Manchester United virtist ætla að halda áfram að auka ógæfu Tottenham og fara langt með að klára baráttuna í meistaradeildarsæti þegar liðið var 0-2 yfir í hálfleik á Hotspur Way í kvöld. Þversláin og orkuleysi kostaði United síðan tvö stig í seinni hálfleik.
Stærsta breytingin á byrjunarliði United síðan í bikarleiknum gegn Brighton var að Anthony Martial var settur á bekkinn. Jadon Sancho kom inn á vinstri kantinn og Marcus Rashford fór fram. Harry Maguire meiddist á æfingu og var því ekki í hóp en Bruno Fernandes náði sér af meiðslum sem hann hlaut gegn Brighton.
Augun voru þó á Tottenham sem á sunnudag steinlá 6-1 gegn Newcastle, henti í kjölfarið út bráðabirgðastjóranum og bað Ryan Mason um að redda málum út tímabilið.
United komst yfir strax á sjöundu mínútu. Boltinn varst til vinstri í teignum á Sancho, sem tók eina snertingu til hægri og sendi boltann í fjærhornið. Hann fékk sambærilegt færi mínútu síðar, reyndar tvö í sömu sókninni. Varnarmenn Spurs komust fyrir fyrra skotið, hið seinna var skallað frá á marklínu.
Manchester United spilaði ljómandi vel í fyrri hálfleik. Leikmenn liðsins voru yfirvegaðir og öruggir með boltann og náðu þannig yfirleitt alltaf að búa sér til nægt svæði til að senda á samherja. Eftir hálftíma var liðið búið að eiga tæplega 100 fleiri sendingar en mótherjarnir. Það var líka áhugavert að sjá færslurnar í sókninni, Aaron Wan-Bissaka var oft hlaupinn inn á miðjan teiginn.
Sjáumst í sumar
Tottenham liðið var hálf sofandi, ef frá er skilinn Richarlison sem með hraða og styrk olli Viktor Lindelöf nokkrum vandræðum. Blessunarlega voru samherjar hans þó alltaf skrefi á eftir þegar hann náði að senda boltann fyrir markið.
Á 43. mínútu slapp Ivan Perisic inn fyrir vörn United vinstra megin. Í stað þess að stýra boltanum skaut hann föstu skoti beint á De Gea. United vann frákastið niður í horninu og Bruno átti langa sendingu fram á Rashford sem hafði betur í kapphlaupi vil Eric Dier, komst inn á teiginn til vinstri og hamraði boltann í netið.
United var því með öll tök á leiknum í hálfleik og einhverjir Spurs bauluðu á lið sitt. Stuðnignsmenn United höfðu hins vegar sungið „sjáumst í júní“ til Harry Kane.
Taflið snýst við
En liðin skiptu um hlutverk í hálfleik og strax í þeim seinni hófst stórsókn Tottenham. Spurs fékk strax tvær góðar hornspyrnur og svo færi fljótlega upp úr þeirri þriðju. Öryggið og þolinmæðin sem einkennt höfðu leik United umbreyttist í værð og kæruleysi. Návígin og kapphlaupin fóru að tapast, sendingarnar urðu lausar og ekki á samherja.
Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik kom frábær skipting yfir til vinstri á Perisic, sem var þar með mikið svæði. Hann sendi fyrir markið og svo virtist sem stuggað væri við Richarlison við markið. United náði þó ekki að koma boltanum frá heldur barst hann út til Pedo Porro sem hamraði hann upp í nærhornið.
Sagan hefði verið önnur ef United hefði nýtt færið sem gafst í næstu sókn. United fór í góða sókn, Bruno fékk boltann í vítateigsboganum, klobbaði varnarmann á leið á marki en lyfti svo boltanum í þverslána. Wan-Bissaka fékk færi til að fylgja á eftir en náði ekki krafti í skallann og Spurs bjargaði í horn.
Gagnslausar skiptingar
Erik ten Hag taldi sig eflaust vera að grípa inn í þegar hann skipti Sancho og Eriksen út af á 61. mínútu fyrir Fred og Anthony Martial. Eriksen hafði stýrt leik United í fyrri hálfleik en var mögulega farinn að þreystast. Sancho hafði átt ágætar rispur upp vinstri kantinn. Skemmst er frá því að segja að hvorki Martial né Fred náðu nokkru sambandi við leikinn, aðeins 71% sendinga Fred rataði á samherja sem var lægsta hlutfallið hjá útileikmanni United í kvöld.
