Næst síðasti deildarleikur United á þessari leiktíð fór fram í kvöld þegar Eddie Howe og lærisveinar hans mættu á Old Trafford í kvöld en þrjú stig skildu liðin að áður en flautað var til leiks. United sat í 8. sæti og Newcastle í því 6. en líka með mun hagstæðari markatölu.
Erik ten Hag stillti upp í 4-2-3-1 en hvorki Hojlund né Rashford byrjuðu þennan leik. Í stað þeirra var Bruno Fernandes fremsti maður. Þá var Martinez enn ekki klár í að byrja en hann var á bekknum:
Á meðan stilltu gestirnir upp í 4-3-3 en rétt eins og United þá eru gestirnir að glíma við talsverð meiðslavandræði, einkum og sér í lagi í vörninni :
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór hressilega af stað en gestirnir fengu stórgott færi þegar Casemiro gaf boltann klunnalega frá sér á miðsvæðinu en Amrabat tókst að rennitækla fyrir skotið og bjargaði Brassanum. Heimamenn héldu í raun áfram að skapa sér vandræði með lélegum sendingum og slæmum ákvörðunum og Garnacho var næstur til að skapa hættu en sem betur fer tókst gestunum ekki að koma boltanum á markið.
McTominay átti svo ágætan sprett á áttundu mínútu en Dan Burn elti hann uppi og ákvað að toga Skotann okkar niður í grasið og dómari leiksins gaf aukaspyrnu. Bruno Fernandes smellti boltanum inn á hættulegt svæði en Dubravka kýldi boltann út úr teignum. Amrabat var fyrstu á hann og skallaði aftur inn í hættusvæðið þar sem Casemiro reyndi bakfallsspyrnu úr ágætisfæri en langt yfir.
Næstu mínútur voru góðar hjá okkar mönnum, þeir unnu marga bolta á vallarhelming gestanna og virkuðu sprækir og líflegir með Bruno í broddi fylkingar. En ekki tókst að búa til dauðafærin en útlitið var sæmilegt. Þar til á 15. mínútu en þá komst Amad Diallo í gott skotfæri eftir sendingu frá Aaron Wan-Bissaka en skotið hans varið. Áfram hélt pressan og uppskar United hornspyrnu en úr henni fékk Garnacho skotfæri en varnarmúr Newcastle komst fyrir skotið og hættan liðin hjá eftir það.
Aftur skapaðist hætta úr hornspyrnu hjá okkar mönnum þegar Bruno átti fyrirgjöf af vinstri yfir á Amad sem reyndi að taka boltann í fyrsta en skot hans fór í leikmannahrúguna sem var fyrir framan hann. Hinu meginn á vellinum átti Lewis Hall ágætis skot fyrir utan teiginn en Onana var ekki í nokkrum vandræðum með það. Heilt yfir voru United mun meira með boltann og virtust líklegri til að skapa sér færi en allt kom fyrir ekki.
Næstu tíu mínútur voru mun rólegri og jafnari en leið og 26 mínútur voru komnar á klukkuna átti United hörkugóða skyndisókn þegar Bruno brunaði upp völlinn með boltann og vippaði yfir vörnina inn fyrir á Garnacho sem komst upp að endalínunni og átti skot úr mjög þröngu færi en Dubravka var vandanum vaxinn og bjargaði í horn.
En loksins á 31. mínútu dróg til tíðinda þegar Amad Diuallo kom sér að vítateigshorninu og renndi boltanum inn í teiginn þar sem McTominay sleppti því að reyna við boltann sem barst á Mainoo. Sá ungi var einn og óvaldaður, eiginlega eins og Palli var einn í heiminum í miðjum vítateignum og lagði boltann í vinstra hornið fram hjá markverðinum og breytti stöðunni í 1-0.
Gestirnir voru ekki lengi að koma sér í sókn og sköpuðu sér ágætis færi þegar Murphy renndi boltanum fyrir markið en enginn í KR klæðum reyndist við endann á þeirri sendingu.
Þeir vildu svo fá vítaspyrnu .þegar Amrabat tapaði baráttunni við Gordon og sá stutti féll við eftir tæklingu frá Casemiro í teignum en eftir VAR athugun var leikurinn látinn halda áfram. Einungis nokkrum andartökum síðar voru gestirnir hársbreidd frá því að minnka muninn með skalla frá Dan Burn úr þröngu færi en boltinn var hreinsaður af línunni af Casemiro. Eflaust ekki spurning um marga sentimetra.
Eftir þetta lágu gestirnir nokkuð mikið á okkur og leituðu ansi mikið á hægri hluta vallarins og fór þar fremstur í flokki Trippier sem virkaði ryðgaður í upphafi leiks en óx vel inn í fyrri hálfleikinn. En undir lok hálfleiksins átti United hörkufæri sem kom eftir laglegt samspil á hægri vængnum sem endaði með því að Mainoo prjónaði sig inn að markinu en Murphy tæklaði boltann áður en honum tókst að koma skoti á markið.
