United heimsótti særða Everton menn á Goodison Park í dag klukkan 16:30. Erik Ten Hag gerði nokkrar breytingar á liði sínu frá sigrinum á Luton fyrir landsleikjahlé. Luke Shaw var kominn aftur í byrjunarlið United, loksins loksins. Martial byrjaði þar sem Rasmus Hojlund er frá vegna meiðsla, en stóru fréttirnar voru að Kobbie Mainoo byrjaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Sjálfur var Erik Ten Hag í leikbanni og mætti með sixpensarann upp í stúku en Mitchell van der Gaag stýrði skútunni af hliðarlínunni. Eins og kom fram í upphituninni þá voru dregin 10 stig af Everton í landsleikjahléinu fyrir brot á Financial Fair Play (FFP). Stuðningsmenn Everton og klúbburinn eru talsvert ósátt við þessa refsingu þar sem ónefnt ögn ljósblárra lið 50 km í burtu liggur undir grun að brotið reglur FFP ögn oftar. Stuðningsmenn Everton héldu því uppi bleikum spjöldum sem á stóð „Corrupt“. Topp lið deildarinnar gerðu jafntefli um helgina, sem varð til þess að Arsenal tilti sér á toppinn og þá tapaði Tottenham, United gat því með sigri minnkað muninn í toppliðið niður í 6 stig og muninn í Tottenham í 2 stig.
Liðin:
United:
Bekkur: Bayindir, Varane, Reguilon, Wan-Bissaka, Amrabat, Hannibal, Pellistri, Van De Beek, Hugill
Everton:
Bekkur: Virginia, Coleman, Godfrey, Danjuma, Chermiti, Patterson, Keane, Hunt, Dobbin
Fyrri hálfleikur
United byrjaði leikinn kröftulega svona eins og liðið hefur gert nokkrum sinnum á tímabilinu, liðið keyrði af strax í sókn sem þó ekkert varð. Stuttu seinna eða á annarri mínútu hélt liðið ágætlega boltanum hátt upp á vallarhelmingi Everton, sem varð til þess að Dalot fékk boltann frá McTominay í fínustu fyrirgjafastöðu. Portúgalinn slengdi boltanum fyrir en sendingin virtist þó vera of aftarlega fyrir Garnacho á fjærstönginni. EN VÁ VÁ VÁ, MAÐUR LIFANDI, GARNACHO DRENGUR HNEIGÐU ÞIG. Þvílík hjólhestaspyrna!!! Drengurinn sótti boltann á þriðjuhæð og smellti honum í fjærhornið, Pickford ekki nálægt boltanum og þó að hann væri með venjulega langa handleggi þá hefði hann samt ekki verið nálægt því að verja. Þetta fer niður sem eitt af bestu mörkum úrvalsdeildarinnar. 0-1 fyrir United og aðeins þrjár mínútur liðnar, svona mörk ættu samt eiginlega að gilda tvöfalt.
Næstu fimm mínútur í leiknum var eins og leikmenn inn á vellinum væru frekar að einbeita sér að því að leita að hökunni sinni eftir markið frekar en að spila fótbolta. Á þessum kafla var mikið um langar spyrnur og liðin héldu ekkert sérstaklega mikið í boltann. En það var svo Everton sem tók í raun völdin á vellinum, United liðið átti í stöðugum vandræðum með háspressu Everton og hasíteraðir stuðningsmenn bláliða byrjuðu að láta vel í sér heyra. Calvert Lewin átti máttlaust skot sem fór beint á Onana á 10. mínútu. Þrátt fyrir að Everton væri klárlega betri aðilinn þá skapaði liðið sér ekki mikið en á sama tíma skapaði United enn minna í þau fáu skipti sem liðið komst á seinasta vallahelminginn. Já United var eins og Arnar Gunnlaugs myndi orða það að „suffera“, sem er eiginlega galið á móti Everton.
