Stóra stundin rann loksins upp í gærkvöldi þegar enska úrvalsdeildin fór af stað að nýju. Það er alltaf sama tilhlökkunin að sjá nýtt tímabil fara af stað og sjálfsögðu ennþá skemmtilegra þegar allt byrjar vel. Manchester United tók á móti Fulham á frábæru föstudagskvöldi í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar, frábært að eiga opnunarleikinn og setja vonandi tóninn fyrir það sem koma skal! Fyrir leik voru nýju leikmennirnir kynntir, þeir Leny Yoro, Joshua Zirkzee, Noussair Mazraoui og Matthijs de Ligt.
Byrjunarlið Manchester United var þannig skipað að Andre Onana var á sínum stað í markinu. Í hjarta varnarinnar stóðu vaktina þeir Harry Maguire og Lisandro Martinez. Aðeins einn af þeim leikmönnum sem keyptir hafa verið í sumar var í byrjunarliði, það var Noussair Mazraoui sem kom frá Bayern Munchen á dögunum, hann spilaði í hægri-bakverði. Í vinstri-bakverðinum var Diogo Dalot en eftir að byrjunarliðin voru kynnt lá aðeins vafi á því hvernig þeir félagar myndu skipta með sér bakvarðarstöðunum. Því Mazraoui hefur einnig mikla reynslu af því að spila í vinstri-bakverði. Þeir Kobbie Main00 og Casemiro stóðu vaktina fyrir framan vörnina, Amad Diallo og Marcus Rashford á köntunum. Það kom svo í hlut Bruno Fernandes að spila sem fölsk nía og Mason Mount fyrir aftan hann.
Leikurinn byrjaði ekkert sérstaklega vel hjá Manchester United og sóttu Fulham menn meira til að byrja með án þess svo sem að skapa sér mikið. Þeir komust líklega næst því að skora á 13. mínútu þegar hægri-bakvörðurinn Kenny Tete átti skot fyrir utan teig sem Andre Onana þurfti að hafa sig allan við að verja. Fyrsta alvöru færi United manna kom á 29. mínútu en þá átti Bernd Leno, markvörður Fulham, mjög slæma sendingu sem datt fyrir fætur Casemiro. Hann var fljótur að setja Bruno Fernandes í dauðafæri en Leno gerði mjög vel og varði skot Bruno.
Manchester United herti tökin eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og fimm mínútum eftir fyrrnefnt dauðafæri kom það næsta. Líkt og áður þá var það Casemiro sem fann Bruno í teignum með frábærri sendingu en Bernd Leno sá aftur við honum. Markalaust í hálfleik. Fulham kom af krafti inn í seinni hálfleikinn en án þess að skapa sér nokkuð færi. Það kom í hlut Mason Mount að fá fyrsta úrvals færi seinni hálfleiksins en hann átti þá skot af stuttu færi eftir fínan undirbúning frá Marcus Rashford, Leno frábær á milli stanganna hjá Fulham.
Eftir rétt rúman klukkutíma leik ákvað Erik ten Hag að gera breytingar, Alejandro Garnacho og nýi maðurinn Joshua Zirkzee komu þá inn í stað Amad Diallo og Mason Mount. Fulham fékk sín færi líka og það besta kom líklega á 74. mínútu. Þeir sóttu þá hratt upp völlinn eftir að boltinn var hirtur af Garnacho sem virtist fara niður við litla sem enga snertingu. Sókn Fulham endaði með því að fyrrum United maðurinn Andreas Pereira átti sendingu þvert fyrir markið. En þar var Lisandro Martinez sem betur fer fyrstur á boltann og kom í veg fyrir að hann bærist fyrir fætur Adama Traore sem beið á fjærstönginni.
Á 81. mínútu komu næstu skiptingar. Jonny Evans kom inn fyrir Harry Maguire og nýju mennirnir frá Bayern skiptu, Matthijs de Ligt kom inn fyrir Noussair Mazraoui. Við þessa skiptingu færðist Dalot yfir í hægri-bakvörðinn og Martinez fór í vinstri-bakvörðinn. Það voru því þeir Evans og De Ligt sem kláruðu leikinn í hjarta varnarinnar. Strax eftir skiptingarnar átti Bruno frábæra sendingu inn fyrir vörn Fulham þar sem Garnacho tók við honum og keyrði af stað. Hann reyndi svo að finna Marcus Rashford í teignum en Tete tókst á einhvern undraverðan hátt að loka á sendinguna þegar hann virtist vera að missa jafnvægið.
