Þá er komið að síðari viðureign United og Sevilla en eins og mörgum er eflaust kunnugt um þá glutraði United niður tveggja marka forystu á heimavelli í síðustu viku. Liðinu tókst að komast yfir snemma í leiknum með tvennu frá Sabitzer á fyrstu 20 mínútum leiksins. Allt stefndi í þægilegan sigur þangað til spilaborgin hrundi hjá United, fyrst klúðraði liðið dauðafæri þegar Weghorst renndi boltanum á Malacia sem var alltof lengi að koma fyrir sig skotfætinum og svo sá bakvörðurinn um að skora sjálfsmark og minnka muninn í 2-1. Vont varð verra þegar sóknarmaður Sevilla skallaði boltann í trýnið á Harry Maguire og þaðan fór boltinn í netið og grátlegt jafntefli niðurstaðan.
Í millitíðinni mætti United svo í æfingaleik gegn Nottingham Forest þar sem mótstaðan virtist lítil sem engin og David de Gea fékk kærkomna hvíld þó hann hafi verið á vellinum. En á morgun verður leikið á Spáni og verður þetta í fjórða skiptið á leiktíðinni sem United mætir þangað í þessari keppni. Það þýðir í raun að eftir leikinn verður United búið að leika sem nemur 20% af La Liga því liðið hefur mætt Real Sociedad(#4), Barcelona (#1), Real Betis (#5) og núna Sevilla (#13) bæði heima og heiman.
Sevilla
Ljóst er að Sevilla, sem virðist vera einhver ótemja í þessari blessuðu Evrópudeild, verður sýnd veiði en ekki gefin þrátt fyrir að liðið sé í þrettánda sæti deildarinnar og mun lakara en þau lið sem United hefur þegar lagt að velli. Liðið hefur nýverið skipt um stjóra, í raun rétt fyrir fyrri leikinn á Old Trafford enda hefur gengi liðsins verið ferlegt en liðið var í bölvuðu brasi í riðla keppni Meistaradeildarinnar þar sem þeir lágu 0-4 gegn City og 1-4 gegn Dortmund á heimavelli og í raun kom eini sigur þeirra gegn danska liðinu FC Kobenhavn en hann skilaði liðinu inn í Evrópudeildina. Liðið marði svo PVS Eindhoven 3-2 samanlagt og Fenerbache 2-1 í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar og hafa því þrætt nálarauga á leið sinni inn í 8-liða úrslitin.
Sevilla stillti upp í 4-2-3-1 leikkerfið í síðustu viku, rétt eins og United, en voru yfirspilaðir fyrstu 30-40 mínúturnar og vonandi gerist það aftur á morgun því United var komið með veglega forystu þá. Þeirra sterkustu menn eru vafalaust Rakitic, Jesus Navas, Fernando og Ocampos en Bono í markinu og El-Nesyri kannast vafalaust margir við eftir frábært gengi Marokkó á heimsmeistaramótinu í nóvember á síðasta ári. Það voru hins vegar United menn sem sáu um að skora öll mörkin í síðasta leik og því líklegast réttast að nefna Maguire og Malacia sem hættulegustu leikmennina á morgun.
En að öllu óverðskulduðu gríni slepptu þá má gera ráð fyrir svipaðri uppstillingu þar sem Mendilibar mun líklegast breyta litlu. Einu leikmennirnir sem ekki eru til taks fyrir heimaliðið eru þeir Joan Jordan sem er meiddur og Montiel sem átti afleitan leik í fyrri leiknum og líklegast verra fyrir United að hann sé ekki að fara spila þennan leik. Annars spái ég liðinu svona:
Manchester United
Góðu fréttirnar fyrir Sevilla eru þær að meiðslalistinn hjá United er lengri en leiðin á milli Staðarskála og Blönduósar og þar að auki er Bruno Fernandes í leikbanni eftir ömurlega dómgæslu í fyrri viðureigninni. Annars eru þeir McTominay, Malacia, Heaton, Varane, Martinez, Rashford, van de Beek og Garnacho allir meiddir og ólíklegt að þeir taki þátt á morgun. Luke Shaw er aftur kominn í hóp og sömuleiðis Rashford sem fór með til Spánar en hann náði einni æfingu með liðinu og einhverjum einstaklingsæfingum þar áður svo hann ætti að vera leikfær. Hins vegar er það komið á hreint að Sabitzer og Malacia eru leikfærir og flugu með út til Spánar eftir að hafa ekki verið með um helgina.