Síðustu 15. mínúturnar af fyrri hálfleik náði Everton að skapa sér loksins ákjósanleg færi, Calvert-Lewin átti hættulegt skallafæri eftir horn á 31. mínútu, en skallinn tiltölulega beint á Onana. Aðeins mínútu seinna skoppaði boltinn heppilega fyrir títtnefndan Lewin sem átti fínt skot sem Onana varði vel, fyrrum United maðurinn James Garner komst í frákastið sem átti skot af stuttu færi sem fór af Onana og Maguire og var við það að leka í netið þegar að Kobbie Mainoo, kom eins og eimreið og hreinsaði boltann í burtu af línunni. Það virtist liggja mark í loftinu, mínútu síðar fékk Doucoure mjög fínt færi eftir lága fyrirgjöf en setti boltann talsvert framhjá. Tæplega tíu mínútum síðar fengu Everton tvö færi með mínútna millibili, annars vegar annað skallafæri hjá Lewin sem skallaði boltann yfir og hins vegar fínt skotfæri hja Idrissa Gana Gueye sem fór hátt yfir.
United lifði þó af og komst inn í hálfleik marki yfir og jahérna þvílíkt mark. United byrjuðu vel og af krafti en það var eins og allur vindur færu úr liðinu eftir þetta sturlaða mark Garnacho. Everton byrjaði hægt og rólega að þjarma meira og meira að United og seinustu 15 mínúturnar í fyrri hálfleiknum voru algjörlega eign Everton. United eins og svo oft áður í vetur átti í erfiðleikum með að spila sig út úr fyrstu pressunni, menn kannski alveg tilbúnir að taka óeigingjörn hlaup til þess eins að losa um aðra og Everton virkuðu bara frekar áræðnir. Það segir allt sem segja þarf að United átti bara eitt skot að marki (ekki á markið heldur að marki), það er ekki gott.
Seinni hálfleikur
Everton menn voru ekki jafn ferskir í upphafi síðari hálfleiks, líkt og þeir voru í lok þess fyrri. United liðinu tókst að draga aðeins úr tempóinu í leiknum og liðið náði að halda aðeins meira í boltann. Þegar að síðari hálfleikur var aðeins sex mínútna gamall komst United í álitlega sókn, Bruno Fernandes kom boltanum inn á Antohony Martial sem tók hann með sér inn í teiginn, aðþrengdur Everton mönnum fór frakkinn brosmildi niður í teignum. John Brooks flautaði, sagði Martial að standa upp og gaf honum gult fyrir dýfu. Það var erfitt að sjá fyrst hvort um einhverja snertingu hefði verið að ræða, en í endursýningu sást að fyrrum United maðurinn, Ashley Young, setti vissulega bara löppina fyrir Martial og alveg fáránlegt að gefa gult fyrir dýfu. Stockley Park ákvað samt að taka sér u.þ.b. 2 mínútur í að ákveða hvort þetta augljósa víti væri víti eða ekki og sendu svo John Brooks í skjáninn svona til að auka dramatíkina. Að lokum komst hann þó að þeirri niðurstöðu að þetta væri víti, tók gula spjaldið til baka og United í góðum séns að tvöfalda forystuna. Bruno ákvað að leyfa ísköldum Rashford að taka vítið, ný klipping hjá heiðursdoktornum, hún truflaði ekkert og Rashford lúðraði boltanum upp í þaknetið yfir Pickford sem fór í rétta átt. 0-2 fyrir United og útlitið orði hreint ekki slæmt. Everton menn tók miðju og voru staðráðnir í að svara, mínútu eftir markið fékk Gueye boltann á skoppinu og lét vaða fyrir utan vítateig, Onana gerði samt virkilega vel í því að blaka boltanum yfir.
Eftir þetta fór að draga talsvert af Everton, liðið hélt kannski ágætlega í boltann á tíðum en náði að skapa sér lítið. United tókst að hægja á leiknum og beitti skyndisóknum, allt í einu var það eiginlega United sem var talsvert líklegra til þess að bæta við frekar en Everton að minnka muninn. Á 72. mínútu gerði van der Gaag tvöfalda breytingu, Garnacho koma útaf í stað Pellistri og Amrabat leysti Kobbie Mainoo af hólmi. Þremur mínútum eftir skiptingarnar komst United í hraða sókn, Fernandes þræddi boltann á Martial og frakkinn kominn einn gegn Pickford, það vafðist lítið fyrir Anthony sem laumaði boltanum rétt yfir öxl Pickford, eins og hann væri í five-side með yngri bróður sínum og vinum hans. Smekkleg afgreiðsla en það er líka hans helsti kostur, 0-3 fyrir United. Við þett fór leikurinn Everton hélt áfram að sækja en virtust vera búnir að játa sig sigraða, bleik spjaldaðir stuðningsmenn mynduðu ekki jafn óvinveitt andrúmsloft og krafturinn sem liðið bjó yfir í lok fyrri hálfleiks var nánast horfinn. Mykolenko var þó nálægt því að minnka muninn þegar hann átti hörku skot í þverslána. United tókst að halda leiknum rólegum og liðið stólaði bara á skyndisóknir enda Everton menn talsvert fáliðaðir til baka. Á 95. mínútu fengu Everton þó besta færið sitt í síðari hálfleik, eftir hornspyrnu skallaði Tarkowski boltann aftur fyrir, boltinn fór af hnéi Jack Harrison en United náði að böðla boltanum burt af marklínunni. Þetta var það síðasta marktæka sem gerðist í leiknum, góður 0-3 sigur á Everton.
