Erik ten Hag gerði tvær breytingar á liðinu sínu frá síðasta leik, Scott McTominay mætti inn á miðjuna eftir að hafa skorað tvennu í síðasta leik er hann kom inn á og Antony kom inn á hægri kantinn eftir sín vandræði utanvallar. Það kom svo á óvart að Varane var á bekknum en Evans, Lindelöf, Maguire og Dalot mynduðu varnarlínu kvöldsins.
Á bekknum voru þeir : Bayindir, van den Beek, Pellistri, Mount, Martial, Eriksen, Garnacho og Hannibal.
Lið mótherjanna
Leikurinn
Fyrri hálfleikurinn fór rólega af stað og ekki var nokkurn gæðamun að sjá á liðunum. Í raun voru Sheffield United menn sprækari ef eitthvað er og fengu þeir fyrsta færið sitt eftir tvær og hálfa mínútu. Boltanum var þá skotið í átt að markinu en beint í belginn á Maguire. Þaðan hrökk boltinn svo inn fyrir vörnina og fyrir fætur Oliver McBurnie sem átti skot en Onana varði vel frá honum.
Áfram héldu heimamenn að pressa United og voru miklu betri á fyrstu mínútunum. Næstu mínútur einkenndust af skallatennis á miðjum vellinum sem enduðu aldrei með hættulegum sóknum. En eftir um tuttugu mínútna leik áttu heimamenn alvöru færi þegar Cameron Archer átti skot fyrir utan vítateig sem fékk Onana til að taka á stóra sínum og bjargaði á síðustu stundu.
En United ákvað loksins að halda í sók þegar 25 mínútur voru komnar á klukkuna og eftir laglegt spil í kringum vítateiginn endaði boltinn hjá Lindelöf. Svíinn leit upp náði augnsambandi við Bruno við vítateigslínuna og kom boltanum á hann. Portúgalinn kom svo með erfiðan bolta á McTominay sem gerði frábærlega í að taka við boltanum og lagði hann svo í fjærhornið og breytti stöðunni í 1-0 fyrir Manchester United. Skotinn verið hreinlega að leika við hvern sinn fingur framar á vellinum að undanförnu, bæði fyrir United og landslið sitt.
En Sheffield United voru ekki lengi að svara með þungri sókn sem endaði með því að Skotinn var aftur í aðalhlutverki. Í þetta sinn var hann í hlutverki skúrksins en fyrirgjöfin af hægri kantinum fór í höndina á honum og Michael Oliver ekki í nokkrum vafa um það að þegar boltinn fer í höndina á leikmanni innan teigs þá er það víti. Oliver McBurnie stillti sér upp á punktinn og þrátt fyrir að Onana hafi valið rétt horn þá var skot hans svo fast og hnitmiðað út við stöngina að hann átti ekki möguleika. 1-1 og United alls hafði alls ekki litið vel út þann tíma sem liðinn var af leiknum.
Það var svo undir lok fyrri hálfleik sem United fékk tvö ágætisfæri. Fyst kom aukaspyrna sem Bruno krækti sjálfur í en skot hans endaði ofan á þverslánni. Því næst kom fyrirgjöf frá Antony á fjærstöngina þar sem Rashford tók boltann í fyrsta og setti hann fyrir markið en það var eins og deja-vu að Hojlund renndi sér að boltanum en rétt missti af honum fyrir opnumarki.
Síðari hálfleikur
Síðari hálfleikur fór ögn betur af stað en sá fyrri. Rhian Brewster kom fljótlega inná fyrir McBurnie en sá stutti átti hörku skot fyrir utanteig sem setti Onana úr jafnvægi en honum tókst þó að slá boltann aftur út í teig þar sem Maguire elti sóknarmanninn sem reyndi í frákastið og kastaði honum út fyrir völlinn. Því næst áttum við færi þegar Foderingham í marki Sheffield átti afleita sendingu þvert út úr vítateignum og Rashford komst inn í sendinguna. Hann renndi boltanum á Hojlund og bjóst við þríhyrningaspili en Daninn skaut sjálfur og beint í fangið á Foderingham sem andaði léttar eftir mistökin.
