Nú er nýafstaðið landsleikjahlé og enski boltinn að byrja aftur. Okkar menn halda í austur og mæta botnliði Sheffield United á kvöldmatartíma á laugardagskvöldi. Það hefur gustað allverulega um klúbbinn í þessu landsleikjahléi með ofgnótt frétta um mögulega yfirtöku og öllu því tengdu en svo virðist sem sagan endalausa sé loks að taka enda. Farið var ítarlega yfir yfirtökuna í síðasta djöflavarpi.
United situr í 10. sæti deildarinnar með 12 stig og gæti með sigri lyft sér upp í 7. sætið ef önnur úrslit verða okkur hagstæð. Heimamenn töpuðu gegn Fulham 3-1 í síðustu umferð og eru í alls kyns vandræðum og verða að fara snúa við blaðinu til að eiga möguleika á áframhaldandi veru í deildinni á næstu leiktíð. Miðað við útivallargengi United undanfarið þá er ekki ólíklegt að jafnvel nýliðar á borð við Sheffield horfi til heimaleikja gegn okkur og hugsi um öll þrjú stigin ef allt gengur upp, svo slakt hefur gengi liðsins verið.
Sheffield United
Sheffield United er eitt af elstu fótboltafélögum Englands en liðið var formlega stofnað 1889 og hefur spilað leikina sína á Bramall Lane sem hefur veirð heimavöllur liðsins frá upphafi. Á fyrstu áratugum liðsins var klúbburinn stöðugur í efstu deild en rétt fyrir síðari heimstyrjöld hófst jójó-gengi liðsins þar sem liðið hefur flakkað frá efstu deild niður í þá neðstu (af atvinnumannadeildunum). En liðið var í efstu deild þegar Úrvalsdeildin var sett á laggirnar en hefur síðan þá farið upp um deild fjórum sinnum og fallið jafnoft. Það hefur því verið ansi mikil tilfinningaleg rússnesk rúletta að halda með liðinu síðustu 30 árin.
En þeir hafa þó geta huggað sig við þá staðreynd að gengi þeirra hefur ekki verið eins dapurt að undanförnu og helstu erkifjenda og nágranna þeirra í Sheffield Wednesday. Liðin hafa eldað grátt silfur saman frá stofnun liðanna en Sheffieldborg er einmitt þekkt fyrir stálvinnslu og dregur mótherji okkar á morgun einmitt gælunafn sitt frá hnífaparaframleiðslu borgarinnar en þeir eru gjarnan kallaðir „the blades“ af samlöndum sínum.
Sheffield var á meðal þeirra liða sem komu upp úr Championship deildinni á síðustu leiktíð en liðið endaði þægilega í öðru sæti deildarinnar með 91 stig og slapp því við umspilið. Þetta var annað tímabilið þeirra í næstefstu deild en tímabilið 20/21 féllu þeir úr Úrvalsdeildinni með stæl.
Þeir voru þá að spila undir stjórn Chris Wilder, sem virtist hálfgerðlega í guðatölu meðal heimamanna á þeim tíma, en liðið spilaði með 5 manna varnarlínu með afar áhugaverðum útfærslum sem meðal annars fólust í því að miðverðirnir tóku óvenju mikinn þátt í uppspili liðsins. Raunar lét hann menn í öllum stöðum rótera innan vallar og hlaut hann talsvert lof fyrir þetta nýja leikkerfi og sat liðið á tímabili í Evrópubaráttu en svo fór að lokum að önnur lið aðlöguðu sig að kerfinu og skútan sökk.
Þegar Wilder var rekinn þegar liðið sat í fallsæti og stefndi beint niður í Championship deildina, tók Paul Heckingbottom við sem bráðabirgðastjóri en honum tókst ekki að afstýra því sem verða vildi. Hann hafði stýrt u-23 liði Sheffield United frá 2020 en þegar fallið var staðfest og liðið fór niður um deild var hann ekki fastráðinn heldur fékk liðið Slaviša Jokanović inn en Heckingbottom tók aftur við varaliðinu. Serbinn entist ekki lengur en fram í nóvember þegar liðið ákvað að reka hann og fastráða Heckingbottom sem stjóra aðalliðsins.
Á hans fyrsta tímabili skilaði hann liðinu í 5. sæti og þar með í umspilið þar sem þeir töpuðu fyrir Nottingham Forest. Tímabilið 22/23 var svo aftur á móti hans fyrsta heila tímabil með liðið en þá gerði hann sér lítið fyrir og var valinn knattspyrnustjóri mánaðarins fyrstu tvo mánuðina eftir frábæra byrjun liðsins og svo reyndar aftur síðar á tímabilinu.