Ten Hag skipti síðar Anthony, sem lítið sást til og Wan-Bissaka, sem gaf Perisic alltof mikið pláss ,út tíu mínútum síðar fyrir Tyrrell Malacia og Wout Weghorst. Hlutverk Weghorst virtist þó óljóst, hann var oftast í kringum við miðjuna og lagði sig vissulega fram í varnarhlutverki en hvort hann var besti kosturinn í það eða hvað ten Hag var að hugsa þá stundina verður hann að svara fyrir.
Tottenham fékk áfram að sækja, rétt fyrir seinni skiptinguna skallaði Dier framhjá eftir að hafa verið frír á markteig. Það kom því ekki á óvart þegar Tottenham jafnaði á 79. mínútu. Rashford tapaði skallaeinvígi eftir útspark de Gea, boltinn fór beint til Kane sem renndi honum yfir á fjærstöngina þar sem Heung-min Son kom aðvífandi og skoraði.
United átti heldur meira í leiknum síðustu tíu mínúturnar en varð aldrei verulega ógnandi. Síðasta færið kom á 93. mínútu Luke Shaw vippaði boltanum yfir á fjærstöng á Casemior sem skallaði yfir.
Hver er þá staðan?
Það er verulega súrt að hafa misst niður tveggja marka forskot í mikilvægum leik. Þótt vikan hafi verið full af fréttum um vandræði í herbúðum Tottenham er staðreyndin samt sú að Lundúnaliðið er það lið sem til þessa hefur helst hefur bankað á dyrnar að ýta Manchester United út úr Meistaradeildarsæti. Sigur í kvöld hefði gefið United níu stiga bil og tvo leiki til góða. Sex stiga bil og tveir leikir til góða er samt ekki slæm staða. Fleiri lið eru þó í kring, til dæmis Liverpool sem er sjö stigum frá United sem á þó líka leik til góða þar. Úrslitin eru heldur ekki hjálpleg í baráttunni við Newcastle um þriðja sætið. Newcastle er á mikilli siglingu, vann Everton 4-1 í kvöld og er þar með 10-2 markatölu í síðustu tveimur leikjum. Newcastle er þremur stigum á undan en United á leik til góða. Eitt þeirra liða sem er í eltingaleiknum, Aston Villa, er næsti andstæðingur United á Old Trafford á sunnudag.
En þótt United eigi alla þessa leiki inni þá eru það stig sem engan vegin eru í hendi. Það eru þreytumerki á leik liðsins, og kannski að undra miðað við að hópurinn var kannski aldrei sérstaklega breiður auk þess sem töluvert er um meiðsli um þessar mundir. Orkuleysið í seinni hálfleik í kvöld var algjört. Kannski er það lukka að Evrópudeildin er úr sögunni þannig ekki þurfi að berjast í henni í miðri viku svo leikmenn geti dregið andann milli deildarleikja.
Erfitt er að nefna einstaka leikmenn United fyrir góðan leik í kvöld. Þeir spiluðu allir frábæran fyrri hálfleik en afleitan seinni.
Lið United: De Gea, Wan-Bissaka (Malacia 71), Lindelöf, Shaw, Casemiro, Eriksen (Fred 61), Bruno, Sancho (Martial 61), Anthony (Weghorts 71), Rashford.
Sir Roy Keane says
Vorum mjög flottir í fyrri hálfleik og hefðum auðveldlega getað unnið þennan leik. En svo misstum við dampinn og varamennirnir sem komu inn á stóðu sig afleitlega. Það hjálpaði sannarlega ekki til.
Skil ekki þetta með að setja Bruno á kantinn og Wighorst inn í holuna á sama tíma og hann var að brillera í holunni í fyrri hálfleik.
Fred var skelfilegur og Martial sást svo sjaldan í mynd að ég tók ekki eftir hvort að hann var með vettlinga. Kannski var hann með húfu og trefill líka .
Efast um að þeir tveir verði hjá okkur næsta vetur. Kalt mat þá er ekki nóg að eiga frábærar rispur af og til til þess að vera leikmaður United.