Síðari hálfleikur
Gestirnir komu dýrvitlausir út úr klefanum fyrir síðari hálfleikinn og fengu hvert tækifærið á fætur öðru sem gat alltaf bara endað á einn veg. Alexander Isak átti sendingu upp vinstri kantinn þar sem Murphy kom með huggulega fyrirgjöf inn í teiginn á ungan Gordon sem gat lítið annað en skorað og jafnað fyrir gestina. 1-1.
Garnacho og Bruno fengu báðir tækifæri til að ná aftur forystunni en upp úr hornspyrnu hjá okkur kom hins vegar stórhættuleg sókn eftir að Aaron Wan-Bissaka átti hörmulega snertingu eða sendingu sem aftasti maður og allt í einu komu gestirnir þrír á Amrabat einan. En miðjumaðurinn gerði mjög vel og bjargaði í horn með stórkostlegri tæklingu. Hreint ótrúlegt að gestirnir hafi ekki gert betur þarna.
En það kom hins vegar í hlut Hvítabeinsstrendingsins Amad Diallo að eiga næsta orð en eftir enn eina hornspyrnuna fékk hann tækifæri til að smella boltanum á markið og sá hitti boltann. Tuðran sveif milli þriggja varnarmanna og framhjá hjálparlausum Dubravka og staðan orðin 2-1.
Eddie Howe svaraði því með því að henda í þrefalda breytingu, út fóru Anderson, Murphy og Trippier og Schar, Joelinton og Almirón komu í þeirra stað.
En Newcastle menn féllu ekkert í skotgrafirnar heldur blésu til sóknar og komst til að mynda Lewis Hall einn inn fyrir en Onana gerði sig þrefaldan og lokaði á hann. Skömmu síðar var markvörðurinn okkar aftur í hlutverki bjargvættarins þegar hann blakaði skalla frá gestunum yfir slánna og ríghélt þar með í forystuna okkar.
Gordon var aftur á ferðinni þegar hann jarðaði Casemiro í teignum og renndi boltanum fyrir markið þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma. Sem betur fer fyrir okkur er Almirón einungis 174 cm að hæð því ef hann væri nokkrum sentimetrum lengri hefði hann eflaust breytt stöðunni í 2-2.
Eddie Howe gerði þá sína fjórðu skiptingu en enn var Hollendingurinn okkar ekki búinn að gera neinar breytingar. Leikurinn var í járnum og liðin sínu mikinn baráttuhug og greinilegt að hvorugt liðið var með hugann við sumarfríið.
En þá var líka loksins komið að skiptingunum og Lisandro Martinez, Rasmus Hojlund og Marcus Rashford komu inn á í stað Amad Diallo, Garnacho og Kobbie Mainoo. Verulega gott að sjá heimsmeistarann okkar reima á sig takkaskóna aftur því hans hefur veri sárt saknað.
En það var ekki hann sem átti bestu innkomuna því það var danski framherjinn okkar. Hann fékk boltann eftir góðan undirbúning Bruno Fernandes á hægri vængnum og Hojlund fékk boltann við endann á vítateigsboganum og setti boltann fyrir sig á hægri fótinn og smellti honum í fjærhornið. 3-1.
Daninn var svo nálægt því að fá annað tækifæri þegar hann elti boltann upp vinstri kantinn í átt að vítateignum en Dubravka kom langt út úr markinu og hreinsaði í innkast. Samlandi Hojlund kom þá inn á fyrir Fernandes þegar uppbótartíminn var við það að hefjast.
En þar með var ekki sagan öll. Því Lewis nokkur Hall átti þrumuskot eftir hornspyrnu sem endaði í horninu og Onana kom engum vörnum við. Newcastle eygði því von um að kroppa í stig og augljóst að síðustu mínúturnar yrði taugastrekkjandi svo ekki yrði meira sagt.
Síðasta færið féll þó sem betur fer fyrir okkar menn þegar Rashford hreinsaði hátt í loft meðan gestirnir voru ofarlega á vellinum og Hojlund komst fyrstur á boltann og brunaði upp vinstri kantinn með Rashford með sér. En sending hans var frekar slöpp og boltinn var hreinsaður út í horn. Hornið rann svo út í sandinn og leikurinn flautaður af. 3-2 í hörkuspennandi og góðum leik.
Næsti leikur er jafnframt sá síðasti í deildinni en þá mæta okkar menn á Amex völlinn og leika gegn Brighton.
Zorro says
Flottur leikur hjá okkar mönnum…stöndum saman strákar í blíðu og stríðu…þá vinnum við City og bikar í hús😉
Helgi P says
Loksins kemur flott frammistaða
dr. Gylforce says
Ég er að horfa á Brighton-ManU. Er ekki möguleiki á að Willy, Varane eða Evans geti spilað 45 min í seinni hálfleik og hægt að setja Casemiro á miðjuna til þess að losa okkur við Amrabat??? Þetta er átakanlegt að horfa á – og reyndar liðið í heild!