Heckingbottom er ekkert að finna upp hjólið í leikstíl sínum, hann heldur sig vanalega við 3-5-2 kerfið þar sem bakverðirnir spila nánast sem kantmenn. Það hefur oft á tíðum reynst liðum sem spila með 5 manna varnarlínu auðveldara að koma upp í deild þeirra bestu heldur en fyrir þau lið sem spila með fjóra í öftustu línu og skýrt dæmi um það er einmitt Sheffield þegar þeir komu upp síðast. Það að sitja djúpt, verjast vel og reiða sig á skyndisóknir eða föst leikatriði til að ná að kroppa í 38-40 stig á leiktíðinni hefur oft reynst vera galdurinn fyrir þessi lið.
En eitthvað virðist töfraþulan í ár hljóma öðruvísi því að Sheffield hafa átt í stökustu vandræðum og þeim hefur ekki tekist að halda hreinu það sem af er leiktíðinni ef frá er talinn deildarbikarleikur gegn Lincoln úr c-deildinni. Reyndar sýndu þeir hetjulega baráttu í þriðju umferðinni gegn Manchester City og héldu þeim lengi vel frá markinu sínu en leiknum lauk með 1-2 sigri meistaranna. En sá leikur var víst ekki til marks um það sem koma skal því liðið hefur fengið á sig 17 mörk í síðustu fimm leikjum og þar af komu átta á heimavelli á 90 mínútum gegn Newcastle.
Fyrir vikið situr liðið í neðsta sæti deildarinnar með einungis eitt stig og -16 í markatölu, en stigið kom í jafnteflisleik gegn Everton. Í sumar fékk liðið til liðs við sig þá Cameron Archer, framherja frá Aston Villa, Gustavo Hamer frá Coventry City, Vini Souza frá Lommel í Belgíu, auk manna eins og Luke Thomas, James McAtee sem var á láni hjá þeim í fyrra, Tom Davies og Slimane. En það munar sjálfsagt talsvert um þá sem þeir misstu, þá Sander Berge sem fór til Burnley og Iliman Ndiaye sem fór til Marseillev í Frakklandi.
Af þeim leikmönnum Sheffield United sem hugsanlega eiga erindi inn í byrjunarliðið eru nokkrir frá vegna meiðsla. Chris Basham varð fyrir hrikalegum meiðslum og verður ólíklega með fyrr en á næstu leiktíð en aðrir á meiðslalistanum eru; Ben Osborn, Daniel Jebbison, George Baldock, Ismaila Coulibaly, John Egan, Max Lowe, Norrington-Davies, Tom Davies og William Osula.
Paul Heckingbottom er því að takast á við sambærilega langan meiðslalista og Erik ten Hag en eðlilega hefur hann ekki eins breiðan hóp og því koma þessi meiðsli harkalega niður á frammistöðu liðsins á vellinum. Það er því kjörið tækifæri fyrir United að sparka í liggjandi mann ef svo má að orði komast.
Manchester United
United endaði á sigri fyrir landsleikjahléið sem nú er á enda en það var þó lyginni líkast að United skyldi hirða öll þrjú stiginn. Það var að miklu leyti því að þakka að Scott McTominay fór algjörlega eftir fyrirmælum Erik ten Hag þegar hann var í þann mund að koma inn á. Stjórinn bað hann um að skora tvö mörk og það gerði hann, fyrst á 93. mínútu og héldu þá flestir að hann væri að bjarga stigi fyrir United en Skotinn gerði gott betur og skoraði annað mark fjórum mínútum síðar og stal öllum þremur stigunum.
Þetta var ekki fyrsti leikurinn á leiktíðinni sem United vinnur sem skilur eftir hálfgert óbragð í munninum hjá stuðningsmönnum vegna þess hve dapur leikur liðsins var, þrátt fyrir úrslitin. United hefur ekki enn unnið deildarleik með sannfærandi hætti á tímabilinu. Það er því gráupplagt að breyta því á laugardaginn með því að hamra járnið meðan það er heitt, eða raun og veru ískalt og meiðsluhrjáð.
