Manchester United spilar gegn Nottingham Forest í 16 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar annað kvöld. United á góðar minningar úr Nottingham í bikarnum.
Sagan er að reka hafi átt Alex Ferguson ef hann ynni ekki Nottingham Forest í þriðju umferð keppninnar árið 1990. United bjargaði sér með marki Mark Robins, vann síðan bikarinn, Ferguson hélt sínu starfi og skrifaði síðan söguna.
Forest liðið var þá var á öllu betri stað, öflugt lið undir stjórn goðsagnarinnar Brian Clough. Í dag er liðið á fallsvæði ensku úrvalsdeildarinnar eftir að hafa aðeins komist þangað aftur árið 2022 eftir rúmlega 20 ára fjarveru.
En hvorki staðan né leikurinn frá 1990 skipta máli á morgun. Um er að ræða bikarleik sem getur farið hvernig sem er og United hefur átt fullt í fangi með Forest á leiktíðinni, rétt marði heimaleikinn í haust og tapaði útileiknum um áramótin.
Tapið á heimavelli gegn Fulham í deildinni um síðustu helgi kippti United niður á jörðina eftir fjóra sigurleiki í röð og taplausan tíma frá Forest-leiknum. Nýr stjóri virðist ekki fremstur í forgangsröðuninni hjá hinum nýju stjórnendum United, en bikartitill myndi að minnsta kosti hjálpa arfleifð Ten Hag og til þess er nauðsynlegt að vinna á morgun.
Casemiro klár
Meiðslalistinn hefur lengst hratt síðustu tvær vikur eftir að hafa verið tekinn að styttast í byrjun febrúar. Casemiro er þó blessunarlega ekki á honum þrátt fyrir að hafa þurft að fara út af vankaður og með skurð á höfði á laugardag.
Rasmus Höjlund, Luke Shaw, Aaron Wan-Bissaka, Tyrrell Malacia, Lisandro Martinez og Anthony Martial eru allir meiddir. Mason Mount er mættur til æfinga og spurst hefur út að hann verði fljótt í leikmannahópi United, þó varla á morgun.
Ten Hag þarf því að finna út hvernig hann stillir upp sóknarlínunni. Marcus Rashford var bitlaus og þjónustulaus sem fremsti maður. Ekki að hann hafi átt góðan vetur en hann hefur í það minnsta átt spretti á vinstri vængnum og liðið spilað betur með hann þar. Omari Forson fékk tækifærið á hægri kantinum og Amad Diallo átti ágæta innkomu.
Það segir sitt um stöðu Brasilíumannsins Anthony að hann var síðasti varmaður United gegn Fulham, aðeins settur inn á þegar Victor Lindelöf haltraði eftir að hafa lent illa. Líklegt er að Lindelöf verði áfram í vinstri bakverði.
Forest hefur verið án þeirra Ola Aina, Willy Boly og Ibrahim Sangare þennan mánuð en þeir töldust ekki í nógu góðu leikformi eftir Afríkukeppnina. Nuno Tavares og Chris Woods eru einnig meiddir.
Leikurinn hefst klukkan 19:45 að íslenskum tíma.
Skildu eftir svar