En ef við ætlum að líta á björtu hliðarnar þá hefur Erik ten Hag sannarlega snarbreytt gengi liðsins gegn spænsku liðum í Evrópukeppnum en liðið er taplaust á útivöllum í keppninni og hefur í raun einungis tapað gegn Real Sociedad með vafasömu víti sem dæmt var á Martínez á Old Trafford. Sigur heima gegn Real Betis og Barcelona og úti gegn Real Sociedad og Real Betis auk tveggja jafntefla við Barca og Sevilla í leikjum þar sem við vorum mun sterkari aðilinn gefa von um farsæla ferð til Spánar að þessu sinni.
Þá muna eflaust líka þeir sem eru eldri en tvævetur að United kláraði þessa keppni síðast 2017 með hálft liðið á hækjum fyrir útslitaleikinn (Rojo, Zlatan, Shaw, Young og Bailly).
Það er því allt hægt þótt brekkan sé að vísu óþarflega brött í augnablikinu. Það sem mun skipta sköpum er varnarleikur liðsins en núna um helgina vantaði 3 af 4 úr byrjunarliðsvörninni okkar. Lindelöf kom hins vegar firnasterkur inn og steig vart feilspor á meðan Maguire virkaði ryðgaður en náði þó að smyrja legurnar og var betri eftir því sem á leið. Malacia meiddist gegn Sevilla og Aaron Wan-Bissaka og Diogo Dalot spiluðu í bakvörðunum báðir en leikurinn gegn Nottingham Forest var eins og áður sagði helst til of auðveldur til að nokkuð reyndi á varnarlínuna.
Það verður því að koma í ljós hvort United takist að halda hreinu á morgun en Sevilla hefur ekki skorað mikið á heimavelli. Gengið þar hefur líka verið upp og ofan þar sem liðið hefur unnið fimm, tapað fimm og gert 4 jafntefli. Brekkan er því alls ekki óyfirstíganleg.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða breytingar Erik ten Hag gerir á morgun þegar hann verður án fyrirliðans (á vellinum), besta markaskorarans (sem er að koma eftir meiðsli og byrjar líklegast ekki*), sterkasta miðvarðarparsins og án nokkurs vinstri bakvarðar (sama og *). Það kæmi ekki á óvart að sjá eitthvað sem við höfum ekki séð áður en ég spái liðinu svona:
Fred hefur af einhverjum ástæðum verið út úr liðinu en hann þarf að koma inn núna í fjarveru McTominay, Bruno og Sabitzer og tel ég að það muni mæða mikið á miðjunni okkar í þessum leik og því gott að fá einn með úthvílda tveggja lítra túrbínuvél á miðsvæðið í þann hundaslag sem þar mun ríkja. Sancho hefur verið að vaxa ásmegin og virðist loksins vera að finna taktinn aftur eftir erfiða byrjun og sama má segja um Antony sem virðist bæta sig með hverjum leiknum og átti mjög góðan leik gegn Forest og Sevilla en þeir munu skipta með sér köntunum í fjarveru Rashford en líklegt verður að teljast að hann komin inn á í leiknum.
Þið heyrðuð það samt fyrst hér. Wout Weghorst verður leikmaðurinn sem klárar leikinn með einum eða öðrum hætti. Honum gengur bölvanlega í deildinni heima fyrir en Evrópudeildin er sviðið fyrir hann til að stimpla sig inn í sögubækurnar fyrir United. Mín spá er 1-2 fyrir United, Anthony með markið okkar og við sjáum líklega um að jafna sjálfir og svo kemur Hollenska stórstirnið og skýtur okkur inn í undanúrslitin. Glory, glory!
Embed from Getty Images
Skildu eftir svar