Að lokum
United voru ekkert sérstaklega góðir í þessum leik, liðið byrjaði af krafti og það dugði til þess að koma liðinu yfir snemma leiks. Eftir markið var mikið um brot og leikurinn fór ekki á neitt sérstakt flug, fyrr en seinustu 15 mínúturnar í fyrri hálfleik. Það voru þó bara Everton menn sem ákváðu að fara á flug á þeim kafla, United leikmennirnir voru í alvöru brasi með háu pressuna á þeim kafla. United komu talsvert betur út í seinni hálfleikinn með skírt leikplan, róa leikinn aðeins og ekki leyfa Everton að keyra upp tempó og spennu og fá „crowd-ið“ með sér. United fékk augljósa vítaspyrnu, snemma í seinni hálfleik, þó að Stockley Park og John Brooks hafi fundist þetta vera eitthvað vafamál (miðað við tímann sem tók að dæma víti). Það var smá vatnsgusa í andlitið fyrir Everton og eftir það þá náði liðið aldrei að byggja upp stemninguna sem myndaðist í lok fyrri hálfleiks. United kláraði svo dæmið með smekklegu marki Anthony Martial um miðbik seinni hálfleiks og þar fóru sigurmöguleikar Everton út um gluggann. Everton menn mega þó alveg eiga það að þeir hættu ekkert þó að þeir hafi misst smá dampinn eftir mark 2 og 3.
Það var eiginlega ótrúlegt að United hafi ekki fengið mark á sig í leiknum en Onana varði nokkrum sinnum vel og þá voru Maguire og Lindelöf ágætlega solid í hjarta varnarinnar. Ég vil þó taka fram að þessa leiks verður bara minnst sem leikurinn þar sem Garnacho skoraði eitt af fallegustu mörkum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Ég vil líka minnast á Kobbie Mainoo, mér fannst hann standa sig virkilega vel, óhræddur við að fá boltann undir pressu og var mjög hreyfanlegur annað en margir í liði United, þessi strákur haldist hann heill er framtíðin. Skemmtilegt að loksins vinna með meira en einu marki og loksins er liðið ekki með neikvæða markatölu.
United situr enn þá í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en er nú einungis tveimur stigum á eftir Tottenham sem situr í 5. sæti. United er líka bara sex stigum á eftir toppliði Arsenal sem er ótrúlegt miðað við spilamennsku liðsins og almennt bras í upphafi tímabils. United er með 15 stig af síðustu 18 mögulegum í úrvalsdeildinni, spilamennskan er ekki frábær en þessa stundina en vonandi með menn að snúa til baka úr meiðslum þá getur United farið að horfa upp á við. Næsti leikur United er gegn Galatasaray í meistaradeildinni, í Tyrklandi, sannkallaður úrslitaleikur ef United ætlar sér áfram.
Turninn Pallister says
Sturlað mark frá Garnacho, fínn leikur frá Martial, héldum hreinu og Mainoo flottur. Þokumst upp töfluna og allt ómögulegt enn mögulegt.
Loksins getur maður leyft sér að vera hress og kátur eftir leik okkar manna. Erfitt program framundan en er á meðan er!
S says
Þessi úrslit komu skemmtilega á óvart.
Koko says
Skref uppá við..flottur Maino…og gott að fa Shaw inn..nú rífum við okkur i gang
evra says
sælir félagar mark ársins klárlega hjá argentinu úngstirninu þvílík klessa glory glory
Þorsteinn says
Þvílíkt mark og fyrsti skemmtilegi leikurinn að horfa á, þetta heldur vonandi bara áfram núna.
