Önnur helgi júlímánaðar árið 2016 var stór á Egilsstaðaflugvelli. Mikil eftirvænting ríkti fyrir komu fyrsta áætlunarflugs bresku ferðaskrifstofunnar Discovcer the World. Það varð endasleppt, eins og fleiri áætlunarflug erlendis frá austur. En daginn áður mættu þrjár einkaþotur með sama merkinu á völlinn. Þær hafa síðan verið fastagestir það. Þetta var í fyrsta sinn sem ég komst í tæri við nafnið Jim Ratcliffe og Ineos.
Um haustið barst mér ábending um að ríkur Breti væri farinn að kaupa fjölda laxveiðijarða í Vopnafirði. Ég safnaði smátt og smátt að mér gögnum sem bentu fyrst á Bill nokkurn Reid. Fljótt kom þó í ljós að raunverulegur eigandi hét Jim Ratcliffe. Niðurstöður mínar birti ég í grein í Austurglugganum í byrjun desember 2016 með fyrirsögninni „bændur á einkaþotum.“ Þá hafði Ratcliffe að hluta eða í heild eignast ellefu jarðir í Vopnafirði.
Hann hefur síðan bætt við sig fleiri jörðum sem flestar liggja að veiðiám á Norðausturlandi en hann á einnig land víðar. Nokkrum dögum eftir að fréttin mín birtist keypti hann Grímsstaði á Fjöllum. Þar með varð hann landsþekktur.
Jarðirnar hefur hann síðan flestar sameinað undir merkjum The Six Rivers Project, sem miðar að því að vernda villta íslenska laxastofninn. Til þess hefur aðstaða fyrir fiskinn við árnar verið bætt, svo sem með skógrækt og rannsóknir efldar. Ekki eru öll hans áform óumdeild, einna helst hefur verið andstaða við Hofsá.
Samhliða fjárfestir Six Rivers í lúxusferðamennsku. Árið 2021 var tilkynnt að fjórum milljörðum yrði varið í uppbyggingu veiðihúsa á svæðinu. Það er ígildi 22 milljóna punda. Sá leikmaður Manchester United sem kemst næst því í verðmæti er trúlega Viktor Lindelöf sem kostaði 19 milljónir punda frá Benfica árið 2017. Með öðrum orðum: Það má fá nokkur góð veiðihús á Íslandi fyrir einn þolanlegan fótboltamann.
Íslandsvinurinn
Þetta er akkúrat ástæðan fyrir að við höfum áhuga á Sir Jim Ratcliffe. Á aðfangadag var loks tilkynnt um kaup hans á 25% hlut í Manchester United af Glazer-fjölskyldunni. Samkvæmt frásögnum fjölmiðla mun Ratcliffe öðlast yfirráð yfir fótboltarekstrinum meðan Glazer-hópurinn fær að halda áfram með markaðsmálin. Nákvæmlega hvernig þetta mun ganga á eftir að koma í ljós, fjármunir í viðhald Old Trafford eða nýja leikmenn þarf væntanlega að koma frá markaðssviðinu og dregst frá væntum hagnaði eigenda.
En það er vert að gera aðeins grein fyrir Íslandsvininum sem senn fær völdin yfir Manchester United. Ratcliffe er Íslandsvinur. Hann er ekki meðal þeirra frægu sem millilenda hér einu sinni og álpast niður í miðborg Reykjavíkur. Frá árinu 2016 hafa flugvélar með merkjum Ineos verið fastagestir á Egilsstaðaflugvelli yfir sumarmánuðina. Ratcliffe sjálfur kemur alltaf fyrstu helgina sem árnar eru opnaðar, um Jónsmessuna. Hann flýgur með einkaþyrlu þaðan til Vopnafjarðar.
Ég hef aldrei hitt Ratcliffe í persónu. Mín samskipti hafa verið við stjórnendur Six Rivers og aðra í kring. Ratcliffe mætir þó á árlegar ráðstefnur félagsins sem því miður hafa verið haldnar í Reykjavík og situr í pallborði þar sem rætt er um laxinn. Fólkið sem ég hef talað við ber Ratcliffe almennt vel sögunnar, lýsir honum sem vingjarnlegum og alþýðlegum en þó öguðum og ákveðnum. Ein þeirra sem seldi Ratcliffe jörð sína haustið 2016 útskýrði í viðtali að það væri ekki verra að hann ætti það heldur en auðugir Íslendingar, hann hvetti til þess að búseta og landbúnaður væri áfram á jörðunum.
Hver er Jim Ratcliffe?
Áhugasamir geta flett upp sögu Ratcliffe, og hafa sjálfsagt löngu gert það, á erlendum miðlum. Í stuttu máli þá er hann alinn upp í félagslegri íbúð í Manchester og tók þá ást á United áður en hann flutti yfir til York. Hann hefur undanfarin ár verið talinn ríkasti Bretinn. Auður hans byggist á Ineos, sem varð til þegar hann og félagar hans á einkaþotunum keyptu olíuhreinsiarm BP fyrir um aldarfjórðungi. Síðan hefur félagið vaxið með kaupum og uppbyggingu fleiri efnaverksmiðja. Sérhæfingin er í plastefnum og sennilega notum við mörg hluti sem byggja á einhverju frá Ineos á hverjum degi.
