Nýir leikmenn verða í leikmannahópi Manchester United í fyrsta sinn þegar liðið tekur annað kvöld á móti Fulham í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar 2024/25.
United gekk í vikunni frá kaupum á hollenska miðverðinum Matthijs de Light og marokkóska bakverðinum Noussair Mazraoui frá Bayern München. Á móti yfirgaf Aaron Wan-Bissaka félagið og fór til West Ham.
Það væri stór ákvörðun að láta þótt ekki væri nema annan þeirra í byrjunarliðið. Þörf gæti jafnvel verið á báðum vegna meiðsla. Luke Shaw er frá og þeir Harry Maguire og Victor Lindelöf tæpir. Leny Yoro er frá.
Í Samfélagsskildinum gegn Manchester City um síðustu helgi byrjaði Lisandro Martinez sem vinstri bakvörður, en Johnny Evans og Maguire sem miðverðir. Evans lauk leiknum en Maguire fór út af snemma í seinni hálfleik. Líklegt er að Maguire sé nógu heill til að komast í gegnum úrvalsdeildarleik.
Annar möguleiki væri að setja Facundo Pellistri í hægri bakvörð, sem hann leysti í skildinum með misjöfnum árangri.
Að öðru leyti er kannski ekki von á miklum breytinum. Joshua Zirkzee byrjar varla miðað við að hann spilaði ekkert gegn City. Góð innkoma Alejandro Garnacho gæti skotið honum fram fyrir Amad Diallo. Áhugavert verður að sjá hvort Christian Eriksen verði í hóp en hann er orðaður við sölu. Jadon Sancho er einnig falur. Fjarvera þeirra gæti gefið til kynna að félagaskipti séu í nánd og engin áhætta tekin með meiðsli.
Á blaðamannafundi fyrir leikinn varaði Erik ten Hag við að United myndi ekki sýna sitt besta í fyrstu leikjunum, tíma taki fyrir liðið að ná saman. Það er viðbúið. Hann fær ekki endalausa þolinmæði eftir áttunda sætið í fyrra. Miðað við leikinn gegn City virðist tíminn í sumar hafa verið nýttur til að breyta leikstíl liðsins í áttina að hollenskum reitabolta. Nýju mennirnir tveir eru báðir vel spilandi og ættu því að falla vel inn í það mynstur.
Það á væntanlega að fækka þeim skyndisóknum sem United fær á sig. Ein slík varð United að falli þegar Fulham vann á Old Trafford í vor.
Af Fulham er það helst að frétta að allir leikmenn liðsins eru heilir. Varnartengilliðurinn Joao Palinha fór í sumar til Bayern München, sem reyndi að ná honum í blálokin í fyrrasumar. Félagið hefur fengið Ryan Sessegnon frá Tottenham, Emile Smith Rowe frá Arsenal og Jorge Cuenca frá Villareal.
Leikurinn hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma.
EgillG says
flott að ná 3 stigum, spennandi leikur flott vinna hjá flestum,menn greinilega að spila fyrsta alvöru leik svo aftur flott að ná stigunum. Mazraoui var mjög flottur. GGMU