Tottenham rak bráðabirgðastjórann eftir 6-1 tap fyrir Newcastle um helgina. Hjá Manchester United er gæti Bruno Fernandes misst af sínum fyrsta leik í fleiri ár vegna meiðsla. Liðin mætast í Lundúnum annað kvöld.
United ætti að koma undan síðustu helgi í þokkalegu skapi eftir að hafa unnið Brighton í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn var þó engin sérstök frægðarför, lítið af færum og markalaust eftir 120 mínútur.
Miðverðirnir Lisandro Martinez og Raphael Varane eru enn frá vegna meiðsla en Harry Maguire hefur afplánað leikbann. Eftir er að sjá hvort hann ýti Luke Shaw út í bakvörðinn eða geti komist fram fyrir Viktor Lindelöf í röðinni.
Bruno Fernandes meiddist í framlengingunni gegn Brighton og fótur hans bólgnaði upp. Erik ten Hag sagði á fréttamannafundi í dag að mögulega gæti Bruno spilað en til þess þarf bólgan að hjaðna. Bruno hefur annars verið einstaklega heppinn með meiðsli á ferlinum til þessa. Samkvæmt Transfermarkt hefur hann aðeins einu sinni meiðst, í tíu daga í mars 2019 en það varð ekki til þess að hann missti af leik. Hann missti af 3-2 sigri United á Tottenham fyrir ári vegna veikinda og af sömu ástæðu af leik með Sampdoria í janúar 2017. Þá hefur hann tekið út sinn skerf af leikbönnum.
Alejandro Garnacho er mættur til æfinga en ekki orðinn leikfær. Scott McTominay og varamarkvörðurinn Tom Heaton hafa glímt við meiðsli að undanförnu og eru óleikfærir.
Eftir niðurlæginguna í Newcastle fengu stjórnendur Tottenham og leystu bráðabirgðastjórann Cristian Stellini frá störfum auk annarra þjálfara sem komið höfðu með Antonio Conte til félagsins en sá var rekinn í lok mars. Ryan Mason stýrir því Spurs á morgun. Hann hefur áður brúað bilið því hann tók við þegar Jose Mourinho var rekinn vorið 2021. Mason varð þá 29 ára gamall og yngsti stjórinn í sögu úrvalsdeildarinnar. Honum tókst að klára tímabilið með sæmd.
Hjá Tottenham er markvörðurinn Hugo Lloris tæpur, hann fór út af meiddur í hálfeik á sunnudag eftir afleita frammistöðu. Ben Davis og Clement Lenglet eru einnig tæpir en voru þó á bekknum gegn Newcastle, sennilega fegnastir að vera ekki beðnir um að fara inn á. Þá eru þeir Rodrigo Bentancur, Yves Bissouma, Emerson Royal og Ryan Sessegnon allir frá vegna meiðsla.
Leikurinn skiptir bæði lið miklu máli í baráttunni um Meistaradeildarsæti. United er í fjórða sæti með 59 stig úr 30 leikjum en Tottenham í sjötta með 53 stig úr 32 leikjum. Aston Villa er þar á milli með 54 stig úr 33 leikjum en í seilingarfjarlægð Brighton og Liverpool.
Á fréttamannafundi í dag varaði Erik ten Hag við að sært Tottenham væri hættulegt og að leikmenn United yrði að sýna vilja til að vinna.
Leikurinn hefst klukkan 19:15 annað kvöld.
Egill says
Það verður að hrósa ETH fyrir skiptingarnar einu sinni enn, bjargaði öllu fyrir andstæðinginn eina ferðina enn.
Weghorst, Malacia og Fred eru einmitt þekktir fyrir að bjarga málunum…
Helgi P says
Við erum eftir að klúðra þessu 4 sæti við erum bara með hræðilegan bekk