United komst í skyndisókn þegar Antony komst upp að vítateignum, renndi boltanum að vítateigsboganum þar sem Bruno framsendi boltann á Rashford vinstra megin við sig. Englendingurinn átti svo skot en innanfótarskot hans fór rétt tæplega 11 cm frá stönginni og framhjá markinu.
Þreföld skipting á 63. mín en þ.á fóru McTominay, Hojlund og Antony útaf í staðinn fyrir Eriksen, Martial og Garnacho. Hálftími eftir til að breyta leiknum og veruleg þörf á þar sem botnliðið var bara engu síður líklegt til að hrifsa í stigin þrjú.
Stuttu eftir þessar skiptingar kom horn hjá okkar mönnum en út því kom færi þegar boltinn var skallaður úr teignum og Amrabat tók við honum fyrir utan og hamraði boltanum í rammannn, alveg í vinkilinn og svo kom skot frá Antony langt framhjá.
Áfram héldu gestirnir að þrýsta og gera sig líklegri en vörn heimamanna stóð þétt sem aldrei fyrr. Reyndar má segja að Paul Heckingbottom hafi skipt í 7-1-2 í síðari hálfleik og ekki sjaldan sem liðið sást uppstillt með 6-7 menn í öftustu línu.
Hæg sóknaruppbygging á 77. mín varð til þess að boltinn barst upp vinstri kantinn með Lindelöf sem kemur honum á Garnacho sem tók tvo á en spólaði sig í vandræði. Eftir að Argentínutáningurinn áttaði sig á hlutunum rúllaði hann boltanum til baka á Lindelöf sem sendi á Diogo Dalot í vítateigsboganum. Sá stillti bara upp í skotæfingu og lagði boltann snyrtilega í boga upp í hægri markvinkilinn og þó Foderingham hafi haft hönd á boltanum þá kom hann engum vörnum við. 1-2 og United tók aftur forystuna, verðskuldað en alls ekki sannfærandi.
Garnacho átti tvo góða spretti en úr seinna færinu kom hornspyrna sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir það eitt að táningurinn fékk skotfæri aftur og setti boltann þá 2,5 cm frá stönginni. Lúmkst skot á nærstöngina en því miður brást honum bogalistin þarna.Síðasta skipting United var svo Mason Mount inn fyrir Rashford og Varane fyrir Evans þegar örfáar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Garnacho var svo aftur á ferðinni þegar Martial náði boltanum hátt á vellinum og renndi boltanum á Garnacho sem virtist vera að fara gulltryggja öll þrjú stigin en skot hans fór víðsfjarri markinu úr sannkölluðu dauðafæri. Leiknum lauk svo með 1-2 sigri Manchester United.
United klifrar upp töfluna og kemst í 8. sæti deildarinnar eftir þennan torsótta sigur gegn slökustu vörn Evrópu (úr stóru fimm deildunum* fyrir síðustu uppfærslu). En leikurinn var alveg í anda síðustu sigra, ósannfærandi, bit- og kraftlaust og á heildina litið alls ekki gott til að landa sigri nema á allra slökustu liðunum. Það er ekki hægt að fela sig á bakvið meiðslavandræði liðsins því mótherjinn glímir einnig við talsverð meiðslavandræði og liðin standa sennilega ekki á sama stað hvað breidd varðar svo það ætti alltaf að vinna með okkur frekar en hitt.
Varnarlína, með þá Dalot, Maguire, Lindelöf og Evans, virkar alls ekki traustvekjandi en Onana var hins vegar fínn í sínum aðgerðum í dag en hann fékk meira að gera en höfundi líkaði. Með fullri virðingu fyrir mótherjanum þá var ósk mín sú að sjá þrjú mörk frá Rauðu djöflunum í dag en sú varð ekki raunin. Reyndar settum við boltann tvisvar sinnum í tréverkið en inn í rammann einungis tvisvar.
