.
Næst er það Sevilla á útivelli og við með töluvert laskað lið. Er hóflega bjartsýnn fyrir þann leik, en spái samt seiglu sigri þar sem að leikmenn eru hungraðir í annan titill og að Casemiro muni leiða liðið með góðu fordæmi.