…the beginning of our journey to take Manchester United back to the top of English, European and world football, with world-class facilities for our fans.
Síðla í gær var staðfest að kaupum Sir Jim Ratcliffe á 25% af hlutabréfum Manchester United væri lokið og því síðasta skrefið stigið og hann er því formlega orðinn eigandi 27,7% hluta í félaginu. Þetta skýrist af því að hann, eða formlega séð, félag að fullu í eigu hans, Trawlers Limited, kaupir 25% af öllum hlutum í félaginu, bæði A hlutum sem eru almennu hlutirnir sem verslað er með á opnum markaði, og B hlutum sem hingað til hafa eingöngu verið í eigu Glazer systkinanna og bera tífalt atkvæðavægi. Síðan lagði Sir Jim inn tvöhundruð milljónir inn í félagið í formi nýs hlutafjár og skiptist það líka jafnt milli A og B hluta. Í desember koma svo hundrað milljónir að auki og þá ætti Sir Jim að eiga um 29%.
Verð á hlut var þrjátíu og þrír dollarar, en hæst fór gengi hluta í rúma tuttugu og fjóra dollara í júní síðastliðinn þegar líkur voru á fullri yfirtöku og sjeiksslúðrið fór sem hæst. Í dag er það sautján dollarar og Sir Jim því að yfirborga rækilega.
En hvað fær hann fyrir peninginn sinn?
Stjórn knattspyrnulegra mála
Þegar yfirtakan var kynnt kom það mest á óvart að formlega var staðfest að Sir Jim myndi fara með alla stjórn knattspyrnulegra málefna þrátt fyrir að eiga mikinn minnihluta í félaginu. Þetta skýrir meira en annað hvers vegna hann hefur tekið í mál að verða minnihlutaeigandi, því eftir allt saman er erfitt að sjá hvernig félag undir stjórn Glazera ætti að gera þær gloríu inni á velli sem stæðu undir yfirborguninni.
Þó það sé ekki fyrr en nú að formlegheitunum hafi verið fullnægt, staðfestingar komnar frá úrvalsdeildinni og enska knattspyrnusambandinu var það ljóst að frá því að tilkynningin um væntanleg kaup kom að engum tíma var eytt í að koma fótunum undir borðið á Old Trafford. Sir Jim og Sir Dave Brailsford, hægri hönd hans í íþróttamálefnum, mættu og hafa sett í gang fullkomna yfirferð á öllum knattspyrnutengdum málum í félaginu. Síðasta slúður er að þeir sjái möguleika á að taka rækilega til og fækka starfsfólki svo um munar, jafnvel allt að 300 manns.
Ráðningar
Það er ólíklegt að milljónirnar tvöhundruð fari í leikmannakaup þannig stóru fréttirnar sem hafa fylgt kaupum Sir Jim hafa verið utan vallar. Í janúar réði United til sín Omar Berrada frá Manchester City til að gegna starfi framkvæmdastjóra. Berrada er nú að rækta garðinn sinn og tekur við starfinu í sumar. Hann er með ansi fína starfsskrá eftir að hafa unnið í tæp þrettán ár hjá Manchester City. Þetta leit út eins of fullkomlega undan rifjum Ratcliffe runnið en Glazerar fullyrða að þeir hafi komið að málum og samþykkt. Það er nú gott.
Næsta mál á dagskrá er að ráða undirmenn Berrada. Dan Ashworth er íþróttalegur stjórnandi Newcastle United en er núna eins og Berrada kominn í frí, því United vill fá hann, er búið að fá samþykki frá Ashworth og bíður nú bara eftir að semja við Newcastle. Newcastle vill tuttugu milljónir punda en United ætti ekki að samþykkja það.
Þó mikið hafi verið talað um hvaða leikmenn Ashworth hafi átt þátt í að kaupa hjá Newcastle og Brighton (og stundum nefndir þeir sem hann kom engan veginn að) virðist á hreinu að yfirmaður leikmannakaupa verði ráðinn til að starfa undir stjórn Ashworth og hefur nafn Jason Wilcox sem nú starfar hjá Southampton. Nýjasta nýtt kemur frá Daily Mail og það er að Wilcox verði yfir „árangurmálum“ og vinna m.a. með Brailsford með nýjustu íþróttavísindi í huga. Svo eigi líka að ráða þann sem verði yfir innkaupagreiningu. Báðir þessir myndu vinna undir Ashworth sem aftur væri undir Berrada.
Ofar í skipuritinu er auðvitað stjórn félagsins, og það hefur verið nokkuð ljóst frá upphafi að Sir Dave Brailsford og Jean-Claude Blanc muni taka sæti þar fyrir hönd nýrra eiganda. Einnig mun Berrada sitja í stjórn.
Formlegheitum lokið, öll vinnan eftir
Í yfirlýsingu Ineos í gær sagði Sir Jim:
„To become co-owner of Manchester United is a great honour and comes with great responsibility. This marks the completion of the transaction, but just the beginning of our journey to take Manchester United back to the top of English, European and world football, with world-class facilities for our fans. Work to achieve those objectives will accelerate from today.“
Þetta eru stór orð. Nú þarf að standa við þau. Ef síðustu tíu ár hafa kennt okkur eitthvað er það að skuldirnar sem yfirtaka Glazera hlóð á félagið hafði líklega bara jafn slæm áhrif ef ekki minni en arfaslök stjórnun þeirra. Nú er komin ný hönd á plóg, og miðað við fyrstu verk er allt í lagi að vera svolítið bjartsýn á framtíðin.
Gunnsó J says
Mér lýst afskaplega vel á þetta. Þetta er fyrsta skrefið að koma þessu Glazer hyski burt enn líklega mun það taka einhver ár í viðbót að koma þeim alveg burt, kannski 5 ár eða eitthvað svoleiðis.
Ég sá líka einhversstaðar að Ratcliffe væri búinn að fá Gary Neville í teymi sem á að skoða mögulega uppbyggingu á vellinum eða nýja vellinum á Old Trafford svæðinu sem er ljómandi gott mál því Gary veit hvað hann syngur og vill allt það besta fyrir klúbbinn og svæðið enda stór fjárfestir á svæðinu sem vill að sjálfsögðu að hlutirnir blómstri.
Ég veit að Sir Jim er ekki að fara að snúa öllu við á punktinum sí svona með því að smella fingri, þetta tekur jú allt saman tíma og eflaust verða ekki miklir peningar sem hægt er að eyða í leikmenn á komandi sumri enn það sem skiptir jú mestu máli er að liðið/stjórnin fari nú að eyða peningum í réttu leikmennina og á réttu staðina. Það er seint hægt að kvarta undan því að United hafi ekki eytt peningum síðan Sir Alex hætti en guð minn góður hvað það er er búið að henda miljörðum ofan á miljörðum ofan á miljörðum nánast í ruslið með hræðilegum kaupum, stjórnun, þjálfaramálum osfr osfr osfr. Ég trúi því að þeir dagar séu liðnir.
Nú þarf Sir Jim að klára púslið áður en leikmannaglugginn opnar og vera með rétta fólkið í réttum stöðum og það á líka við þjálfaramálin. Ég er eiginlega að vona að ETH fái sparkið eftir tímabilið og United ráði De Zerbi enda er ég mikill aðdáandi hans.
Enn sjáum hvað setur, það er svo sannarlega verk að vinna á öllum vígstöðum hjá klúbbnum.