Næsti leikur er svo í miðri viku gegn FC Kaupmannahöfn en sá leikur verður að skila þremur stigum því United situr á botni síns riðils í Meistaradeildinni og þarf að vinna næstu þrjá til að eiga möguleika á að fara upp. Sá leikur er á þriðjudaginn á Old Trafford kl 19:00.
evra says
skora á alla stuðninsmenn að hætta að mæta á vôllinn þangað til þessir hobbitar clazer bræður fara
Helgi P says
Þetta heldur bara áfram þessi lélega spilamennska hjá þessu liði við erum bara ekki að sýna neinnar framfarir undir Ten Hag sem er alveg ömurlegt því ég vildi fá þennan mann í stólinn en það verður bara að horfa á frammistöðuna á tímabilinu og hún er búinn að vera fyrir neðan allt
dr. Gylforce says
Fínn sigur, torsóttur en sanngjarn. Fyrri hálfleikur var slakur en liðið mun betra í seinni hálfleik og hepði hæglega getað unnið þennan leik 1-6. Samt ýmislegt til að hugsa um; varavarnarlína enn og aftur, furðulegur leikmaður í vinstri bakverði, sóknarlínan skilar fáum mörkum og liðið hefur skorað fæst mörk af öllum top 10 liðum í deildinni. En ávallt – áfram MU!
Egill says
Rashford er bara ennþá að fá mínutur á vellinum…
En stórkostleg 3 stig gegn geggjuðum andstæðingi sem situr enn sem fastast langneðst í deildinni, alls ekkert tæpur sigur. Áfram ETH og hans stórkostlega hugmyndafræði.
Jákvæðnin maður…
Mig langar að æla
Dór says
Við rétt náum að vinna þessi lið sem eru að fara berjast um fall við eigum ekki séns í topp 10 liðin
Laddi says
Djöfull sem ég væri til í að losna við suma “stuðningsmenn” sem kjósa að tjá sig hérna. Það virðist vera alveg sama hvað er, það er ekkert nógu gott.
Eru þrjú stig á útivelli nóg? Nei, spilamennskan var ekki nógu góð (þrátt fyrir urmul færa sem hefði reyndar mátt nýta betur)!
Skiptir máli að það var enginn alvöru bakvörður og því þriðji miðvörður þar og fjórði og fimmti kostur í miðverði vegna meiðsla? Nei, þeir eiga að vera betri, öðruvísi, hraðari (þrátt fyrir að hafa sýnt margoft að búa ekki yfir þeim hæfileikum)!
En Onana, hann var fínn í dag, ekki satt? Já, en de Gea (sem ekkert lið vill enn semja við, btw) er samt miklu betri!
Ef allir væru heilir væri sennilega enginn úr varnarlínunni að byrja leikinn, kannski Dalot sem fær extra ást í dag með frábært mark. Ekkert lið má við því að missa alla vörnina sína í meiðsli, ekki einu sinni Sheffield United. Hættið þessu bölvaða bölmóð og standið á bakvið liðið, alvöru stuðningsmenn styðja liðið sitt ekki síst þegar illa gengur. Hinar rækjusamlokurnar mega bara vera annars staðar…
Stundum þarf bara að vinna ljóta útisigra, þeir telja nefnilega, ótrúlegt en satt, alveg jafnmikið og fallegu sigrarnir.
Held að flestir séu bara búnir að gleyma að fæstir sigrar United hjá Fergie voru einhver glymrandi knattspyrnusýning. Hann vissi, eins og flestir viti bornir stjórar, að sigrar, sama hversu ljótir, skipta mun meira máli en fallegur fótbolti. Þigg alltaf tæpan, illa leikinn útisigur frekar en fallegan fótboltaleik sem á endanum skilar engu.
Dór says
Laddi við hljótum að meiga tjá okkur og seigja okkar skoðun hérna þótt þú sért sáttur að vera í 8 sæti eftir 9 leiki og neðsta sæti í riðlinum í meistaradeildinni þá er það flott hjá þér og svo er vandamálið ekki vörnin það er sóknin sem er helsta vandamálið hjá þessu liði enda sjáum við það að Brighton er búið að skora helmingi fleiri mörk en við
Laddi says
Þú tjáir þig að vild, enda get ég ekki bannað þér það. Sagðist bara vera þreyttur á vælinu í þér.