United er ekki laust við eigin vandræði hvað meiðsli varðar og núna voru að berast þær fréttir að Casemiro verði ekki með þar sem hann varð fyrir einhverjum meiðslum í landsliðsverkefninu í vikunni. Aaron Wan-Bissaka, Luke Shaw, Tyrell Malacia, Lisandro Martinez og ungstirnið Kobbie Mainoo eru einnig allir á listanum þó einhverjir séu farnir að mæta á æfingar og verða þess vegna líklega ekki með á morgun. Sergio Reguilon er hins vegar búinn að jafna sig og verður í hópnum.
Ég ætla að skjóta á að liðið verði eitthvað svipað þessu þó að það væri ekki ósennilegt að það kæmi einhver ágætis hollensk flétta þar sem við gætum séð leikmenn eins og Hannibal Mejbri koma inn, þar sem Amrabat verður líklega í hlutverki Casemiro í fjarveru þess brasilíska.
Það væri líka afskaplega ólíklegt að Erik ten Hag geti litið framhjá afreki McTominay frá leiknum gegn Brentford með því að svíkja hann um pláss í liðinu. Ég reikna fastlega með að Skotinn fái sitt pláss og eftir að margir leikmenn liðsins hafa þurft að ferðast umtalsverðar vegalengdir í landsliðsverkefni má reikna með að stjórinn gefi þeim örlitla hvíld.
Ég reikna með því að Maguire og Varane byrji saman í vörninni, einfaldlega vegna þess að Sheffield spilar talsvert upp á föst leikatriði og þá vantar okkur hæðina og gæðin í loftinu. Fransk-enski dúettinn á því vel við í svona leik. Diogo Dalot og Reguilon eru einu sönnu bakverðirnir sem eru leikfærir og eru því sjálfkjörnir. Fyrir aftan þessa fjóra vil ég svo sjá Onana, því þetta er einmitt leikur sem hentar honum, gegn liði sem mun liggja djúpt og spila upp á háar fyrirgjafir og ekki úr vegi að Kamerúninn haldi hreinu til að byggja upp smá sjálfstraust að nýju.
Miðjan verður áhugaverð, hvort sem ten Hag stillir upp í 4-2-3-1 eða 4-4-2 með tígulmiðju. Ég geri ráð fyrir 4-2-3-1 þar sem Amrabat tekur stöðu Casemiro og McTominay verður við hlið hans. Það sem kemur hins vegar til með að vera áhugavert er uppröðunin framar á vellinum.
Fær Rashford tækifæri til að rífa sig upp úr ösku meðalmennskunnar og í þann klassa sem við vitum að hann er fær um að sýna? Treystir Erik ten Hag Antony til að vera með hausinn á réttum stað í ljósi alls sem á undan hefur gengið? Fá Pellistri og Garnacho tækifærin sem þeir eru löngu búnir að vinna sér inn eða sitja þeir áfram á tréverkinu? Mun Hojlund leiða línuna eða mun ten Hag líta á þennan leik sem kjörinn leik til að hvíla Danann eftir að hann varð fyrir tilraun til líkamsárásar í landsleikjahléinu þar sem mótherjarnir létu vel finna fyrir sér? Hvað verðum um sjöuna okkar, Mason Mount?
Leikurinn verður flautaður á klukkan 19:00 á Bramall Lane og klukkutíma fyrr fáum við þessum spurningum svarað en það er enginn annar en Michael Oliver sem tekur að sér að þenja flautu kvöldsins. Honum til aðstoðar verður Dan Cook sem hefur ekki verið aðstoðardómari síðan honum brást línulistin í VAR-herberginu þegar Liverpool mætti Tottenham í viðureign sem hefur fengið ansi mikla gagnrýni fyrir dómgæsluna enda var hún með versta móti. Við skulum vona þó að það sama verði ekki upp á teningnum hjá dómaraliðinu á morgun.
Það er erfitt að kalla nokkurn leik skyldusigur þegar gengi liðsins er jafn dapurt og það hefur verið undanfarið en allt annað en þrjú stig og að minnsta kosti tvö eða þrjú mörk verður að teljast afhroð, þó með fullri virðingu fyrir Sheffield United. Liðið er að glíma við fjölmörg meiðslavandræði, eru líklega með laskað sjálfstraust eftir 0-8 tap á heimavelli og virðast eiga í stökustu vandræðum með að vinna netmöskvann hjá andstæðingum sínum. Ég ætla þó að fá að segja að þetta sé sýnd veiði en ekki gefin, því það væri alveg eftir United að leyfa heimamönnum að spila sinn leik og á sama tíma ekki finna neina smugu á þeirra vörn.
Skildu eftir svar