Egill says
Fyrri hálfleikurinn var eins og flest annað sem þetta lið hefur verið að bjóða uppá síðan í mars. Sturlað mark hjá Garnacho og frábær frammistaða Onana var ástæðan fyrir því að við vorum yfir í hálfleik. Í seinni hálfleik vorum við talsver betri og maður var aldrei hræddur um að þeir myndu jafna.
Mainoo átti mjög flottan leik, sem og Maguire og Martial. Frábært að sjá Shaw koma aftur og núna verpum við bara að vona að þessi meiðslavandræði hjá liðinu fari að hætta, þetta er orðinn rosalegur fjöldi á meiðslalistanum.
En þetta Radhford dæmi þarf að enda, hann á ekki að fá fleiri leiki í bráð. Geggjað víti hjá honum en það var eflaust í eina skiptið sem hann nennti að hreyfa sig í leiknum.
Ólafur Kristjánsson says
Hvað er hasíteraður?
Laddi says
Í heild fín frammistaða, Mainoo mjög flottur og augljóst að honum var ætlað stórt hlutverk á tímabilinu og því synd að hann skyldi meiðast í undirbúningnum. Markið hjá Garnacho var auðvitað sturlað og er sennilega mark ársins. Onana mjög góður og varði vel, er að nálgast að réttlæta verðmiðann á sér. Meira að segja Martial náði að skora og fiska víti, það er eitthvað.
Vörnin hélt hreinu og það er vel, en… betra lið en Everton hefði skorað í fyrri hálfleik, mögulega meira en eitt mark. Það var allt of auðvelt fyrir Everton að spila í gegnum vörnina. Lindelöf var í tómu basli með Calwert-Lewin og Dalot var oft úti á túni varnarlega (fær samt rosa stig fyrir stoðsendinguna). Maguire var fínn, átti fín hlaup fram á við og dreifði boltanum vel, ef hann væri ekki stundum eins og hann viti ekki hvort hann er að koma eða fara væri hann frábær varnarmaður. Það var gaman að fá Luke Shaw aftur inn í liðið, munar mikið um hann. Ef Martinez nær að koma til baka og United nær að stilla upp vörn með honum, Shaw, Wan-Bissaka og jafnvel Maguire þá held ég að vörnin sé bara í fínum málum. En eins og staðan er núna er hún enn of brothætt og auðvelt að spila í gegnum hana.
Miðjan var heilt yfir fín, Mainoo flottur, eins og áður sagði, aðrir minna áberandi. Ef Mainoo verður stöðugur og spilar jafn vel áfram og hann gerði í þessum leik þá má Casemiro alveg fara til Sádí. McTominay er alltaf duglegur og hleypur mikið. Bruno var allt í lagi, enginn stjörnuleikur hjá honum en flott stoðsending í þriðja markinu.
Garnacho var MoM (ásamt Mainoo) hjá mér, ekki annað hægt eftir þetta mark. Var annars líflegur og áræðinn sem er það sem kantmenn hjá United eiga að vera. Rashford var, að vanda, frekar týndur, reyni helling sem ekki gekk upp en fínt að hann fékk að taka þetta víti og fá langþráð mark. Rashford með sjálfstraust er stjarnfræðilega miklu betri en Rashford án þess. Martial var svo bara óvenju fínn, mark og fiskað víti er ágætis dagsverk fyrir framherja, en að vanda var svosem ekki mikið annað að frétta.
Varamenn bara fínir, ekkert mikið um það að segja. Heilt yfir fín frammistaða, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem Everton voru aldrei líklegir, en fyrri hálfleikur var brösóttur. En þrjú stig á útivelli eru alltaf góð, sérstaklega á móti liði sem ég bjóst við að mætti dýrvitlaust eftir að hafa misst tíu stig, en svo var þetta bara Everton…
Helgi P says
Loksins náum við að klára leki en það verður að fara henda rashford á bekkinn það kemur ekkert útur honum það er bara ekki gott að þurfa ekki gera neitt til vera fasta maður í þessu liði
Hjöri says
Loksins tókst liðinu að skora meir en eitt mark í leik, vonandi verður svo áfram.