Á engum tímapunkti sagðist ég vera sáttur við stöðuna en var að reyna að benda á að á henni eru kannski aðrar skýringar en þær sem þú og aðrir “stuðningsmenn” halda fram, eins og þær að EtH sé glataður, Onana lélegur, de Gea hafi verið frábær o.s.frv.
Fótbolti er skrýtin íþrótt en eitt hefur þó alltaf verið fasti, þú þarft að spila góða vörn til að vinna leiki hvað þá titla. Besta United lið sögunnar var 2007-2008 liðið (að mínu mati) því það var með frábæra vörn. Frábæra sóknarmenn líka, engin spurning, en kosturinn við að hafa frábæra vörn er að þá þurfa sóknarmenn ekki alltaf að eiga stjörnuleik til að ná í eitt eða þrjú stig. Stundum er bara alveg nóg að skora eitt skítamark og vinna leikina 1-0. En til þess þarf vörnin að vera góð. Góð vörn gerir líka markmenn betri og, merkilegt nokk, liðið verður frjálsara fram á við.
Og það er rétt hjá þér að sóknarmennirnir hafa ekki verið að nýta færin. En færin eru að verða til og það er skref í rétta átt. Sjálfstraust er ótrúlega mikilvægt í fótbolta og leikmenn eru bara manneskjur eins og við. Þannig að ég kýs að trúa því að það að tala menn upp frekar en niður sé vænlegra til árangurs. Kannski er það barnalegt en ég hef bara aldrei upplifað bætingu hjá neinum leikmanni við það að samherjar, þjálfari eða stuðningsmenn drulli yfir þá, heldur þvert á móti.
Þannig að þú heldur bara áfram að tjá þig eins og þú vilt, talar fyrir því að EtH verði rekinn, samið aftur við de Gea, bara njóttu vel með það. Við hin bara höfum kannski örlítið meira skynbragð á það að raunveruleikinn er aðeins flóknari en þú virðist halda. Alvöru stuðningsmenn hvetja liðið mest þegar mótbyrinn er sem mestur.
s says
Þú ert ekkert minni stuðningsmaður þótt þú kvartir yfir lélegu gengi. Þeir mega alveg fá að heyra það. Búnir að vera ömurlegir. Þetta Sheffield lið tapaði 8-0 fyrir Newcastle. Að við skulum hafa verið í svona miklum vandræðum með þá er til skammar. Hvar er boltinn sem Eric lét Ajax spila? Fáránlegt að horfa á þetta.
Arni says
Þessi spilamennska er ekkert að fara skána eitthvað með þennan hóp sem Ten Hag er búinn að búa til
Laddi says
S: Það er í góðu lagi að kvarta yfir lélegu gengi. Það er bara tvennt ólíkt að gera það á einhvern skynsamlegan máta sem getur af sér umræður og að vera sífellt að kalla alla leikmenn ömurlega, stjórann ömurlegan og hann eigi að reka o.s.frv. T.d. mætir Arni hérna á eftir þér með brjálæðislega uppbyggilega og ígrundaða athugasemd sem býður upp á frábærar rökræður um framhaldið /s.
Ég hélt í alvöru að þetta væri vettvangur til skoðanaskipta, umræðna og já, mögulega smá átökum um sameiginlegt áhugamál þeirra sem hér mæta. Það má vissulega ræða það sem miður fer (nóg af því undanfarið) en jafnframt hrósa því sem vel er gert (t.d. Højlund á móti Galatasaray eða góðan leik Jonny Evans á móti Burnley). Hvaða leikmenn þyrfti að kaupa til að styrkja hópinn, af hverju þessi eða hinn fær ekki fleiri mínútur eða jafnvel af hverju Sancho sé svona barnalegur.
