Loksins loksins er landsleikjahléið búið og ekkert svoleiðis fyrr en í mars á næsta ári. United heimsækir bláa helming Liverpool borgar, þegar að liðið sækir Everton heim í Guttagarð á sunnudag klukkan 16:30. United mætir til leiks eftir landsleikjahléið sem mest „in form“ lið ensku úrvalsdeildarinnar, sem er fáránleg staðreynd ef horft er á spilamennsku liðsins. Það er þrátt fyrir allt í alvöru staðreynd að í síðustu fimm úrvalsdeildarleikjum hefur ekkert lið fengið jafn mörg stig og Manchester United. United er þó enn bara í 6. sæti deildarinnar 7 stigum á eftir toppliði Manchester City.
Þrátt fyrir landsleikjahlé þá virðist drama-ið samt sem áður fylgja United, nú halda blaðasnápar og twitterstrákar því fram að Ten Hag og Varane talist varla við þar sem Varane hefur ekki spilað mikið undanfarið. Þá virðast yfirvonandi kaup Jim Ratcliffe á hluta félagsins ekki vera alveg jafn yfirvofandi og talið var fyrir landsleikjahlé, svo virðist sem það gæti beðið fram í janúar.
Landsleikjahléið var þó ótrúlegt en satt dramatískari fyrir mótherja United um helgina, Everton, heldur en fyrir rauðu djöflana. Everton gerðust nefnilega sekir um að hafa brotið Financial Fair Play (FFP) reglurnar, en félagið tilkynnti talsvert meira tap en úrvalsdeildin leyfir. Úrvalsdeildin ákvað því að draga 10 stig af Everton og situr liðið því í næst seinasta sæti deildarinnar. Það virðist skipta máli hvursu blátt liðið er þegar að því kemur að dæma í FFP málum hjá FA.
Oft er talað um það að vont sé að mæta liðum sem eru nýbúin að skipta um þjálfara (e. new manager bounce), ætli það sé ekki enn verra að mæta liði sem er nýbúið að missa rúmlega 70% af stigunum sínum. Fyrir allt þetta fíaskó sat Everton í 14. sæti deildarinnar, en liðið er búið að vera á fínu róli eftir slæma byrjun á tímabilinu. Liðið er búið að vinna þrjá af síðustu fimm leikjum í deild. Miðað við að spilamennska United hefur verið slök á þessu tímabili og að því virðist ómögulegt fyrir liðið að skora þá er ekki beint draumurinn að mæta særðu liði sem Sean Dyche stýrir. Það eru vissulega mörg lið í þessari deild sem eru talsvert betri en Everton, en Sean Dyche er þekktur fyrir að kunna að múra fyrir og þegar að lið hans fá alvöru mótiveringu þá veita þau yfirleitt ágætis baráttu.
Meiðslalistinn hjá United er enn þá talsvert langur en það virðist þó sem svo að hann gæti farið að styttast. Luke Shaw er farinn að æfa sem og Tyrell Malacia ekki er víst hvort þeir verði tilbúnir í leikinn á sunnudag. Jonny Evans og Rasmus Højlund meiddust fyrir landsleikjahlé og eru báðir tæpir en ættu þó að vera í hóp. Talsvert lengra er þó í að Eriksen, Casemiro og Martinez verði tilbúnir til leiks en síðarinefndu tveir munu ekki spila fyrr en í byrjun næsta árs. Miðað við þær fréttir sem undirritaður hefur lesið þá virðist Andre Onana vera tilbúinn þrátt fyrir að hafa farið útaf meiddur í leik með Cameroon. Meiðslakrísa United er orðinn það mikil að jafnvel ámeðan ég skrifaði þessa efnisgrein í þessari upphitun bættist við leikmaður á meiðslalistann. Þetta er dagsatt FotMob endurhlóð sig á meðan ég skrifaði þessa efnisgrein og bætti Pellistri við á listann, hann er því greinilega líka tæpur núna. Síðast en ekki síst bárust þær fréttir að Mason Mount væri líka meiddur og frá í u.þ.b. mánuð, þetta er eiginlega orðið fáránlegt.
Líklegt byrjunarlið
Svona spái ég liðinu á sunnudag, mér sýnist Ten Hag vera alveg kominn á Maguire vagninn og farinn af Varane lestinni. Mér finnst ólíklegt að Shaw byrji leikinn en held að komi mögulega við sögu. Það er erfitt að stilla upp miðjunni, mér finnst flest allir leikmenn hafa verið vonbrigði á þessu tímabili en ég held að það sé alveg öruggt að bæði McTominay, Rashford og Bruno byrji allir. Svo er það spurningin hversu heill Højlund er, miðað við það sem er til á bekknum þá held ég að það sé nauðsynlegt að hann starti. Þá hafa einhverjið haldið því fram að Erik Ten Hag muni gefa Kobbie Mainoo sitt fyrsta start á tímabilinu.
Að lokum
Sigur um helgina er mjög mikilvægur, 4 af 5 liðunum sem eru fyrir ofan United í töflunni eiga viðureignir á móti hvoru öðru og því er þetta kjörið tækifæri til þess að saxa á forskot þessara liða. Það sem ég held þó að flest allir United stuðningsmenn vonist eftir er að liðið spili skemmtilegan fótbolta og séu ekki í bölvuðu ströggli á 75. mínútu við að troða inn einu marki. Auðvitað vil ég frekar að United liðið vinni þó að það sé ljótur sigur, en spilamennskan er orðin talsvert þreytt. Framherjar og framliggjandi leikmenn United þurfa líka að fara að stimpla sig inn í vinnuna þessi markaþurrð er orðin vel frústrerandi ég tala nú ekki um þegar þessir leikmenn klúðra nokkrum dauðafærum í leik eins og gegn Luton. John Brooks er dómari vonandi verður ekkert VAR fíaskó í þessum leik, Luton leikurinn var fínn að því leiti að VAR hafði bara hægt um sig.
S says
Við þurfum að koma sterkir inn frá fyrstu mínútu. Everton menn verða væntanlega brjálaðir eftir að stigin voru dregin af þeim.
Persónulega býst ég við því samt að menn brotni niður við fyrsta mótlæti og að við töpum. Jei. (Þetta er kaldhæðnis Jei, býst við að einhverjir skilji það ekki)