Undanfarin ár, samfara vaxandi auði, hefur Ratcliffe, oftast undir merkjum Ineos, fært út kvíarnar. Grenadier-bifreiðarnar voru á þess vegum hannaðar sem öflugir jeppar, trúlega til höfuðs Land Rover/Range Rovers. Grenadier bílar hafa verið á ferðinni eystra. Hann hefur verið lykilbakhjarl Mercedes-liðsins í Formúlu 1 auk þess sem Inoes á eitt öflugasta hjólreiðalið heims. Fyrir eru í eignasafninu tvö knattspyrnulið, Lausanne í Sviss og Nice í Frakklandi.
Eins og gildir með flesta aðra sem hafa auðgast vel í viðskiptum þá er Jim Ratcliffe ekki óumdeildur. Það er þversögn í því að kynna sig sem verndara íslenska laxins en ferðast um á einkaflugförum og starfa í olíuiðnaði. Erlendis hefur Ratcliffe eða Ineos barist við bæði umhverfisverndarsamtök og verkalýðsfélög. Hann styður það sem kallast „fracking“, brot á jarðvegi til að vinna jarðgas. Hann studdi við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en flutti lögheimili sitt til Mónakó til að borga lægri skatta. Einkaþoturnar: M-USIC, M-ISTY og M-ICKY eru skráðar á eyjunni Mön sem þekkt er fyrir þægilegt skattaumhverfi.
Hvað mun Jim Ratcliffe gera með Manchester United?
Flestir stuðningsmenn United eru þó trúlega viljugir til að horfa fram hjá því í von um að Ratcliffe fari betur með fótboltaliðið þeirra heldur en Glazer-fjölskyldan. Annað er eiginlega varla hægt. En það er kannski rétt að ganga hægt um gleðinnar dyr. Þótt áform um kaupin hafi verið staðfest á aðfangadag tekur enn 6-8 vikur í að staðfesta þau formlega. Á meðan hafa Ratcliffe og hans menn ekki formleg völd.
Þeir eru þó teknir til starfa. Manchester United skiptist upp í tvær stjórnir, hlutafélagið og knattspyrnufélagið. Ratcliffe á 60% í Ineos, Andy Currie og John Reece hin 40%. Þeir áttu hinar tvær flugvélarnar sem lentu á Egilsstöðum í júlí 2016. Reece mun sitja í hlutafélagastjórninni.
Ratcliffe fær einnig tvo menn í stjórn knattspyrnufélagsins. Það eru þeir Jean-Claude Blanc, sem áður var framkvæmdastjóri Juventus og PSG og Sir Dave Brailsford. Blanc hefur verið orðaður við forstjórastarfið hjá United. Brailsford kemur úr hjólreiðum, var heilinn bakvið árangur Breta á Ólympíuleikunum 2008 og 2012. Hann hefur löngum leitt íþróttastarfsemi Ineos og leiddi tiltekt hjá Nice sem virðist hafa orðið til þess að loks á þessu ári er félagið farið að ná einhverjum árangri. Blanc og Brailsford munu gera útttekt á United næstu mánuðina.
Árangur Lausanne og Nice hefur til þessa ekki verið sérstakur. Vonandi er þó að reynslan þaðan nýtist hjá United. Af biturri reynslu þaðan hefur lærst að fjáraustur í leikmenn jafngildir ekki árangri. Eins að kaupa ekki leikmenn komna yfir síðasta söludag, eins og Nice gerði sumarið 2022. Líklegt er að stefnan verði sett á yngri leikmenn sem aukið geta verðgildi sitt hjá United og reynt að spyrna fótum við skattinum sem önnur lið setja á leikmenn þegar United sýnir áhuga.
Lítið sem breytist strax?
Miðað við að völd Ratcliffe og félaga verða ekki formleg fyrr en eftir að janúarglugginn lokar verður að teljast ólíklegt að miklar breytingar verði á leikmannahópnum af þeirra hvötum fyrr en í sumar. Um stöðu Erik ten Hag er lítið hægt að segja, óvissa á svo mörgum sviðum um hver hafi ákvörðunarvaldið kann að hafa bjargað honum til þessa. Ratcliffe átti þó afleik með að hitta Graham Potter og það hafi spurst út. Slíkt grefur undan núverandi starfsmanni.
Núverandi framkvæmdastjóri United, Patrick Stewart var skipaður til bráðabirgða. Framtíð íþróttastjórans, Johns Murtough, er hvað óljósust. Ýmsir hafa verið orðaðir við þá stöðu eða ný embætti sem myndu lækka hann í tign.
Þótt nú sé lokið 13 mánaða óvissu um eignarhald United er enn nóg eftir. Ætlar Glazer-fjölskyldan að halda sínum 75% eða selja meira, þá til Ratcliffe? Hverju mun hann raunverulega ráða með 25%. Hver er framtíðin með ríflega 70 ára gamlan eiganda? Munu íslenskir United-menn á einhvern hátt njóta góðs af tengslum Ratcliffe við landið?
Þar til svör við þessum spurningum skýrast er svo sem bara eitt sem hægt er að vonast eftir: Að United vinni næsta leik – og líka þar næsta og þarþarnæsta.
Skildu eftir svar