En það virðist ekki vera það sem fólk hefur almennt áhuga á að gera hér í athugasemdum. Ég velti því fyrir mér til hvers þetta er eiginlega. Ritstjórnarnir vilja kannski hafa eitthvað um þetta að segja en mig myndi virkilega langa til að það væri hægt að hafa þetta á einhverju vitrænu plani frekar en þessar endalausu pillur um hvað allt sé ömurlegt. En ef það er það sem pöpullinn vill þá vísa ég bara sjálfum mér á dyr…
S says
Þu þarft að vera breytingin. Leiddu hitt bara hjá þér og haltu áfram með þitt.
Ég er sjálfur búinn að gefast upp á þessum bolta hjá Ten Hag. Var svo spenntur þegar hann mætti eftir að háða séð hann brillera með Ajax. En núna erum við að spila einhverskonar counter attacking, Ole Gunnars bolta í bland með hápressu stundum skil ekki kjaftæði.
Persónulega vona ég að ef Ratcliff kemur inn að það sé rétt með að hann vilji fá Edwards inn með sér og fáum einhvern nýjan þjálfara sem spilar þennan nýja Pep hybrid bolta sem er að valta yfir allt. De Zerbi gæti verið maðurinn.
Rashford má líka prófa að nenna að pressa með liðinu. Get ekki þessa leti í manninum.
Laddi says
Sko, vandamálið er að EtH getur ekki spilað boltann sem hann vill með Maguire og Evans í vörninni því þeir hafa ekki hraðann til að spila háu línuna sem þarf til að geta spilað þann bolta. Svo hjálpar ekki heldur að Luke Shaw, sem var heilt yfir einn besti leikmaður United á síðasta tímabili, er meiddur líka þannig að það er enginn alvöru vinstri bakvörður til að leyfa Rashford að njóta sín betur. Þannig að vegna þessarra miklu meiðsla í vörninni VERÐUR hann að breyta um leikskipulag, því miður.
Ég er búinn að segja það, Bjössi er búinn að segja það og fleiri, nýr þjálfari er ekki lausnin á þeim vandamálum sem hrjá United akkúrat þessa stundina. Þessi endalausu meiðsli, óráðsía í rekstri og galin innkaupa- og samningastefna eru vandamálin sem þarf að leysa og vinda ofan af. Ratcliffe getur vonandi lagað þessi bókhaldslegu vandamál en hin eru torleystari.
En er sammála með letina í Rashford, hún er óþolandi, en EtH er vandi á höndum því þegar hann er á deginum sínum er hann einn besti leikmaður deildarinnar. En inni á milli er hann dragbítur á liðið. Og gallinn er að þú veist aldrei hvort þeirra klæddi sig í treyjuna þann daginn. Að nota eða nota ekki Rashford, þar liggur efinn…
S says
Ja en þessi meiðsli hafa ekki alltaf verið. Hann hefur samt ekkki náð að implementa sinn stíl ennþá. Sem mér finnst galið. Skil alveg að núna sé hann ekkert að því.
Laddi says
Já, það er ágætis punktur. En þá er spurning: Af hverju hefur það ekki tekist ennþá (þegar ekki allir eru meiddir)? Erum við kannski of óþolinmóð?
Það gleymist stundum að Fergie tók við liðinu í nóvember 1986, það voru háværar raddir á lofti um að reka hann í janúar 1990 (https://www.planetfootball.com/nostalgia/how-alex-ferguson-saved-himself-from-the-brink-of-the-sack-at-man-utd) og hann endaði með liðið í ellefta sæti tímabilið 1988-1989. Eftir 5-1 tap fyrir City þá var settup upp risa borði á Old Trafford sem á stóð: „3 years of excuses and it’s still crap… tara Fergie”. En það vita allir hver hló best að lokum, en stefið er kunnuglegt, ekki satt?