Svo kom augnablikið sem allir voru að bíða eftir. Martinez fann Bruno vinstra megin á vellinum sem gerði vel með því að losa sig frá Tom Cairney og skapaði þar með mikið pláss til að vinna með. Inn á miðjum vellinum fann Bruno, Joshua nokkurn Zirkzee sem færði boltann yfir hægra megin þar sem Casemiro var mættur sem kom boltanum áfram upp kantinn á Garnacho sem setti boltann inn á teiginn og fann þar Zirkzee sem kom boltanum í netið, 1-0 fyrir United! Frábært slútt hjá Zirkzee úr mjög svo þröngu færi. Fyrir þetta hafði lítið til hans sést í leiknum en svona er heldur betur frábært á byrja ferilinn í United treyjunni, sigurmark í fyrsta leik fyrir framan Stretford End. Takk Zirkzee!
United fékk svo tækifæri til að bæta við öðru markinu í uppbótartíma eftir skelfileg mistök Calvin Bassey. Rashford komst þá í stöðuna 1 á 1 gegn Leno í markinu, í stað þess að skjóta sjálfur sendi Rashford boltann til hliðar á Garnacho sem var í úrvals færi en skaut framhjá. Garnacho hefði vissulega átt að gera betur þarna en honum til varnar var sendingin frá Rashford ekki í hæsta gæðaflokki.
Lokatölur Manchester United 1-0 Fulham. Líkt og í fyrsta leik síðasta tímabils þá vinnur United 1-0. Spilamennskan þá gaf hins vegar alls ekki góð fyrirheit þrátt fyrir góð úrslit. En ég leyfi mér að segja að annað sé upp á teningnum núna. Leikurinn í gærkvöldi heillt yfir mjög góður hjá United en ef það er eitthvað sérstakt til að hafa áhyggjur af þá er það færanýtingin. Færin komu í gær en ekki ósvipað og á síðasta tímabili þá voru færin ekki vel nýtt. En við skulum næst horfa í það jákvæða. Frábært mark Zirkzee, frábær innkoma Mazraoui í liðið sem fékk mann til þess að hætta sakna Bissaka. Vörnin stóð vaktina vel og í sjálfu sér ekkert sérstaklega mikið að gera hjá Onana á löngum köflum í leiknum. Kobbie Mainoo hélt uppteknum hætti og Casemiro átti mjög góðan leik svo eitthvað sé nefnt.
Framhaldið. Félagaskiptaglugginn er enn opinn og virðist öll athygli United vera á Manuel Ugarte miðjumanni PSG og hefur sá sem þetta skrifar nokkuð góða tilfinningu fyrir því að hann verði orðinn leikmaður Manchester United áður en glugginn lokar. Þá vakti það einnig athygli í gær að Jadon Sancho var ekki í leikmannahópnum og hlýtur það þá að teljast líklegt að hann sé á förum, hann hefur einmitt helst verið orðaður við PSG.
Næsti leikur Manchester United er laugardaginn eftir viku, í hádeginu þann 24. ágúst, en þá heimsækja þeir Brighton.
Helgi P says
Við verðum að fara klára færin betur því annars verður okkur refsað
Sir Roy Keane says
Mjög ánægður með þennan sigur og nýju mennirnir byrjuðu vel. Casemiro greinilega komin í gott form. Minna bil á milli varnar og miðju en var oft í fyrra.
Væri flott að fá Ugarte á næstu dögum og ánægður með breytingarnar á þjálfarateyminu.
Einar says
Mér fannst einmitt of oft sama helvítis bilið á milli varnar og miðju. Casemiro er bara í miklu betra formi en á síðasta ári og náði að bjarga því. Þvílíkur munur á manninum. Held samt að ETH verði ekki þjálfari United í byrjun næsta árs.