Stundum er það bara þannig að breytingar taka langan tíma, oft mun lengri tíma en flestir hafa þolinmæði fyrir. Mér er ekkert endilega gefið um Arsenal en þeir mega eiga það að þeir hafa gefið Arteta tímann sem þurfti, með þeim „kostnaði“ sem því fylgir, vond úrslit meðtalið. En í dag njóta þeir góðs af þolinmæðinni og Arsenal bara orðnir drullu góðir. Hafa tekið sér tíma í að kaupa í þær stöður sem vantar, stundum með því að borga helling (Rice) en virði leikmanns er í réttu hlutfalli við virði hans fyrir klúbbinn. City tók sér líka góðan tíma í að byggja upp sitt lið þegar Pep kom á svæðið, byrjuðu meira að segja áður en hann mætti. Sama má segja um Liverpool.
Það má alveg spyrja sig hvort keyptir hafi verið réttir leikmenn, mér er t.d. til efs að Casemiro hafi verið efstur á blaði yfir leikmenn sem EtH vildi fá, jafnvel þó að ég dýrki Casemiro, hefði bara viljað fá hann 23 ára, ekki 31 árs. Amrabat var ekki fenginn bara til að fylla á bekkinn, það er augljóst að hann passar mun betur þarna inn, þarf bara fleiri mínútur. Antony er keyptur því það vantar örvfættan kantmann eftir að Greenwood ákvað að vera fáviti (mér finnst Antony fínn, skil ekki þetta hatur sem hann fær frá flestum). Mason Mount er keyptur því það vantaði betri áttu fyrir Fred og McTominay en hann á eftir að sanna að hann sé kaupverðsins virði. Onana er fenginn því de Gea var ekki lengur nógu góður, það er bara staðreynd. Hvort Onana er það verður að koma í ljós. Højlund er flottur, fín kaup þar. Lisandro Martinez líka mjög flottur bara verið óheppinn með meiðsli. Í heildina eru þessir lykilleikmenn sem hafa verið keyptir góðir leikmenn en það þarf að búa til gott lið úr þeim sem hefur kannski verið það sem hefur vantað. Svo eru leikmenn meiddir sem væru pottþétt að fá mínútur núna, Diallo og Kobbie Mainoo, Mejbri hefur komið ágætlega inn þegar hann hefur spilað, Malacia væri að spila í fjarveru Luke Shaw en er auðvitað líka meiddur.
Ég veit ekki alveg hvert ég er að fara með þetta en ég er allavega ekki svona rosalega svartsýnn eins og sumir sem sjá liðinu allt til foráttu. Sá um daginn að einhver hélt því í alvöru fram að liðið myndi falla, veit ekki hvaða veruleika sá aðili býr í, það er auðvitað aldrei að fara að gerast. Liðið er vissulega ekki að spila vel og það má mikið bæta en ég ítreka að það þarf að horfa á heildarmyndina og skoða ástæðurnar. Svo má í framhaldinu skoða hvernig má bæta liðið í næstu gluggum og þá hvaða leikmenn væru heppilegir þar inn sem raunhæfir möguleikar (Mbappé er aldrei að fara að koma, t.d.) og henta fyrir ákveðinn leikstíl.
Ólafur Kristjánsson says
Mikið er ég feginn þegar alvöru stuðningsmaður segir okkur sauðunum hverrnig við eigum að haga okkur og eys síðan úr viskubrunni sínum yfir lýðinn!
Laddi says
Það var ekkert, Ólafur, mín er ánægjan. Mikilvægast er þó að þú vitir sjálfur að þú ert sauður og ert tilbúinn að bæta ráð þitt, það gerir þig að betri manni og, já, merkilegt nokk, stuðningsmanni… 😉
Ólafur Kristjánsson says
Sönnum og alvöru?
Friðrik Már says
Fyrst mönnum er títt rætt um lestina í Rashford, haldi þið i alvöru að ef þetta væri áhugaleysi eða leti að EtH héldi áfram að spila honum? Hann vill að liðið pressu og það kæmi mér alls ekki á óvart ef EtH hefur sagt við hann að sinna meira sóknarlega hliðinni og spara orku. Það er enginn að fara segja mér að EtH sé ekki með hreðjar í það að taka á leti leikmanna sinna, sama um hvern ræðir. Þetta held ég að sé miklu frekar takti ský upplegg. Sem við þurfum bara að sætta okkur við þó það fari í taugarnar á einhverjum okkar.